Dragonlance: Dragons of Flame (2. hluti)

Qualinesti

Hetjurnar sáu færi til að sleppa um leið og Gilthanas hljóp út í bardagann. Allar sem ein stukku þær út úr vagninum, en Pieter var síðastur út og lenti í miðjum hópi drýsla sem hann barðist við ásamt Gilthanas. Adran hljóp í áttina að vagninum sem geymdi vopn hetjanna og verjur. Lorieth, Dalia og Brash gerðu einnig atlögu að vagninum og tókst að fella nokkra af drýslunum. Toede sá hvað verða vildi og skipaði lífvörðum sínum að ráðast gegn hetjunum, á meðan hann reið af hugdjörf fram með vagnalestinni og í burtu frá bardaganum. Gilthanas komst undan drýslahópnum og Pieter náði að berja þá frá sér. Dalia og Adran felldu annan lífvörð Toede á meðan Brash felldi drýsla. Lorieth stökk upp á vagninn og gerði sig líklegan til að aka honum á brott. Pieter heyrði þá Fizban segja inni í fagnavagninum sem hetjurnar höfðu verið í: ,,Ég kann einn galdur. Fireball!" Um leið þaut risastór eldkúla út úr vagninum og sprakk í miðjum drýslahópnum. Féllu þar margir drýslar. Dalíu tókst að brjóta upp lásinn á vagninum sem geymdi verðmæti þeirra og tókst þeim að komast undan með vopn sín og brynjur, en höfðu ekki tíma til að finna allt það fé sem hetjurnar fundu í bæli drekans í Xak Tsaroth. Þegar þær sáu hvar drekamannaverðir komu hlaupandi hlupu hetjurnar sem leið lá inn í Qualinesti. 

Hetjurnar sáu fleiri flóttamenn flýja inn í skóginn og eftir nokkra stund söfnuðust þeir allir í stóru rjóðri. Þar voru einnig álfar frá Qualinesti, hermennirnir sem höfðu lagt líf sitt og limi í hættu við að bjarga þeim. Leiðtogi álfahermannanna steig fram og ávarpaði flóttamennina:

,,Abanasíubúar, ég heiti Porthios. Drekaherrann heldur ykkur ekki lengur föngnum og þið eruð frjáls ferða ykkar. Hvert þið ættuð að fara get ég ekki dæmt til um, því hvar sem ég hef komið er landið undir stjórn hinna illu. Við getum ekki skotið skjólshúsi yfir ykkur í Qualinesti, því ógn steðjar einnig að okkar löndum. Hins vegar getum við boðið ykkur fylgd í gegnum lönd vor, hugsanlega finnst friður í löndunum handan Pax Tharkas. Þeir sem það kjósa, geta fylgt mönnum mínum. Þeir munu leiða ykkur hratt og örugglega í gengum skóginn.“

Hann benti mönnum sínum á að leiða hópinn áfram. Eftir stutt spjall við Gilthanas leit hann til hetjanna og sagði:,,Mig langar til að biðja ykkur um að fylgja mér og bróður mínum til Qualinesti.Hann hefur upplýst mig um frásögn ykkar, það myndi gleðja föður minn, Sendiherra Sólarinnar, að heyra meira frá ykkur. Njótið gestrisni Qualinesti.“

Hetjurnar þáðu boð hans með þökkum. Hinn hávaxni Porthios leiddi hópinn í gegnum furuskóginn. Er dögun varð að degi heyrðist þungur árniður í fjarska. Eftir nokkra klukkustunda göngu kom í ljós hvaðan hávaðinn kom, er hetjurnar gengu fram á mikinn foss, sem virtist óendanlega hár.  Að vestan var leiðin lokuð af háu og dökku klettabelti. Furutrén náðu alveg að landrisinu, sem var um míla að hæð. Þar efst mátti grilla í grænt, þannig eflaust hélt skógurinn áfram þar uppi. 

Porthios leiddi hópinn áfram að lækjarsprænu og upp með henni að hyl sem myndast hafði undir fossi. Hann stökk fimlega milli steina og hvarf aftur fyrir fossinn, í helli sem er þar falinn undir. Hetjurnar fylgdu í humátt eftir honum, sem og Gilthanas, Theros Ironfeld og fleiri álfum.

Þar hafði bratt einstigi verið hoggið í bergið. Hann byrjaði að klifra upp. Fossinn myndaði eins konar tjald við hlið hetjanna og endurkastaði ljósi með undarlegum hætti á klettana. Furðulega auðvelt var að klífa einstigið og ekki leið á löngu þar til komið var upp í fallegu rjóðri á hásléttu Qualinesti. 

Sólin merlaði á daggarperlum á greinum aspartrjáa, á hvítum bolum þeirra stirndi. Í lofti var ferskur gróðurangan. Slóði, hulin sígrænum greninálum, virtist birtast fyrir framan Porthios um leið og hann gekk síðasta spölinn að borg álfanna.

Eftir nokkurra klukkustunda göngu í gegnum skóginn, kom hópurinn skyndilega að djúpu gili. Mosi og klifurjurtir huldi báðar klettahlíðir þess en það var meira en 30 metra breitt. Djúpt ofan í því mátti sjá mistur rísa og heyra í vatni. Göngubrú, strengd milli nokkurra aspa, lá yfir gilið. 

Gilthanas sagði: ,,Qualinost er varin að öllum hliðum með þessum hætti. Mig grunar þó, að þessar varnir megi sín lítils gegn her drekamannanna.“

Hinum megin við gilið grilti í nokkra mjóa turna. Porthios hraðaði för sinni, eins og ferðalangur sem sér heimili sitt við sjóndeildarhringinn. 

Sífellt lengra var á milli trjáa eftir því sem hópurinn nálgaðist borgina, sem var þó tiltölulega lítil miðað við borgir manna. Að sama skapi gætu engir menn byggt borg sem þessa. Fjórir grannir, silfurlagðir turnar stóðu hver við sitt horn borgarinnar. Milli þeirra lágu bogabrýr, einnig lagðar silfri. 

Hár gullslegin turn stóð fyrir miðri borginni, hann endurkastaði sólarljósi allt yfir umhverfi sitt, svo hann virtist á sífelldri hreyfingu. Turninn var vissulega kyrr, en tálsýnin var engu að síður áhrifarík. 

Þegar hetjurnar komu inn fyrir bogabrýrnar gengu þær eftir víðum strætum, lögðum hvers kyns eðalsteinum og undir laufþekkju hárra trjáa. Margar byggingar voru einnig lagðar slíkum steinum og við aspir skreyttar gulli og silfri. Byggingarnar voru háar og grannar, runnu fullkomnlega saman við aspirnar sem stóðu í borginni. 

Og þvert á það sem búast mætti við í þessari tignarlegu, tímalausu borg, þá virtist sem íbúum lægi á, konur og börn hlupu við fót með fangið fullt af hvers kyns vörum, annað hvort á leið til háa turnsins eða inn og út úr húsum. Karlmenn gengu um vel vopnum og verjum búnir, tilbúnir að mæta hverjum óvin sem á vegi þeirra kunni að verða. 

Háum dyrum turnsins var hrundið hljóðlaust upp inn að sal sem virtist mun stærri að innan en utan. Stór salurinn var lagður hvítum marmara og bjartur, enda margir gluggar sem hleyptu inn sólarljósi og fersku lofti. Margir álfar stóðu þar. Í miðjum hópi þeirra var tignarlegur álfur, klæddur gulum kufli og hár hans slegið silfurlitum lokkum. Solostaran, sendiherra sólarinnar, tók á móti sonum sínum, Gilthanas og Porthios, opnum örmum. 

,,Kæru synir, vor áttum ekki von á að vér myndum hittast í þessum heimi á ný,“ sagði hann og um stund var innileg gleði í röddu hans, en síðan var sem dimmdi yfir honum á ný. ,,Gilthanas, hvað er frétta af för yðar, eða varstu sigursæll?“

,,Hái sendiherra, faðir sæll,“ svaraði Gilthanas alvarlegur í bragði, ,,mér mistókst. Vér fórum að öllu með gát suður á bóg, en örlögin höguðu því svo til, að hópur vor kom beint í flasið á herfylki háherrans er stefndi norður. Ég fékk högg á höfuð, féll í skurð, og hugði þar myndi minn síðasti dag renna. Nokkru síðar vaknaði ég og sá slóð er lá til Solace. Ég vildi frelsa menn mína, þá er til fanga höfðu verið teknir, svo ég fylgdi slóðinni. Ég komst að raun um, að Solace var fallið og velliviðartrén felld eða brennd.“

Heyra mátti saumnál detta í salnum. Margir álfar gripu fyrir munn sér er þeir heyrðu af örlögum Solace. Gilthanas leit niður og þurfti að beita sig hörku er hann mælti: ,,Félaga mína fann ég, á miðju þorpstorginu, bundna við stjaka. Stór rauður dreki sveif yfir þeim. Íbúar þorpsins voru neyddir til að horfa á fangana. Mikill og illur knapi reið drekanum og lét hann lenda á torginu. Hann sagði: ,,Ég er Verminaard, drekaháaherra í þessu ríki. Allir íbúar þess eru þegnar og þjónar mínir. Þeir sem lúta stjórn minni ber að hlýða. Þeir sem gera það ekki, munu finna fyrir reiði minni!“ Síðan lét hann dreka sinn spúa eldi yfir félaga mína...“ Gilthanas þagnaði um stund en reisti sig síðan við og benti á Theros Ironfeld. ,,Stundaræði náði tökum á mér og ef ekki hefði verið fyrir inngrip þessa góða manns, hefði ég ekki staðið hér í dag og fært yður þessar voðafréttir. Hann hætti lífi sínu fyrir mig og hefur goldið fyrir hjálpsemi sína með hægri handlegg sínum.“

Þá kynnti hann hetjurnar og er Solostaran sá Pieter handleika medalíu með merki Mishakal gagntók hann gömul reiði. Hann arkaði að prestinum og greip um trúartáknið. Um leið kvað við mikið ljósleiftur. Álfur drógu sverð úr slíðrum, Dalía og Brash fóru í varnarstöðu. Eftir nokkur taugatrekkjandi augnablik lyfti Solostaran upp höndum sínum. Hann leit í kringum sig, af andliti hans mátti ráða að það var sem hann hefði orðið fyrir vitrun. Hann ávarpaði hetjurnar:

„Kæru gestir, vér bjóðum yður velkomna og yður munuð njóta gestrisni vorrar á meðan þér dveljið hjá oss. Fylgið dóttur minni og hún mun sjá til þess að þér njótið alls þess besta. Er þér hafið hvílt yður, snyrt og etið, munum vér senda eftir yður. Tími er af skornum skammti, af því er virðist, á þessum síðustu og verstu tímum.“

Dalía steig fram og sagði: ,,Kæri Sendiherra, við höfum fréttir að færa yður hágöfgi. Guðirnir hafa snúið aftur. Mishakal hefur lagt blessun sína yfir mig og Pieter. Við færum ykkur fagnaðarerindi þeirra."

Solostaran kinkaði kolli og svaraði að allt hefði sinn tíma en þar um kvöldið myndi æðsta ráðið koma saman. Hún fengi tækifæri til að segja frá guðunum þá. Einstaklega falleg álfkona, Lauranthalasa, steig fram úr hópi þeirra sem þarna voru. Hún hneigði sig fyrir sendiherranum áður en hún brosti innilega til hetjanna og sérstaklega Adrans, bros sem minnti einna helst á vordögun. Hún virtist enn fallegri eftir því sem hún kom nær, en þó var yfir henni unggæðinslegur blær. Hún gekk léttfætt yfir að dyrunum, sem opnuðust að sjálfu sér fyrir henni, og leiddi hetjurnar út í sólskinið og laufum stráð stræti Qualinost.

Hún færði hetjurnar að rjóðri þar í borginni. Eftir að hafa rætt um stund við Adran, en þau höfðu verið leikfélagar í æsku, spurði hún hetjurnar hvað þær ætluðu sér að gera. Lorieth óskaði eftir korti sem hún útvegaði. Eftir ítarlegar umræður ákvað hópurinn að reyna komast til Pax Tharkas og bjarga þeim sem þar voru í ánauð. Vildu þær sannfæra álfana um að hjálpa þeim, þar sem allir gætu grætt á slíku inngripi. Bæði gæti það bjargað álfum og hjálpað þeim í komandi orrustu gegn drekaherjunum. Hugsanlega þekktu álfarnir styttri leið að virkinu, leið sem væri ekki fyrir allra augum. Var því lagt upp með að Adran ræddi við Laurana, Dalía og Brash myndu ræða Theros, Lorieth og Pieter myndu tala við Gilthanas og Porthios.

Adran sagði Laurana frá afrekum þeirra og hve mikilvægt væri að bjarga fólkinu í Pax Tharkas. Hún teymdi Adran inn á fund Solostarans, föður síns, og fékk Adran til að segja honum frá öllu saman. Solostaran hlustaði með athygli á rekkann og sagði hann skyldi hugleiða tillögur hans. Dalía og Brash hittu Theros fyrir og heyrðu frá honum að álfarnir ætluðu sér að flýja Qualinesti og hefðu fengið Theros til að hjálpa þeim að smíða skip. Hann ráðlagði þeim að standa upp og segja frá ætlunum sínum á fundi æðsta ráðsins. Hann myndi leggja inn gott orð fyrir þau. Lorieth og Pieter fundu Porthios við turn Sólarinnar og ræddu við hann um þessar fyrirætlanir. Hann tók heldur fálega í fyrstu í þær en lofaði þó að ræða um þetta við föður sinn. Heldur lengur tók að finna Gilthanas en hann virtist mjög ákafur í að reyna þessa áætlun. Hann hét því að ræða við sendiherrann. Pieter og Dalía tóku sig síðan til og kenndu nokkrum álfum um guðina, þeirra á meðal einum í æðsta ráðinu. Hópurinn hvíldi sig síðan uns kom að fundinum.

Svo virtist sem allir íbúa Qualinost væru samankomnir á stóru torgi. Hermenn mynduðu víðan hring í kringum sendiherrann og nokkra af æðstu ráðgjöfum hans og herforingjum. Aðrir stóðu utan þess hrings en fylgdust engu að síður með af athygli. Hetjunum var vísað inn að miðju hringsins, sendiherrann leit til ykkar, af andliti hans mátti ráða ákveðni. „Afsakið, hve þungt er yfir oss,“ sagði hann hægt. „Það eru erfiðir tímar og frammi fyrir oss er langur og einmanalegur vegur. Komið og sjáið hver staða okkar er.“

Solostaran benti hetjunum á að líta á mósaík mynd á tígusteinum torgsins. Svo virtist sem hún myndiði eins konar kort. Álfarnir stígu utar, svo Qualinesti og nærliggjandi lönd sáust betur. „Vér höfum komist að því, með því að yfirheyra fanga vora, að háherrar drekahersins vilja helst sjá álfa hverfa af yfirborði Krynn, þeim hefur nærri tekist það með frændur vora í Silvanesti. Og vér erum næst.“

Lorieth greip andann á lofti. Einn af ráðunautum Solostarans sá viðbrögð hans og leiddi hann til hliðar. Þar tjáði hann Lorieth að ráðist hafði verið inn í Silvanesti og álfarnir þar hraktir á brott eða drepnir. Því miður hafði hann ekki frekari fréttir úr frændríkinu.  

„Hérna og þarna,“ sagði Solostaran og benti með staf sínum á kortið, annars vegar að Solace og hins vegar að Haven, „hafa safnast saman herfylki háherrans Verminaard. Um leið og þessi orð eru töluð búa þau sig undir að ráðast inn í hið forna álfríki vort. Hugsanlega gætum vér varist sókn þeirra, ef aðeins væri um þessi herfylki að ræða. En svo er ekki. Þriðja herfylkið ógnar oss úr þessari átt.“ Sendiherrann benti með staf sínum að Pax Tharkas, suður af Qualinesti. „Vér erum umkringd og án vina.“

Solostaran leit niður, eins og hann skammaðist sín að viðurkenna hinn augljósa sannleika. „Vér getum ekki sigrað þennan her. Eina von vor er að flýja Qualinesti til vesturs og vona að þegnar vorir finni frið í einhverju landi í þeim ókannaða hluta heimsins.“

Sendiherrann þagnaði um stund, á meðan áheyerendur gerðu sér grein fyrir hvað hann var í raun og veru að segja. Það var vissulega ótrúlegt að hugsa til þess, að íbúar þessa skógar – fólk sem hefur búið þar allt frá öldu drauma – væri nauðbeygt til að flýja heimili sín undan ógnarkrafti drekaherjanna. 

Dalía og Pieter stigu inn í hringinn og sögðu frá komu guðana. Það vakti von í brjósti margra, en ógnin, sem fljúgandi drekar spúandi eldi, var kæfandi. Solostaran hlustaði af athygli á framsögn þeirra. Loks lögðu þau til áætlunina sem hópurinn hafði sett saman. Brash skaut inn orði og orði, við litla hrifningu álfanna. Þegar þau höfði lokið ræðu sinni steig æðsta ráðið til hliðar og ræddi tillöguna. Svo virtist sem mjótt væri á mununum. Loks steig Solostaran aftur inn í hringinn og sagði:

„Vér höfum hugleitt hvernig yður getið hjálpað oss. Hérna, í dýflissum Pax Tharkas, þræla hermenn Solace, Haven og annarra landa hér fyrir norðan vort ríki. Af hverju ættu þeir að nema járn úr jörðu fyrir hina illu háherra drekaherjanna? Vegna þess að hér,“ sagði Solostaran og sló fast með staf sínum á Pax Tharkas, „er konum þeirra og börnum haldið föngum, til að tryggja að hermennirnir séu til friðs. Það var ástæða farar Gilthanasar fyrir nokkrum dögum. Hann hugði, ásamt félögum sínum, laumast inn í Pax Tharkas eftir Sla-Mori, leið hinna látnu, sem aðeins við álfar þekkjum. Þeir ætluðu sér að frelsa hinna fönguðu og leiða þrælana í uppreisn gegn kúgurum sínum. Síðan var ætlunin að flýja til suðurs, hugsanlega með her drekamannanna á hælunum. Sú för mistókst, en Gilthanas telur það þess virði að reyna á ný. Mannfólkið getur komist í örugga höfn og snúið á drekamennina, því í fjöllunum eru margir þröngir og fáfarnir dalir þar sem hægt er að felast. Enn sunnar er lönd þar sem hugsanlegt er að öruggara sé að vera. Vér biðjum yður, hetjur, að takast þessa för á hendur. Gilthanas hefur boðist til að fylgja yður og sýna ykkur Sla-Mori, fljótustu leiðina inn í virkið. Ef þér ákveðið að gangast við verkefninu, veitið yður ekki aðeins yðar eigin fólki færi á að sleppa undan þrældómi og vosbúð, heldur gefið þér oss færi á að komast frá Qualinesti á lífi. Því herfylkið við Pax Tharkas mun eflaust ekki leggja til atlögu vitandi af ógn fyrir aftan sig. Verminaard mun ekki una sér hvíldar á meðan hugsanlegur óvinur er honum að baki. Það mun hugsanlega gefa oss rými til að byggja flota nægilega stóran svo flúið geti sem flestir. Þetta tækifæri er einstakt, nokkuð sem oss gafst ekki þegar yðar kyn olli Hamförunum, er guðirnir sneru frá oss öllum. Þetta er færi til að veita drekaherjunum skráveifu, öðlast ævarandi vinskap voran og bjarga lífum, bæði manna og álfa."

Hetjurnar samþykktu þetta og hófu strax undirbúning. Þegar þær sneru aftur í rjóðrið ræddu þær fyrirætlanir sínar. Skyndilega skar skelfileg öskur næturkyrrðina. Þær hlupu sem leið lá þangað sem hljóðið hafði borist og sáu hvar 4 wyverns hófu sig á loft. Þær rýndu út í myrkrið og sáu að Toede reið einni skepnunni og fyrir framan hann lá Laurana meðvitundarlaus. Hetjurnar reyndu að koma í veg fyrir flótta óvættanna en allt kom fyrir ekki. Hetjurnar flýttu sér að láta stjórnendur borgarinnar vita og var ákveðið að flýta brottför hetjanna. 

Skömmu fyrir sólarupprás var allt orðið klárt. Lorieth dró fram rullu sem hann hafði fundið í Xak Tsaroth en á henni var öflugur seiður. Hann notaði vitneskjuna sem bjó í rullunni og seyddi fram 8 draugslega gæðinga. Allar hetjurnar stigu á bak og gerðu sig klárar að halda til Pax Tharkas. 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Spunaspil

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 0786932546.01.LZZZZZZZ
  • SkullcapMountain
  • SkullcapMountain
  • ...llustration
  • ...lay_1620698

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband