Elsku Sigga mín,
þú fyrirgefur mér vonandi ég hafi ekki skrifað eða hringt undanfarna 3 daga. Það hafa mörg vötn runnið til sjávar síðan ég skrifaði síðast og ég er ekki alveg viss um ég skilji til fullnustu merkingu alls þess sem ég hef heyrt eða orðið vitni að. Ég á erfitt með að sofna á kvöldin, myndir birtast í huga mér og ég finn fyrir miklum óróleika. Hvað er það við þetta þorp? Hvað er það við íbúa þess?
Ég er búinn að ræða við heilmarga. Það eru ekki margir sem sáu vel hvað gerðist. Ég er margsinnis búinn að spyrja Pál hvort hann hafi nokkurn grunaðan en hann segist vera kominn í öngstræti með rannsóknina. Það er skelfilegt til þess að hugsa að einhver í þorpinu hafi brennt inni hátt á þriðja tug barna og tvo fullorðna. Við skipslæknirinn fórum og skoðuðum líkin fyrir tveimur dögum, það var óskemmtileg lífsreynsla, nokkuð sem ég vil síður endurtaka. Þórarinn, læknirinn hér í Lönguströnd, tók á móti okkur. Það var heldur þungur bragur á því hjá honum, ekki furða, hann átti dreng í eldri bekknum. Samt var hann eins og svo margir aðrir í þessu þorpi, undarlegur og með óþægilega nærveru. Hann starði á mig eins og hann langaði einna helst að éta mig með augunum á meðan við skoðuðum líkin. Það er eitthvað fiskilegt við fólkið sem býr hérna, það minnir mig svo ótrúlega á eitthvað sjávarkyns. Húðin er slepjuleg og augun útstæð, næstum eins og karfar. Mér þykir leitt að grípa til svo stóryrða, en mér finnst íbúarnir hérna ógeðslegir.
Það var samt eitt sem kom fram í yfirheyrslunum, svolítið sem kom mér spánskt fyrir sjónir. Einn þeirra sem kom nokkuð snemma að eldsvoðanum sagði að hann hefði heyrt í kennara eldri bekkjanna hrópa í sífellu: - Þetta getur ekki verið. Þú átt ekki að vera hérna! Hvað ætli það merki? Hver var það sem ekki átti að vera þarna?
Ég er ekkert að ætlast til þess þú leysir málið, elskan mín. Ég er bara að hugsa á blaðið. Mér finnst það svo gott, hugsanir mínar öðlast einhvern veginn meira vægi. Þú lest bara hratt yfir þetta. Ég á náttúrulega ekkert að vera segja þér þetta, en þú þekkir starf mitt og veist að þetta er bara okkar á milli.
Takk kærlega fyrir bréfið. Mikið þótti mér vænt um að lesa söguna af Bjössa. Ég er með myndina af ykkur á litlum kolli við hliðina á kojunni minni og bréfin læt ég alltaf undir koddann minn. Þá finnst mér eins og þú sért hjá mér, bæði þú og Bjössi. Ég sakna þín ógurlega núna, ég vildi ég hefði þig til að styrkja mig og styðja. Þetta mál er mun erfiðara en ég átti von á. Það sækir á mig, hvort heldur sem er í svefni eða vöku og ég veit ekki hvort ég standi undir því. Kannski ég ætti að draga mig frá þessu.
Ég hlakka svo til að komast héðan. Það snjóar töluvert núna og það er orðið illfært um þorpið. Ég ætla að fara skoða hús kennarana og athuga hvort ég komist að einhverju þar. Mér skilst að þau hafi verið eitthvað að draga sig saman vikurnar fyrir eldsvoðann. Ég vona bara, að eitthvað fari nú að skýrast. Mér líður eins og ég vaði bara áfram í myrkri og það sé bara tilviljun ein hvort ég rekist á eitthvað.
Þinn ástkær eiginmaður,
Jón Einarsson
P.S. Segðu Friðriki að finna settið, ég vil síður týna því. Ef hann hefur gleymt því einhvers staðar, þá vil ég hann kaupi nýtt.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Ómar Ingi, 10.10.2008 kl. 18:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.