29. október
Ég lá andvaka langt fram eftir nóttu. Öðru hvoru skaust ég fram úr rúminu og laumaðist til að líta út um gluggann, en ég kom ekki auga á neinn fyrir utan. Ætli Skelmir sé hættur að láta fylgjast með mér? Kannski að atburðurinn í nótt hafi verið fyrir tilstilli hans. Að ætlunarverki hans sé formlega lokið. Samt finnst mér það ótrúverðug skýring. Ég fæ nefnilega ekki alveg séð hvernig þetta tvennt tengist, nema það sem Hólmgeir nefndi í bréfinu.
Eftir stuttan morgunverð klæddi ég mig og lagði síðan af stað til vinnu minnar. Katrínu hafði ég lofað að fylgja í skólann, þannig ég gekk sem leið lá til hennar. Ég var nokkuð snemma á ferðinni og því ekki margir á ferli, fyrir utan trillukarlana sem voru komnir á fætur langt á undan mér. Veður var stillt og himinn gott sem heiður, en fremur kalt. Það brakaði í snjónum undan fótum mér er ég gekk niður strætin, að öðru leyti var eiginlega þögn. Þar sem ég rölti einn með sjálfum mér fannst mér eins og allt sem hefur gerst undanfarna daga svo fjarlægt og óraunverulegt. Þorpið er einhvern veginn að komast í eðlilegt horf, orðið sjálfu sér líkt aftur.
Á sömu stund og ég átti leið framhjá gamla kaupmannshúsinu steig dr. Hannes út um útidyrnar, mér til mikillar undrunar. Hann var klæddur í hvítan slopp og með gleraugun á nefinu. Hann brosti alúðlega er hann tók eftir mér, þar sem ég stóð steinhissa á miðri götunni.
- Sæll, Hermann. Mikið ert þú snemma á fótum, sagði hann og sló kumpánlega á öxl mína. Ég starði gáttaður á hann um stund.
- Hvað í ósköpunum ertu að gera hér? Hvar hefur þú haldið þig undanfarna daga, spurði ég og viðurkenni fúslega, að mér hitnaði nokkuð í hamsi. Ég hef litið við hjá honum nokkrum sinnum eftir hann lét sig hverfa án þess að tala við kóng eða prest. Ég hef meira að segja beðið Pál um að líta eftir honum. Páll tók hins vegar fálega í það, eins og svo margt annað sem ég hef beðið hann um undanfarið.
- Alveg rólegur, vinur minn, á þessu eru röklegar og góðar skýringar. Hins vegar er hér hvorki staður né stund til að ræða það, sagði hann og horfði stíft í augu mér, eins og hann vildi segja mér eitthvað sérstakt en gæti það ekki þarna. Ég kinkaði kolli. Auðvitað var þetta rétt hjá honum, það er ýmislegt sem er betra að ræða undir fjögur augu, eins og til dæmis atburði næturinnar. Ef einhver gæti hugsanlega fundið út úr þeim haldbærar útskýringar þá er það hann, hugsaði ég með sjálfum mér um leið og ég kvaddi hann.
Skömmu síðar stóð ég fyrir utan hjá Katrínu. Út um opinn eldhúsgluggann heyrði ég hana bölsótast yfir einhverju. Án þess að banka gekk ég inn og fann hana við eldhúsvaskinn.
- Er ekki allt í lagi, spurði ég. Hún hrökk við, greip fyrir brjóstið og leit hvelft aftur fyrir sig, sem ætti hún von á að sjá einhvern djöful í dyragættinni.
- Guð minn eini, Hermann, þú mátt ekki gera mér svona bylt við, svaraði hún og gaf mér koss á vangann.
- Nei, veistu, ég skil þetta ekki. Þegar ég kom niður þá var fínn kraftur á vatninu, en núna lekur varla úr krananum. Gæturðu kannski athugað þetta fyrir mig, bætti hún síðan við. Ég er nú lítt handlaginn maður en get alveg bjargað mér með þá hluti sem bila á mínu heimili, svona oftast nær allavega. Ég opnaði skápinn undir vaskinum og athugaði hvort ekki væru öll rör í lagi, hvort nokkur leki væri en sá ekki neitt sem gæti hugsanlega verið bilað. Eftir um tíu mínútur ákváðum við að láta þetta eiga sig, fá einhvern sem hefur meira vit á pípulögnum en ég til að skoða þetta.
Er við komum í skólann tók ég strax eftir að Snorri, Bergdís, Þórarinn og örfáir aðrir nemendur voru ekki mættir. Ég ákvað vera ekkert að bíða þeirra, heldur hóf kennsluna þó svo stofan væri hálftóm. Hinir nemendurnir litu undrandi í kringum sig og skildu ekki almennilega hvers vegna þau voru ekki mætt og sjálfir kunni ég engar útskýringar á því. Það var ekki fyrr en eftir frímínútur að þau skiluðu sér í skólann. Ég fylgdist með þeim er þau komu gangandi í einum hnapp inn skólahliðið, Snorri og Þórarinn fremstir. Án þess svo mikið sem að biðjast afsökunar á fjarvistinni flýttu þau sér hvert til síns sætis þegar bjallan glumdi. Ég reyndi að krefjast svara en þau litu undan á Snorra, sem starði fjarrænn á svip út um gluggann yfir fjörðinn. Ég ákvað að láta þetta niður falla, minnugur atviksins síðustu nótt. Mér leikur meiri hugur á að fá skýringu á því en hvers vegna þessir nemendur mættu of seint.
Ég kom því bekknum af stað í stafsetningu en settist sjálfur niður til að fara yfir verkefnabækur. Í raun var það bara yfirskin, því öðru hvoru gjóaði ég augum þangað sem Snorri sat. Hann vann ekki neitt, heldur starði einbeittur út um gluggann. Munnvik hans voru örlítið beygð upp á við, sem gerði það að verkum mér sýndist hann glotta laumulega yfir einhverju. Hvað ég gæfi ekki fyrir að komast inn undir skelina hjá honum og öðlast stundarsýn á hvaða hugsanir svífa um í kolli hans. Það er eitthvað við þetta snyrtilega yfirbragð sem er ekki í lagi, eitthvað sem ég sé ekki og átta mig ekki alveg á. Nú á ég ekki við þá einföldu staðreynd að hann gjörbreyttist á einni nóttu, heldur útlit og yfirbragð hans í heild sinni. Það er hvernig hann brosir til mín, hvernig hann horfir á mig og hvernig hann lætur eins og sá sem valdið hefur. Hvað það er hins vegar sem fær hann til að vera svona, veit ég ekki hvað er.
Ég kláraði að fara yfir stafsetningaræfingar krakkanna, kastaði kveðju á Katrínu og hélt síðan til dr. Hannesar. Hann hafði verið mér ofarlega í huga í allan morgun. Þær voru ófáar spurningarnar sem ég hafði tilbúnar handa honum og þyrsti í svör. Ég tróð snjóinn á milli húsa til að fara stystu leið að lögreglustöðinni, það hefði ég betur látið ógert því minnstu munaði ég fengi í höfuðið stærðar grýlukerti er ég skaust fyrir hornið á Bláu Könnunni. Ég sá í hendi mér að ég hefði nær örugglega rotast hefði ég fengið það í mig, jafnvel höfuðkúpubrotnað. Mér var því frekar brugðið og eflaust hefur svipur minn sýnt það því er ég gekk inn á stöðina þögnuðu lögreglumennirnir sem sátu með hvorn sinn kaffibollann og spiluðu á spil. Ég reyndi að brosa til þeirra en þeir horfðu bara á eftir mér án þess að sýna nokkur svipbrigði. Það tók mig drykklanga stund að telja sjálfum mér trú um að í lagi væri að fara aftur inn í fangaklefann eftir það sem ég sá síðast.
Dr. Hannes var á kafi í vinnu er ég kom. Á borðinu fyrir framan hann var viðarkassi en á gólfinu við hlið hans stóðu tvær plastfötur, önnur rauð en hin hvít. Ég ræskti mig og hann leit á mig.
- Ah, Hermann, þú ert kominn. Þú verður að sjá þetta, sagði hann og benti mér á að koma nær. Ég gekk yfir til hans og laumaðist til að líta ofan í föturnar. Í annarri sá ég ekki betur en væru marglyttur, í þeirri hvítu voru þrjár litlar rottur.
- Sjáðu, sagði hann og opnaði kassann. Ofan í honum var hvítur bakki úr plasti og stóð dökk rotta í einu horninu. Um leið og hún sá okkur var sem rynni á hana æði. Hún hljóp um allt og reyndi að klifra upp til okkar, en dr. Hannes sló hana niður með mjórri spýtu. Ósjálfrátt varð mér hugsað til rottunnar sem marglyttan smaug inn í frammi fyrir sjónum mínum. Dr. Hannes hefur eflaust ráðið í svip minn, því hann kinkaði kolli og sagði:
- Já, þessi er með marglyttu í sér. Ekki nóg með það. Hún virðist óseðjandi. Ég hef látið tvær rottur í kassann með henni í dag og báðar hefur hún drepið og étið. Hún virðist eflast öll að styrk og hungrar enn frekar í meira.
- Hvað segirðu? Eflist hún að styrk við það að éta aðrar rottur, spurði ég gáttaður.
- Já, hún gerir það. Fylgstu með, svaraði hann og beygði sig eftir rottu úr fötunni. Eftir skamma stund hafði honum tekist að ná taki á einni og lét hana falla niður í viðarkassann. Ég tók eitt skref aftur því satt best að segja vildi ég ekki fylgjast með átveislunni. Hann leit á mig, brosti og lokaði kassanum. Ekki leið á löngu þar til kassinn kipptist til og þó nokkur hávaði heyrðist frá honum. Eftir hálfa mínútu eða svo dró mjög úr látunum. Ég leit hálfskelkaður á dr. Hannes sem virtist hafa mikla ánægju af þessu. Hann opnaði kassann og sagði upp úr eins manns hljóði:
- Hún lifir til að drepa og drepur til að lifa.
- Einfaldara verður það ekki, sagði ég og starði stjarfur á hann. Upp í hugann spratt samtal sem ég átti við hann skömmu eftir að Kolbrún fannst látin í lauginni. Ég fikraði mig hægt út úr fangaklefanum og hljóp síðan út. Það var aftur byrjað að snjóa, þungar flygsur sem svifu hægt til jarðar en samt var undarlegur seiður í loftinu. Ég veit ekki hvað það var, kannski var það minning mín um gærkvöldið sem hafði þessi áhrif á mig en mér fannst sem ég væri aftur farinn að finna fyrir stækjunni er kom þegar marglytturnar ráku á land. Sem í leiðslu gekk ég út eftir strætinu að götunni er lá niður að baðströndinni. Mér fannst sem allt væri hljótt. Ég tók ekki eftir neinu undarlegu í fyrstu, baðströndin var hulin snjó, líkt og allt annað, nema rétt niður við flæðarmálið. Ég stóð um stund og starði á bárurnar renna hægt upp í sandinn. Það var ekki fyrr en eftir nokkrar mínútur að ég tók eftir hvernig ljósið brotnaði í mjöllinni niðri í fjörunni. Ég tók nokkur skref nær og sá það, að marglyttur lágu þar í hundraða tali.
Ég hljóp við fót aftur upp á lögreglustöð til að láta Pál vita af þessu. Ég vissi að það þýddi ekkert að fara í ráðhúsið, þar myndi Skelmir eflaust gera lítið út öllu saman. Nei, Páll var rétti maðurinn og jafnvel dr. Hannes líka. Þegar ég kom aftur á lögreglustöðina mætti ég Snorra í dyrunum. Um varir hans lék sakleysislegt glott, en ég sá á grimmdinni í augum hans að ekki var allt með felldu.
- Snorri, hvað ert þú að gera hér, spurði ég. Hann leit upp til mín og reyndi að setja upp eins barnslegan og einlægan svip og honum var unnt.
- Hólmgeir bað okkur um að hjálpa sér. Ég var bara að koma með vatn því vatnsveitan er eitthvað í ólagi, svaraði hann og skokkaði á brott. Án þess að velta þessu eitthvað frekar fyrir mér flýtti ég mér inn á lögreglustöðina. Mennirnir tveir sátu þar enn við taflborðið og litu upp jafn hissa að sjá mig og áður. Ég flýtti mér fram fyrir borð þeirra, annar mannanna stóð upp og ætlaði að segja eitthvað en ég arkaði framhjá honum og inn að skrifstofu Páls. Áður en ég komst þangað kom ég auga á nokkuð sem olli því ég snarstansaði og fann hjartað hamast í brjósti mínu. Á gólfinu við hliðina á dyrunum inn til Páls stóð rauð plastfata! Hún var full af vatni, eða í fyrstu virtist svo vera. Ég starði um ofan í hana. Skyndilega sá ég örlitla hreyfingu. Hún var svo agnarsmá að mér finnst með ólíkindum ég skildi taka eftir henni. Dvergvaxin gára sem myndaðist og hvarf næstum eins og skot.
Ég greip andann á lofti. Upp í hugann skaut atburðinum frá því í gærkvöldi. Gat verið að þessi fata hafi komið þaðan? Ég beygði mig niður til að skoða hana nánar. Um leið heyrði ég einhvern skarkala koma innan úr skrifstofu Páls. Ég spratt á fætur og opnaði dyrnar. Páll stóð með hálftómt vatnsglas í annarri hendi og tók andköf. Hann var fölur í framan og augun rauð.
- Er ekki allt í lagi, spurði ég skelkaður.
Hann kinkaði kolli, bandaði mér frá sér og kláraði úr glasinu. Um leið og ég sá hann bera það að vörunum tók ég á mig stökk en var of seinn.
- Hvað ertu eiginlega að gera, spurði Páll hissa er hann sá mig koma aðvífandi.
- Ekki drekka vatnið, öskraði ég. Hann horfði á mig eins og ég væri sturlaður.
- Fullseint, svaraði hann og sneri glasinu við. Örfáir dropar fellur niður á gólf. Síðan spurði hann:
- Hvers vegna ætti ég ekki að drekka vatnið? Eitthvað verð ég að drekka.
Ég settist niður og greip fyrir andlit mitt. Hvað ef vatnið sem Snorri kom með var mengað? Hvað ef í því væru marglytturnar sem þau fiskuðu upp úr sjónum í nótt? Ég nuddaði gagnaugun og rétti úr mér.
- Ég veit ekki alveg hvernig ég get útskýrt þetta fyrir þér þannig þú trúir mér. Ég vona bara, vegna þess hve lengi þú hefur þekkt mig munir þú allavega gefa þér tíma til að hlusta á það sem ég hef að segja.
Páll kinkaði kolli. Hann gekk að dyrunum og lokaði þeim áður en hann settist niður. Hann var alvarlegur á svip er hann gaf mér merki um að byrja. Í fyrstu sagði ég honum frá öllu því er tengdist Hólmgeiri, bréfinu, uppgötvun dr. Hannesar um eiginleika marglyttanna og síðan grunsemdum mínum um að Skelmir léti fylgjast með mér. Að lokum sagði ég honum frá þeim breytingum sem ég hefði orðið vitni að hjá sumum nemenda minna og atburði næturinnar.
- Þetta tengist, þú hlýtur að sjá það, sagði ég og hallaði mér fram á skrifborð Páls. Skelmir hefur með einhverju móti náð að lokka til liðs við sig börnin. Í gervi Hólmgeirs hefur hann ábyggilega
Um leið og ég sleppti orðinu var sem svefn rynni á Pál. Augu hans lokuðust og höfuðið seig niður á bringu. Ég teygði mig yfir borðið og ýtti við honum. Hann rankaði við sér en um leið og hann lyfti höfðinu og sá mig, tók ég strax eftir að eitthvað var breytt. Augu hans voru dimm og í þeim grimmdarblik. Ég hrökklaðist aftur fyrir mig.
- Hermann, hvað ert þú að gera hér? Komstu inn á meðan ég dottaði, spurði hann og um varir hans lék lymskufullt glott. Án þess að svara hljóp ég eins hratt og mér var unnt út. Ég þaut eins og eldibrandur yfir skafla og grindverk alla leið heim til mín. Við dyrnar stóð hvít plastfata, full af því sem virtist vera vatn. Ég sparkaði henni um koll. Ég ætla ekki að láta eitra fyrir mér. Skelmi skal ekki takast að láta marglyttur taka líkama minn yfir. Ef ég verð þyrstur bræði ég snjó. Ég læsti öllum dyrum og gluggum. Öðru hvoru hef ég orðið var við mannaferðir fyrir utan. Ég efast ekki um að Skelmir gerir sér grein fyrir því, að honum mun ekki takast að gera mig að marglyttuþræl. Aldrei.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Ómar Ingi, 14.10.2008 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.