Um daginn lenti ég í samræðum um guð við dóttur mína. Við sátum í bílnum á leiðinni heim frá systur minni þegar hún tók skyndilega upp á því að spyrja mig hvort ég tryði á Guð. Sannleikanum samkvæmt svaraði ég því neitandi, ég hef aldrei fundið þörf fyrir trú eða æðri máttarvöld. Dóttir mín er sex ára gömul og trúði vart sínum eigin eyrum, að faðir hennar gæti verið svo ótrúlega óforskammaður að trúa ekki á guð, það stæði jú í Biblíunni að hann væri til. Við ræddum þetta um stund og það var gaman að sjá, að hún hefur skoðun á þessu og hikar ekki við að rökræða hana af fullri alvöru við foreldri sitt. Að lokum komumst við þó að þeirri niðurstöðu að það væri allt í lagi þó við værum ósammála og báðar skoðanir væru jafn góðar.
Dóttir mín er ekki skírð. Við foreldrar hennar ákváðum á sínum tíma að leyfa henni að stjórna trúmálum sínum alfarið sjálf. Við höfum ekki reynt að hafa áhrif á skoðanir hennar í þeim málum, ekki kennt henni bænir eða farið með hana í sunnudagaskóla, en hún hefur þó fengið eitthvað þess lags af fræðslu frá einhverjum af fjölmörgum ömmum og öfum sínum.
Þegar ég var í námi sat ég kúrsa hjá Nirði P. Njarðvík, sem ég er afar þakklátur fyrir, enda er hann einn stórkostlegasti kennari sem ég hef nokkurn tíma haft. Ekki nóg með hann gerði heiðarlega tilraun til að kenna mér að skrifa sæmilega, heldur fólst í kennslunni mikil naflaskoðun á eigin verkum og sú gagnrýni hefur nýst mér á öðrum sviðum. Eitt af því sem hann lagði ríka áherslu á, þegar hann var að kenna notkun myndmáls, væri áhersla á smáatriði umfram lýsingar almenns eðlis. Hann sagði m.a. að guð væri í smáatriðunum. Vissulega gömul klisja en samt alveg rétt og á ekki bara við um bókmenntir eða í ritlist.
Mér finnst nefnilega oft þessir litlu hlutir verða svo stórir þegar ég gef þeim gaum. Að vakna eldsnemma og vera mættur út í vatn eða á að veiða og hlusta á náttúruna vakna. Finna hvernig lífið fer á stjá og um leið og sólin tekur að verma allt. Eins að vakna á helgardegi, liggja uppi í rúmi og hlusta á dóttur mína syngja á meðan hún borðar morgunmat. Sitja úti á svölum á kvöldin og fram á nótt. Þessar stundir sem eru í raun ekki svo einstakar, en mér finnst eins og allt sé rétt, ef svo mætti að orði komast. Í þessum stundum, þessum smáatriðum finnst mér oft felast guð.
Eina skiptið hins vegar, sem ég hef upplifað eitthvað himneskt, eitthvað sem hefur gjörbreytt mér í einum vettvangi, var að upplifa það þegar dóttir mín opnaði augun í fyrsta skipti. Ég hélt á henni, örfáum mínútum eftir fæðinguna og hún leit á mig þessum stóru augum. Á einu augnabliki fannst mér ég hafa himin höndum tekið. Á þeirri stundu uppgötvaði ég að ég væri ekki lengur þungamiðjan í mínum heimi, heldur hún.
Það sem ég sagði dóttur minni ekki í þessum umræðum okkar um guð er þessi upplifun mín. Að eina tenging mín við æðri máttarvöld, hver svo sem þau kunna að vera, séu í gegnum fæðingu hennar. Að guð minn sé í raun tilvera hennar. Hún á vonandi einhvern tíma eftir að fá að kynnast þessu sjálf.
Flokkur: Bækur | Mánudagur, 31. maí 2010 (breytt kl. 17:16) | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.