1. nóvember
Ég sofnaði í nótt en samt svaf ég ekki vel. Mér finnst eins og augnaráð Skelmis fylgi mér hvert sem ég fer. Er ég lokaði augum var sem ég sæi hann stara á mig með allri þeirri grimmd og græðgi sem honum var unnt. Það var kannski þetta myrka eðli, dýrið sem bjó í honum sem lifir áfram í minningu minni. Ég vildi óska þess ég gæti ýtt þessari tilfinningu frá mér, en það er eins og hluti af honum hafi náð að tóra áfram inni í mér. Ég vona bara, að þetta líði hjá.
Eftir ég hafði drukkið morgunkaffi ákvað ég að fara í göngutúr. Ég ætlaði að kíkja upp í kirkjugarð og fara að legsteinu pabba, hann er reyndar ekki grafinn, þar sem líkið fannst aldrei en séra Tómas vildi að við mamma ættum okkur stað í garðinum eins og aðrar fjölskyldur sem misst höfðu einhvern í hafið. Við létum gera fallegt sjóbarið grjót að legsteini og mamma valdi línu úr ljóði sem ég man ekki lengur hvað heitir. Reyndar var það aðeins yfirskin ferðar minnar, því mig langaði helst til að grafa það eina sem ég átti til minningar um Katrínu í helgri jörð. Ég stakk því rifna kuflinum inn á mig og rölti grunlaus af stað. Um leið og ég kom út þá fannst mér eins og ekkert hefði breyst. Bæjarbúar voru vel flestir risnir úr rekkju að mér sýndist og margir á ferli úti, enda fallegt veður, frost og stilla. Mér fannst eins og allir væru að fylgjast með mér. Ég reyndi eins og ég gat að láta sem ég tæki ekki eftir því, en hvert sem ég fór og hverjum sem ég mætti, þá horfðu allir undarlega á mig. Eins og ég hefði gert þeim eitthvað. Reiðin brann í augum þeirra. Er ég kom upp í kirkjugarð breyttist það. Umhverfis hann er gamalt járngrindverk, sem mér finnst alltaf eins og séu nokkur hundruð spjót sem hefur verið stungið í jörðina. Oddhvassar járnstangirnar eru sumar bognar og illa farnar. Einhvern tíma hefur grindverkið verið málað svart og þeim lit hefur það haldið á flestum stöðum. Inni í garðinum hafði snjór safnast saman milli leiða. Krossar af mismunandi stærðum og gerðum stóðu upp úr sköflum, skakkir og margir hverjir illa farnir og á sumum er ekki lengur hægt að lesa nafn þess er hvílir undir. Flestir legsteinarnir voru á kafi í snjó.
Ég gekk rakleiðis að legsteini pabba. Ég þurfti að hreinsa töluvert af snjó ofan af honum. Síðan settist ég niður og tók laumulega fram kuflinn. Ég leit í kringum til að gæta að hvort nokkur væri að fylgjast með. Þá sá ég hvar Snorri stóð hinu megin við grindverkið næst mér og starði mig. Augu hans voru full af heift, augasteinarnir eins og tveir litlir kolamolar sem brunnu af reiði og þrá til þess að rífa útlimi mína af búknum. Hann rétti upp höndina, á andlit hans kom illilegt glott og hann veifaði mér. Ég tróð kuflinum aftur inn á mig í flýti. Hann var klæddur í rauða úlpu og hárið snyrtilega greitt til hliðar. Ég flúði í ofboði úr garðinum. Hann elti mig og kallaði á eftir mér:
- Hermann kennari, Hermann kennari. Er ekki allt í lagi?
Hann reyndi að hljóma barnalega og græskulaus, en ég fann kaldhæðnina streyma yfir mig úr orðum hans. Ég veit, að hann hefur fundið fyrir því að ég drap Skelmi, það hljóta allir að hafa fundið fyrir því og hann vill ábyggilega koma fram hefndum. Honum skal þó ekki verða að ósk sinni. Ég hljóp við fót heim. Í hvert sinn sem ég leit við var hann fyrir aftan mig, á rólegum gangi en samt aldrei nema um fimm metra frá mér. Hann hefur einhverja yfirnáttúrulega hæfileika. Ég skeytti engu um viðbrögð annarra bæjarbúa, því margir þóttust reka upp stór augu er ég kom hlaupandi niður úr kirkjugarðinum.
- Hermann kennari, ég ætla bara að tala við þig. Er ekki allt í lagi, kallaði Snorri á eftir mér. Ég fann hvernig illkvittnin kraumaði undir og ég þorði varla lengur að líta um öxl. Ég flýtti mér aftur heim. Er ég stóð á tröppunum leit ég eitt augnablik aftur fyrir mig. Snorri stóð við garðhliðið og starði á mig. Brosgretta lék um varir hans. Í augum hans var návera sem ég átti alls ekki von á að finna, eins og eitthvað mun eldra og frumstæðara en ég er. Eins og Skelmir. Ég skellti strax í lás á eftir mér um leið og ég kom inn. Síðan setti ég glas upp á hurðarhúninn og þaut niður í kjallara og faldi mig með öxina hjá mér undir stiganum. Náði ég ekki að drepa Skelmi? Tókst honum með einhverjum hætti að flytja sig yfir í líkama Snorra áður en ég hjó í höfuð hans?
Hvað er þá til ráða? Verð ég að drepa alla til að frelsa heiminn frá þessum djöfulsskap?
---
Guð minn góður!
Þau ætla að éta mig. Þau hljóta hafa komist að því að ég drap Skelmi, eða gerði heiðarlega tilraun til þess. Hann hlýtur að hafa sett þeim það verkefni að gera út af við mig. Þau eru öll á eftir mér og vilja éta hold mitt. Þeim hefur ekki nægt að borða Katrínu, nú vilja þau ná mér.
Ég varð þess áskynja að einhver gekk heim tröðina. Ég greip um öxina og skreið aftur undir stigann, en það var aldrei bankað. Ég beið í hátt í fimmtán mínútur áður en ég fór aftur fram úr fylgsni mínu. Ég hafði ekki heyrt hvort sá sem gekk að húsinu hafi aftur horfið á braut. Mig grunaði því að einhver biði fyrir utan eftir tækifæri til að ráðast á mig. Ég fór varfærnislega upp úr kjallaranum og kíkti fram. Ég sá ekki neinn á ganginum. Ég lagðist á magann og dró mig áfram uns ég sá inn í stofu. Hún var mannlaus. Ég lyfti mér upp á fjóra fætur og flýtti mér yfir að glugganum. Varlega skaut ég höfðinu undir tjöldin og lyfti mér nægilega hátt upp til að sjá yfir gluggakistuna.
Fyrir utan gluggann stóð meira en tugur manns. Snorri var fremstur. Eða var það Skelmir? Öll störðu þau hungruð á mig. Augasteinarnir eins og títuprjónshausar. Blóðþorsti og hungur skein úr þeim. Þau opnuðu munninn og ég sá grilla í mjóa anga. Rúðan virtist svigna inn að mér vegna þrýstings frá fólkinu. Öll vildu þau ná mér. Þau teygðu sig eftir mér. Angarnir skutust úr munnum þeirra. Það small í rúðunni er þeir skullu á henni. Í gegnum gluggann fann ég stækjuna sem stafaði frá þeim. Snorri var með lokaðan munninn. Hann starði bara á mig. Ég reyndi að krafla mig í burtu en var sem lamaður af ótta. Ég fann hvernig augnaráð þeirra reyndi að bora sig inn í huga minn. Þau vildu éta mig, eins og þau átu Katrínu.
Mér tókst að lokum að skríða undan gardínunum. Ég stóð á fætur og ætlaði að hlaupa af stað, en datt um sófaborðið og velti því um koll. Ég hljóðaði upp fyrir mig, því ég átti allt eins von á þau myndu brjótast inn hvað úr hverju. Ég dró mig áfram eftir gólfinu, hálfkjökrandi af ótta, í átt að kjallaradyrunum. Eftir ég náði taki á hurðarhúninum stóð ég á fætur og læsti á eftir mér. Síðan hljóp ég niður brattan stigann og kom mér fyrir undir honum á leynistaðnum mínum. Þá uppgötvaði ég að mér hafði tekist að týna öxinni. Ég teygði mig í verkfærakassann og fann stóran hamar. Ég verð að láta hann duga ef þau skyldu ná að finna mig hér.
Um stund fannst mér ég heyra umgang uppi. Skelmir hefur ábyggilega látið einhvern fara um húsið í leit að mér og dagbókunum mínum. Hann vill eflaust að þær falli ekki í rangar hendur. Hvað get ég svo sem gert við þær? Ég þarf að fela þær einhvern veginn, ef honum tekst að gera mig að marglyttuþræl eru þær það eina sem stendur í vegi fyrir honum. Ætti ég að senda mömmu þær? Ég veit það ekki, þær upplýsingar sem bækurnar hafa að geyma myndu bara íþyngja henni. Ég hef heldur ekki verið nógu duglegur að gera mér ferð yfir heiðina til að heimsækja hana. Svo er það náttúrulega hann Róbert, afabróðir minn, en hann er orðinn svo ær af elli. Hann myndi síst skilja það sem hér stendur. Ég þarf að finna leið.
---
Hvernig gat ég verið svona blindur!?
Það er eitt afl í heiminum sem hreinsar betur en nokkuð annað. Eldur. Allt um lykjandi eldur. Brennandi eldur. Yndislegi eldur. Ég ætla að brenna drengdjöfulinn! Ég ætla að láta tungur eldsins sleikja allt hold af viðbjóðslegum beinum hans. Hitann sprengja augun í tóttunum. Og losa heiminn endanlega við Skelmi.
---
Ég er búinn að ákveða hvernig ég ætla að fara að þessu. Þetta er eina leiðin. Hún er ekki góð en ég verð að fara hana.
Ég ætla að kveikja í skólahúsinu á morgun á meðan kennslunni stendur. Það þýðir að fleiri börn munu deyja, en það er fórnarkostnaður sem ég er tilbúinn að greiða. Ef mér tekst að stöðva Skelmi þá er það ofar öllu. Ég verð að koma í veg fyrir að Skelmi takist að finna sér bólfestu í öðrum líkama. Hann má ekki sleppa. Ég mun líka verða eldinum að bráð, en ég hugga mig við það að síðar meir munu aðrir líta á mig sem hetju. Það er ekkert hér sem heldur í mig. Móðir mín er fyrir mörgum árum komin inn á geðsjúkrahús og hefur hvorki rænu né vit á að hafa samband. Fyrir utan Róbert gamla er hún eini eftirlifandi meðlimur fjölskyldunnar. Bæjarbúar átu konuna sem tók mér eins og ég er, konuna sem fékk hjarta mitt til að slá örar. Hvað er hér sem togar í mig? Ekkert.
Þau munu öll brenna. Ég vona, að foreldrar þeirra finni í hjarta sínu frið til að fyrirgefa mér. Ef þau vissu sannleikann, ef þau væru ekki marglyttuþrælar sjálf þá myndi þau þakka mér og jafnvel aðstoða mig við þetta. Ég held, að þegar Skelmir er allur, þegar mér hefur tekist að drepa helvítið á honum, þá frelsast allir undan áhrifum marglyttanna. Þau hljóta að skilja, að þetta er gert í þeirra þágu. Ég er ekki skúrkur, heldur hetja.
Ég ætla að verða mér úti um eldsneyti og koma fyrir í brúsum hér og þar um skólahúsið. Ég þarf að fara á eftir og negla aftur alla glugga, til að tryggja að enginn sleppi. Ég vil ekki eiga hættu á að Skelmi takist að komast undan. Þegar allir eru sestir í sæti sín, þá læsi ég öllum hurðum og kveiki í. Skólinn skal brenna til grunna.
---
Allt er klárt.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
kvitt
Ómar Ingi, 19.10.2008 kl. 20:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.