Undrin við Lönguströnd

28. október

 

Ég svaf illa og vaknaði því seint. Ég hentist á fætur og sá á að ég hafði lítinn tíma til að borða. Eftir ég hafði klætt mig hljóp ég sem fætur toguðu í skólann, þrátt fyrir að mér væri meinilla við að mæta, því mér hefur sannarlega ekki liðið vel í vinnunni undanfarna daga. Á leið minni þurfti ég að klofa skafla sem náðu mér upp á miðja kálfa, ég var því bæði votur og sveittur er ég loks kom í skólahúsið. Ekki veit ég hvað Katrín heldur, ég hef bæði verið skelfilega undarlegur síðustu daga og auk þess furðulegur til fara. Einnig hef ég lítið náð að hitta hana vegna alls sem er að gerast. Á því verður þó bragarbót í kvöld.

Nemendur mínir týndust reyndar líka seint inn, eflaust má rekja það til færðarinnar. Þau voru einstaklega prúð í dag, en samt var einhver eftirvænting í þeim. Ég skil ekki alveg af hverju. Í hádegishléinu ræddi ég þetta við Katrínu og hún hafði orðið vör við það sama hjá sínum bekk. Reyndar hafði hún skýringu á þessu. Í námi hafði hún heyrt kennara sinn tala um áhrif gangs himintunglanna á líðan fólks og Katrín var viss um, að stórstreymið sem er væntanlegt á morgun orsakaði þennan spenning. Síðan talaði hún heillengi um rafsegulsvið jarðar og samspil plánetunnar og tunglsins. Ég hlustaði með öðru eyranu og kinkaði kolli af og til. Ég veit ekki hvað það var, en þegar hún minntist á að stórstreymt væri annað kvöld, þá var eins og allar viðvörunarbjöllur í hausnum á mér færu í gang. Kannski óttast ég að það færu fleiri marglyttur á land. Samt finnst mér eins og það sé eitthvað annað, ég geri mér bara ekki grein fyrir hvað það er.

Eftir að kennslunni var lokið sat ég um stund inni í stofunni minni og reyndi að ná einhverri yfirsýn á atburðina. Fyrst rak marglytturnar á land, þá fer einhver undarleg starfsemi í gang í kollinum á Skelmi og hann reynir að taka yfir líkama dóttur sinnar. Hólmgeir og Kolbrún ganga inn á þá athöfn og hann drepur Kolbrúnu fyrir vikið, kemur henni fyrir í sundlauginni ásamt nokkrum baneitruðum marglyttum, eflaust til að slá ryki í augu lögreglunnar. Nokkrum dögum síðar bankar hann upp á hjá mér og reynir að fá mig til að halda nemendum mínum frá ströndinni. Þá hverfur dr. Hannes og enginn virðist kippa sér upp við það. Því næst fékk ég bréfið frá Hólmgeiri og Páll vildi hvorki taka mark á því né viðvörunum mínum. Atburðarásin er einföld, en það eru svo margar spurningar sem sækja á mig. Hvernig kom Skelmir marglyttunum í laugina? Vissi hann af hæfileika þeirra til að smjúga inn í húð þeirra sem þær snerta? Var það þess vegna sem hann vildi ekki að börnin væru að fara niður á baðströnd? Ég fæ víst seint botn í þetta.

Við Katrín ákváðum sem sagt að eyða kvöldinu saman. Ég kvaddi hana áðan og gekk heim á leið, reyndar tók ég á mig krók til að sjá hvort Hólmgeir, eða Skelmir, væri hann í líkama Hólmgeirs, sæti á skrifstofu sinni. Þegar ég sá að svo var, taldi ég í mig kjark og heimsótti hann. Það kom mér á óvart að hann var einn á bæjarskrifstofunum. Hólmgeir virtist önnum kafinn þegar ég gekk inn til hans, hann grúfði sig yfir einhverja pappíra og fjölmargar bækur lágu opnar á borðinu fyrir framan hann. Sjálfur var hann klæddur í hvíta skyrtu og með blátt bindi, hann hafði losað aðeins um bindishnútinn og hneppt frá efstu tölunni ásamt því að bretta upp á ermarnar. Hárið var vatnsgreidd, eins og alltaf. Í raun sá ég ekkert sem benti til þess að það sem stóð í bréfinu ætti við rök að styðjast. Ég stóð í dyrunum og fylgdist með honum vinna um stund. Varir hans bærðust örlítið um leið og hann las úr þungri og rykugri skræðu. Ég ræskti mig og hann leit upp. Er hann sá mig brosti hann. Það var þó hvorki innilegt né gleðiríkt, heldur hungrað og grimmúðlegt. Mér brá í fyrstu en neyddi sjálfan mig til að halda áfram. Ég steig því varlega inn á skrifstofuna.

- Sæll, gamli vinur, sagði Hólmgeir og rétti úr sér í stólnum. Hann spennti greipar fyrir aftan hnakka.

- Já, blessaður og sæll, svaraði ég og stóð eins og illa gerður hlutur á miðju gólfinu. Hann benti mér á að setjast. Ég gerði eins og hann bauð, um leið reyndi ég að sjá hvað það væri sem hann var að gera með allar þessar gömlu bækur en ég náði ekki að sjá það nógu vel. Þó fékk ég ekki betur séð en þær væru útlenskar, mér gæti þó hafa missýnst. Eftir drykklanga stund og vandræðalega þögn tók ég til máls. Hann sat og fylgdist glottandi með mér. Mér leið hálfilla undir augnaráði hans.

- Er nokkuð að frétta af nýjum bókakosti fyrir skólann, spurði ég og reyndi að hljóma sakleysislega.

- Nei, svaraði hann eftir stutta umhugsun. Ég starði um stund á hann. Mér fannst eins og einhver birta hyrfi úr augu hans, líkt og þegar ský dregur snögglega fyrir sólu á björtum degi. Ég reyndi að láta á engu bera, þakkaði honum fyrir og stóð á fætur. Um leið og hann sá að ég var að gera mig kláran að fara, reis upp úr stólnum og sagði:

- Þakka þér fyrir komuna. Alda spurði um þig um daginn, þú ættir endilega að kíkja í mat eitthvert kvöldið.

- Já, kannski, svaraði ég, ekki þorði ég að spyrja hann út hvernig henni liði ef vera kynni hann skyldi gruna eitthvað. Ég gerði mig þess í stað líklegan til að hverfa á brott.

- Vertu sæll, Hólmgeir og þakka þér fyrir.

- Verið þér sælir!

Mér fannst eins og tíminn stæði í stað. Orðin köstuðust fram og aftur í kollinum á mér. Hólmgeir var ekki vanur að þéra mig en ég hef ekki umgengist Skelmi það mikið að ég geti sagt með vissu hvort hann hafi nokkurn tíma þérað mig, ég minnist þess þó ekki. Það er aðeins ein manneskja sem þérar mig. Alda. Hólmgeir sagði reyndar í bréfinu, að hún væri dáin. Hvernig getur þetta staðist? Hvers vegna ætli Skelmir taki upp á þessu? Kannski veit hann ekki, að við Hólmgeir vorum ekki vanir að sýna hvor öðrum slíka kurteisi, enda æskuvinir.

Þegar ég gekk út úr skrifstofunni fannst mér sem bergmál fótataka minna hljómuðu full hátt í gott sem yfirgefinni byggingunni. Er ég stóð við útidyrnar leit ég aftur fyrir mig og sá hvar Skelmir stóð íklæddur líkama fornvinar míns, hallaði sér með krosslagðar hendur upp að dyrastafnum og fylgdist með mér. Mig langaði einna helst til að öskra á hann. Hlaupa að honum og slá gerpið niður, neyða hann til að skila mér aftur þeim Hólmgeiri sem ég þekkti.

Jæja, nú fer klukkan að nálgast sjö og ég ætti að fara að drífa mig til Katrínar. Ég vona bara, að enginn elti mig þangað. Kannski er best að fara að öllu með gát og nota bakdyrnar. Ætti ég að dulbúa mig? Ég veit það ekki, ég vil ekki skjóta henni skelk í bringu, allavega ekki meir en komið er.

 

---

 

Er ég að missa vitið eða getur verið að hér séu að gerast atburðir sem eru svo ofar mínum veiklulega skilningi, að ég fæ ekki með nokkru móti séð hvernig þeir eiga við rök að styðjast? Eru augu mín kannski hætt að sjá og hugur minn fyllir upp í myrkrið með myndum sem í senn eru ógnvekjandi en jafnframt áhugaverðar í óútskýranleika sínum?

Kvöldverðurinn hjá Katrínu var með ágætum. Hún mætti mér í dyrunum klædd í rósótta sumarkjólinn sinn, þennan sem hún var svo oft í síðasta sumar. Hárið hafði hún flétt og hún hafði látið ilmvatn á sig. Um stund fannst mér ég hálfkjánalegur, því ég hafði ekki einu sinni farið í bað. Ég rétt skipti um föt. Einnig hefði ég kosið að hafa eitthvað meðferðis handa henni, eitthvað fallegt sem hefði glatt hana. Því miður þá man ég aldrei eftir svona löguðu, ég verð að bæta úr því. Hins vegar hrósaði ég henni fyrir hve falleg hún væri og það virtist gleðja hana. Að minnsta kosti kyssti hún mig þarna í forstofunni. Eftir matinn sátum við og spiluðum rommí fram til klukkan tíu. Á meðan við spiluðum ræddum við saman um ýmsa aðila í þorpinu, ætli ekki megi segja að við höfum verið að slúðra svolítið en það kemur ekki að sök. Hér vita allir allt um alla.

Ég þakkaði fyrir mig og bjóst til heimferðar. Um leið og hún hafði lokað að sér sá ég einhvern lítinn skugga speglast í rúðunni í hurðinni hjá henni. Ég sneri mér við og tók eftir hvar Þórarinn hvarf hlaupandi á milli húsa, ég þekkti hann á rauðum kollinum. Ég fékk ekki betur séð en hann væri með ljósa fötu í annarri hendinni. Ég ákvað að elta hann. Hann hljóp við fót troðinn slóða sem liggja á milli húsanna hér í þorpinu niður að ströndinni, þessi slóði er annars lítið notaður nú til dags, flestir fylgja gangstígunum þangað en hins vegar var hann notaður mun meira þegar ég var yngri. Yfir honum slútta tré og mér leið eins og þau mynduðu einskonar vírnet yfir mér. Ég fór að engu óðslega, því ég vildi ekki að hann kæmist að því ég væri skammt undan. Hann virtist ekki taka eftir mér og flýtti sér sem mest hann mátti, uns hann var kominn í sjónmál við ströndina. Hann leit um öxl, eins til að sjá hvort nokkur væri fyrir aftan hann. Ég kastaði mér í skjól. Þórarinn hélt áfram yfir grjótgarðinn og niður í fjörusandinn. Ég skreið áfram þar til ég sá vel yfir. Í fjöruborðinu stóðu ásamt honum þau Snorri, Bergdís og öll hin sem hafa undanfarið bæst í hóp þeirra. Einnig fékk ég ekki betur séð en með þeim væri einhver fullorðinn, hann var í þykkri úlpu með hettu á höfði en mér tókst ekki að komast nógu nálægt til að sjá andlit hans almennilega, líkami hans var þreklegur og þaðan sem ég horfði virkaði hann mikill um sig en þykk úlpan gæti hafa blekkt mig að einhverju leyti. Öll voru þau að þeim fullorðna undanskildum með rauðar eða hvítar fötur eða einhvers konar ílát. Þau stóðu þar um stund og ég held þau hafi verið að kyrja eitthvað, ómur af söng barst til mín og öll réru þau fram og aftur, sum þeirra héldust í hendur. Mér sýndist þau hreyfa sig í takt við öldurnar sem féllu að ströndinni. Ég fikraði mig örlítið nær. Öðru hvoru dró ský frá mána og daufa skímu lagði yfir vatnsflötinn. Þrátt fyrir hversu fáránleg mér þótti þessi samkoma og tilgangur hennar óskýr, þá var eitthvað sem hélt aftur af mér í því að fara niður grjótgarðinn.

Eftir nokkrar mínútur hættu þau að kyrja þennan lágstemmda söng og virtust bíða einhvers. Þau hreyfðu hvorki legg né lið, en störðu öll sem eitt út á fjörðinn. Ósjálfrátt leituðu augu mín þangað. Í sömu mund dró frá tunglinu, um leið og birtan jókst sýndist mér ég verða var við hreyfingu á haffletinum. Eins og eitthvað drægi sig hægt að ströndinni. Eitthvað segi ég, því satt best að segja veit ég ekki hvernig ég get lýst því öðruvísi. Það sem gerðist næst var ótrúlegt og ég er enn ekki sannfærður sjálfur um hvort mig hafi í raun dreymt þessa atburði eða ég hafi upplifað veruleika sem er jafn firrtur og óskiljanlegur og sá sem ég upplifði í kvöld.

Í daufu tunglsljósinu sá ég ekki betur en vera á stærð við hval risi upp úr sjónum skammt undan ströndinni. Litarhaft verunnar var þó í engu lík þeim stóru spendýrum, heldur var frekar marglitara, eins og þunn olíubrák á vatni. Risastór fálmari skaust upp úr vatninu og hóf sig hátt yfir öldurnar. Lýsingu Hólmgeirs á skugganum skaut niður í kollinn á mér. Börnin hófu söng að nýju og drógu með því athygli mína að sér. Þau voru aftur komin með föturnar í hendurnar, ég fékk ekki betur séð en þau væru að bíða einhvers. Sá fullorðni hélt báðum höndum upp í loft, sem væri hann að tilbiðja veruna. Skyndilega lét hún þreifiangann falla aftur í sjóinn með miklum gusum og skellum. Vatn gekk yfir þau öll sem á ströndinni stóðu. Ég þurfti að líta undan til að forðast að fá saltvatn í augun en þegar ég sneri mér aftur að hópnum, þá sá ég að allt umhverfis þau lágu nú hundruð marglytta. Að skipan þess fullorðna tókust nemendur mínir strax handa við að týna þær upp í föturnar með berum höndunum! Ferska vatnið hlýtur að virkja hæfileika holdýranna, nema að börnin séu öll orðin smituð! Er hver og einn hafði fyllt sína hlupu þau aftur í átt að þorpinu. Ég flýtti mér í burtu svo þau kæmu ekki auga á mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 13.10.2008 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband