Hvað er að gerast?

Aldrei þessu vant ætla ég ekki að segja sögu eða fjalla um hrollvekjur, þ.e. bókmenntalegar hrollvekjur. Í þetta skipti ætla ég að blogga um eitthvað mun alvarlegra og hryllilegra en nokkur skáldskapur nær yfir.

Það þarf víst ekki að fjölyrða um það ástand sem er núna á Íslandi og hvaða áhrif það hefur. Atvinnuleysi, verðbólga og verðhrun á fasteignum er nokkuð sem maður er orðinn gott sem ónæmur fyrir í fréttaflutningi fjölmiðla. Ég held að nær flestir þekki þetta og enginn á landinu muni komast ósnortinn frá þessu ástandi.

Auðvitað kemur þetta mismunandi niður á okkur. Sjálfur hef ég þurft að horfa á húsnæðis- og bílalánin hækka, líkt og nær allir í kringum mig. Það er nú þyngra en tárum taki að horfa á þá litlu eign sem maður var búinn að koma sér upp hverfa og verða að engu, en á meðan enginn deyr og allir í kringum mann fá að borða og halda vinnu, þá getur maður víst ekki kvartað.

Og þó...

Það er eitt sem ég vil kvarta yfir og mér finnst afar lélégt af stjórnvöldum, ef satt reynist. Nú var ég að heyra og lesa á nokkrum stöðum á netinu, að bankarnir væru að afskrifa þau lán sem starfsmenn og stjórnendur fengu til kaupa á hlutabréfum. Ástæðan ku vera sú, að ef þessi starfsmenn verða gjaldþrota þá mega þeir ekki starfa innan bankageirans.

Sjá: http://eyjan.is/silfuregils/2008/10/30/nokkur-lesendabref-i-vidbot/

Ég spyr: Er eðlilegt að afskrifa lán þessarar stéttar? Er eðlilegt að þeirra lán séu metin hærra en þau lán sem við hin, sem tilheyrum ekki þessari stétt, tókum til kaupa á húsnæði og bílum?

Mér finnst ansi hart, að vita til þess að bankinn ætlar að ganga hart eftir því ég greiði á mínum gjalddögum, lækka jafnvel yfirdráttarheimild mína að mér óspurðum, heimta veð og ég veit ekki hvað og hvað, þegar starfsmenn bankans þurfa ekki að sæta sömu meðferð. 

Hvers vegna eru lán þeirra sem unnu innan bankageirans og hefðu, eðli hlutarins vegna, átt að vita manna best hver áhættan af slíkum lánum og þeim fjárfestingum sem þeim fylgdu, afskrifuð? 

Þetta eru einna helst stjórnendur innan bankakerfisins, skilst mér. Einmitt þeir sem sögðu þjónustufulltrúum og verðbréfamiðlurum innan þeirra banka að ráðleggja viðskiptavinum að kaupa hlutabréf og leggja fé sitt í peningamarkaðssjóði. Af hverju eiga þeir ekki að gjalda fyrir þá áhættu sem þeir tóku? Á meðan eigum við að horfa upp á okkar lán hækka og hækka, afborgarnir hækka í takt við það.

Þetta finnst mér ákaflega óréttlátt og samrýmast engan veginn hugmyndum um jafnrétti og jafnræði.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Þetta er sko hryllingssaga

Ómar Ingi, 31.10.2008 kl. 19:34

2 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Ljótt  ástand hjá ykkur löndum mínum. Óska þér góðrar helgi

Heiður Helgadóttir, 31.10.2008 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband