Undrin við Lönguströnd

Jæja, síðasta færslan í þessari sögu.

 

 

Elsku Sigga mín,

 

þungu fargi er af mér létt. Ég hef komist til botns í þessu. Þvílíkt glópalán!

Við Páll fórum ásamt nokkrum sjóliðum inn á heimili Hermanns og Katrínar. Við byrjuðum á heimili Katrínar og fundum þar lítið. Reyndar hirti Páll það litla sem við fundum sem hægt var að græða á. Það fór verulega í taugarnar á mér að fá ekki tækifæri til að skoða þessa hluti, sér í lagi einkabréfin hennar, áður en hann fór í gegnum þau. Eftir því sem liðið hefur á rannsóknina finnst mér hann hafa dregið úr mér og reynt að breiða yfir ýmislegt sem mér hefur þótt merkilegt.

Hús Hermanns var mun eftirtektarverðara. Þar var allt á rúi og stúi og augljóst að ekki hafði verið hugsað um heimilið í marga daga. Óhreinir diskar og bollar út um allt í eldhúsinu og stofan hálfpartinn á hvolfi, glerbrot út um allt. Ég get ekki lýst því nógu vel, en þar sem ég þekki vel hversu hreinlæti skiptir þig máli þá veit ég að þér hefði þótt viðbjóðslegt að koma þarna inn. Við leituðum í öllu húsinu og Páll heimtaði að ég færi niður í kjallara, en sjálfur ætlaði hann að sjá um efri hæðina og eflaust hugsað sér gott til glóðarinnar, vildi komast í svefnherbergin og leita þar.

Ég fór með semingi niður en bað einn sjóliðann um að hafa auga með honum. Þegar ég kom niður sá ég strax að Hermann hafði haldið sig þar af einhverjum ástæðum, ég skildi ekki af hverju þá. Ég leitaði bæði hátt og lágt þar niðri og fann nokkuð stórmerkilegt. Það voru lausar gólffjalir undir dýnu sem hann hafði komið fyrir undir stiganum. Ég tók þær úr og þar undir lágu margar stílabækur. Svo virðist vera sem Hermann hafi haldið dagbækur. Þær voru að minnsta kosti fimmtán. Ég blaðaði í gegnum þær og fann nýjustu fimm. Hinar lét ég Pál hafa en sagði honum ekki frá þeim nýjustu. Eftir að við höfðum rannsakað restina af húsinu þá héldum hvor okkar leið og eflaust hefur hann hugsað sér jafn gott til glóðarinnar og ég.

Svo virðist vera sem Hermann hafi truflast á geði. Hann sá skugga alls staðar og samkvæmt dagbókunum hefur hann myrt Hólmgeir, bæjarstjóra og loks öll börnin. Ég hitti reyndar Hólmgeir fyrir örfáum dögum, þannig það hefur varla getað verið satt. Hitt er hins vegar staðreynd, að skólinn brann og enginn annar en Hermann kemur nú til greina. Mér sýnist líka, að eflaust hefur það verið hann sem eitt vitnanna heyrði segja innan úr skólahúsinu á meðan það brann: - Þetta getur ekki verið. Þú átt ekki að vera hérna! Þetta er eina vitræna skýringin. Reyndar er margt sem ég hefði viljað skoða betur hér í þorpinu, það kemur svo ótalmargt spánskt fyrir sjónir. Fólkið hér er ekki eins og annars staðar. Mér stendur hreinlega stuggur af því. Enn meira nú eftir að ég er búinn að lesa dagbækur Hermanns. 

Ég lét Pál vita að ég hefði lokið rannsókn minni og væri á leið aftur heim. Guði sé lof, þá kemst ég loksins úr þessu ömurlega þorpi. Skipstjórinn ætlar að leggja í hann strax í kvöld. Ég er því á leiðinni heim. Ég get ekki beðið eftir því að hitta ykkur Bjössa, fá að knúsa þig og kyssa. Mig er farið að dauðlanga til að leika við hann, hlægja með honum og hjálpa honum að taka fyrstu skrefin. Ég hlakka svo til að vera með ykkur ég fæ mig eiginlega ekki hamið.

 

                                       Ástarkveðjur,

                                                   þinn að eilífu,

                                                               Jón Einarsson.

 

 

P.S. Helvítið hann Frikki. Týndi hann svo settinu? Hann skal fá að borga nýtt.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 20.10.2008 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband