Hið nýja Ísland?

Þegar maður stendur frammi fyrir álíka viðburðum og umhleypingum og nú, þá vakna margar spurningar í kollinum á mér. Bankarnir hafa allir hlotið ný heiti, heita ný nýi þetta og nýi hitt, stjórnmálamenn tala um hið nýja Ísland. Nú sé tími tækifæra og framtíðin sé björt.

Ég spyr þó, hvað er það sem við ætlum að læra af þessu?

Ætlum við að hætta í einkavinavæðingunni? Geir Haarde virðist ekki á því máli, skipaði eiginkonu sína til forsætis í nefnd um Listahátíð. Davíð situr enn sem fastast og virðist ekkert á því að stíga af stóli.

Er tími ofurlauna liðinn? Tja, laun bankastjóra og forstjóra spítalanna eru langt umfram launum ráðherra, en ég teldi eðlilegt að ráðherrar væru hæst launuðu ríkisstarfsmennirnir.

Erum við laus við baktjaldamakk? Nei, það lítur ekki út fyrir það. Ef allt væri með felldu, þá væru stórkarlar á borð við stjórnendur og millistjórnendur í bönkunum langflestir farnir á hausinn. Hvað varð um skuldir þeirra?

Ég held þó, þegar upp verður staðið, þá munum við ekki líta aftur og skoða endilega þessi atriði. Mig grunar að þau verði gerð upp, fyrr eða síðar. Hins vegar eru það gildin sem hafa ríkt undanfarin ár sem ég tel að við þurfum að skoða kannski með hvað mestri gagnrýni, þ.e. þau gildi sem við höfum sjálf tekið þátt í að móta og fylgt.

Sú brjálæðislega efnishyggja sem við, kannski ekki öll, en flest, höfum sýnt er ekki til hins betra, að mínu mati. Er virkilega mikilvægara að eiga flatskjá, til að eyða kvöldinu fyrir framan, en að eiga heilbrigt og hamingjusamt barn? Eða 5 milljón króna jeppa? Er kapphlaupið um gæðin svo mikilvægt að við gleymdum okkur í því?

Ég viðurkenni fúslega að hafa tekið þátt í því. Ég keypti bíl á lánum, á flatskjá (reyndar ekki stóran, en flatskjá engu að síður), tölvur, fór utan og naut góðærisins til hins ítrasta. Eflaust meir en sumir en minna en aðrir. Ég á líka dóttur og var ekkert að spara í við hana. Hún er hjá mér aðra hverja viku og ég held, að sumpart hafi ég gleymt mér í því að eiga pening og geta keypt handa henni það sem hana langaði í, að vissu leyti svo ég væri ekki með samviskubit yfir því að leika mér í dótinu mínu. Var svo kannski um fleiri?

Hvað með virðingu? Ég held stundum, að við Íslendingar þekkjum ekki merkingu þessa orðs. Nærtækasta dæmið er einföld búðarferð í Bónus. Löng röð á kassa 1 og því er kassi 2 opnaður. Þá er kapphlaup þeirra er standa í röðinni að kassa 1 yfir á kassa 2, í stað þess að bera virðingu fyrir því að sá sem er búinn að standa lengst í röðinni sé fyrstur á kassa 2. Nei, við skulum flýta okkur og reyna komast fram fyrir í röðinni.

Unglingar bera ekki virðingu fyrir fullorðnum, kæra jafnvel kennara sína ef þeir skamma þá. Fólk ber almennt ekki virðingu fyrir hvort öðru, nema að mjög takmörkuðu leyti. Svo lengi sem það gagnast þeim, t.d. fólk ber virðingu fyrir yfirmönnum sínum, en ekki fyrir lögreglunni. Þetta er svolítið brenglað. Er það eitthvað sem við viljum hafa áfram? Er hið nýja Ísland land virðingarleysis?

Ábyrgð er annað hugtak sem ég held að merking hvers hefur glatast. Stjórnmálamenn bera ekki ábyrgð. Yfirmenn í bönkum bera ekki ábyrgð. Samt eru þessi menn í ábyrgðastöðum og fá greitt samkvæmt því. Meira að segja auðmenn og útrásarvíkingarnar bera ekki ábyrgð á ástandinu, heldur er það neysluhyggju almennings að kenna, skv. Björgólfi eldri.

Er þá mér að kenna að Icesave ruglið fór í gang? Af því ég vildi keyra bíl, horfa á sjónvarp og komast á internetið? Eins og venjulegt fólk í útlöndum gerir líka? Er það kannski líka mér að kenna, að bankamenn tóku lán fyrir hlutbréfkaupum, létu bankana borga fyrir sig í veiði og undir sig 10 milljón króna jeppa? Er það mér að kenna að útrásarvíkingarnir seldu og keyptu hver af öðrum, í þeim tilgangi einum að hækka verðgildi eigna sinna? Ber ég ábyrgð Davíð, Birni, Árna Matt og Árna Johnsen?

Tja, ég skal fúslega viðurkenna að ég get tekið ábyrgð á því síðasta, því ég kaus Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum. Ef það er eitthvað eitt sem ég mun taka með mér til hins nýja Íslands, þá er að læra af þeim mistökum.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

áhugaverð grein, skil alveg hvað þú ert að fara. þú hefur algerlega tekið þátt í þessari efnishyggju heima og mér hefur blöskrað náttúrulega. sagði oft við sjálfa mig.. hvenær ætlar þorsteinn að hætta að kaupa þessar kjallaraíbúðir, hvenær ætlar hann að hætta að horfa ekki á sjónvarpið, hvenær ætlar hann að hætta að kaupa fötin sín í Sævari Karli, og hvenær ætlar hann að ekki að hjóla í vinnuna? mér er spurn þorsteinn.. ég hef að sjálfsögðu sjálf ekki tekið þátt í henni og er því algerlega heilög að öllu leyti. eða er það ekki svona sem flestir hugsa orðið í dag?mér finnst bara furðulegast hvað stjórnmálamenn á íslandi og almenningur þar af leiðandi lýgur að sjálfum sér að ísland sé lýðræðisríki... einmitt.. þegar ríkiskjörnir fulltrúar almennings fá að gera allt sem þeim sýnist án þess að þurfa að axla þá ábyrgð sem þeim ber.. því það er jú ástæðan fyrir því að þeir fá há laun sem við almenningur borgum...þeir þurfa aldrei að segja afsakið, þurfa aldrei að segja af sér .. og það skiptir ekki einu sinni máli hvort almenningur mótmæli, krefjist afsagnar eða er einfaldlega 90% á því að seðlabankastjóri segi af sér.. sem er manna mestur ábyrgur fyrir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur haldið út síðastliðin ár.. síðan 1991 má segja. hann var jú kosinn aftur og aftur .. og nú ætla ég að vitna í hann Davíð sjálfan. Hann sagði í kastljós viðtali fyrir nokkrum vikum að hann hafi jú lagt línurnar fyrir fjármálageirann á sínum tíma en að hann hafi ekki búist við því að fólk myndi misnota það frelsi sem því var gefið. almenningur bjóst ábyggilega ekki við því að davíð myndi misnota vald sitt, til dæmis til að ráða sjálfan sig sem seðlabankastjóra og fyrra sig allri ábyrgð á því sem hann ber ábyrgð á. hvers konar lýðræðisskrum er það?missum ykkur í þessu um helgina þegar ég kem heim í fagnðarlætin.blesssara hrund

sara syss (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 14:34

2 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Davíðsdýrkunin hefur sem betur fer minnkað töluvert, þó svo að enn séu til þeir sem sjá ekkert annað en Sjálfstæðisflokkinn. Mig grunar að margir af þeim þori varla að viðurkenna að sú blinda ást sem þeir hafi haft á flokknum hafi kannski ekki alltaf verið á rökum reist. Batnandi manni er samt best að lifa, og maður er jú maður að meiri geti maður viðurkennt mistök sín og lært af þeim. Mér sýnist hins vegar svona á fréttum undanfarinna daga, að foringi D, Geir, sé ekki það mikill maður, eflaust líti hann á það sem ósigur að viðurkenna að flokkurinn hafi gert mistök og þurfi að axla ábyrgð á þeim.

Ég meina, þegar sjálfstæðismenn halda því fram blákalt að þeir séu eini flokkurinn sem geti leitt þjóðina úr þessum ógöngum, þá er eitthvað að. Og það er ekki hægt að rekja það eingöngu til ofneyslu kókaíns! Það er einhver önnur blinda, einhver annar hroki, sem slær ryki í augum þeirra.

Enda kæmi það mér ekki á óvart að sjá flokkinn tapa stórkostlega í næstu kostningum, sem hljóta að vera eftir jól. Ég hreinlega trúi því ekki að Samfylkingin sjái sér fært að sitja í þessu stjórnarsamstarfi, þetta er að mér finnst dauðadæmt. Spurning hvort hið nýja Ísland verði ekki undir forystu VG og Samfó, þar sem stefnan verður tekin á að búa hér svo í haginn sem frændur okkar í Skandinavíu hafa gert á undanförnum árum?

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 3.11.2008 kl. 15:59

3 Smámynd: Ómar Ingi

Það tóku nú flestir þátt í fylleríinu okkar og ekki kvartaði fólk þá , en nú er öldin önnur

Ómar Ingi, 3.11.2008 kl. 18:42

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Er ekki mannlegt að fara í sólbað þegar sólin skín? Þurfti fólk endilega að sólbrenna? Ég held að það sé stór tiltölulega þögull hópur í landinu sem fór sér í engu óðslega en geldur samt fyrir það núna að sumir vildu fljúga á geislunum.

Berglind Steinsdóttir, 3.11.2008 kl. 21:04

5 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Berglind, það er einmitt málið. Gallinn er hins vegar sá, að þessum hópi hefur m.a. verið kennt um hvernig komið er fyrir landinu, sakað um eyðslufyllerí og svoleiðis. Þessi hópur lendir síðan í því að borga fyrir partýið, ef svo mætti að orði komast.

Það sem ég er kannski einna helst að velta fyrir mér þessa dagana, er hvað við ætlum að læra af þessu. Hvaða reynslu ætlum við að taka með okkur?

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 4.11.2008 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband