25. október
Skóladagurinn byrjaði ósköp sakleysislega. Ég kom krökkunum af stað í hópavinnu í sögu. Allan tímann fylgdist ég með Snorra, hann lét lítið á því bera en hann er orðinn stjórnandi þeirra. Þau hlýða skipunum hans umhugsunarlaust og þó hann sé ekkert að flíka því, þá hef ég á tilfinningunni hann viti að ég sé að fylgjast með honum og njóti athyglinnar. Hann fer leynt með stjórnsemina, augngotur og hvísl næga þó til að hinir krakkarnir stökkva til í hvert skipti sem hann sýnir einhver merki. Hvað á ég að gera við hann? Í frímínútunum spurði ég hann hvort hann hafi skilað til móður sinnar að ég hafi komið. Hann svaraði mér blátt áfram: - Nei! Eins og ekkert væri sjálfsagðara. Síðan gekk hann hægt út úr stofunni. Í dyrunum leit hann á mig og glotti. Mér finnst eins og hann sé að reyna espa mig upp.
Þegar nemendurnir voru rétt að klára nestistímann var bankað laust á stofuhurðina. Ég stóð á fætur og opnaði. Mér til mikillar furðu stóð Hólmgeir á ganginum.
- Sæll, mér datt í hug að líta við og spjalla aðeins við krakkana, sagði hann. Ég kinkaði kolli og steig til hliðar. Eins og venjur segja til um, spruttu krakkarnir öll sem eitt á fætur og stóðu bein í baki fyrir aftan stólana sína. Hólmgeir sló létt á öxl mína og gekk inn í stofuna.
- Sælir, krakkar mínir, sagði hann. Þau buðu honum góðan daginn, öll saman í kór.
- Mig langaði bara til að skoða skólann og rabba aðeins við ykkur, ef það er í lagi, sagði Hólmgeir og tyllti sér á hornið á borðinu mínu. Með handabendingu gaf hann þeim leyfi til að setjast aftur, sem þau gerðu.
- Það hefur aldeilis mikið gengið á hérna hjá okkur á Lönguströnd undanfarnar vikur. Ég veit ekki hvort Hermann hafi rætt eitthvað um það við ykkur en vonandi gerir hann það við gott tækifæri, sagði hann og leit á mig. Krakkarnir gutu augum á Snorra, sem sat fyrir miðju og fylgdist áhugasamur með Hólmgeiri.
Hann ræddi við nemendur mína um skólastarfið í nokkrar mínútur og ég fékk strax á tilfinninguna að þessi heimsókn hefði annan tilgang en þann að skoða starf nemendanna. Enda kom á daginn að svo var.
- Eins og þið vitið mæta vel, þá rak hér á land mörg þúsund marglyttur og hefur ströndin okkar góða verið gott sem ónýtileg vegna þessa. Hreinsunarstarf hefur gengið hægt en það horfir til betri vegar í þeim málum. Það sem mig langar til að biðja ykkur um er, að vera ekki að væflast niður á strönd. Það er betra að þið séuð að leika ykkur hér í þorpinu. Það er ekkert að sjá niður frá. Eruð þið ekki til í að gera þetta fyrir mig?
- Já, herra Hólmgeir, við skulum gera það fyrir þig, svaraði Snorri kokhraustur.
Skyndilega skaut heimsókn Skelmis til mín fyrir nokkru upp í huga mér. Ætli hann hafi verið að sinna svipuðum erindum í gærkvöldi í kaupmannshúsinu? Hólmgeir stóð á fætur og þakkaði fyrir sig. Hann tók í hönd mína og fór síðan fram á gang. Þar, heyrði ég, hann banka á hurðina hjá Katrínu. Um leið og ég lokaði dyrunum fór Snorri að hlæja. Hlátur hans var ekki smitandi, þvert á móti var hann andstyggilegur og illkvittinn. Ég hastaði á hann en hann lét það sem vind um eyru þjóta. Það var ekki fyrr en ég var kominn alveg upp að borði hans að hann hætti.
Eftir að kennslu lauk og krakkarnir voru farnir heim á leið rölti ég yfir til Katrínar. Við ræddum saman stuttlega um heimsókn Hólmgeirs, hún var undrandi á henni og varð enn meira hissa þegar ég sagði henni frá því sem ég sá í gærkvöldi. Við ákváðum að snæða saman heima hjá henni en ég vildi samt heilsa upp á Hannes áður en að matnum kæmi. Ég flýtti mér því að ganga frá og hélt síðan af stað á lögreglustöðina.
Þegar ég kom þangað sá ég strax að Hannes var ekki við, ljósið í klefanum hans var slökkt. Ég kíkti engu að síður niður til hans. Dyrnar voru lokaðar en ólæstar. Ég hleypti sjálfum mér inn. Ég leit í kringum mig, augu mín staðnæmdust við kassann sem rotturnar voru í. Ég varð ekki var við neina hreyfingu inni í honum, svo ég opnaði hann. Það sem ég sá var ólýsanlegt. Rottan sem Hannes hafði notað í tilraunina var að éta hina rottuna. Það stóðu litlir þreifarar út úr feldi hennar. Þá notaði hún til að halda hinni fastri á meðan hún át sig í gegnum húð hennar. Hin rottan reyndi að berjast um en án árangurs. Tilraunarottan sneri höfði sínu að mér. Blik augna hennar var kalt og yfirvegað. Eitthvað við það kom mér kunnuglega fyrir sjónir. Ég hljóðaði upp fyrir mig, henti kassanum frá mér og hljóp út. Ég linnti ekki ferð fyrr en ég var kominn út á götu. Í fyrstu reyndi ég að telja sjálfum mér í trú um mér hlyti að hafa missýnst eða dreymt þetta allt saman, en ég get engan veginn sætt mig það. Ég veit að það sem ég sá gerðist í raun og veru.
Þetta var þó ekki það eina sem var furðulegt í dag, þrátt fyrir að seinni atburðurinn sé engan veginn jafn sérkennilegur og sá með rottuna. Eftir að ég hafði jafnað mig á honum fór ég til Katrínar en sagði henni þó ekki frá þessu. Bæði efast ég um að hún trúi mér og ég vil ekki vera íþyngja henni með þessu, sérstaklega eftir allt sem hefur gengið á. Hver veit nema hún hrapi að röngum ályktunum? Telji jafnvel að ég sé hreinlega genginn af göflunum. Við borðuðum saman í ró og næði, síðan settumst við inn í stofu og hlustuðum á fréttir og framhaldssöguna í útvarpinu. Í fréttum var fátt meira rætt en stríðið á Kóreuskaga. Merkilegt hve mennirnir geta endalaust fundið sér ástæður til að drepa hver annan. Ég átti samt erfitt með að einbeita að lestri sögunnar, eins og gefur að skilja. Katrín varð þess áskynja að ég var annars hugar og spurði hvort ég væri þreyttur. Ég ákvað að nýta tækifærið og drífa mig heim, því ég hafði ekki eirð í mér að sitja þarna. Það voru svo margar hugsanir sem sóttu að mér, ég þurfti næði til að vinna úr þeim.
Ég var ekki lengi að hátta mig í rúmið eftir að ég kom heim. Ég var rétt búinn að koma mér fyrir með dagbókina þegar það var bankað nokkuð ákveðið. Hikandi fór ég fram úr og klæddi mig í náttslopp. Þá var aftur knúið dyra og í þetta skipti af meiri ákefð, núna myndi ég jafnvel segja örvæntingu, en það vissi ég ekki þá. Ég klifraði niður stigann ofan af lofti og á meðan var barið á dyrnar í þriðja sinn, jafn freklega og áður. Ég kíkti út um eldhúsgluggann og sá bara útlínur karlmanns í síðum frakka fyrir utan. Inn um opinn gluggann barst mér angan af slori og salti. Ég fór fram í forstofu og opnaði örlitla rifu á dyrnar. Mér til mikillar furðu stóð Hólmgeir fyrir utan. Hann hafði þó klætt sig í frakka Skelmis. Hann leit eins og undankomulaus flóttamaður í kringum sig. Hann virtist mér viti sínu fjær. Augun voru villt og þegar hann tók eftir mér, starði hann um stund á mig eins og hann þekkti mig ekki. Mér var hreinlega ekki um sel.
- Hermann, sagði hann og ég fann strax á röddu hans að hann var ákaflega skelkaður.
- Hermann, þú verður að hjálpa mér. Þau finna mig brátt. Þú verður að hjálpa mér.
- Hver? Hjálpa þér með hvað?
- Þau finna mig. Þú verður að hjálpa mér.
- Hvað er að, Hólmgeir? Komdu inn fyrir. Stattu ekki þarna úti, sagði ég, opnaði dyrnar og steig út til hans.
- Nei, svaraði hann og ýtti mér frá sér. Þau finna mig hér og ég vil ekki þau viti að ég hafi verið hér. Þá gæti farið fyrir þér eins og mér, eða verr.
Skyndilega leit hann til hliðar.
- Guð minn, hann kemur. Mundu bara, Hermann. Sá sem þú sérð í mér er ekki ég. Hann er líka að reyna taka yfir líkama minn.
Ég var orðlaus. Fyrir það fyrsta þá skildi ég vart hvað hann átti við og í öðru lagi þá var ekkert vit í því. Hólmgeir leit aftur í kringum sig, hallaði sér að mér og hvíslaði:
- Ég er fangi. Þú verður að hjálpa mér.
Síðan hvarf hann út í nóttina. Ég ætlaði að kalla á eftir honum, en þá heyrði ég fótatak nálgast. Ég lokaði dyrunum og reyndi að rýna í næturmyrkrið út um eldhúsgluggann en ég sá ekki neinn, þrátt fyrir að daufa birtuna frá ljósastaurunum. Ef Hólmgeir þarf á hjálp að halda, þá verð ég að gera eitthvað.
Hvað átti hann samt við? Getur verið að hann sé að tapa sér? Ætli atburðir undanfarna daga hafi haft svo sterk áhrif á hann? Ég veit til þess að menn hafi fengið taugaáfall við veigaminni tækifæri og sumir jafnvel sturlast yfir gott sem engu. Hann virtist ekki alveg með réttu ráði. Á móti kemur, hvernig ætli fólk myndi taka mér ef ég segði því frá rottunum tveimur og því sem ég sá í fangaklefa Hannesar. Hvað er eiginlega að gerast? Svo margir undarlegir atburðir og alltof margar spurningar. Hvar endar þetta eiginlega?
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar Ingi, 9.10.2008 kl. 11:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.