Dragons of Flame: Svikin! 3. hluti

display_1620698.jpgHetjurnar lögðu af stað í dagrenningu og þutu áfram á seiðmögnuðum klárum sínum. Landslagið þaut grænt, gult, appelsínugult og rautt hjá. Haustið var að taka yfir, því morguninn var kaldur en hlýnaði hratt um leið og sólin tók að skína. Álfarnir í Qaulinesti sáu þeim fyrir vistum og hvers kyns hefðbundnum búnaði sem hópurinn þurfti. Gilthanas leiddi hópinn af stað í gegnum skóginn án mikilla vandkvæða. Slóðin lá meðfram læk sem skoppar milli steina. Eftir því sem sunnar dró varð leiðin sífellt brattari og lækurinn breyttist í hvítfryssandi á. Sígræn tré mörkuðu leiðina þar.

Slóðin beygði síðan í vestur og lá inn í stórt rjóður, um 50 metra í þvermál. Grasið þar var orðið að leðju, eftir skelfilegan bardaga, og lágu lík af mönnum og hádrýslum eins og hráviði um allt rjóðrið. Öllum hetjunum fannst aðstæður heldur grunsamlegar og fóru því varlega áfram. Adran var sendur á undan og sá hann að allir mennirnir voru merktir varðliðasveitum Haven. Sá hann að einn þeirra virtist enn á lífi. Adran aðstoðaði hann á fætur. Maðurinn sagðist heita Eben Shatterstone og hafa komið ásamt félögum sínum þessa leið í von um að geta bjargað fólkinu í Pax Tharkas. Var ákveðið að hann skyldi slást í för með hópnum. Áður en hetjurnar náðu að leggja af stað réðust 8 drekamenn á þær. Hetjurnar bjuggust til varna og voru drekamennirnir þeim ekki mikil fyrirstaða. 

Áfram hélt hópurinn, upp fjallveginn í átt að virkinu. Sólin var að hverfa í vestrið, hið illvinnanlega vígi Pax Tharkas nálgaðist óðum. Turnar þess tveir teygðu sig upp að himnafestingunni, rétt eins og fjallstindarnir í kring. Milli turnanna var virkisveggur sem kom í veg fyrir alla umferð um skarðið. Eini inngangurinn sem var sýnilegur, var 10 metra hátt hlið.

Skyndilega opnaðist hliðið. Jafnvel áður en það var að fullu opið byrjuðu hermenn að streyma út. Ryk þyrlaðist upp og kom í veg fyrir að hægt væri að slá einhverri tölu á fjölda hermannanna, en þeeir hlutu að vera einhver þúsund á leið norður á bóginn. Í átt að Qualinesti.

„Makt háherra drekahersins,“ sagði Gilthanas, grimmur á svip, „þeir halda í átt til Qualinost. Við höfum ekki mikinn tíma.“ Álfurinn benti að þröngum dal sem lá austamegin við Pax Tharkas. „Þarna liggur Sla-Mori. Við þurfum að fara varlega, leiðin getur verið hættuleg.“

Hópurinn hljóp yfir í dalverpið og sá þá hvar nokkur tröll gættu inngangsins í Sla-Mori. Brugðu hetjurnar á það ráð að lokka tröllin brott en læðast síðan að innganginum. Adran gerði fyrstu tilraun til að fá tröllin til að elta sig, en honum tókst aðeins að fá eitt þeirra til þess. Hið sama reyndi Dalía og enn fór það á sömu leið. Að lokum steig Thol fram fyrir skjöldu og tókst að fá seinustu tvö tröllin til að elta sig. Restin af hópnum hljóp þá sem fætur toguðu að leyniinnganginum og notaði Gilthanas sérsmíðaðan lykil til að opna þær. Adran, Dalía og Thol komu skömmu síðar en síðan lokaði hópurinn dyrunum. 

Fyrir innan var leið hinn látnu, Sla-Mori. Vestri tók að sér að leiða hópinn enda vanur því að vera neðanjarðar. Er hópurinn kom að gatnamótum, hnussaði hann út í loftið og taldi að best væri að halda til vinstri. Eftir skamma stund kom hópurinn inn í mikinn sal, sem var að mestu í rúst. Fótatak þeirra bergmálaði undarlega í salnum. Margar súlar risu upp að þakinu, aðrar höfðu hrunið og lágu á gólfinu, eins og föllnu velliviðartrén í Solace. Við annan enda var stórt hásæti úr graníti, stórar styttur sem sýndu varðmenn við hvora hlið. Hvor varðmaður var með breiðsverð úr graníti. Á hásætinu sat lík, sem virtist afar lítið við hlið styttanna. Augntóttirnar tómar og tennurnar berar á fornri hauskúpunni. Þvældur en eitt sinn tignarlegur kufl huldi líkamann, sverð í slíðri í kjöltu líksins.

Sitt sýndist hverjum um hvort taka ætti sverðið, en Lorieth lagði blátt bann við því að nokkuð væri hruflað við því. Sagði hann að augljóst væri að þetta væri tignarmenni og hann vildi ekki að nokkuð truflaði eilífan svefn þess. Hópurinn hélt því áfram inn salinn og gang inn af honum. Komu hetjurnar þá inn í annan sal. Í því herbergi, líkt og í hinu, var loftið fúlt og staðið. Á gólfinu voru hrundar súlur, rotinn viður og annað drasl. Gólfið var þó rakt og sum staðar sleipt. Skyndilega braust fram risastór snigill og réðst að hetjunum. Eben sá vænstan kostinn að hörfa aftur inn í salinn þar sem líkið var. Hinar hetjurnar réðust djarflega gegn skrýmslinu og réðu niðurlögum þess fljótt og örugglega. Kom þá í ljós að ekki var hægt að halda lengra þá leiðina. 

Sneru hetjurnar aftur og komu að krossgötunum. Taldi Vestri líklegt að leiðin til vinstri, frá þeim séð, væri betri. Héldu hetjurnar þá leið. Ekki leið á löngu þar til Vestri kom auga á leynidyr, felldar inn í bergvegginn. Hann skoðaði vandlega í kringum sig og sá þá lítinn hnapp. Við það snerust dyrnar og hann stóð einn gegn 3 ufsagrýlum. Var hann fljótur að ýta á hnappinn aftur, enn snerist veggurinn og flutti hann og eina grýluna aftur til hópsins. Umkringdu hetjurnar ufsagrýluna, sem sá þann kostinn vænstan að umbreyta sér í stein. Fóru hetjurnar þá allar inn um hringdyrnar og höfðu ufsagrýlurnar þar einnig umbreytt sér. Héldu hetjurnar áfram inn annan ganginn af tveimur og leiddi Brash hópinn. Allt í einu var sem gólfið hyrfi undan fótum hans og hvarf hann ofan í hyldýpi. Sem betur fer féll hann ekki langt, en þó olli þetta hetjunum nægum vanda, að losa hann þaðan. Hetjurnar héldu áfram eftir þröngum göngunum og komu loks aftur í herbergið með ufsagrýlunum tveimur, sem réðust samstundis gegn þeim. Ekki tók langan tíma þar til þær voru aftar orðnar að steini og hetjurnar komust í gegnum hringhurðina. 

Var ákveðið að halda áfram eftir þeim gangi. Sá hluti ganganna endaði í litlum helli. Ekkert virtist benda til þess að nokkur lifandi vera hefði farið þar um svo áratugum skipti, en þó var eitthvað sem fær vatnið til að renna milli skinns og hörunds hetjanna. Dalía tók því fram medalíuna sína og ákallaði kraft Mishakal. Þannig tókst henni að draga fram draug sem þarna var, svartur og ljótur, en um leið og draugurinn sá Dalíu hafði hann sig á brott. 

Þá var bara einn möguleiki eftir á krossgötunum. Á leiðinni þangað var leiðsögn Vestra rædd og voru ekki allir á eitt sáttir. Sagði Dalía meðal annars:

,,Þetta er í síðasta skipti sem ég treysti nefinu á þér!"

Síðasti gangamuninn leiddi hópinn inn á langan, súluskreyttan ganga. Á milli allra súla voru grafir dverga, manna og álfa. Eitthvað leist þeim illa á blikuna og um leið og hetjurnar fóru inn á ganginn tóku uppvakningar að skríða úr gröfunum. 

,,Hlaupið," hrópaði Pieter og allar sem ein tóku hetjurnar til fótanna. Adran og Gilthanas komu fyrsti að dyrum við hinn enda ganganna. Þeir spörkuðu þeim upp. Hver af annari komu hetjurnar hlaupandi með uppvakningager á hælunum. Vestri og Brash röktu lestina, enda ekki gerðir fyrir langhlaup heldur styttri spretti, og þurftu að berja uppvakninga af sér. Gilthans og Adran skelltu í lás um leið og allir voru komnir inn.

Undarlega hljótt bergmál einkenndi salinn sem hetjurnar höfðu fundið. Við hvert skref steig upp rykský, augljóslega hafði enginn farið þar um í langa tíð. Erfitt var að átt sig á stærð herbergisins. Granít súlur stóðu í röðum beggja megin í herberginu en þó virtust þær hafa verið vandlega smíðaðar. Sú staðreynd að þær stóðu af sér hamfarirnar sýndi að smiðir þeirra voru hagleiksmenn. Hver súla var mótuð í líkneski hetju úr fornsögum og þekktu bæði Lorieth og Thol þær margar hverjar. Ekki virtist í fyrsti neinar leiðir úr herberginu en við vandlega athugun fundust tvær leynidyr. Vestri sagði að hópurinn ætti að fara í þær vinstra megin og því var ákveðið að fara hægra megin. Þar var gangur og aðrar leynidyr sem opnuðu leið fyrir hetjurnar inn í virkið. 

Langur, rykugur gangur leiddi hetjurnar að bronsdyrum. Þegar þær voru opnaðar sáu hetjurnar inn í kringlótt herbergi. Á gólfinu var þykkt lag af ryki sem virtist ekki hafa verið hreyft lengi. Fyrir miðju þess var risastór keðja, sem liggur upp í myrkrið fyrir ofan. Vestri og Brash sáu að þetta var líklega hluti af því spilverki sem opnaði og lokaði hliðunum. Þar fundust enn aðrar leynidyr en þar fyrir innan var sviptinorn, ill og ljót. Var dyrunum því snarlega lokað aftur og ákvað hópurinn heldur að halda áfram í gegnum herbergið og inn annan gang.

Loks komust hetjurnar inn í virkið. Leiðin sem þær völdu kom upp í kjallara þess, þar sem miklar vistir voru geymdar. Þar voru einar dyr og heyrðist þar í gegn grófar raddir segja hátt:

,,Þig á að færa fram fyrir háherrann. Hver ert þú að neita hans hátign?"

Dalía, réttsýn og hugdjörf, sparkaði upp dyrunum og sá þá hvar 8 drekamenn drógu Laurana, dóttur Solostarans, í átt að öðrum dyrum. Hún hljóp fram ásamt hinum hetjunum til bjargar prinsessunni. 

Þá gerðist nokkuð sem hetjurnar áttu ekki von á. Eben Shatterstone braust fram úr hópi þeirra og hrópaði:

,,Innrás! Til varnar, til varnar!"

Hann hljóp í gegnum hóp drekamannanna og inn um dyrnar sem þeir höfðu ætlað að draga Laurana. Upphófst nú mikil orrusta. Hetjurnar sáu að fleiri drekamenn voru á göngunum og þurftu að verjast árásum þeirra. Lorieth, Dalía og Adran gerðu sitt besta til að stöðva svikarann á meðan hinar hetjurnar réðust gegn drekamönnunum. Eben reyndist hins vegar klókur bardagamaður og þrátt fyrir að hetjunum tækist að særa hann illa, þá komst hann undan. Hann hljóp að öðrum dyrum þar á gangi og stökk inn um þær. Notaði síðan sverð sitt sem slagbrand. Dalía hljóp að dyrunum og hvæsti í gegnum lítið hurðarop:

,,Eins gott fyrir þig að flýja. Næst næ ég þér!"

Er hópurinn hafði fellt alla drekamennina sem þarna voru, urðu miklir fagnaðarfundir með þeim Gilthanas og Laurana. Hetjurnar vissu hins vegar, úr því Eben komst undan, að nú yrði varðliðum í virkinu gert viðvart og því var tíminn naumur.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Spunaspil

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 0786932546.01.LZZZZZZZ
  • SkullcapMountain
  • SkullcapMountain
  • ...llustration
  • ...lay_1620698

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband