Dragons of Hope: Niður í myrkrið

SkullcapMountain

Þegar hetjurnar höfðu gengið frá líki Pieters, hvíldu þær sig enda allar dauðuppgefnar og svekktar yfir slæmu gengi. Ekki nóg með að þær voru ekki búnar að finna lykilinn, heldur hafði góður vinur týnt lífi og því var hljóðið þungt í þeim. Eftir þær vöknuðu aftur var ákveðið að halda niður stigann, en notast við gáfulegri aðferð en síðast. Nú var reipi bundið í hverja og eina hetju sem síðan fetuðu sig niður stigann, sem nötraði og skalf. Hetjurnar uppgötvuðu að flugurnar virtust ekki ráðast á þær, ef þær voru nógu margar og ógnvekjandi. Hins vegar fylgdust þær grannt með hópnum fara niður ef ske kynni að einhver þeirra myndi dragast úr hópnum. Ferðin niður var erfið og misstu nokkrar hetjur fæturna og rákust utan í stigann, en sem betur fer voru varúðarráðstafanir hetjanna nægilega vel hugsaðar til að tryggja að enginn þeirra hrapaði til bana. 

Þar sem stiginn náði ekki alla leið niður þurfti að láta reipi síga og fór Thol fyrstur niður. Neðst við stigann mátti sjá hvernig gólfið hefur hrunið. Járn og grjót mynduðu undarlegar hendur sem virtust teygja sig upp á við. Er Thol kom niður réðust fram þrjár beinagrindur. Hetjurnar voru fljótar að láta sig síga niður til hans til að hjálpa honum að berjast við þær og ekki leið á löngu þar til að þær höfðu yfirbugað beinagrindurnar. Þá sáu hetjurnar að þær voru staddar í stórum sal, með hvolfþaki sem var algjörlega í rúst. Járngrindin sem eitt sinn hélt uppi hvolfþakinu var ryðguð og illa farin. Veggirnir voru sprungnir og þakið virtist við það að hrynja. Eina leiðin út úr herberginu var á norður veggnum.

Þangað fóru hetjurnar og gengu út á svalir. Þar horfðu þær yfir dökkan sal sem náði 70 fet á milli veggja og um 40 fetum niður. Þrjár aðrar svalir voru á í sömu hæð á veggjunum í kring, síðan voru fjórar á hverri hæð niður að gólfi, op við hverjar þeirra. Á neðstu hæðinni var stór inngangur. 

Á gólfinu hreyfðist eitthvað stórt og málmkennt. Án viðvörunar var miklum eldi blásið að hetjunum, sem lýsti skyndilega upp allan salinn og leiddi undarlega marghöfða járnveru í ljós. Um leið virtust ósýnilegar verur grípa um Brash og henda honum fram af svölunum. Hann féll niður á gólfið hjá málmverunni, sem leit græðgisfullum augum á máltíðina sem fram virtist borin. Adran hljóp í burtu og að öðrum dyrum, í einhverju æði sem hinar hetjurnar skildu ekki. Þar sá hann hvar beinagrind í eitt sinn fínum kufli lá á steinaltari fyrir miðju herbergisins. Ryðguð lyklakippa hékk í belti hans. Um leið og hann steig inn í herbergið féll slímkennd vera úr loftinu og réðst á hann. Vandræða hetjanna jukust til muna. Þá var Thol einnig gripinn af ósýnilegu verunum og hent fram af. Þeir Brash flýðu inn í hliðargöng og leituðu skjóls þar. Á meðan reyndu Dalía, Lorieth og Adran að ráða við ósýnilegu verurnar, slímið og marghöfða málmveruna.

Eftir langan og strangan bardaga tókst þeim loks að sigra. Brash var þá meðvitundarlaus og margar hetjurnar illa særðar. Eftir stutta hvíld og allar hetjurnar komnar niður til Thols og Brashs var ákveðið að halda áfram og leita að einhverju sem gæti gagnast sem lykill að Thorbardin. Innan úr stóra rýminu sem marghöfða veran hafði verið í var stigi enn neðar. Hetjurnar gengu hann og komu inn í herbergi þar sem stytta af eineigðum manni virtist fylgjast með þeim. Á veggnum gegnt þeim voru tvennar dyr og fyrir sakir einhverra tálsýna þá virtist styttan brosa þegar gengið var að öðrum dyrunum en hinum ekki. Hetjurnar ákváðu að fara frekar að þeim dyrum þar sem styttan brosti.

Það herbergi var lýst upp með rauðum kúlum. Stór stytta af dvergi stóð í miðju herberginu, með lófum þrýst upp að loftinu. Fyrir aftan styttuna voru gylltar dyr. Ekki voru hetjurnar fyrr komnar inn í herbergið en að dyrnar lukust að baki þeim og rauðu kúlurnar skutu eldhnöttum að þeim. Gylltu dyrnar voru læstar en eftir mikið fum og fát tókst hetjunum að komast aftur út um dyrnar sem þær komu inn. Því var ákveðið að fara inn um hinar dyrnar. Þar var svipað umhorfs en kúlurnar skutu þó ekki eldhnöttum.

Þar fyrir innan var gangur, sem hetjurnar fylgdu og sá hvar voru gangamót. Stytta úr hrafntinnu af hettuklæddri veru, illvilji skein af henni, stóð í skuggalegu innskoti. Járnslegnar dyr leiddu hetjurnar inn á stuttan gang, en við enda hans voru aðrar járnslegnar dyr. Á veggjum gangsins stóðu styttur á syllum, huldar skuggum. Veggirnir sýndu að miklum göldrum hefur verið beitt þarna einhvern tíma. Um leið og hetjurnar gengu framhjá styttunum breyttust vopn þeirra, málmurinn varð að við. Þetta olli nokkru uppnámi í hópnum en áfram var haldið. 

Handan við járnslegnu dyrnar voru enn aðrar slíkar en loks þegar hetjurnar voru komnar í gegnum þrennar járndyr komu þær inn í sal. Loftið, eitt sinn marmarahvolfþak, var sprungið. Stórir steinar lágu á gólfinu og loka opinu að ofan. Fyrir miðju herbergisins voru þrír glitrandi málmhlutir nærri hauskúpu. Þegar hetjurnar gengu nærri málmhlutunum reis hauskúpan og virtist myndast draugslegum líkami undir henni. Gerði hún sig líklega til að kasta galdri. Adran og Lorieth hlupu að dyrum hinum megin í salnum, Brash og Dalía gerðu sig líkleg til að verjast hauskúpunni en Thol sneri við til að sækja vopnin, sem skilin höfðu verið eftir hinum megin á ganginum við járndyrnar. 

Adran og Lorieth sluppu í gegnum dyrnar, sem og Thol sín megin en hauskúpan virtist kasta galdri sem lokaði dyrunum að baki þeim. Brash og Dalía voru því ein í rýminu með ógnvænlegri verunni. Thol sópaði saman vopnunum og ætlaði að fara aftur í gegnum dyrnar, en mundi þá að Lorieth var með lyklana að þeim. Adran og Lorieth litu í kringum sig og sáu að þeir voru staddir í litlu herbergi en þó voru nokkur galdratjöld, sem virtust færa menn milli staða.

Til að gera langa sögu stutta, þá tókst hetjunum loks að sameinast, að Thol undanskildum og fundu fjársjóði Fistandaliusar. Þar var einnig forláta dvergahjálmur og er Brash tók hann upp heyrði hann rödd í höfði sér segja:

Ég er Grallen, prins fjalladverganna, myrtur af myrkum öflum í Dvergahliðastríðunum. Fyrir sakir þessa galdrahjálms komst sál mín af og hægt er að segja sögu mína. Ég reið fram hinsta morgun stríðsins í mikilli framrás Hylar dverganna. Við komum frá norðurhliði Thorbardin yfir Dergoth sléttuna. Sveit mín réðst gegn virki seiðskrattans. Bræður mínir börðust af hugrekki og hugprýði, margir þeirra féllu. 

Þegar orrustan snerist okkur í hag, réðumst við fram, ákveðnir í að mæta seiðskrattanum í bæli hans, en ég var höggvinn niður af aftan áður en ég náði til virkis hans. Kharas fann líkama minn og kom honum til Thorbardin en hjálmur minn, með sál minni, fannst síðar og af dökkdvergum hliðhollum Fistandantilus og færðu hann hingað.  

Hetjurnar sneru því aftur upp á yfirborðið. Thol hittu þær við stigann og með því að notast við sömu aðferð og á niðurleiðinni tókst þeim að sleppa óskaddaðar upp. Þar beið skuggadrekinn þeirra, alls kostar óhress með að hlutunum sínum hafi verið stolið. Hann hótaði hetjunum og ógnaði svo þær myndu skila góssinu, en Thol tók þá til sinna ráða. Hann talaði drekann til og sannfærði um, að hann stæði í vegi fyrir þeim og ekki væri ráðlegt að ráðast á hetjurnar þarna. Skuggadrekinn gekk því á brott en hetjurnar sluppu.

Þá var haldið aftur í Góðarvonardal. Ráðið var kallað saman og hetjurnar sögðu frá sigrum sínum og töpum. Var mikið rætt hver næstu skref ættu að vera og var loks ákveðið að hetjurnar, ásamt Eben, Elistan, Laurana og Gilthanas, myndu fara til Thorbardin og kanna hvernig væru umhorfs áður en allur hópur flóttamannanna væri fluttur til. Var Blaize fenginn til að gæta flóttamannanna, nokkuð sem hann gerði með glöðu geði. 

Þar um kvöldið var Pieter jarðsunginn og hvíldu hetjurnar sig. Um nóttina dreymdi Elistan illa og rumskaði Lorieth við það. Þegar Elistan rankaði við sér var hann sveittur og ráðvilltur. Hann endurtók í sífellu: „Hann var þar!“ Loks, þegar hann náði betri tökum á sjálfum sér, sagði hann Lorieth hvað hann dreymdi: „Ég sá hann. Verminaard. Hann missti sjónar á okkur á meðan við vorum í dalnum, en hann krafðist þess að fá að vita hvar við værum. Ég neitaði að segja honum það.“ Svo virtist sem draumurinn væri smátt og smátt að hverfa honum úr minni. Hann þurrkaði sér um munninn með erminni, sem varð blóðug. „Þú hefðir átt að sjá hinn gaurinn,“ sagði hann. „Ég held að Verminaard viti nú, að rétt eins og hann fer ekki einn um, heldur blessaður af Takhisis, þá ferðumst við ekki heldur ein.“ Um háls hans hékk men með merki Paladins. Þegar Lorieth ætlaði að krefja Elistan frekari svara birtist Fizban upp úr þurru og truflaði þá.

0786932546.01.LZZZZZZZ

Um morguninn var haldið af stað. Einhverra hluta vegna slóst Fizban í hópinn án þess að nokkur gerði við það athugasemd. Hann hafði rætt mikið við Blaize þar um nóttina og gat sagt hetjunum fjölmargar sögur af bardögum bronsdrekans. Tveimur dögum síðar fundu hetjurnar norðurhliðið, þar sem það var á fjallshlíðinni, gætt af tveimur risastórum styttum af dvergum. Hetjurnar fetuðu sig upp slóðan að því og með hjálp hjálmsins tókst Brash að finna út úr því hvernig átti að opna hliðið. Þá heyrðust miklir bresti koma innan úr fjallinu. Syllan og hlíðin nötruðu um leið og smásteinar féllu allt í kringum hetjurnar og ofan í gljúfrið fyrir neðan. Með miklum smelli, sem hljómar eins og þúsund bein hafi brotnað á sama tíma, opnaðist gríðarmikil rifa á fjallinu sjálfu. Tröllvaxnar hurðir, eflaust með stærstu hlutum sem hetjurnar höfðu séð hreyfast, snerust hægt en ákveðið að þeim. Fizban, ávall forvitinn, steig fram fyrir hópinn og fylgdist áhugasamur með herlegheitunum. Skyndilega, með miklu braki og brestum, brotnaði önnur þeirra af hjörum sínum og féll ofan í gljúfrið og tók Fizban með sér.

Hetjurnar höfðu áður sé Fizban deyja og voru einhverra hluta vegna vissar um að hann hefði bjargað sér. Þær gengu því varfærnislega inn í dvergaríkið. Gólf forsalarins var stráð beinagrindum go ryðguðum vopnum. Brash og Vestri leiddu hópinn áfram. Í öðrum forsal réðust undarlegar skuggaverur á hópinn, sem litu úr eins og svífandi hettur eða dúkar með griparma. Eftir harða orrustu tókst þeim að yfirbuga óvættina og gerðu sig klárar að halda áfram inn í borgina handan forsalanna.  

 

 

 

 

  


 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Spunaspil

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 0786932546.01.LZZZZZZZ
  • SkullcapMountain
  • SkullcapMountain
  • ...llustration
  • ...lay_1620698

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband