Undrin við Lönguströnd

Elsku Sigga,

 

ég veit ekki hvað það er en ég þoli ekki þennan stað öllu lengur. Þetta þorp, fólkið sem býr hér, umhverfið, allt saman hefur slík áhrif á mig ég fæ vart lagt augun aftur og slakað á. Það er ekkert eitt sem ég get bent á, heldur samspil alls þessa – samspil sem minnir mig umfram allt á endalausan jarðarfaramars.

Í dag áttum við að rannsaka hús kennaranna, en Páll tók það ekki mál. Hann var búinn að samþykja dagskrána fyrir þó nokkru síðan en dró í land í morgun.  Mig langaði einna helst til að kyrkja hann, enda setti þetta allt úr skorðum. Ég hefði eflaust látið það eftir mér, ef ég hefði nokkra löngun í að snerta slepjulega húð hans. Hann starði á mig sigri hrósandi og glotti. Mér finnst hann hreint út sagt ömurleg persóna. Þess í stað fór ég ásamt sjóliðunum aftur í skólahúsið og unnum þar þangað til að myrkur skall á.

Við ákváðum að borða á kaffihúsi þorpsins í stað þess í matsal varðskipsins. Um leið og við gengum inn sló þögn á gesti staðarins. Þau störðu á okkur, ég lýg því ekki en það fór hressilega um mig. Öll þessi augu, ögn útstæð og sum pínu tileygð. Okkur hefur orðið tíðrætt um þetta útlitseinkenni þorpsbúa hér um borð. Fæstir kunna á því aðrar skýringar en að hér hafi í gegnum tíðina verið of mikill skyldleiki meðal fólks. Við reyndum að láta fjandsamlega þögnina inni á kaffihúsinu ekki hafa áhrif á okkur, létum sem ekkert væri og spjölluðum saman yfir matardiskunum. Á leiðinni heim vorum við hins vegar flestir sammála um, að því fyrr sem þessari rannsókn lyki, því betra.

Er Bjössi eitthvað að koma til? Mér varð einmitt hugsað til síðasta sumars er ég las bréfið frá þér. Þegar við vorum úti í ey, manstu? Ég hélt ég yrði ekki eldri ég hló svo mikið. Hann hnerraði svo hryllilega hlægilega en samt af miklum krafti þrátt fyrir að vera bara pínulítill. Æ, mér leiðist svo að vera frá ykkur. Ég vildi óska þess ég lægi núna við hlið þér í rúminu okkar, í stað þess að húka í þessari óþægilegu koju og reyna að hripa eitthvað niður.

Mamma sendi mér örfáar línur fyrir skemmstu. Ég hafði ekki hugmynd um að Sissa og Haffi ættu í einhverjum vandræðum. Er allt upp í háaloft? Það væri synd ef þau myndu skilja. Hvernig það færi með strákana, ég er ekki viss um það myndi leggjast vel í þá. Þeir eru svo ungir. Ég vona, að þau finni einhverja leið út úr þessu.

Jæja, ég ætla að fara slökkva ljósið og reyna sofna. Ég sakna ykkar og hugsa til ykkar á hverjum degi. Knúsaðu Bjössa frá mér. Ég vildi ég gæti tekið utan um þig og kysst þig, en þú verður bara að loka augum og ímynda þér ég sé þarna hjá þér.

 

                           Ástarkveðjur,

                                       þinn Jón Einarsson

 

 

PS. Værirðu til í að ganga svolítið eftir honum? Þú veist alveg hvernig Frikki er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 15.10.2008 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband