Alkemistar og sjónhverfingamenn

Á miðöldum voru þeir sem höfðu örlítið meira vit í kollinum og einhverja efnafræðikunnáttu oft kallaðir alkemistar eða gullgerðarmenn. Goðsagan  segir að æðsta takmark þeirra var að búa til gull úr öðrum verðlausum eða verðminni efnum. Það var oftar en ekki ákveðin mystík sem var yfir þessum mönnum, þeir álitnir jafnvel galdramenn og þaðan af verra.

Þegar ég hugsa til þessara goðsagna af þessum mönnum, því þetta voru menn en ekki konur (þær voru einfaldlega bara nornir), þá get ég ekki annað en sett þetta í samhengi við Ísland. Ég veit ekki til þess að hér hafi verið gullgerðarmenn á miðöldum, í mesta lagi voru þeir sem kunnu einhverja rúnagaldra og slík þekking var þó ekki á hverju strái.

Fyrir utan hina augljósu tengingu, þ.e. að hér myndaðist stétt fólks, sem samanstóð að mestu af karlmönnum, sem bjó til gull eða pening úr engu og ákveðin mystík var yfir þessum hópi, þá er svolítið merkilegt að hugsa til þess að þetta er nokkuð sem var á miðöldum í Evrópu en á 21. öldinni hér.

Þegar ég held áfram að hugsa um þessa samlíkingu, þá sé ég að það er þó ekki allt sem stenst í henni. Sú þekking sem gullgerðarmennirnir komust yfir varð síðar meir að grunni fyrir efnafræði og mætti kalla þá fyrstu efnafræðingana. Þeir gerðu svo miklu meira en að rembast eins og rjúpan við staurinn að búa til gull, eins og þeir íslensku. Ástarlyf hvers konar, lækningar, eitur og eiturlyf eru bara örfá dæmi um það sem alkemistarnir dúlluðu sér við.

Ef grannt er skoðað kemst maður að raun um, að okkar auðmannastétt var kannski ekki svo lík gullgerðarmönnum. Í raun, sé mið tekið af viðskiptaháttum þeirra á milli sín (Pálmi og FL group með Sterling, afskriftir skulda stjórnenda Kaupþings), þá er líklegra að maður lítil til sjónhverfingamanna en alkemista. Hvað voru þessi viðskipti annað en sjónhverfingar? Reykur og ljós?

Er hægt að búa til eitthvað úr engu, án sjónhverfinga?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Innlittskvitt

Ómar Ingi, 4.11.2008 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband