Dragons of Hope: 1. hluti, Vandræði á vandræði ofan

Flóttamennirnir komu sér fyrir í dalverpinu og skiptist flokkurinn í fimm misstóra hópa. Virtist fara fyrir hverjum leiðtogi og ræddu þeir sín á milli þar um kvöldið hvað næst bæri að taka til bragðs. Var ákveðið að bíða dags en sýndist hetjunum að hópurinn væri mjög misskiptur og því ólíkar skoðanir. Fóru hetjurnar að ræða við fólkið í hópnum og aðstoða þá sem hjálp þurftu. Dalía kom þá auga á seinna um kvöldið að Elistan lét illa í svefni. Gekk hún að honum og vakti.

„Mig dreymdi að Verminaard hefði komið hér og börðumst við í drauminum. Hann er of sterkur, hann mun drepa okkur öll," sagði hann niðurlútur. Dalía sagði honum frá guðunum gömlu og bauð honum að skoða diskana.

Elistan virtist nokkuð brugðið. „Ég er ekki verðugur þess að lesa af diskunum,“ svaraði hann sorgbitinn. „Ég hef brotið gegn guðum og mönnum. Tími minn með háleitendunum var kjánalega varið, þar sem ég sannfærði aðra sem og sjálfan mig um að nýir guðir kæmu í stað þeirra gömlu. Ég trúði því ekki guðirnir myndu snúa aftur eða við myndum finna þá. Ég er hræddur um að ég er ekki verðugur þess munaðar að hafa trú.“ Dalía brást hin reiðasta við og hundskammaði Elistan. Eftir nokkra stund tóks henni að fá Elistan til að fræðast um guðina og sérstaklega um þann sem ber nafnið Paladine.

Morguninn eftir var sest á rökstóla. Leiðtogarnir ræddu um næstu skref og sýndist sitt hverjum. Sumir vildu snúa við, aðrir skipta hópnum upp, enn aðrir flýja lengra inn í fjöllin og jafnvel leita ásjár hjá dvergunum í Thorbardin. Þar steig fram leiðtogi þess hóps sem var hvað best vopnum og verjum búinn, Eben Shatterstone, og kom það hetjunum algjörlega í opna skjöldu. Þær báru á hann þungar sakir en án sönnunargagna vildi ráðið ekki heyra á nokkuð slíkt minnst. Eftir nokkurt þref var ákveðið að hópurinn skildi halda áfram. Sömdu hetjurnar við Briar, leiðtoga sléttufólksins, um að hans fólk myndi sinna hlutverki útvarða og finna góða leið.

Hetjurnar ákváðu hins vegar að skipta liði, skildi stærri hluti hópsins snúa aftur til Pax Tharkas í leit að vistum en Pieter, Thol, Gilthanas og Laurana myndi halda áfram með flóttafólkinu og vera þeim innanhandar. Kvöddust hetjurnar í von um að hittast fljótlega aftur.

Dalía leiddi hópinn aftur að Pax Tharkas, Vestri nýtti krafta sína til að flýta för þeirra. Þegar skammt var eftir að virkinu, hittu hetjurnar fyrir varðsveit drekamanna og hádrýsla. Sátu þær fyrir varðsveitinni og áttu ekki í vandræðum með að ráða niðurlögum hennar. Á sama tíma og orrustan geysaði flaug stór dreki yfir bardagann. Hetjurnar litu hver á aðra, vitandi að drekinn stefndi beint að flóttafólkinu. Þegar hetjunum hafði tekist að sigrast á varðsveitinni var rætt í skamma stund hvort snúa ætti við, en ákveðið að halda sig við upphaflega áætlunina, því voru allar brynjru hirtar sem og vopn af hinum föllnum og haldið áfram niður að virkinu. Tekið var að snjóa og blása hvössum norðanvindi og skyggni lítið. Það yrði þeim ekki erfitt að komast óséðar að virkinu.

Flóttamennirnir héldu áfram suður eftir fornum, en vel byggðum slóða, augljóslega dvergasmíði, í gegnum dal einn, slóðinn var enn sýnilegur þrátt fyrir að tekið væri að snjóa. Gilthanas og Thol fóru meðal þeirra fremstu en Laurana og Pieter hjálpuðu þeim aftar sem áttu erfitt með gang eða voru slasaðir. Vestanmegin í dalnum, nokkrum tugum metra frá veginum, reis fjallsgarðurinn upp með snæviklædda tinda sína. Austanmegin var dalurinn víðari, þar uxu tré sem smátt og smátt voru að hverfa undir ábreiðu vetrarins. Þar grillti í skarð sem hægt yrði að fara, en annars lá vegurinn áfram í suður og loks suðaustur.

Eftir því sem dvergaslóðinn leiddi hópinn sunnar, í gegnum þröngari hluta dalsins, komu í ljós gömul minnismerki og vegsteinar. Á marga þeirra höfðu verið rístar rúnir. Vegsteinarnir voru af mismunandi stærðum, sumir aðeins um hálfur metri en aðrir náðu allt að 4 metra hæð.
Rúnirnar voru gömul dvergatákn, ristar þarna til verndar þeim sem fara þennan slóða. Í þeim var kallað til blessunar Astarins og Reorx og lögð á alla þá sem ferðast veg Kith-Kanans. Allt það seiðmagn sem þær eitt sinn bjuggu yfir var löngu horfið.

Sunnar klofnaði leiðin. Slóðinn lá áfram suðaustur en skarð var sýnilegt í áður ókleifum fjallsgarðinum suðvestur af slóðanum. Skyndilega heyrðist þungur vængasláttur en sem betur fer var snjókoman þétt. Flóttafólkið hélt niðri í sér andanum á meðan drekinn flaug yfir og enginn þorði að gefa frá sér nokkurt hljóð. Sem betur fer flaug hann yfir og virtist ekki hafa séð flóttafólkið. Briar, Eben, Locar og Elistan ákváðu ásamt Pieter og Gilthanas að fara frekar skarðið. Voru karlmenn hvattir til að halda á börnum og þeir sem væru illa slasaðir fengu einnig hjálp. Ferðin var þó ekki auðveld.

Við Pax Tharkas fór Adran fyrir hópnum er hetjurnar læddust inn að virkinu. Þær sáu að drekamenn voru í óða önn að brjótast í gegnum hliðið, sem hafði hrunið. Þær smugu framhjá varðmönnum og komust inn í höllina. Þar var ætlun þeirra að finna vistir og vissu þær að þær voru geymdar í kjallaranum. Því skutust þær í átt að stiganum niður. Þar voru hins vegar nokkrir hádrýslar og kölluðu strax á yfirmann sinn. Upphófst nú bardagi og var hart barist, því leiðtogi hádrýslanna var harður í horn að taka. Hann barði fast frá sér og voru hetjurnar í nokkrum vandræðum með hann. Þær voru því orðnar sveittar og þreyttar þegar þeim tókst loks að drepa hann.

Áfram héldu hetjurnar þegar þær höfðu kastað mæðinni. Í kjallaranum varð Adran var við að einhver dimmraddaður var að skamma hermenn hinum megin við fyrstu dyrnar í kjallaranum. Hann kannaðist við röddina og lét hina í hópnum vita. Hetjurnar ræddu stuttlega saman í lágum hljóðum en ákváðu að láta til skarar skríða. Komu þær sér vel fyrir við dyrnar og um leið og þær opnuðust réðust þær inn fyrir. Þar var Verminaard ásamt nokkrum kapteinum í drekamannaliðinu. Í fyrstu virtist hann undrandi en síðan varð hann mjög reiður yfir þessari hugdjörfu innrás.

Upphófst mikill bardagi. Verminaard kallaði fram þétt myrkur yfir hetjunum, myrkur sem virtist vefjast um þær og binda. Sem betur fer tókst sumum þeirra að sleppa og réðust Vestri og Brash á prestinn. Tókst þeim að særa hann lítillega. Börðust hetjurnar á hæl og hnakka og tókst að fella nokkra af kapteinum drekamannaliðsins en þegar Vestri var laminn niður sáu þær að við ofurlið var að etja. Hetjurnar hlupu því út, Brash tók Vestra upp og um leið og þeir voru sloppnir út um dyrnar var þeim lokað og læst. Síðan var olíutunna sótt og kveikt í herberginu. Hetjurnar hlupu á meðan í skjól í herberginu þar sem Flamestrike hafði áður notað.

Þar var rifist og rætt um næstu skref. Að lokum var ákveðið að fara yfir í hinn turninn og reyna finna vistir þar. Vestri fór fyrir hópnum út í öskrandi snjóstorminn og fann dyr að þeim turni. Hetjurnar gengu þar inn í sal sem eitt sinn hafði verið glæsilegur en var nú í niðurníslu. Þar inni hafði hins vegar æðsti prestur drekamannanna tekið sér og drekanum sínum bæli. Hófst nú enn önnur orrusta. Tókst hetjunum að fella æðsta prestinn en voru þá orðnar mjög sárar og illa haldnar. Drekinn var þeim skeinuhættur en tókst Brash að lokka hann út í óveðrið, og virtist þá auðveldara að eiga við hann. Var hann að lokum felldur en voru báðir Vestri og Brash án meðvitundar og illa særðir eftir bardagann.

Adran varð þá var við að varðsveit var á leiðinni. Var Lorieth fengið galdraseyði sem umbreytti útliti hans og tók hann útlit æðsta prestsins. Er dyrnar opnuðustu voru hetjurnar rétt komnar í skjól. Þar fór stór varðsveit hádrýsla og krafði Lorieth svara um hvað hefði gengið á en Lorieth tókst að blekkja þá. Vörpuðu hetjurnar öndu léttar, því þær vissu sem var að líklega hefðu þær fæstar lifað af einn bardaga til viðbótar.

Ákváðu hetjurnar að setja drekann upp á seiðmagnaðan vagn Lorieths og reyna að berjast í gegnum storminn aftur að flóttafólkinu. Um kvöldið var áð og útbjó Vestri sérstaklega um þau, en allt kom fyrir ekki, nóttin var erfið þarna í fjöllunum og sváfu sumar hetjurnar mjög illa. 

Það var hins vegar komið í fjöll umkringdan dal, hver tindur með jökulhettu. Norðanmegin voru hin víðfrægu Rauðsteinabjörg, en sandsteinninn var ekki sýnilegur fyrir snjófjúki. Handan þeirra fjalla stóð skógur Qualinesti. Degi var tekið að halla og ákvað flóttafólkið að slá upp búðum þar í dalnum. Einmana tindur, hugsanlega eldfjall, rís upp í miðjum dalnum, eins og tré á miðju engi. Niðri í dalnum var skjöl fyrir köldum vindinum, aspir og furur uxu villtar og vatnið í lækjunum hafði enn ekki frosið. Því var þetta tilvalinn staður.

Gilthanas og Thol ákváðu að kanna leiðina áfram. Þar rákust þeir á nokkra dverga og fengu þá til að hjálpa þeim að finna leið niður Rauðsteinabjörg, eins fengu þeir ábendingu um dal sem var erfitt að komast í en gæti skýlt flóttafólkinu í nokkra daga. Einnig sagði Stenkast þeim frá Skullcap keep og að þar gæti leynst lykill að Thorbardin, sem lokað var og læst eins og það hafði verið síðastliðinn 350 ár. Pieter var á meðan hjá hópnum og hjálpaði Locar að sinna þeim sjúku. Um nóttina dóu þó nokkrir úr hópi flóttamanna og voru þeir grafnir þar um morguninn. Eftir stuttan fund ráðsins var ákveðið að halda áfram, fyrst var farið að Rauðsteinabjörgum en þar sem sú leið var ekki fær öllum var haldið áfram.

Rétt fyrir hádegi lenti hnullungur á veginum meðal flóttamannanna, sem margir hverjir áttu fótum sínum fjör að launa. 30 metrum fyrir framan hópinn steig steinrisi upp á slóðann, klæddur þykkum feldum og með þunga kylfu.

„Stans,“ sagði hann djúpri röddu. „Þið ekki fara hér nema borga toll.“

Thol og hinir voru ekki á því að borga toll og eftir stutt orðaskipti sló í brýnu með þeim. Var hart barist en höfðu hetjurnar að lokum sigur. Því gat flóttafólkið haldið áfram.

Á meðan reyndu Dalía og félagar að finna slóðann eftir flóttafólkið. Þar sem snjóað hafði mikið um nóttina var það erfitt en Adran var vanur og tókst að finna hana að lokum. Vestri var sendur áfram eftir slóðanum á meðan hinar hetjurnar héldu upp í skarðið á eftir flóttafólkinu.

Áfram var haldið í átt að dalnum sem Stenkast, leiðtogi dvergana, hafði sagt þeim frá. Þegar flóttafólkið fetaði áfram snæviklæddan slóða í þröngu skarði, kaldur vindur blés miskunnarlaust á hópinn, tók slóðinn loks að breikka. Skammt frá var vera, klædd grænum kufli og með hatt sem rétt hélst á höfði hans í vindinum. Hann var í óða önn að búa til snjóhús, við hlið hússins stóð hrúga af snjóboltum.

Þegar hetjurnar komu nær sáu þær að þarna var Fizban hinn frábæri, undarlegi gamli maðurinn úr vagnalestinni, kominn. Hann virtist í meira en stakk búinn að verja skarðið gegn hópi af 7 ára börnum.

„Fljót nú, komið hópnum inn í virkið,“ kallaði hann til ykkar, rétt nógu hátt svo skaflarnir í hlíðunum fyrir ofan runnu ekki af stað. Hann beygði sig niður eftir snjóbolta. „Fljót nú, ég skal sýna þeim í tvo heimana!“ Fyrir aftan flóttafólkið sást hvar stór herflokkur drekamanna birtist neðst í skarðinu.
Thol horfði vantrúaður á gamla manninn og var ekki á því að allir kæmust fyrir í þessu litla snjóhúsi, en þegar fólkið tók að fara inn í snjóhúsið, hvert á fætur öðru, sífellt fleiri og fleiri starði hann gáttaður á undrin. Síðastur fór hann inn og sá hvar Fizban hljóp á móti drekamönnunum. Síðasta sem hann heyrði var:„Fireball!“

Þá féll mikið snjóflóð yfir drekamennina og sópaði þeim niður úr skarðinu. Sýndist þeim sem komu fyrst út úr snjóhúsinu að það yrði ekki fært í bráð.

Á meðan þessu stóð reyndu Dalía og félagar að elta flóttafólkið en gekk hægt, þar sem veðrið var ekki gott og erfitt að komast yfir, auk þess sem nokkrir í hópnum voru mjög þreyttir og höfðu sofið illa.   

Rósemdartilfinning helltist yfir flóttafólið þegar það komið niður dalinn sem Stenkast hafði talað um. Vindurinn beit ekki jafn fast, snjórinn var ekki jafn djúpur, greinileg voru spor eftir hirti og önnur dýr sem hægt var að veiða sér til matar. Vatn fyrir miðju dalsins var ekki ísilagt og mátti sjá urriða og bleikju vaka reglulega þar. Skammt frá var stórt og fallegt rjóður. Flóttafólkið hljóp til og útbjó búðir og ekki leið á löngu þar til logaði eldur og fór jafnvel að heyrast hlátur af og til.

Um kvöldið hittu Vestri og Lorieth fyrir Stenkast og dvergaflokk hans. Sagði hann þeim frá heimsókn Gilthanasar og Thols, og eins frá snjóflóðinu. Benti hann þeim í rétta átt. Ræddu þeir Vestri lengi saman og kom á daginn að Stenkast hafði verið í bardaga með afa Vestra og hafði hann fengið Stenkast exi sína með þeim skilaboðum að koma myndi sá dagur að hann myndi hitta Rimgold sem þyrfti á henni að halda. Var þetta falleg og öflug exi, rúnum rist og merkt sérstaklega Rimgold ættinni. Dvaldi hópurinn þar um nóttina.

Næturfrostið virtist langt undan í hlýjunni frá eldinum fyrir miðju búða flóttafólksins. Þá nótt þurfti flóttafólkið ekki óttast neitt, söngur, dans og gleði fyllti rjóðrið. Elistan stóð upp og benti fólki á að koma nær, sem það og gerði. „Svo börn okkar muni, þá skulum við segja sögu okkar, förum með kviðu fólks okkar. Förum oft með hana.“

Heyrið, vinir, vitkann
hefja vísusöng,
um drekalensur og hetjudáðir.
 
Er jörð var ung og yndishrein,
handan orð‘ og tíma,
afturelding skein á heiminn,
og mátt‘gir mánar þrír
skin‘á mar og land,
réðu vígavargar á Krynn.
 
Þegar dimmnótt dreka,
drauma okkar kæfði,
vaknaði von í fjarlægu landi.
Birtu blakks í mána
reið fram bjartur, réttsýnn,
með goðin góð á sínu bandi.
 
Makt gegn myrkri dreka,
skópu miklar lensur,
sláttinn vængja slæfð‘ um sinn.
Sálum þeirra svörtum
var kastað í sortadjúpið,
svo ljósið mætti lýs‘ á Krynn.
 
Hið mikla, góða goð,
gekk við hlið Huma,
veitti styrk og rétta sýn.
Í birtu þriggja mána
reið mót drekavætti,
und merkjum mikla Paladíns.
 
Drekadrottning illa
aftur dregin niður
í ríki dauð‘ og dróma.
Þar hún bitur bölvar,
fjötrum bundin sterkum,
um löndin gleðiljóðin óma.
 
Heyrið, vinir, vitkann
hefja vísusöng,
um drekalensur og hetjudáðir.
 
Und‘ lok öldu drauma
í austri borgin Istar,
með visku sín‘ að leiðarljósi.
Í regin hjörvaregni,
reis ný öld maktar,
rann fávís að sínum feigðarósi.
 
Tignir turnar Istar
til himna teygðir gylltir,
mót sólu og dýrð goða söng.
Hið illa yfirbugað,
Istar skein sem stjarna
um sumarkvöldin björt og löng.
 
Í röðuls roðaskini
sá reginn Istar myrkur,
tré vopnum og verjum búin,
ár af illsku fullar,
und öldnum mánum þöglum.
Visku sinni reginn var rúinn.
 
Leitaði hann á landi,
að lærdóm‘ um fornhetju,
sem hafði fólk í ljósið leitt.
Kyngimagn og krafta
hann um krafði goðin,
svo hann gæti syndir burtu seytt.
 
Heyrið, vinir, vitkann
hefja vísusöng,
um drekalensur og hetjudáðir.
 
Tók‘ við tímar myrkir,
frá sneru tívar vals,
er fjallið skæra féll á Istar.
Í ljósum vafurlogum
landið reis og hneig,
á borgina dauðarúnir ristar.
 
Berg í blómadali,
sjár í bjargagrafir,
merkur urðu að mararbotnum.
Leiðir allar læstar,
vegir langir gleymdir,
runn‘ að dauðra slóðum rotnum.
 
Hófst öldin örvinglan.
Leiðir allar myrkar.
Vindar lék‘ um stræti strjálfarin.
Um fell og frjóar sléttur
við flúðum í búaleit,
litum til himn‘ í leit að svari.
 
Gömlu goðin þögul.
Greipar spenntum í bæn,
til nýrra goða á vorri för.
Höfgir himnar allir
hljóðir, kaldir, gráir.
Engin höfum heyrt þeirra svör.

Um morguninn ákváðu Gilthanas, Pieter, Thol og Laurana að bíða í einn dag áður en þau héldu áfram í leit að leið inn í Thorbardin. Um hádegisbilið komu Dalía og félagar að snjóflóðinu og sáu hvað hafði gerst. Vestri tók að sér að finna leið yfir flóðið sem var ekki auðvelt. Í fyrstu var hann næstum búinn að leiða hópinn í ógöngur en tókst loks að koma hópnum á heilu og höldnu upp í skarðið. Þar stóð Fizban og horfði niður í dalinn þar sem flóttafólkið var. Hann virtist enn sem fyrr jafn utangátta en sagði þó hetjunum frá hetjudáð sinni. Hann kvaddi þær og hélt sjálfur þá leið sem þær höfðu komið. Hetjurnar horfðu niður í dalinn og héldu til fundar við vini sína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Spunaspil

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 0786932546.01.LZZZZZZZ
  • SkullcapMountain
  • SkullcapMountain
  • ...llustration
  • ...lay_1620698

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband