22. október
Þegar ég rankaði við mér í morgun hafði hvesst töluvert og ég þurfti að klæða mig í þykkan frakka, trefil og húfu. Einhvern veginn fannst mér sá bragur á veðrinu að líklegt væri að það myndi byrja að snjóa innan skamms, en ofankoman lét á sér standa í allan dag. Skýin hafa bylt sér yfir firðinum og trén, sem eru að komin langleiðina með að fella allt lauf, svignuðu og bognuðu í rokinu. Gul, appelsínugul og rauð laufblöð dönsuðu trylltan dans út göturnar og ég átti allt eins von á því að sjá eitthvað annað rusl bætast í hóp þeirra.
Langflestir nemendur hafa nú snúið aftur í skólann. Aðeins þeir sem búa innar í firðinum voru heima í dag, ég skil það svo sem, foreldrar þeirra hafa haldið þeim inni við í dag. Ég leyfði nemendunum að vera inni í frímínútum og hafði opið fram á gang, svo ég gæti haft auga með þeim. Ég tók eftir svolitlu skrýtnu. Sífellt fleiri nemendur bætast í vinahóp Snorra. Samt virðast þau ekki vera eins og börn eiga að sér. Eitt sinn, eftir að ég hafði skotist fram í morgun, stóðu þau öll í einu horni stofunnar og fylgdust hljóð og alvarleg á svip með hinum krökkunum. Ég er farinn að fá illan bifur á þessum hópi. Ég hef einnig á tilfinningunni að hinir nemendurnir séu hræddir við hann.
Katrín bauð mér heim með sér eftir skóla, hún sagði að hún vildi elda fyrir mig og þar sem ég hafði ekkert betra að gera þáði ég boðið. Reyndar var ég himinlifandi, ég held nefnilega að eitthvað sé að gerast á milli okkar, en ég kem kannski betur að því á eftir. Við hittum Pál á leiðinni til hennar. Páll getur verið mjög sérstakur, einn daginn vill hann helst ekki vita af mér en þann næsta er honum í mun að ég sé inni í öllum hans málum. Hann stöðvaði mig og bað mig um að fylgja sér inn á lögreglustöð. Katrín gaf til kynna að sér væri það ekki á móti skapi, svo ég fór með Páli. Við flýttum okkur inn á skrifstofu til hans og hann kallaði eftir kaffi handa okkur. Síðan settist hann fyrir framan mig og horfði grafalvarlegur í augu mín.
- Hvernig er það, Hermann, hefur þú tekið eftir einhverju undarlegu í fari Hólmgeirs, spurði hann og ég fann strax á honum að eitthvað hafði komið Páli úr jafnvægi, jafnvel eitthvað sem hafði skotið honum skelk í bringu.
- Ég get ekki neitað því, svaraði ég. Reyndar þorði ég ekki að segja Páli strax frá öllu sem hefur farið í gegnum huga minn undanfarna daga, svona ef vera skyldi hann hefði einhverjar allt aðrar hugmyndir. Ég vildi ekki að hann héldi að ég væri að tapa glórunni.
- Ég leit til hans í gær og aftur í morgun. Hann hagar sér eins og hann er vanur, er kominn á fleygiferð í að skipuleggja hreinsun strandarinnar þvert ofan í óskir Hannesar. En það er eitthvað annað, ég veit ekki alveg hvað það. Ég finn það einna helst á því hve nærvera hans er breytt. Mér líður eitthvað svo asnalega í kringum hann, sagði Páll og ók sér til í sætinu.
- Ég var hjá honum í fyrradag og hann var frekar undarlegur, ég get svo sem ekki bent á eitthvað sérstakt en það var samt svo ólíkt honum.
- Já, augnaráð hans er breytt og til hins verra. Mér líður hreinlega illa þegar hann horfir á mig. Það er eitthvað svo dautt og kalt. Eins og hákarl myndi horfa á bráð sína, sagði hann og mér varð skyndilega hugsað til Snorra.
- Heldurðu að hann hafi orðið fyrir einhverju áfalli? Kannski hann sé að verða geðveikur?
- Hermann, hvað höfum við þrír þekkst lengi?
- Allt frá því við vorum börn.
- Einmitt. Heldurðu að hann myndi ekki leita til okkar ef eitthvað væri að?
- Ég vona það.
- Og heldurðu að við myndum ekki sjá það strax ef hann væri að fá áfall? Mér finnst, satt best að segja, að þetta séu ekki taugar hans sem eru að gefa sig. Það er meira eins og hann sjálfur sé ekki til staðar, heldur að þetta sé einhver allt önnur persóna. Ég meina, hann er að skipuleggja hreinsun strandarinnar og ætla að nota traktora með snúningstæki. Hannes varð svo reiður þegar hann heyrði þetta að ég var hræddur um hann myndi kýla Hólmgeir kaldan.
Við ræddum saman stutta stund í viðbót en komumst ekki að neinni niðurstöðu. Mig langaði til að kíkja á Hannes en þar sem Katrín beið eftir mér flýtti ég mér frekar til hennar. Ég get kíkt til hans á morgun. Það má mikið vera til að Páll taki það alvarlega. Hann hefur iðulega gert lítið úr umkvörtunum okkar Hólmgeirs, látið þær sem vind um eyru þjóta. Hólmgeir hefur breyst, á því leikur enginn vafi, en hvað er það sem vekur svo sterk viðbrögð hjá Páli? Hvað ætli hafi fengið viðvörunarbjöllurnar í höfði hans til að hringja? Hann sagði mér svo sem ekki hvað það hefði verið sérstaklega, nema að andrúmsloftið í kringum hann væri öðruvísi sem og augnaráðið? Eitthvað hefur samt orðið til þess hann fór að velta þessum atriðum fyrir sér.
Ég barðist í gegnum rokið heim til Katrínar. Hún hefur án efa séð mig út um eldhúsgluggann því hún opnaði dyrnar áður en ég náði að banka. Hún var með hvíta svuntu bundna um sig miðja og hafði losað um hárið. Ég var ekki lengi að koma mér inn fyrir dyrastafinn. Innan úr eldhúsi barst matarlykt en ég gerði mér ekki grein fyrir hvað hún var að elda. Hún bauð mér að setjast niður sem ég og gerði. Eldhúsið hjá henni er ekki stórt, ég settist við matarborðið sem stóð gegnt eldavélinni. Aðeins þrír stólar voru við borðið og hún hafði lagt á það auk þess að kveikja á hvítu kerti. Ég fylgdist með henni á meðan hún hrærði í pottum, af og til leit hún á mig og brosti. Ég held, að hún hafi notið þessa alveg jafn mikið og ég. Ég vona það að minnsta kosti. Eftir stutta stund var maturinn tilbúinn, lambalærisneiðar í brauðraspi og kartöflur. Við snæddum án þess að mæla orð frá vörum. Öðru hvoru mættust augu okkar og ég fann hvernig mér hitnaði í framan.
Eftir kvöldmatinn settumst við inn í stofu með kaffibolla og hlustuðum á útvarpið. Við spjölluðum saman um allt milli himins og jarðar. Þegar skólinn barst í tal minntist hún á breytinguna sem hefur orðið á sumum nemendum. Svo virðist vera sem einhverjir í yngri bekknum hafi líka umbreyst.
- Þau eru svo alvarleg, sagði Katrín og andvarpaði. Það er eins og þau vilji ekki leika sér, vilji ekki vera börn lengur, bætti hún síðan við. Ég sagði henni frá því sem ég sá fyrr í dag og hversu slæma tilfinningu ég hefði fyrir þessum hópi í mínum bekk. Hún var mér sammála um að við þyrftum að gefa góðan gaum að honum, til að tryggja að ekkert slæmt gerist. Nóg hefur nú þegar gerst.
Þegar ég stóð í anddyrinu og ætlaði að þakka fyrir mig, gerðist svolítið skrýtið. Ég hallaði mér fram til að kyssa hana á kinnina og hún hefur ábyggilega ætlað gera hið sama. Varir okkar mættust og við kysstumst. Kossinn var örstuttur og ég hrökk við. Hún horfði í augu mín og einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að þetta hefði ekki verið óvart. Hún tók í hönd mína og hélt um hana með báðum höndum sínum. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bera mig að, enda langt síðan ég hef verið í þessari aðstöðu. Þetta var engu að síður yndislegur koss, eins og hún sjálf er.
- Takk fyrir kvöldið, Hermann, sagði hún loks og sleppti hendi minni.
Ég var sem í leiðslu er ég gekk heim. Ætli ég geti nokkuð sofnað? Er ég að verða ástfanginn?
---
Hvað er eiginlega að gerast hérna? Klukkan er núna korter gengin í eitt eftir miðnætti. Skelmir bankaði upp á hjá mér fyrir örfáum mínútum og var langt frá því í góðu skapi. Hann hefur haft fyrir því að rífa sig af stað í rokinu sem er úti, það hefur bætt í vindinn síðan fyrr í kvöld og það syngur hátt í mæninum. Ég rumskaði við að einhver knúði frekjulega dyra. Ég klæddi mig í náttslopp, brölti niður að útidyrunum og var varla vaknaður þegar hann tróð fæti í dyragættina og öskraði á mig. Ég veit reyndar ekki hvort hann hafi gert svo af reiði eða til að yfirgnæfa vindinn, engu að síður náði hann athygli minni svo um munaði.
- Hermann, haltu krakkaskömmunum frá ströndinni! Þau eiga þangað ekkert erindi, sagði hann og starði grimmúðlegur á mig. Hann var með hettu á hausnum, eða sjóhatt, ég sá ekki almennilega hvort var, og ljósið í forstofunni endurspeglaðist í heila auganu.
- Hvað bíddu, hvað áttu við, spurði ég og var enn ekki búinn að ná áttum.
- Þau eiga ekkert erindi niður á strönd, segi ég og þú átt að halda þessum vitleysingum frá henni. Annars gæti farið illa, sagði hann og ég lýg því ekki, en það fór svakalega um mig því eitthvað í tón Skelmis var hreint út sagt ógnvekjandi. Áður en ég náði svara hvarf hann út í myrkrið og rokið. Ég kallaði nokkrum sinnum á eftir honum án árangurs.
Nú á ég aldrei eftir að sofna.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar Ingi, 6.10.2008 kl. 10:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.