Undrin við Lönguströnd

26. október

 

Hvar skal byrja? Hvar skal hefjast handa? Það hefur svo ótalmargt gerst í dag, ég á satt best að segja erfitt með að koma nokkru lagi á hugsanir mínar. Ætli mér eigi nokkuð eftir að koma dúr á auga í nótt?

Bréf beið mín á skrifborðinu í skólastofunni þegar ég kom þangað. Það lá þar ósköp sakleysislega, rétt eins og hvert annað sendibréf, en ef ég hefði vitað þá hvert innihald þess var hefði ég líklega aldrei þorað að opna það, hvað þá renna augum mínum yfir texta þess. Ég sat gáttaður og kom ekki upp orði á meðan ég las bréfið, vissi hvorki í þennan heim né nokkurn annan, ef því er að skipta. Þegar ég hafði lokið mér af sat Snorri í sætinu sínu og horfði brosandi á mig. Mér snöggbrá því ég hafði ekki orðið var við hann kæmi inn.

- Líður þér ekki vel, Hermann, spurði hann smeðjulega. Mér stóð eiginlega stuggur af honum. Eitthvað við yfirbragð hans skelfdi mig, kaldur andlitssvipurinn og grimmd augnaráðsins var nokkuð sem ég átti erfitt með að þola einmitt þá stundina.

- Mér, svaraði ég og reyndi að sýnast eins rólegur og mér var unnt, en miðað við hversu forkastanlegar og stórfurðulegar fréttir ég hafði þá rétt lesið, var mér það ákaflega erfitt.

- Já, líður þér ekki vel, endurtók Snorri.

- Jú, mér líður ágætlega, Snorri minn, ekki sem verst.

- Þú ert eitthvað fölur.

- Er það, já?

- Já, heldur fölur. Eins og eitthvað sé ekki í lagi.

- Það er allt í lagi með mig. Hafðu ekki áhyggjur af mér, karlinn minn.

- Þær hef ég ekki, það get ég fullvissað þig um, svaraði hann. Ég leit á hann og glottið á andliti hans hafði stækkað svo um munar.

- Á meðan ég man, þá átti ég að bera þér kveðju vísindamannsins, sagði hann. Það var eitthvað við tóninn í rödd hans sem varð til þess ég fékk skyndilega áhyggjur af Hannesi. Ég hafði jú ekki séð hann síðan á laugardag.

- Nú, hvenær hittirðu hann, spurði ég kæruleysislega og þóttist vera taka til í blöðunum á borðinu mínu. Í raun var ég að fela bréfið.

- Ég rakst á hann í gær.

Lengra varð samtal okkar ekki, því nú voru flestir nemendur mínir mættir og kominn tími til að hefja kennsluna. Allan tímann á meðan henni stóð þögðu krakkarnir, nema þegar ég yrti á þau. Í síðustu kennslustundinni reyndi ég að vekja upp umræður um morðið á Kolbrúnu, en án árangurs. Þau sátu bara og störðu á mig. Mér leið sumpart eins og ég væri innan um hóp af hundum. Krakkarnir horfðu á mig með einhvers konar glampa í augum, glampa sem ég á erfitt með að skilgreina en hef séð í augum hunda er þeir bíða þess að vera gefið að éta. Ég sendi þau út talsvert áður en kennslustundinni var lokið. Síðastur til að hverfa á braut var Snorri, hann snéri sér við í dyrunum og sagði:

- Takk fyrir tímann, Hermann kennari. Eigðu góðan dag.

Mig langaði einna helst til að öskra á drenginn. Ég veit ekki hvað það er, en ég vildi óska þess hann væri enn skítugur og illa hirtur strákspjatti sem auðvelt var að eiga við. Ekki þetta snyrtilega, stjórnsama rándýr!

Þegar allir voru farnir gróf ég upp bréfið og las það einu sinni enn yfir, til að fullvissa mig um ég hefði lesið rétt í morgun. Það breytti engu, sama hversu oft ég rýndi í það var innihaldið hið sama. Var Hólmgeir genginn af göflunum? Ég greip bréfið og rauk út úr skólahúsinu. Ég þurfti að komast að hinu sanna. Fyrsti áfangastaður minn var gamla kaupmannshúsið. Er ég stóð fyrir utan rauðmálaða tvílyfta tréhúsið þyrmdi yfir mig. Hvernig gat ég verið viss? Án þess að komast að nokkurri niðurstöðu knúði ég dyra og beið. Eftir drykklanga stund bankaði ég á nýjan leik en fékk ekki svar. Því næst ákvað ég að fara á lögreglustöðina og athuga hvort Hannes væri við. Þegar ég kom þangað var mér tjáð að hann hefði ekki sést síðan á laugardag, samt var allt dótið hans enn niðri í fangaklefanum. Ég þorði ekki þangað inn, ef vera skyldi að rottan væri þar enn. Ég fór að hótelinu til að sjá hvort hann væri þar, en Kári sagði að hann hefði ekki séð hann síðan í gær.

Ég fór aftur út af hótelinu og hneppti jakkanum að mér. Kaldur vindur blés og snjóföl fauk eftir strætinu. Hrím lá yfir öllu og það var óvenju dimmt, frostrósir sprungu út og blómstruðu lífvana á rúðum húsanna. Ég gekk út götuna án þess þó að hafa neitt ákveðið að fara, þess frekar reyndi ég að róa hugann. Hálfpartinn í móki hélt ég áfram og rankaði ekki við mér fyrr en ég stóð við baðströndina. Ég leit yfir hana, hvergi var nokkra marglyttu að sjá. Svo virðist vera sem að allar hafi þær verið hreinsaðar upp eða þá að flóðið hafi tekið þær á ný. Ég stakk hendinni í frakkavasann og tók upp bréfið. Eftir að hafa lesið það enn einu sinni sá ég að það var lítið sem ég gat gert annað en að bíða eftir rétta tækifærinu. Ég flýtti mér heim og læsti að mér.

 

Bréfið

 

Kæri vinur,

 

ég veit ekki hvort þú munir trúa því sem þú átt eftir að lesa í þessu bréfi, en ef þú gerir það ekki þá veit ég ekki hvort nokkur annar muni gera það. Lyginni líkust er frásögn mín, svo ég varla trúi þessu enn sjálfur. En gerðu það fyrir mig, gerðu það fyrir sakir áralangs vinskapar okkar. Lestu með opnum huga og reyndu að trúa mér.

Lengi taldi ég mig gæfumann, vel giftan og sigla lygnan sæ. Hvarvetna naut ég velgengni, hvort sem það var í stjórnmálum, viðskiptum eða ástum. Ég vissi nefnilega ekki hversu mikla hættu ég setti mig í er ég giftist Öldu. Hún hefur engu að síður reynst mér vel, þó síðar hafi komið í ljós að hún var ekki öll þar sem hún var séð. Alda var viljalaust verkfæri föður síns. Var, segi ég, því hún er öll! Ívar myrti hana. Ég veit ekki hvernig ég get komið orðum að því, þannig þú trúir mér, en svo ótrúleg er frásögn mín. Ég vona bara að þú teljir mig ekki sturlaðan, því lengi vel hélt ég mig hafa tapað glórunni. Ívar hefur á einhvern hátt flutt sig; sálu sína eða sinni; yfir í líkama hennar. Hann skipti um líkama við dóttur sína! Hvers vegna skil ég ekki, mig grunar þó hann viti að hann eigi skammt eftir ólifað í líkama hennar, því ekki löngu eftir umskiptin sá ég hræðileg útbrot á líkamanum. Alda, sem er nú í kroppi Ívars, getur gott sem ekkert tjáð sig, hvað þá haft stjórn á hrumum útlimunum.

Skömmu eftir giftingu okkar létust foreldrar mínir, eins og þú veist. Lengi vel stóð ég í þeirri trú að tilviljun ein hefði hagað því þannig til að þau féllu frá í sama mánuði, en ég er ekki svo viss lengur. Ívar fór að venja komur sínar oftar á heimilið og Alda varð sífellt kaldranalegri í framkomu sinni við mig eftir því sem vikurnar, mánuðirnir og árin liðu og Ívar varð sífellt stjórnsamari. Ég reyndi að láta þetta ekki á mig fá og eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að nokkuð fréttist.

Ó, Guð, hefði ég aðeins vitað hvað í vændum var!

Eftir því sem leið á fór ég að fella hug til annarrar konu, Kolbrúnar og tók að draga mig eftir henni. Eitt kvöld var sem einhver stífla brysti og augnablik náðum við saman. Við reyndum eftir fremsta megni að halda sambandi okkar leyndu, enginn mátti vita neitt.

Ég veit að það er þér ekki auðvelt að lesa þetta, ég veit hvaða hug þú barst til hennar eitt sinn og mér þykir það leitt að hafa leynt þig þessu, en hvað gat ég annað gert? Við ákváðum að gera hreint fyrir okkar dyrum og saman fórum við á fund Öldu. Þegar við komum heim var þar einhver djöfulleg athöfn í gangi. Marglyttum hafði verið raðað allt í kringum Öldu, sem lá nakin á stofugólfinu. Það logaði á nokkrum kertum hér og þar í stofunni. Áður en ég vissi af féll Kolbrún fram á gólfið og skömmu síðar hlaut ég afar þungt höfuðhögg. Rétt áður fannst mér ég sjá skugga, - skugga sem líktist engu sem ég hef séð áður. Ég get ekki útskýrt það, en skugginn var eins og eitthvað sem er svo framandi en jafnframt svo illilegt, að ekkert mannlegt tungumál á til orð sem getur lýst því. Eins og eitthvað forsögulegt, viðbjóðslegt og djöfullegt. Samstundis hataði ég skuggann en jafnframt óttaðist ég hann meira en nokkuð sem ég hef áður komist í kynni við.

Þegar ég sá Kolbrúnu í lauginni uppgötvaði ég hvað hafði gerst. Hvað möguleika átti eða á ég svo sem? Varla get ég farið til Páls og reynt að selja honum þessa sögu, hann myndi aldrei trúa mér. Þú ert búinn að vera svo hamingjusamur með Katrínu, ég hef helst ekki viljað trufla þig en ég veit að ég á skammt eftir. Eitthvað fór úrskeiðis við athöfnina sem við Kolbrún gengum inn á og virðist líkami Öldu eldast óvenjulega hratt, trúðu mér, ég þekki það að eigin raun því ég er fastur í líkama hennar. Ívar hefur rænt kroppi mínum. 

Kæri vinur, ég veit að þetta er ótrúlegt en þú verður að trúa mér. Ég segi þér sannleikann. Þetta er eins og í verstu skáldsögu, en því miður er þetta sá raunveruleiki sem ég þarf að búa við og það sem verra er, ég á ekki marga daga eftir ólifaða, líkami hennar þolir þetta ekki öllu mikið lengur. Þú verður að stöðva hann. Farðu til Páls og sannfærðu hann, þú einn getur það. Ég treysti á þig, því það er um seinan fyrir mig. Örlög mín eru í höndum Drottins.

                                                  

H.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 11.10.2008 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband