24. október
Ég svaf illa í nótt. Mig dreymdi í sífellu að marglyttur huldu líkama minn og smugu inn í hann. Ég hrökk upp með reglulegu millibili og er ég fór á fætur, langt fyrir allar aldir þá var ég löðursveittur. Mig dauðlangaði til að fara í sund en ég get ekki fengið mig til þess að fara ofan í laugina, ekki eftir allt sem hefur gengið á og sérstaklega þegar ekki hefur verið rannsakað almennilega hvernig marglytturnar komust þangað. Mikið vona ég að Páll fari að komast að því hver myrti Kolbrúnu. Minningarathöfn hennar var í dag og þar af leiðandi var börnunum gefið frí í skólanum. Ég klæddi mig í sparifötin, svarta ullarfrakkann og setti á mig hatt. Frakkinn er reyndar orðinn nokkuð snjáður og ég vona, ég geti verslað nýjan í vetur. Ég rölti heim til Katrínar og saman gengum við hægt að kirkjunni. Allt var hljótt utan við þunga tóna kirkjuklukknanna. Um stund fannst mér eins og þær væru að slá í takt við hjarta mitt. Ósjálfrátt leitaði hönd mín að hendi Katrínar, rétt eins og ég gerði þegar við mamma gengum upp að kirkjunni í minningarathöfnina um pabba. Ég hægði á mér. Mér fannst um stund eins og fætur mínir væru blýþungir og ég hefði ekki mátt til að lyfta þeim. Katrín leit á mig og þurrkaði tár sem runnið hafði niður kinn mína, án þess ég tæki eftir því. Hún strauk vanga minn og brosti. Ég leit í augu hennar og sá að henni var svipað innanbrjóst og mér. Hönd í hönd gengum við síðasta spölinn. Ég leit aftur fyrir mig og sá hvar íbúar þorpsins birtust á milli húsanna, tveir eða fleiri saman, og gengu í kyrrðinni upp stíginn að kirkjunni.
Hólmgeir sat ásamt öðrum fulltrúum bæjarstjórnar á fremsta bekk hægra megin, vinstra megin sat fólk sem ég hef ekki séð áður en komst að því að var fjölskylda Kolbrúnar. Ég sá hvergi Öldu en hinir voru allir ásamt eiginkonum sínum. Við Katrín fundum okkur sæti aftarlega. Athöfnin var hógvær og falleg, kórinn söng nokkra sálma og séra Tómas las úr Biblíunni ásamt því að ræða við söfnuðinn. Kistan verður grafin síðar meir í höfuðstaðnum að ósk fjölskyldu hennar.
Eftir athöfnina fóru margir á Bláu könnuna og þar á meðal við Katrín. Sem betur fer vorum við með þeim fyrstu og náðum í sæti, en margir þurftu að standa og satt best að segja var langt frá því nægt pláss inni á þessum litla stað fyrir alla. Á meðan við vorum þarna kom Páll til mín. Eftir stutt spjall hallaði hann sér að mér og hvíslaði:
- Hefurðu eitthvað hitt Hólmgeir undanfarna daga?
- Ekkert frá því við ræddum saman síðast, svaraði ég.
- Ekki ég heldur. Hann hefur lokað sig af. Mér skilst hann haldi sig einna mest heima við.
- Er ekki Alda eitthvað lasin? Vill hann ekki bara vera hjá henni?
- Ég hef ekki séð Öldu í þó nokkra daga og ég er nokkuð viss um hún er ekki heima veik.
Ég leit undrandi á Pál.
- Hvað áttu við?
Páll leit flóttalega í kringum sig.
- Ég ræddi við Sigríði gömlu, húshjálp þeirra hjóna, og hún sagði, að hún hefði ekki orðið vör við frúna í nokkra daga.
Ég starði gáttaður á Pál.
- Ekki eru öll kurl enn komin til grafar. Við þurfum að ræða aðeins saman við gott tækifæri. Ég þarf á hjálp þinni að halda. Þú þekkir Hólmgeir einna best.
Við sátum ekki lengi eftir að Páll kvaddi, við kláruðum úr kaffibollunum og héldum síðan heim á leið. Við ákváðum að fara heim til mín, við vildum hafa félagsskap hvort af öðru fremur en að sitja ein. Á leiðinni sá ég að ljósið í klefa Hannesar var slökkt og ég er því hálffeginn að hann skuli loksins hafa ákveðið að hvíla sig. Ég held, að hann hafi verið fullæstur í rannsóknum sínum, hann þarf eins og aðrir á hvíld og svefni að halda.
Þegar við vorum komin heim lögðum við okkur um stund. Það var notalegt að liggja við hlið Katrínar og finna hvernig brjóst hennar reis og hneig í takt við mitt. Ég hélt utan um hana uns ég sofnaði. Þegar ég vaknaði sat hún niðri í eldhúsi með kaffibolla fyrir framan sig og starði út um gluggann. Ég staldraði við í dyragættinni og horfði á hana, því hún vissi ekki af mér. Hún var búin að losa um hárið og það féll niður á axlir hennar, eins og foss sem um sólsetur slær gylltan blæ á. Skyndilega var sem hún yrði mín vör, því hún sneri sér snögglega að mér og brosti. Ég settist á móti henni og við ræddum saman um stund. Ég sagði henni frá því sem okkur Páli fór á milli inni á Bláu könnunni. Hún virtist ekki hissa.
- Það er svolítið sem ég hef aldrei sagt þér frá. Kolbrún tók af mér hátíðlegt loforð um ég myndi aldrei segja nokkrum manni það, sagði Katrín og velti kaffibollanum milli handa sér.
- Hún heimsótti mig af og til, enda ekki auðvelt að komast inn í þetta samfélag hérna. Það verður að segjast eins og er, að það er frekar lokað. Við komum báðar úr borginni og okkur varð ágætlega til vina. Hún treysti mér fyrir sínum leyndarmálum og ég henni fyrir mínum. Ætli ekki megi segja að hún hafi verið besta vinkona mín hérna, sagði hún og saug upp í nefið. Ég færði stól minn nær hennar og tók um hönd hennar.
- Kolbrún átti sér ástmann hér í þorpinu.
Ég hváði við. Ég vissi að margir höfðu rennt hýru auga til hennar, enda gullfalleg kona, en ég hafði ekki hugmynd um að hún væri í tygjum við einhvern.
- Hver var það, spurði ég forvitinn.
- Þú mátt alls ekki segja það neinum, Hermann. Lofaðu því, gerðu það, lofaðu að segja aldrei neinum, svaraði Katrín og starði svo undursamlega í augu mín, að ég gat ekki með neinu móti skorast undan.
- Ég lofa því, svaraði ég.
- Þú mátt alls ekki láta eins og þú vitir það eða gera nokkuð sem gæti varpað skugga á minningu Kolbrúnar.
Ég verð að viðurkenna, að þarna voru farnar að renna á mig tvær grímur. Ég vissi ekki alveg hvers vegna það var svo mikilvægt að halda því leyndu hver það var sem hún átti vingott við. Ég kinkaði hikandi kolli.
- Jæja, þú lofaðir og ég treysti þér, sagði Katrín og leit aftur á bollann á borðinu fyrir framan sig.
- Ef þú hugsar út í það, þá muntu eflaust skilja sjálfur hver það var. Hún hitti hann næstum daglega.
Ég starði á Katrínu. Í höfðinu fór ég yfir þá ungu menn í þorpinu sem hugsanlega gætu hafa átt erindi við Kolbrúnu á hverjum degi, en mér datt enginn í hug.
- Þetta var eitthvað sem gerðist. Hann er, sagði Katrín og hikaði eitt augnablik, - giftur!
Þá var eins og öll brotin kæmu saman í kollinum á mér, viðbrögð Hólmgeirs við líkfundinum, undarlegt háttalag hans og drykkja. Ég spratt upp úr stólnum, ég fann hvernig það var sem færi um mig rafstraumur.
- Alda hlýtur að hafa komist að því, hrópaði ég upp. Katrín starði á mig.
- Skilurðu ekki, Katrín? Kolbrún var myrt. Hólmgeir átti í ástarsambandi við hana og Alda hlýtur að hafa komist að því.
Um leið og ég gerði mér sífellt betur grein fyrir hvernig í þessu lá varð loforðið um að segja engum mér sífellt stærri þyrnir í augum. Katrín stóð á fætur og tók báðum höndum um andlit mitt. Það var sem hún læsi hugsanir mínar.
- Manstu, Hermann, þú lofaðir að segja engum frá. Ég veit að þetta er stór biti að kyngja, en Kolbrún vildi aldrei að þetta fréttist. Hún var ástfangin af Hólmgeiri en ég veit ekki hvort hann hafi elskað hana. Allavega minntist hún aldrei á það. Gerðu það, Hermann, gerðu það fyrir mig að segja aldrei neinum frá þessu.
Hún tók utan um mig. Ég muldraði eitthvað um ég myndi halda þessu út af fyrir mig. Samt finnst mér eins og mér beri skylda til að láta Pál vita. Ég þori því hins vegar ekki, ég vil ekki stefna sambandi mínu með Katrínu í hættu. Ætli ég geti dregið fram játningu hjá Hólmgeiri?
Klukkan var langt gengin í tíu þegar ég fylgdi Katrínu heim til sín. Eftir að ég hafði kvatt hana rölti ég aftur tilbaka og velti fyrir mér þessum nýju upplýsingum. Skyndilega snarstansaði ég. Í daufri birtunni frá götuvitunum fékk ég ekki betur séð en Skelmir færi inn bakdyramegin í gamla kaupmannshúsið. Ætli Alda sé þá heima eftir allt saman?
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Lesningarkvitt
Ómar Ingi, 8.10.2008 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.