31. október
Ég sat undir stiganum í nótt og beið. Það kom samt enginn. Ég veit þó, að þau voru úti, eins og úlfar sem elta uppi bráðina og bíða þess hún misstígi sig. Ég ætla að passa mig á að hleypa þeim ekki nálægt mér. Ef ég geri það, þá er voðinn vís. Þá gæti allt eins farið fyrir mér og Katrínu. Skelmi hefur tekist að koma fjórum fyrir kattarnef, þeim Kolbrúnu og Katrínu auk Hólmgeirs og Öldu. Ég veit ekki hvar þetta allt endar, en ég skal ekki láta hann komast upp með að myrða fleiri. Ég ætla að grípa í taumana, hvernig svo sem ég fer að því.
Hann sendi Pál til að fylgjast með mér í morgun. Í morgun varð ég var við að einhver væri að sniglast í kringum húsið. Ég sá ekki neinn þegar ég kíkti út um kjallaragluggann en það var einhver þar, ég er viss um það. Grunur minn var svo staðfestur þegar ég heyrði að bankað var á útidyrnar. Glasið sem var á hurðarhúninum small í gólfinu og ég greip með mér öxina áður en ég gekk hikandi upp stigann. Í fyrstu hélt ég að þetta væri eitthvað bragð hjá Skelmi, þykjast banka til að draga mig út úr felustaðnum og einhver sæti fyrir mér uppi. Ég fór því að öllu með gát en það var enginn sem beið eftir mér. Eflaust hafa þau ekki þorað að takast á við varnirnar sem ég hef komið upp. Ég hreinsaði glerbrotin frá dyrunum og opnaði litla rifu, þannig ég rétt sá út. Öxinni hélt ég í vinstri hönd og faldi fyrir aftan hurðina, þannig hann sæi hana ekki. Páll stóð kæruleysislega fyrir utan, ekki í lögreglubúninginum heldur í rauðri vinnuskyrtu og bláum buxum. Hann reyndi að líta kæruleysislega út en ég sá í gegnum hann. Vatnsgreitt hárið og grimmdarblikið í augum hans minntu mig samstundis á Snorra og ég vandaði um við mig, að ég væri í raun og veru ekki að tala við æskuvin minn heldur eitthvað mun hræðilegra, veru sem hugsaði ekki um neitt annað en að éta. Ég var fæðan.
- Sæll, Hemmi minn, sagði hann og steig upp í tröppurnar að dyrunum, eins og hann byggist við því ég myndi hleypa honum inn. Þegar hann sá ég ætlaði ekki að opna fyrir honum, kom örlítið hik á hann.
- Ég sá þig ekki í sundi í morgun, bætti hann síðan við hálfvandræðalega.
- Í sundi, spurði ég og reyndi að hljóma undrandi.
- Já, í sundi. Það er búið að opna laugina aftur.
Hvernig datt honum í hug ég vilji synda í þessum viðbjóði? Hélt hann virkilega að ég sæi ekki í gegnum þetta? Seinast þegar ég vissi var vatnsveitan í ólagi en nú er allt í einu allt í stakasta lagi og allir eiga að fara í sund. Ég er nú hræddur um ekki. Ég sá í gegnum þessi bellibrögð hans.
- Ég ákvað bara að sofa út, svaraði ég og reyndi að sjá hvort nokkur væri fyrir aftan hann. Mig var farið að gruna að þetta væri samantekin ráð hjá þeim Skelmi, til að sjá hvort ég væri orðinn einn af þeim. Páll horfði um stund á mig og ég sá hvernig hann dauðlangaði til að opna munninn og hleypa öngunum og þreifiörmunum út til að rífa holdið af beinum mínum.
- Heyrðu, vinur, sagði hann loks og setti upp eins einlægan svip og honum var unnt.
- Katrín kíkti til mín í gærkvöldi og hún hefur áhyggjur af þér. Þú hefur hagað þér frekar undarlega síðustu daga og þú kemur vægast sagt furðulega fyrir. Er ekki allt í lagi? Mér sýnist þú ekki hafa rakað þig svo dögum skiptir og hvað er langt síðan þú fórst í bað?
Ég horfði um stund á Pál. Mig langaði til að segja honum allt saman, en ég vissi sem var að hann myndi bara nota tækifærið til að ráðast á mig. Ég þrengdi því rifuna enn frekar.
- Ég er búinn að vera lasinn, sagði ég og lokaði.
Fara í bað? Hvernig í ósköpunum á ég að fara að því? Vatnsveitan biluð og ekki nenni ég að hita upp það mikinn snjó það myndi duga til að fylla baðkarið mitt. Auk þess treysti ég ekki vatninu, Skelmir gæti allt eins verið búinn að koma því þannig fyrir að marglytturnar berist í gegnum pípulagnirnar inn í hvert hús. Er það furða þó ég þori ekki að skrúfa frá?
Ég þarf að finna leið til stöðva Skelmi.
---
Ég er búinn að ákveða hvað ég ætla að gera. Ég lagðist undir feld niðri í kjallara og reyndi eins og ég gat að finna hvað væri best í stöðunni. Nú efast ég stórlega um að Skelmir vilji láta líkama Hólmgeirs af hendi, þannig það þarf með einhverjum ráðum að neyða hann út. Ég held - og það hryggir mig að segja það - að eini möguleikinn felist í að drepa líkamann. Þar með kemst Skelmir ekki lengra og ég hef stöðvað hann. Það er vissulega ekki góð leið, ég í raun dæmi einn af mínum elstu vinum til dauða en hvað get ég annað gert? Skelmir hefur myrt að minnsta kosti fjórar manneskjur, allt góðvini mína og Guð einn veit hversu margar þær eiga eftir að verða áður en yfir líkur.
Ég ætla að laumast yfir til hans í nótt. Hann verður vonandi einn heima. Ég ætla að taka öxina hans pabba með. Ég vona bara, að ég hafi styrk til þess þegar að hinni mikilvægu stund kemur. Hugsanir mínar munu dvelja hjá Katrínu. Ég mun gera þetta fyrir hana.
Ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis þá vona ég að einhver taki upp þráðinn þar sem ég skyldi við hann. Ég ætla að fela dagbækurnar mínar undir gólfborðunum hér í kjallaranum. Kannski að einhver muni síðar meir finna þær, ef ég fell eða Skelmi tekst að gera mig að marglyttuviðbjóði. Kannski að þeim sama takist síðan að stöðva hann. Ég vona bara, að enginn af þeirra liði finni dagbækurnar og geri sér grein fyrir að ég veit allt saman. Þá er voðinn vís.
---
Guð minn góður! Ég næ varla andanum.
Ég laumaðist út um ellefuleytið. Ég klæddi mig í gamla frakkann enn á ný og var með bæði húfu og vettlinga. Það blés örlítið og skóf úr sköflum. Fyrir utan birtuna frá minnkandi mánanum þá var almyrkt. Svo virtist vera sem allir bæjarbúar væru farnir að sofa. Ég var því feginn, því þá var minni hætta á að einhver tæki eftir för minni. Ég þræddi krákustíga heim að gamla kaupmannshúsinu. Ég reyndi eins og mér var mögulegt að fylgja troðnum slóðum, en þar sem töluvert hefur skafið undanfarnar klukkustundir var það erfitt. Ég verð bara að vona að enginn taki eftir sporunum er ég skildi eftir. Ætli mjöllin setjist ekki í þau líka og hylji áður en nóttin er úti?
Er ég stóð fyrir framan hús Hólmgeirs og Öldu fann ég fyrir undarlegum ótta. Það var almyrkt fyrir utan ljóstýru í einum glugga á efri hæðinni, þar sem skrifstofa Hólmgeirs er. Að öðru leyti grúfðu myrkur og skuggar yfir þetta gamla og, það sem mér fannst eitt sinn, fallega hús. Grýlukerti héngu neðan úr þakskegginu, sum voru á lengd við framhandlegg fullvaxins karlmanns en önnur minni. Öll voru þau beitt og um stund fannst mér eins og þau biðu eftir því ég kæmi nógu nálægt, svo þau gætu fallið á mig, klofið hauskúpu mína. Vindurinn söng í mæninum og sendi þunnar fannarslæður ofan af þakinu. Ég opnaði hliðið og skaust inn í garðinn. Þar reyndi ég að halda mig í skugga hússins - en samt ekki of nálægt þar til ég kom að bakdyrunum. Þær voru ólæstar.
Ég opnaði dyrnar ofurvarlega. Ég reyndi eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að nokkur hávaði myndaðist. Þvottahúsið var myrkvað, líkt og flest herbergi hússins, en þar var nokkuð súr lykt. Stafli af óhreinum fötum var í einu horninu og mér var ljóst að enginn hafði sinnt þvottinum í þó nokkurn tíma. Ég hallaði á eftir mér og klæddi mig úr skónum. Ég fór í ullarsokka áður en ég lagði af stað, til að tryggja ég gæti gengið um hús Hólmgeirs eins hljóðlaust og unnt var, því ég vildi koma Skelmi að óvörum. Inni í eldhúsi var allt á rúi og stúi, leirtau lá eins og hráviði í vaskinum og óhreinir kaffibollar út um allt. Ég flýtti mér í gegn og inn á ganginn sem lá á milli stofunnar, eldhússins og anddyrisins. Það var þykkt teppi á gólfum sem dró enn frekar úr því litla sem heyrðist frá fótataki mínu. Mér kom hins vegar á óvart að finna hve rakt var inni í húsinu. Yfir öllu var einhver drungi, þung saggalykt og ég fann fljótlega að ég var orðinn votur í fæturna. Ég beygði mig niður og þreifaði á gólfteppinu. Það var rennandi blaut. Ég leit í kringum mig og tók þá eftir að veggfóðrið var bólgið, eins og það hefði orðið fyrir skemmdum vegna vatns. Breytingarnar síðan ég var þar síðast voru ótrúlegar, ábyggilega því að kenna að Skelmir var að ná betri tökum á líkamanum og gat þar af leiðandi leyft sér að breyta heimilinu, gera það líkara þeim viðbjóði sem hann vill að viðgangist hér. Ég ákvað að eyða ekki tíma í þetta, heldur halda áfram ótrauður ætlunarverki mínu.
Ég fikraði mig upp stigann. Lyktin á efri hæðinni var mun verri. Hún minnti mig um margt á óþefinn sem fylgdi marglyttunum, þegar þær lágu rotnandi á baðströndinni. Upp í hugann kom mynd af þeim er öldurnar báru þessi viðbjóðslegu dýr á land. Ég tók öxina upp úr frakkavasanum og gerði mig kláran. Er ég kom upp varð ég var við mannamál. Ég staldraði við og lagði við hlustir.
- gerðu það, Alda mín, snúðu nú aftur heim. Leggjum þetta mál til hliðar. Þú veist hversu leitt mér þykir þetta allt saman. Það eina sem ég þrái er að þú komir aftur, ég er ónýtur án þín, sagði Skelmir með rödd Hólmgeirs. Það var greinilegt hann vissi af mér og hefur eflaust ætlað að slá ryki í augu mín. Ég lét hann þó ekki blekkja mig, þetta var aum leið. Alda er fyrir löngu síðan látin, það stóð í bréfinu sem Hólmgeir sendi mér áður en hann þurfti að gefa eftir líkama sinn.
Það virtist enginn annar vera inni í skrifstofunni með Skelmi. Dyrnar stóðu opnar í hálfa gátt. Ég hætti á að kíkja inn. Hann sat í háum skrifborðsstól úr leðri og sneri baki í mig. Mér sýndist hann vera einn. Hann hélt á símtóli í vinstri hendinni. Hárið var ógreitt.
- Já, elskan mín, það er alveg rétt. Auðvitað særði ég þig og ég sé svo óendanlega eftir því. Ég vildi óska þess ég gæti tekið það allt saman tilbaka, en það er víst ómögulegt. Það eina sem ég get gert er að biðja þig afsökunar aftur og aftur, sagði hann. Ég lét það samt ekki stöðva mig. Hann var sniðugur og lúmskur eins og refur, en ég vissi betur. Ég læddist aftan að honum.
- Nei, það hef ég ekki gert. Ég er bara búinn að vera ónýtur maður síðan þú fórst. Hef varla getað hugsað um neitt nema þig. Páll kom hérna í morgun ásamt vísindamanninum, þeir voru að fara yfir niðurstöður Hannesar annars vegar og hvernig gengi að hreinsa ströndina hins vegar en ég gat ekki einbeitt mér að því. Alda, ég hef varla sofið dúr síðan þú fórst, það er vart hægt að segja ég hafi borðað nokkuð. Þú verður að koma aftur. Ég er ekkert ef þú ert ekki hér, sagði hann í símann um leið og ég kom mér vel fyrir með öxina á lofti fyrir aftan hann. Ég kippti í stólinn og sneri honum í hálfhring. Skelmi virtist brugðið.
- Hvað, sagði hann og starði á mig. Hann lék þetta vel en ég sá í gegnum hann.
Augnaráð hans var það sem sveik hann. Augasteinarnir voru pínulitlir og boruðu sig í gegnum sálu mína. Mér fannst eins og ég hyrfi aftur undan þeim ógnarkrafti sem í augum hans bjó. Eins og eitthvað mun eldra og frumstæðara byggi í þeim og neyddi mig til hlýðni. Augun voru heiðblá og minntu mig á hafið, stormasamt og villt, það var sem vitund mín sogaðist ofan í djúpið sem í þeim bjó. Ekkert nema ég og hafið allt um kring. Yfir mig helltist tilfinning um ég væri að drukkna og andardráttur minn varð ör. Ég herti tak mitt á öxinni. Þar var líka einhver skepna, skelfileg og blóðþyrst, samt einhvern veginn hamin eða króuð af og reiðin sauð í henni.
- Hólmgeir, sagði kvenmannsrödd í símanum. Eflaust einhver af marglyttuþrælunum sem Skelmir hefur fengið til að leika á móti sér.
Hann sat og starði á mig. Grimmdin og harkan í augnaráði hans var mér næstum um megn. Skelmir var að reyna beygja vilja minn undir sig. Upp í hugann skaut minningunni frá því í gærnótt, er hann lét bæjarbúa borða hana Katrínu mína. Mér fannst ég geta heyrt í henni tala til mín.
- Gerðu það fyrir mig. Dreptu hann. Gerðu það fyrir mig.
- Hólmgeir, ertu þarna, spurði kvenmannsröddin undrandi í símanum. Ég get ekki annað en viðurkennt að þetta var úthugsað hjá Skelmi. Hann hefur átt von á því ég myndi koma. Hins vegar misreiknaði hann sig í því hann myndi ná tökum á mér. Ég reiddi öxina til höggs. Þá var eins og hann gerði sér loks grein fyrir að hann hefði gert mistök. Hann sleppti símtólinu og reyndi að bera hendurnar fyrir sig. Enn ómaði rödd Katrínar í höfði mínu.
- Dreptu hann. Hann á það skilið. Dreptu hann.
Ég lét höggið falla.
Öxin stóð á kafi í höfðinu á Skelmi.
- Hólmgeir, var kallað í símtólinu.
Skelmir sat og starði á mig. Augnaráð hans var enn sem fyrr. Ég hörfaði aftur tvö skref. Vessi lak úr sárinu. Það var ekki blóð, heldur ljós næstum glær vökvi. Hann hrundi úr stólnum. Símtólið féll á gólfið. Ég tók það upp og lagði á. Síðan kippti ég öxinni úr undinni. Um leið var eins og marglytta læki út. Hún lá í teppinu um stund. Ég steig ofan á hana. Hún sprakk og rann saman við teppið. Líkami Hólmgeirs virtist dragast allur saman. Ég ákvað að flýta mér út. Ég stakk öxinni í vasann og fór sömu leið tilbaka.
Ég hef hefnt þín, Katrín. Ég er búinn að ná fram réttlætinu. Þetta hlýtur að stoppa núna. Skelmir er dauður. Þá hljóta marglytturnar að fara, ef enginn er lengur til að stjórna þeim.
Nú ætla ég að fara að sofa. Í fyrsta skipti í marga daga mun ég sofna rólegur.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Ómar Ingi, 17.10.2008 kl. 20:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.