Ævintýrin við Mistmoor, 5. kafli - Season Finale

Hópurinn: Barthou (dragonborn fighter), Coral (dwarf warden), Durulia (tiefling rogue), Eloius (elf ranger), Harad Havsum (halfing bard), Olaf Arneson (Human hybrid psion/warlord)

Level: 4

Hetjurnar voru staddar í kjallara klausturs Iouns í leit að upplýsingum um hóp ævintýramanna sem kallaði sig Company of the Wild Stag. Þær höfðu þurft að berjast við kóngulær og önnur skrímsli sem gerðu þeim lífið leitt og leitina erfiða þarna niðri í myrkrinu. Eftir að hafa hvílt sig eftir bardagann við kóngulærnar var haldið enn dýpra ofan í kjallarann. Eftir að hafa gengið nokkur þrep dýpra ofan í jörðina kom hópurinn í nokkuð stóran sal, þar sem var upplýst. Þar var bókasafnsvörður að störfum og ályktuðu hetjurnar, miðað við hve lítið var eftir af húð hans, að hann hefði sinnt því starfi býsna lengi. Það sem var kannski enn óhugnalegra var sú staðreynd, að hann var með 3 hauskúpur, sem hver um sig flaut öðru hvoru inn í salinn, sem var fullur af bókum og bókahillum. Bókavörðurinn leit á hetjurnar og sagði að þangað inn mætti enginn fara. Síðan spurði hann: ,,Á hvers vegum gangið þið?" 

Hetjurnar litu undrandi hver á aðra, en enginn þeirra kunni við að svara. Loks sagði Coral: ,,Ég hef engan tíma fyrir spurningakeppnir núna!" Síðan arkaði hann inn í salinn og tók bókasafnsvörðurinn það frekar óstinnt upp. Réðst hann öskrandi að dverginum sem svaraði strax í sömu mynt sem og hópurinn allur. Ekki tók langan tíma að ráða niðurlögum bókavarðarins. Hetjurnar voru vart farnar að hrósa sigri þegar þær tóku eftir því, að hann virtist líkamast á öðrum stað í bókasafninu. Hófst bardagi á ný og enn réðu hetjurnar niðurlögum hins ódauða bókavarðar. Hið sama endurtók sig en í þetta skipti kallaði bókavörðurinn á hjálp félaga sinna, sem risu upp innan úr bókahillunum. Réðust 10 beinagrindur á hetjurnar sem áttu nú í vök að verjast. Að lokum tókst þeim þó að fella allar beinagrindurnar og bókavörðinn einnig. Þá tóku þær til við að leita í safninu og fundu bók mikla, sem virtist vera dagbók Barthoin the White. Hins vegar var hún læst með bronsklemmum og var lás á þeim, sem var rúnum skreyttur. Ákváðu hetjurnar að það væri ekki þess virði að taka áhættuna á að opna skrudduna þarna niðri, án þess að láta galdramann líta á lásinn áður en hann yrði dýrkaður upp. Þær ákváðu því að snúa aftur upp á yfirborðið.

Hins vegar virtust einhvers konar álög hvíla á bókasafninu, því um leið og Coral, sem hélt á bókinni, steig út úr salnum nötraði kjallarinn allur. Hlupu hetjurnar af stað til að komast upp á yfirborðið. Coral hins vegar taldi að líklega væri hægt að snúa álögunum með því að færa bókina aftur á sinn stað, hann hljóp því aftur niður tröppurnar og um leið hrundi loftið þar niður. Hann var því lokaður inni í salnum með skruddu gamla galdramannsins úr Company of the White Stag. Þetta breytti þó ekki álögunum, eins og hann hafði ályktað, heldur hélt áfram að hrynja úr loftinu fyrir ofan hetjurnar. Þær þurftu að brjóta sér leið í gegnum dyr út úr herberginu sem kóngulærnar höfðu gert að bæli sínu og síðan þurftu þær að hlaupa á harðaspretti út til að komast heil á höldnu út. Litlu mátti muna að steinn félli á Elious, en hann náði að kasta sér undan og komast út í tæka tíð.

Þegar hetjurnar komu út úr klaustrinu sáu þær, að herinn frá Craig's Crossing var að nálgast Mistmoor. Riðu hetjurnar til móts við hann og hittu þar fyrir Duruliu og Burgmeister Olaf. Var sest á rökstóla og árásin undirbúin. Mikilvægt var talið að ná sem flestum í hernum, sem samanstóð af mönnum, kentárum, satírum og álfum, inn fyrir borgarhliðin, svo djöflarnir gætu ekki tryggt að bardaginn færi fram á litlu svæði í kringum hliðin. Slíkt myndi henta þeim enda eflast fámennari en her bandamanna Mistmoor. Stungu hetjurnar upp á því, að fari yrði að næturlagi og myndu nokkrar hetjur klifra upp á vegginn vestan megin við þorpið og opna hliðin þar, um leið og hluti af hernum myndi skapa nægilega mikla ógn hinum megin í þorpinu. Var sú ráðagerð samþykkt. 

Fóru hetjurnar um miðja nótt og klifruðu upp kaðal til að komast upp á virkisvegginn. Síðan skiptu þær liði, Durulia ætlaði að læðast að hliðshúsinu og opna hliðið á meðan hinar hetjurnar réðust að vörðunum sem þar voru. Þetta gekk eftir að öllu leyti, nema að yfirvörðurinn, stór og mikill djöfull, ákvað að láta undirmönnum sínum eftir að fást við þessi litlu ógn sem í nokkrum dauðlegum verum fólst. Durulia lét þetta þó ekki á sig fá, heldur fór engu að síður að hliðshúsinu og byrjaði að dýrka upp lásinn. Yfirvörðurinn tók eftir henni og dró stórt og mikið sverð úr slíðrum, með einu orði lét hann það loga af eldi. Hann hjó til Duruliu, sem vék sér fimlega undan högginu. Þegar yfirvörðurinn sá hverjar tegundar Durulia var hvessti hann augun og sagði eitthvað á tungumáli sem Durulia skyldi ekki. Hún svaraði engu að síður: ,,Já, mamma þín var líka ljót!"

Á meðan þessu stóð börðust hinar hetjurnar við hina verðina tvo. Þeim tókst að fella annan þeirra en högg frá þeim voru þung og virtust sárin brenna af einhverri djöfulegri heift. Þegar þeim hafði tekist að særa hinn vörðinn alvarlega, hörfaði hann en yfirvörðurinn réðst þá að þeim. Hann felldi Olaf og Barthou með einu höggi þannig að Elious stóð einn eftir ásamt tveimur fylgdarmönnum. Durulia sá að nú stefndi til vandræða, þannig hún dró rýting sinn úr slíðrum, rak hann á kaf í vörðinn sem hafði hörfað og felldi hann. Því næst hljóp hún aftan að yfirverðinum, tók um höku hans og skar hann á háls. Um leið skaut Elious tveimur örvum í brjóst hans og var það nóg til að fella yfirvörðinn.

Hetjurnar opnuðu hliðið og var næsta skref í áætluninni að opna brúarhliðið. Hélt hópurinn ásamt nokkrum félögum í þá átt en mættu þá fjölmörgum djöflum á miðju þorpstorginu. Upphófst nú mikil orrusta og var tvísýnt um útkomu. Í för með djöflunum var kapteinn úr helvíti sem var erfiður viðfangs og virtist hann njóta þess að valda hetjunum sem mestum sársauka. Hetjunum tókst að lokum að snúa orrustunni sér í hag. Heyra mátti mikinn orrustugný hvaðan æva í kringum þær. Loks þegar þær sáu að allt var að snúast á sveif með þeim, komu þær auga á hvar succubus, sú hin sama og hafði verið að yfirheyra Burgmeister Olaf þegar hetjurnar björguðu honum, kom gangandi og með henni djöfull sem var allur klæddur keðjum hvers konar. Þegar hún sá hetjurnar og sérstaklega Olaf, varð hún enn reiðari á svip. ,,Þið aftur!" sagði hún örg. Hún skipaði djöflinum að ráðast gegn hetjunum á meðan hún ætlaði sér að komast undan. Durulia kom auga á að hún hélt á einhverju og sagði Elious að fylgja sér svo þau gætu komið í veg fyrir flótta hennar.

Olaf og Barthou réðust gegn keðjudjöflinum og upphófst mikil orrusta. Djöfullinn var góður bardagamaður og voru Olaf og Barthou í stökustu vandræðum. Durulia og Elious sátu fyrir Succubus-djöfulkvendinu og réðust gegn henni um leið og færi gafst til. Hún reyndi að svara fyrir sig en steintaflan, sem hún hélt á, virtist hamla bardagahæfni hennar. Durulia kastaði kaststjörnu sinni í hana svo hún stakkst á kaf í læri djöfulsins, Elious skaut örvum af miklu afli í hana og tókst þeim að hægja mjög á flótta djöfulkvendisins. Þeim tókst að króa hana af við húsvegg og létu örvum og höggum rigna yfir hana, sem gat litla vörn sér veitt. Þegar hún var fallin, tók Durulia steintöfluna upp og sá, að á hana höfði verið ristar ævafornar og illúðlega híróglífur. Taflan virtist auk þess öll glóa af hreinni illsku.

Þau hlupu síðan til og aðstoðuðu þá Olaf og Barthou að fella keðjudjöfulinn. Eftir að þessir leiðtogar djöflahópsins voru fallnir var eftirleikurinn auðveldur. Ísdjöfullinn, sem hafði reynst þeim svo erfiður við björgun Olafs og sá sami og hafði vegið Albert, hafði verið drepinn við vesturhliðið af Tomaszi. Þegar hús Burgmeisters Olafs kom í ljós að margir þorpsbúar höfðu verið vegnir en þeir sem eftir lifðu voru frelsinu afar fegnir. Mestu máli skipti þó, að börnin höfðu verið að mestu látin í friði. Þegar dagur reis var þorpið illa farið á að líta, lík lágu á götum úti og á nokkrum stöðum loguðu eldar. Það beið því þorpsbúa mikið uppbyggingarstarf.

Hetjurnar vissu reyndar, að þó djöflarnir væru farnir var enn sú ógn sem fólst í Mind flayernum og drýslum hans. Eins voru þær vissar um, á meðan kórónan væri ófundin myndu djöflarnir líklega snúa aftur og þá með jafnvel enn öflugri her. Orrustunni var lokið en stríðið var aðeins rétt að byrja.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Spunaspil

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 0786932546.01.LZZZZZZZ
  • SkullcapMountain
  • SkullcapMountain
  • ...llustration
  • ...lay_1620698

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband