Undrin við Lönguströnd

30. október

 

Það hefur verið brotist inn hjá mér í nótt á meðan ég svaf! Þegar ég kom niður í morgun stóð hvít plastfata við eldhúsvaskinn. Mér krossbrá þegar ég sá hana. Ég hljóp um allt húsið og skoðaði hvort nokkuð væri horfið. Allt var á sínum stað, meira að segja dagbækurnar mínar lágu ósnertar á skrifborðinu mínu. Ég klæddi mig í og athugaði hvor nokkur ummerki væru í snjónum fyrir utan. Úti var töluverður kuldi og frostmistur hefur stigið upp af haffletinum og vafið þorpið í kaldar krumlur sínar. Ég hneppti að mér, dró húfuna sem ég var með á kollinum niður fyrir eyrun og leit í kringum mig. Það eina sem stakk í stúf voru lítil skref sem lágu aftur fyrir hús. Ég gerði því ráð fyrir að sá sem braust hér inn hafi farið inn um bakdyrnar. Ég fór því aftur inn og athugaði þær, en dyrnar voru harðlæstar.

Mig grunar sterklega að Skelmir hafi sent einhvern af krökkunum hingað með fötu með marglyttum handa mér. Hann hlýtur að vita að ég er búinn að sjá í gegnum allt saman. Ég veit hvað hann ætlar sér. Ég skal verða honum þyrnir í augum, ég mun aldrei drekka vatn mengað með þessum ógeðslegu verum. Þær skulu ekki fá að taka yfir líkama minn, líkt og hann hefur látið þær gera með aðra sem hér búa. Ég skil bara ekki hvers vegna fólk sér ekki í gegnum þetta. Aðrir íbúar þorpsins hljóta að spyrja sig hvers vegna vatn er borið í hús þegar allt er á kafi í snjó, ég trúi ekki öðru. Kannski ætti ég að reyna koma vitinu fyrir þeim.

Jæja, ég verð að drífa mig til vinnu. Ég vil ekki að Snorri eða þau hin beri þær fréttir í Skelmi ég mæti ekki í skólann. Ég má ekki láta á neinu bera. Kannski ef mér tekst að láta sem ekkert sé, heldur hann ég hafi drukkið vatnið og ég sé einn af þeim. Æ, hvað get ég gert? Hvað á ég að gera?

 

---

 

Guð minn góður! Hvað er að gerast? Er ég einn eftir? Sá eini sem eftir stendur?

Á leiðinni í skólann sá ég hvar fötur stóðu við flest hús. Þar sem ég gekk niður götuna mína tók ég eftir öðrum íbúum opna dyrnar og ná í þær. Til dæmis stóð Kári á náttslopp í dyragætt er ég átti leið framhjá og beygði sig eftir sinni fötu, um leið og hann sá mig brosti hann kumpánlega til mín í gegnum skeggbroddanna og hrósaði mér fyrir hversu vel nemendur mínir væru uppaldir og duglegir.

- Ég ímynda mér að þú eigir ekki litla sök á hversu fórnfúsir krakkarnir eru. Að vakna eldsnemma og bera vatn í hvert hús í þorpinu, sagði hann rámri röddu. Ég var svo gáttaður á þessum ummælum ég stóð orðlaus og starði á hóteleigandann. Hann blikkaði mig með öðru auga og lokaði síðan að sér. Ég var sem steini lostinn. Hvernig gat honum dottið í hug ég ætti einhvern þátt í þessu?

Ég reyndi að ýta öllum þessum hugsunum frá mér og halda áfram. Ég ætlaði að koma við hjá Katrínu og vara hana við, síst af öllu vildi ég að hún drykki mengaða vatnið.  Eftir stutta göngu sá ég hvar Gunnar læknir stóð í dyrunum heima hjá sér, klæddur rauðri húfu og með skræpóttan trefil. Ég ætlaði að heilsa honum, en sá þá hvar hann hélt á vatnsglasi. Hann bar það upp að vörum sér. Ég öskraði til hans, hann leit á mig en drakk úr því. Hann lyfti upp hendinni og veifaði til mín. Ég hljóp af stað og þaut í einu hendingskasti sem leið lá til Katrínar.

Mér fannst sem kuldamistrið væri örlítið þéttara við húsið hennar. Hún á reyndar heima örlítið neðar í þorpinu en ég. Litla gula húsið hennar stóð eins og frosinn skuggi neðst í götunni. Það heyrðist lágt ískur í garðhliðinu er ég opnaði það. Það stóð engin fata við útidyrnar hjá henni. Ég fikraði mig að húsinu. Það brakaði í mjöllinni undir fótum mér, mér fannst sem hljóðið ætlaði að æra mig. Er ég kom að dyrunum sá ég inn um eldhúsgluggann. Þar stóð rauð fata á borðinu og tómt vatnsglas við hlið hennar. Ég greip fyrir munninn til að koma í veg fyrir ég hljóðaði upp fyrir mig. Um leið opnuðust dyrnar. Katrín starði gáttuð á mig.

- Er ekki allt í lagi, Hermann minn? Þú ert náfölur, eins og þú hafir séð draug, sagði hún og rétti út aðra höndina til að snerta mig. Ég skaust undan. Henni virtist bregða við það.

- Drakkstu það? Drakkstu vatnið, spurði ég.  

- Já, svaraði hún og virtist ekki um sel.

- Guð minn eini, sagði ég. Hún horfði á mig um stund hugsi. Síðan svaraði hún ákveðið:

- Veistu, Hermann, ef þú ert að reyna að hræða mig, þá hefur það tekist. Mér er alls ekki um hvernig þú ert orðinn eða hvernig þú hefur hagað þér undanfarið. Þú ert alls ekki með sjálfum þér. Sjáðu útganginn á þér. Hvað er langt síðan þú rakaðir þig síðast eða greiddir þér almennilega? Mér líst alls ekkert á þessa breytingu. Þú ættir að fara hugsa þinn gang.

Síðan strunsaði hún framhjá mér og þrammaði sem leið lá niður í skóla, án þess svo mikið sem líta við. Ég stóð stjarfur eftir. Hvað gat ég sagt? Átti ég að segja henni sem var? Að Skelmir væri búinn að menga fyrir þorpsbúum og þar á meðal henni? Að marglytturnar væru gæddar einhvers konar ofurhæfileikum, gætu runnið saman við aðrar lifandi verur? Þær væru einhvers konar sníkjudýr sem breyttu persónuleika þeirra sem þær runnu saman við? Hver myndi trúa mér? Jafnvel nú, þegar ég sit hér einn inni í skáp, trúi ég varla sjálfur þessu. Sá raunveruleiki sem ég hef uppgötvað er svo miklu stærri og myrkari en sá sem ég hélt og trúði að væri sá hinn sanni.

Ég gekk í vinnuna líkt og uppvakningur. Tilfinningar mínar og hugsanir hurfu ofan í eitthvað svarthol og líkami minn hélt áfram með vanaföstum en tilgangslausum hreyfingum. Jafnvel í skólastofunni var eins og ég væri á sjálfstýringu, mér leið sem ég væri nokkurs konar tilbúningur og gengi fyrir vélbúnaði. Það var ekki fyrr en Snorri tók til máls, að ég kom aftur til sjálfs mín. Hann sat, sem fyrr, út við gluggann og starði annars hugar út. Síðan hóf hann upp raust sína. Röddin var hrjúf og köld.

- Heyrið hvernig hún kallar. Heyrið hvernig hún kallar. Heyrið hvernig hún kallar okkur til sín.

Krakkarnir litu við og störðu í sömu átt og hann. Í augum þeirra var sama fjarræna blikið og ég hafði svo oft séð í augum hans undanfarna daga. Þá leit Snorri á mig og örfá sekúndubrot fannst mér andlit hans breytast. Glottið og grimmdarlegt augnaráðið hvarf og í stað þeirra kom eitthvað búlduleitara, glitrandi og miklu, svo miklu eldra. Ég fann græðgina og hungrið stafa frá því. Skelkaður féll ég nokkur skref aftur.

- Skólinn er búinn í dag, þið megið fara, flýtti ég mér að segja og hljóp út úr stofunni. Að örfáum mínútum liðnum var ég kominn heim. Ég greip dagbækurnar mínar og faldi mig hér inni í fataskápnum mínum. Þau munu ekki ná mér. Ég skal aldrei verða eins og þau. Ég þarf bara að finna leið til að komast héðan, - til að stoppa þau. Stoppa Snorra. Stoppa Skelmi. Það verður einhver að gera. Er ég sá eini sem er með einhverju viti hérna?

 

---

 

Ég er búinn að snúa á þau. Ég útbjó rúmið með þeim hætti að það virðist sem einhver liggi þar. Síðan fór ég með nokkur teppi niður í kjallara ásamt dýnu úr rúminu í gestaherberginu og kom mér fyrir undir stiganum. Ég er einnig búinn að leggja glös ofan á hurðarhúna beggja útidyranna. Þeim skal ekki takast að ná mér líka. Ég mun fyrr deyja en að láta svona marglyttu taka yfir líkama minn. Ég ætla að vaka í nótt, ég er með öxina úr gamla verkfærasettinu hans pabba hér við höndina. Hver sá sem ætlar að brjótast hingað inn þarf að mæta mér.

Það er samt eitt sem ég skil ekki. Hvers vegna? Hvað fær Skelmi til að vilja gera þorpsbúum þetta? Hvers vegna vill hann að allir verði að svona marglyttufólki? Ég þarf að komast að því. Einhverjar ástæður hljóta að liggja þarna að baki, eitthvað sem ég hef ekki ennþá séð eða skilið. Hvað er það sem skeður þegar marglytta rennur saman við manneskju? Ég hef séð hvaða breytingar verða á fasi fólks, en ég hef ekki hugmynd um hvað gengur á í kollinum á því. Ætli allir breytist í marglyttur, grimmari en maður getur nokkurn tíma ímyndað sér? Ég veit það hreinlega ekki, ég get ábyggilega engan veginn gert mér í hugarlund hvað vakir fyrir Skelmi. Kannski að …

 

---

 

Ég drep hann! Ég mun murka úr honum líftóruna. Ég skal drepa helvítið á honum. Djöfull skal ég rífa úr honum kolsvart hjartað og leyfa honum að sjá hvernig lífið fjarar úr því.

Áðan heyrði ég hvernig einhver rjátlaði við hurðina, því annað glasið small í gólfinu og fór í þúsund mola. Ég spratt á fætur með öxina í hendinni og hljóp upp stigann. Einhver hafði reynt að opna útidyrnar. Ég fór mér í engu óðslega og passaði mig á því að kveikja engin ljós. Ég fór á fjóra fætur og skreið inn í stofu. Ég þurfti að passa mig á glerbrotunum, en það var frekar dimmt og ég fékk eitt í höndina. Ég þurfti að bíta á jaxlinn til að hljóða ekki upp, því ég vildi ekki að neinn vissi ég væri heima. Er ég kom að stofuglugganum reyndi ég að færa þykkar gardínurnar örlítið frá eins varlega og mér var unnt. Ég smokraði höfðinu undir tjöldin og rétt kíkti upp fyrir gluggakistuna.

Fyrir utan streymdi fólk úr húsum, misjafnlega vel klætt. Sumir voru klæddir í þykk vetrarklæði, aðrir voru á náttfötunum. Það skipti engum togum hvert ég leit, nær alls staðar voru dyr opnar og íbúar þorpsins gengu, að mér virtist, svefndrukknir niður götuna. Það virtist enginn vera í garðinum hjá mér eða yfirhöfuð gefa mér nokkurn gaum. Ég lét mig falla aftur á gólfið. Ég vissi ekkert hvað var að gerast í þorpinu, en ákvað að kanna það frekar. Það hefði ég betur látið ógert.

Ég fann gamla frakkann og klæddi mig í hann. Ég stakk exinni í annan vasann, lét á mig ullarhúfu og læddist út um bakdyrnar, eftir að hafa gengið úr skugga um það væri enginn í bakgarðinum að fylgjast með mér. Um leið og ský sigldi fyrir mánann skaust ég út og hélt mig í skugga hússins. Það blés örlítið og snjóföl fauk á milli húsa, eins og hvít lök á þvottasnúrum að sumri til. Það var þó lítið annað sem minnti mig á sumar. Ég fann fljótlega að ég hefði átt að fara í vettlinga, en ákvað að halda áfram í stað þess að snúa við. Íbúar þorpsins liðu áfram, eins og draugar í gegnum vegg, þeir virtust ekki taka eftir mér, heldur héldu áfram af draumkenndum vana niður götuna og út að baðströndinni. Illur grunur fór að læðast að mér. Ég greip í þann sem gekk mér næst og reyndi að ná til hans. Því miður skipti engu máli hvað ég gerði eða sagði, allir voru sem dáleiddir og drógust að ströndinni. Ég stoppaði og fylgdist með bæjarbúum staulast síðasta spölinn. Þegar sá síðasti hvarf yfir steinkambinn ákvað ég að koma mér fyrir þannig ég gæti horft yfir samkunduna.

Ég fékk ekki betur séð en á ströndinni væru vel flestir bæjarbúar samankomnir. Þau stóðu í hálfhring og opnaðist hringurinn að hafinu. Í honum miðjum stóð Skelmir í líki Hólmgeirs og var að tala. Ég heyrði reyndar ekki hvað hann sagði en af og til svaraði hópurinn á tungumáli sem ég hef aldrei heyrt áður og vona ég þurfi aldrei að heyra aftur. Að stuttri stund liðinni tóku þau að syngja sama söng og ég heyrði krakkana kyrja fyrir tveimur dögum. Allir sem einn vögguðu til og frá. Minnugur hvað gerðist síðast leit ég í ótta út á svartan hafflötinn. Þá dró fyrir tunglsljósið og um stund varnaði næturmyrkrið sýn. Ég sá rétt niður að hópnum þar sem hann stóð og söng.

Þegar birtan jókst á ný stóð Skelmir ásamt Snorra í miðjum hringnum. Á milli þeirra var einhver manneskja klædd í svartan kufl með mikla hettu yfir höfðinu. Hún var á hæð við Skelmi, kannski ívið minni. Ég reyndi að skríða örlítið nær en það var erfitt að finna stað þar sem ég sá vel yfir. Skelmir hóf upp raust sína og söng eitthvað á þessu hræðilega tungumáli sem þau virtust öll kunna. Síðan kippti hann hettunni ofan. Þetta var Katrín! Ég var sem lamaður af ótta. Hún hreyfði hvorki legg né lið. Starði fram fyrir sig eins og hún væri uppstoppuð. Á sama augnabliki tóku öldurnar að bera fjöldann allan af marglyttum á land. Upp úr sjónum reis mikill griparmur. Bæjarbúar þrengdu hringinn um Katrínu og voru vel flestir mjög nálægt henni. Skelmir lyfti báðum höndum upp til himins, sem væri hann í einhvers konar tilbeiðslu. Griparmurinn teygði sig að Katrínu. Ég starði á í hljóðlausri skelfingu. Hvað gat ég gert? Hann vafðist um hana. Það fóru kippir um líkama hennar. Þá var eins og hún kæmist til sjálfrar sín. Hún leit í kringum sig. Griparmurinn tók um höfuð hennar. Skelmir reif kuflinn og kippti honum af henni. Hún stóð nakin fyrir framan bæjarbúa.

Ég stóð á fætur og tók öxina úr vasanum. Bæjarbúar opnuðu munninn hver á fætur öðrum. Út komu þreifiarmar og angar. Hver þeirra vafðist um útlimi Katrínar. Hún reyndi að berjast um en fjöldinn var of mikill. Ég reyndi að hrópa en þau virtust ekki heyra í mér. Síðan hvarf hún ofan í mannhafið. Ég greip fyrir munninn í hryllingi þegar ég gerði mér grein fyrir hvað þau voru að gera. Mér fannst allt hringsnúast í hausnum á mér og ég þurfti að leggjast niður. Ég hlýt að hafa sofnað  eða fallið í yfirlið því þegar ég rankaði aftur við mér voru allir horfnir á bak og burt. Það var eitthvað sem togaði mig niður á ströndina. Það voru engin ummerki að sjá, hvorki tangur né tetur eftir af marglyttunum. Hvert sem ég leit, þá var eins og enginn hefði komið þangað í þó nokkurn tíma. Ég leitaði eftir sporum en fann engin önnur en mín eigin. Ég var því farinn að halda mig hefði dreymt þetta allt saman, gengið þangað niður eftir í svefni kannski. Á leið minni aftur heim fann ég hins vegar svolítið sem sannar að það sem ég sá var raunverulegt. Ég fann rifinn, svartan kufl hálfur á kafi í snjóskafli í bakgarði rétt hjá ströndinni.

Ég veit ekki hvernig Skelmir fór að því að afmá öll ummerki en hann skal ekki fá að njóta þessarar ánægju lengi. Ég mun drepa hann og koma í veg fyrir honum takist ætlunarverk sitt, hvert svo sem það er. Spurningin er bara hvernig. Læt það bíða til morguns. Nú þarf ég að vaka og tryggja þeim takist ekki að gera mig að marglyttuþræl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

kvitt

Ómar Ingi, 16.10.2008 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband