Undrin við Lönguströnd

 

21. október

 

Dagurinn var heldur tilbreytingarlítill. Ég mætti í vinnuna og reyndi að fylgjast með Snorra og Bergdísi. Ég fékk ekki betur séð en þau séu farin að blanda geði við hin börnin. Þórarinn var með þeim í allan dag. Katrínu er meinilla við þau eftir gærdaginn, ég veit ekki hvað hefur eiginlega gerst. Hún vill ekki segja mér meira en það sem kom fram í gær. Reyndar verð ég að viðurkenna, að mér finnst nærvera þeirra sérkennileg, eins og hún hafi breyst. Það er eitthvað sem er ekki eins og það á að vera, en samt get ég ekki komið auga á hvað það er. Jú, vissulega er ankanalegt að sjá þau mæta dag eftir dag hrein og fín í skólann, en þannig eru hinir nemendurnir alltaf og hvers vegna ætti ég að vera setja mig upp á móti því að þau séu eins og þeir?

Það var samt eitt atvik í dag, svona þegar ég fer að hugsa um það. Ég var að útskýra sterka og veika fallbeygingu lýsingarorða uppi á töflu og sneri að töflunni á meðan ég var að skrifa á hana. Þegar ég lít aftur fyrir mig fannst mér Snorri stara einbeittur á mig. Hann minnti mig á myndir af stóru kattardýrunum þegar þau eru á veiðum. Ef hann hafði haft rófu hefði hann eflaust sveiflað henni rólega fram og aftur. Augasteinarnir eins og tveir litlir kolamolar, helsvartir en einhver innri eldur brann í þeim. Hvað er það við þessi börn? Hvað er það við Snorra sem kemur mér svo spánskt fyrir sjónir?

Ég reyndi að hitta Pál eftir vinnu en hann var upptekinn. Ég held, hann hafi verið að forðast mig því ég hef heyrt að einhver hafi lekið út upplýsingum úr krufningarskýrslunni í gær. Að minnsta kosti tók ég eftir því hvernig allir laumuðust til að fylgjast með mér á meðan ég verslaði í matinn. Reyndar heyrði ég í versluninni að Alda sé eitthvað veik, hún hefur víst lítið sést undanfarna daga, kannski hún hafi fengið flensu eða jafnvel tekið morðið á Kolbrúnu inn á sig? Ég fór í göngutúr í kvöld og gekk framhjá gamla kaupmannshúsinu, sem þau Hólmgeir erfðu þegar foreldrar hans féllu frá. Mér virtist hvergi loga ljós í húsinu en þó var klukkan ekki nema rétt tæplega átta.

Ég bankaði upp á hjá Katrínu á leiðinni heim. Hún tók vel á móti mér og bauð mér upp á kaffi. Hún minntist á að henni þætti ég þreytulegur og spurði hvort ég svæfi ekki nógu vel. Ég get rétt ímyndað mér hvað aðrir þorpsbúar hugsa.

- Getur nokkur sofið vel þessa dagana, spurði ég á móti.

Hún leit í augu mín og ég fylltist mikilli depurð við það. Katrín þurfti ekki að svara, augnaráð hennar sagði mér allt sem segja þurfti. Hún hefur engu að síður reynst mér vel, þrátt fyrir allt umtalið í þorpinu þá hefur hún ekki haldið mér frá sér. Eflaust hefðu einhverjir ekki einu sinni hleypt mér inn, hvað þá boðið upp á kaffi eftir allt sem hefur gengið á. Við settumst hlið við hlið í sófann inni í stofu hjá henni. Hún dró fæturna undir sig og vafði marglitu teppi utan um axlir sínar.

- Ég hef aldrei verið myrkfælin, en núna mér finnst óþægilegt að sofna án þess að vera með kisu hjá mér, sagði hún og horfði út um gluggann á vaxandi tunglið fyrir ofan fjöllin hinum megin fjarðarins. Ég tók í hönd hennar og þá var eins og eitthvað brysti innan í henni, því hún féll í faðm minn og grét um stund. Eftir nokkrar mínútur hafði hún jafnað sig en hvíldi höfuðið enn á öxl minni. Ég hélt utan um hana og vanillulykt af hári hennar lék um vit mín.

- Ég vildi óska þess að Kolbrún væri hér enn, sagði Katrín loks.

- Já, það geri ég líka, svaraði ég.

Við sátum saman í sófanum þar til að stóra standklukkan í stofunni hjá henni sló nokkru síðar og lét okkur vita að hún væri orðin ellefu. Ég kvaddi hana og hélt heim.

Ég ætti að fara að drífa mig í rúmið, en gallinn er sá, að ég hef ekki náð að festa almennilega svefn undanfarnar nætur, eins og Katrín tók bersýnilega eftir. Ég hef dottað, bylt mér og snúið en ekki enn náð að sofna svo heitið geti. Ég veit ekki hvað það er, ég er dauðþreyttur, kannski er það undirmeðvitundin að kalla á athygli mína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 3.10.2008 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband