27. október
Ég get ennþá ekki sofið. Hvernig ætti ég svo sem að geta það? Ég er búinn að liggja í rúminu mínu og reyna festa svefn í hátt í fjórar klukkustundir. Það er sama hvað ég hef gert. Ég lá og starði upp í rjáfur og velti fyrir mér möguleikum mínum þegar ég heyrði svolítið undarlegt. Eins og einhver tæki í hurðarhúninn á útidyrunum. Þó ég væri á efri hæðinni, þá greindi ég samt hvað var að gerast. Ég spratt fram úr og kíkti niður. Mér sýndist enginn standa fyrir utan. Þá fannst mér sem einhver skarkali bærist innan úr eldhúsi. Ég tiplaði á tánum niður stigann og kveikti ljósið. Eitt augnablik fannst mér eins og einhver skuggaleg vera stykki í skjól við eldhúsgluggann. Ég flýtti mér að honum og leit út, en þar var enginn. Gat verið að ég hafi misst af þeim sem ætlaði að brjótast hér inn? Ætli það hafi verið Skelmir? Skyldi hann vita af bréfinu?
Eitt er víst, mér á ekki eftir að koma dúr á auga í nótt. Ég ætla að sitja fyrir honum, bíða hér í eldhúsinu með ljósin slökkt. Ég skal góma hann.
---
Þegar sólin reis hætti ég mér loksins út. Ég er nokkuð viss um að einhver var hér fyrir utan í alla nótt og fylgdist með húsinu mínu. Mér fannst ég verða nokkrum sinnum var við hreyfingu við hliðið og í garðinum. Kannski voru það bara kettir og smáfuglar, ég sá svo sem aldrei neinn, ekkert nema flöktandi skugga í næturmyrkrinu. Ég braut bréfið saman og stakk því í vasann. Síðan fór ég inn í fataskáp og fann gamlan frakka og klæddi mig í hann. Ég reyndi að hylja eins mikið af andliti mínu og mér var unnt, ég lét þess vegna á mig trefil og hatt. Ég fór út um bakdyrnar.
Þrátt fyrir að það væri byrjað að birta af degi, þá var útsýni lítið. Það var nokkuð stöðug ofankoma, snjókorn á stærð við býflugur sigu þunglamalega niður á hélaða jörðina. Ég tók á mig stökk og hentist yfir grindverkið í næsta garð. Þar beið ég um stund og reyndi að heyra hvort nokkur hefði tekið eftir mér eða væri á hælum mér. Svo virtist ekki vera. Ég hafði þó sterklega á tilfinningunni að einhver væri að fylgjast með mér. Á sama hátt og ég veit að í þessum töluðu orðum er einhver úti í rökkrinu og sér það logar ljós í svefnherberginu mínu einhver sem situr og bíður eftir að ég geri mistök.
Ég hélt áfram, ég smeygði mér á milli garða og reyndi eftir fremsta megni að komast hjá því að láta taka eftir mér. Þegar ég loks kom að lögreglustöðinni var ég orðinn holdvotur í fæturna en hafði ekki orðið var við neinar mannaferðir. Af og til fannst mér þó ég heyra í einhverjum fyrir aftan mig, en kom aldrei auga á hver það hefði getað verið, þó svo mig grunar nei, ég veit hver það var. Hann skal þó ekki komast upp með þetta.
Páll var ekki við þegar ég kom þangað. Ég athugaði einnig hvort Hannes væri inni hjá sér en hann hefur enginn séð í nokkra daga. Ég skil þetta ekki. Hvorugur lögregluþjónanna virtist kippa sér upp við hvarf Hannesar. Ég reyndi hvað ég gat til að sannfæra þá um að leita hans, en þeir horfðu bara hvor á annan og glottu út í bæði. Ég veit ekki hvað er að gerast. Ég flýtti mér aftur út og reyndi að hafa uppi á Páli, en allt kom fyrir ekki. Ætli hann sé horfinn líka?
Ég flýtti mér í vinnuna, þrátt fyrir mér væri það þvert um geð. Ég þurfti að telja í sjálfan mig kjark áður en ég steig inn í stofuna. Ég mætti vissulega töluvert seint og þar að auki til reika eins og útigangsmaður. Katrínu var brugðið við að sjá mig en ég útskýrði klæðaburð minn ekkert sérstaklega fyrir henni. Ég tel best, að vera ekki að blanda henni inn í þetta mál. Ég vil ekki að neitt slæmt hendi hana. Nei, það er skynsamlegast að halda henni fyrir utan þetta allt saman. Því minna sem hún veit, því betra, annars er hætt við að Skelmir ráðist gegn henni og Guð einn veit hvað getur gerst þá. Hún var samt ekki alveg sátt við þau svör sem hún fékk frá mér, ég sá það á henni.
Inni í stofunni minni var allt með kyrrum kjörum. Börnin litu varla upp úr bókunum þegar ég gekk inn. Snorri var búinn að færa sæti sitt og sat nú í öftustu röðinni og horfði dreyminn út um gluggann. Það er ágætis útsýni yfir fjörðinn úr skólahúsinu og ég fékk ekki betur séð en yfir honum væri einhvers konar værð eða ró, nokkuð sem ég hef ekki séð hjá honum undanfarið. Þegar hann tók eftir að ég var kominn, færðist sami kuldinn yfir augnaráð hans og yfirbragð hans breyttist til hins verra. Ég spurði hann hvers vegna hann hefði fært sig.
- Við Þórarinn ákváðum að skipta um sæti, svaraði hann og starði ákveðinn á mig.
- Og hver gaf ykkur leyfi til þess, spurði ég um hæl og reyndi mitt besta til að hljóma staðfastur. Snorri glotti út í annað.
- Nú, kærastan þín, sagði hann og hló við. Hinir krakkarnir flissuðu. Það var samt ekki gleðiríkur hlátur, heldur innantómur og tilfinningalaus. Ég leit í kringum mig. Skyndilega var sem ég fengi augnablikssýn inn í annan heim. Ég horfði yfir bekkinn, þar sem nemendurnir sátu prúðbúnir hver í sínu sæti, fyrir utan þá Snorra og Þórarinn, eins og gefur að skilja. Í fyrstu virtist allt eðlilegt, en síðan þyrmdi yfir mig nagandi efi og ótti. Í augun barnanna fann ég óendanlega grimmd, kulda og miskunnarleysi. Svipað því sem ég sá hjá rottunni sem dr. Hannes notaði í tilraun sinni með marglyttuna. Þá fannst mér eins og örfá sekúndubrot ég taka eftir óeðlilegum bjarma stafa af húð krakkanna, marglitur en umfram allt ógnvekjandi og ójarðneskur. Ég greip fyrir munn mér, til að hljóða ekki upp. Hönd mín leitaði aftur, til að finna eitthvað sem ég gat stutt mig við, því mér fannst eins og ég hefði misst allan mátt úr fótunum.
- Er ekki allt í lagi, Hermann, spurði Bergdís með sakleysislegum svip. Hún gjóaði augum á Snorra, sem mér sýndist brosa út í annað. Ég reyndi að hugsa upp afsökun í flýti, en ég veit ekki hversu trúverðug hún hefur hljómað.
- Jú. Eða nei, ég hlýt að vera orðinn lasinn, svaraði ég og strauk yfir enni mitt. Ég bað þau um að afsaka mig og flýtti mér fram á gang. Ég varð var við, að þau ræddu eitthvað sín á milli er ég gekk út úr stofunni en mér var svo mikið niðri fyrir að ég heyrði ekki orðaskil. Hins vegar komst ég ekki hjá því að heyra í Snorra, þar sem hann hló illkvittnilega. Ég fór fram á gang og inn til Katrínar. Henni brá þegar ég ruddist inn í stofuna hennar. Ég reyndi að koma frá mér heilli setningu en mér fannst eins og allt vit hefði verið sogað úr kollinum á mér. Hún starði forviða á mig, eins og ég væri genginn af göflunum og eflaust hef ég litið þannig út, ennþá í gamla frakkanum og augnaráð mitt villt og leitandi. Ég snerist á hæli og þaut út úr skólahúsinu, við hliðið leit ég um stund aftur fyrir mig og mér sýndist ég sjá Snorra og Bergdísi standa við dyrnar ásamt Katrínu og horfa á eftir mér. Var kannski rangt af mér að skilja hana eina eftir með þeim?
Ég er svefnvana og finn mér hvergi nægan frið til að slappa af, alls staðar er eitthvað sem kallar á athygli mína og dregur hana aftur að þeim atburðum sem ég hef lent í undanfarna daga. Þeir eru eins og svarthol í vitund minni.
Ég hljóp sem fætur toguðu í áttina að lögreglustöðinni. Þegar ég náði þangað stormaði ég inn á skrifstofu Páls og lokaði á eftir mér. Ég aðgætti hvort nokkur hefði elt mig eða hvort nokkur gæti hugsanlega legið á hleri. Páll sat undrandi á svip við skrifborðið sitt þegar ég sneri mér að honum.
- Hvað er eiginlega í gangi, spurði hann og hló við. Brosið á andliti hans hvarf þó skjótt er hann sá hve óttasleginn ég var.
- Þú verður að hjálpa mér, svaraði ég lágt. Ég hallaði mér að honum og hvíslaði í eyra hans.
- Ég er með nokkuð sem þú verður að sjá. Nokkuð sem varðar Hólmgeir, vin okkar, sagði ég og rétti honum síðan bréfið. Mér fannst um stund erfitt að láta hann hafa það, eins og ég væri að neyða upp á hann öðrum raunveruleika raunveruleika sem er mun verri en sá sem við höfum báðir búið í. Hvað var hann annað en tálsýn, listilega ofinn blekkingavefur? Allan þann tíma sem ég hef þekkt Hólmgeir, Öldu og Skelmi hefur mér aldrei dottið annað í hug en það væri allt eðlilegt hjá þeim. Sá veruleiki sem ég þekkti eitt sinn er að engu orðinn og hvað var ég að gera annað en að troða þessari upplifun minni upp á hann?
Páll las bréfið yfir og horfði síðan undrandi á mig.
- Hvar fékkstu þetta, spurði hann.
- Ég fann það á skrifborðinu mínu í skólanum í gærdag. Við verðum að gera eitthvað. Þú verður að handtaka Skelmi. Þú verður að gera eitthvað í þessu, Páll, sagði ég örvæntingarfullur. Hann horfði rannsakandi á mig.
- Ég get ekki handtekið hann bara sisvona. Ég verð að hafa til þess gildar og góðar ástæður.
- Hvað með bréfið? Þú hlýtur að sjá, að Skelmir er að drepa hann.
- Ég hitti Hólmgeir í morgun og hann var hinn hressasti, svaraði Páll. Eitthvað við hvernig hann horfði á mig og tóninn í röddu hans sló mig. Ég stóð á fætur, greip bréfið af borðinu og hljóp út. Fyrir aftan mig heyrði ég hann kalla nafn mitt en ég gaf því engan gaum og forðaði mér út af lögreglustöðinni. Þegar ég kom út á strætið hafði hvesst töluvert og bætt í snjókomuna. Ég hneppti að mér frakkanum og dró hattinn niður fyrir eyru. Bréfinu stakk ég aftur inn á mig. Eftir stuttan göngutúr stóð ég fyrir framan gamla kaupmannshúsið. Það leit ekki út eins og hús sem hýst hefur djöfullegar athafnir seiðskratta eða morðingja. Neðan úr þakskegginu hengu grýlukerti, þau minntu mig einna helst á beittar tennur hákarla. Snjór safnaðist í skafla við veggina. Ég stóð um stund við garðhliðið og fylgdist með húsinu, ég varð ekki var við að einhver væri heima. Ég leit í flýti í kringum mig, til að athuga hvort nokkur væri á ferli, sem betur fer var veðrið með því móti að vart sást á milli húsa. Ég tók á mig stökk og var kominn í einu hendingskasti aftur fyrir húsið. Þau hjónin eru ekki vön að læsa bakdyrunum. Ég tók varlega í hurðarhúninn, það kom mér ekkert sérstaklega á óvart að komast að raun um að sú leið væri mér ekki fær. Ég myndi líka læsa öllum dyrum og festa aftur glugga ef ég hefði eitthvað að fela. Eftir að hafa kannað hvort nokkurs staðar væri möguleiki á að komast inn og fullvissað mig um að svo var ekki, hélt ég aftur heim. Ég gætti þó að mér, því skömmu eftir að ég var kominn út úr garðinum fannst mér ég verða var við einhvern fyrir aftan mig. Það er einhver sem fylgist með mér dag og nótt, ég veit hins vegar ekki hver það er. Mig grunar þó, að það sé Skelmir, nema hann hafi snúið einhverjum á sitt band og láti viðkomandi elta mig hvert sem ég fer. Ég skal þó ná að sitja fyrir kauða og þegar ég kemst að því hver það er, þá næ ég í hnakkadrambið á honum og þá getur Páll ekki horft framhjá þessu lengur. Ég mun draga sannleikanum upp úr þeim sem eltir mig og skella honum á borðið hjá Páli. Þá verður réttvísinni fullnægt.
Mig langar líka til að sjá hvort Hólmgeir sé heima hjá sér, hvort það sem stendur í bréfinu sé allt saman rétt. Að hann sé smá saman að leysast upp og deyja í líkama Öldu. Ég verð að komast inn til hans. Kannski ég ætti að laumast þangað í kvöld, taka eitthvað af verkfærum með mér og brjótast inn. Ég þarf bara að vera viss um að enginn sé heima, ég vil síður rekast á einhvern á meðan þessari litlu rannsókn minni stendur.
---
Ég klæddi mig aftur í gamla frakkann um ellefu, stakk skrúfjárni í vasann og fór eins laumulega og mér var unnt út um bakdyrnar. Reyndar er ég nokkuð viss um að einhver hafi verið að fylgjast með húsinu mínu, því ég kom tvisvar sinnum auga á einhvern sniglast fyrir utan áður en ég lagði sjálfur af stað. Það var komið myrkur, ég rétt greindi útlínur viðkomandi en ég fékk ekki betur séð en sá hinn sami væri nokkuð stór og sterklega vaxinn. Ég veit ekki hver þetta er, ég man ekki eftir neinum sem tengist Skelmi sem gæti passað við þá lýsingu. Hver gæti þetta verið? Hann hlýtur að hafa fengið einhvern til liðs við sig, einhvern sem mig myndi aldrei gruna, geri ég ráð fyrir. Ég get þar af leiðandi ekki treyst neinum. Ég verð að leysa þetta mál sjálfur. Þar sem nú er einhver sem fylgist með mér, þá þurfti ég að gera ákveðnar ráðstafanir til að slá ryki í augu hans. Ég skyldi því eftir kveikt ljós í svefnherberginu mínu og reyndi að útbúa einhvers konar líkan af sjálfum mér við skrifborðið mitt. Það tók mig drykklanga stund að finna út hvernig ég gat komið því til svo þegar einhver liti inn upp í gluggann sæi viðkomandi útlínur mínar, en það tókst að lokum.
Ég læddist út og beið um stund í felum við grindverkið í garðinum mínum. Þegar ég var orðinn nokkuð viss um að enginn hefði orðið mín var, steig ég aftur á fætur og laumaðist á milli húsa í áttina að kaupmannshúsinu. Ég forðaðist einmanalegar ljóskeilur götuvitanna, birta þeirra megnaði ekki að lýsa upp sortann eða í gegnum hríðina. Húsið var almyrkt er ég kom þangað, ég rýndi eins og mér var unnt í snjóinn fyrir framan það til að sjá hvort nokkur hefði gengið þá leið inn en sá engin spor. Ég hafði svo sem ekki mikinn tíma til að rannsaka það, því sá sem þau sendu til að elta mig var eflaust á hælum mér og ég vildi ekki að hann fyndi mig fyrir framan hús þeirra. Ég kom heldur ekki auga á nein spor við bakdyrnar, því hætti ég á að taka í hurðarhúninn og kanna hvort það væri opið. Sem fyrr þá var læst, því tók ég skrúfjárnið úr vasanum og spennti upp lítinn glugga sem er við hliðina á dyrunum. Það gekk furðuvel og fyrr en varði var ég kominn inn fyrir. Ég klæddi mig úr skónum og fikraði mig hljóðlaust inn í dimmt húsið. Það fyrsta sem ég tók eftir, er ég kom inn var lyktin. Hún minnti einna helst á angan af söltum sæ og rotnandi þara. Ég veit ekki hversu oft ég hef gengið meðfram ströndinni og fundið einmitt þennan angan. Ég hélt á skrúfjárninu til öryggis. Stofan og eldhúsið var eins og vanalega, ég sá ekkert sem benti til nokkurs annars en að þar færi fram eðlilegt heimilislíf. Ég færði mig því upp á efri hæðina. Stiginn er að mestu klæddur gólfteppi og ég hélt mig á því. Hins vegar sleppti ég því að stíga á neðri stigapallinn, því ég þekki af reynslu að það hættir til að braka allhátt í honum.
Það var enginn heima. Ég fór inn í hvert herbergið á fætur öðru, þar voru rúm uppábúin og ef ég hefði ekki vitað betur, þá hefði ég allt eins getað haldið að þau væru einhvers staðar í ferðalagi, Hólmgeir og Alda. Ég rakst ekki á neitt grunsamlegt, fyrr en ég kom inn í baðherbergið. Í fyrstu tók ég ekki eftir neinu undarlegu, ég leit snögglega í kringum mig og sá ekki betur en þar væri allt eins og ég er vanur að sjá það. Ég var kominn aftur fram á gang þegar ég gerði mér skyndilega grein fyrir að baðið hafði verið fullt af vatni. Ég sneri því aftur inn og hætti á að kveikja ljós. Þegar augu mín höfðu vanist birtunni sá ég að svo var, baðið var barmafullt. Föt af Hólmgeiri lágu á gólfinu. Ég gekk rólega að baðkerinu. Ósjálfrátt stakk ég hönd minni ofan í það, til að kanna hvort vatnið væri volgt en svo var ekki. Ég þurrkaði af hönd minni og fór aftur niður. Ég klæddi mig aftur í skóna og fór sömu leið heim. Ég hlýt að hafa náð að stinga af þann sem á að fylgjast með mér, því ég varð hans ekki var. Hann er samt þarna úti einhvers staðar í myrkrinu, þó ég sjái hann ekki veit ég af honum en það skal ekki verða honum auðvelt að ná mér. Ég sé í gegnum þetta allt saman.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Ómar Ingi, 12.10.2008 kl. 11:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.