Undrin við Lönguströnd

20. október

 

Ég veit ekki alveg hvað það var, en þegar ég mætti í skólann í morgun fannst mér eins og eitthvað væri breytt. Samt var ég einn í húsinu, ekki var von á nemendum fyrr en um hálftíma síðar, engu að síður var eins og loftið væri hlaðið einshvers konar neikvæðri orku sem ég hef ekki áður fundið, spenna sem fékk hárið á höfði mínu til að rísa. Þegar krakkarnir komu var ég á nálum, ég vissi ekki hvernig ég átti að haga mér. Ég opnaði dyrnar og hleypti þeim inn, en Katrín var ekki komin. Ég fór inn á skrifstofu og hringdi heim til hennar, þar sem ég hafði ekki tíma til að fara og athuga með hana. Þar svaraði enginn. Ég tók einnig eftir því að Höllubörn voru ekki komin. Ég kom bekknum hennar af stað í lestri og setti mínum nemendum fyrir að læra landafræði. Sjálfur stóð ég á ganginum á milli kennslustofanna og fylgdist með götunni út um gluggann á útihurðinni um leið og ég hjálpaði nemendum eftir því sem þörf var á. Um hálftíma síðar sá ég hvar hún kom gangandi ásamt Höllubörnum. Ég opnaði fyrir þeim, um leið mættust augu okkar Katrínar og ég sá strax að henni var nokkuð brugðið. Snorri og Bergdís leiddu Má á milli sín. Bergdís hafði farið að fordæmi eldri bróður síns og þvegið sér vel og rækilega. Hún var í hreinum fötum og hárið var snyrtilega fléttað. Ég stóð og starði um stund á þessa fallegu stúlku sem klæddi sig úr dökkri yfirhöfninni þegjandi og hljóðalaust. Már var hins vegar eins og hann á að sér að vera, eins og þau systkinin eru venjulega til fara. Ég skil ekki hvað er eiginlega að gerast með þau. Mér finnst þetta sumpart furðulegt, því varla getur talist eðlilegt að þau sem sjá venjulega um yngri bróður sinn skuli ekki þrífa hann líka, úr því þau eru á annað borð að fara í bað.

Í hádegishléinu settumst við Katrín niður og ræddum saman. Hún sagði mér af hverju hún hafði komið of seint og var mikið niðri fyrir. Ég held, að hún hafi orðið hrædd í morgun en það vildi hún ekki viðurkenna.

- Ég var nýkomin út, sagði hún og leit í kringum sig, eins og hún væri að tryggja að enginn heyrði til hennar, - þá sá ég hvar þau systkini ganga neðar í götunni. Mér fannst nokkuð undarlegt að þau skildu ekki fara beint í skólann, því, eins og þú veist, er töluverður krókur fyrir þau að taka á sig að fara niður götuna þar sem ég bý til að komast í skólann. Ég rölti af stað en þegar ég kom að gatnamótunum þá beygðu þau út að strönd, en ekki til hægri. Ég kallaði til þeirra, en þau hafa ábyggilega ekki heyrt í mér. Ég flýtti mér á eftir þeim og reyndi að fanga athygli þeirra, en allt kom fyrir ekki. Við vorum komin langleiðina út á strönd þegar ég náði krökkunum loksins. Ég greip í hnakkadrambið á Snorra. Þau sneru sér að mér og í eitt augnablik fannst mér eitthvað undarlegt blik í augum þeirra, eins og ég væri ekki að horfa á þau, heldur aðeins líkama þeirra. Síðan var eins og þau kæmu til sjálfs sín, því þau virtust jafn undrandi á því að vera þarna úti við strönd og ég.

Katrín starði á mig, augnaráð hennar var örvæntingarfullt og ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við þessari frásögn.

- Hvaða erindi áttu þau út á strönd, spurði ég.

- Ég hef ekki hugmynd um það, svaraði Katrín en hélt síðan áfram, - þegar við vorum á leiðinni hingað fékk ég ekki betur séð en Skelmir stæði við grjótgarðinn og fylgdist með okkur. Mér finnst hann ógeðslegur, ég fæ alltaf kuldahroll niður eftir bakinu þegar ég sé hann. Mér leið því mjög illa, með krakkana þrjá eins undarleg og þau eru og síðan með karlinn starandi á mig. Ég hefði alveg getað hugsað mér betri byrjun á deginum, ef þú skilur hvað ég á við.

Ég kinkaði kolli. Hvað ætli börnin hafi verið að gera úti á strönd? Hvers vegna var Skelmir þar? Ég þarf greinilega að finna gamla karlinn og ræða við hann. Ja, ef ég hitti ekki á hann þá fæ ég Pál til þess. Ég er sammála Katrínu í því að þetta er ákaflega furðulegt, en þetta getur allt eins haft enga merkingu. Það er svo erfitt að segja til um það. Ég ætla samt að vera á varðbergi gagnvart þeim systkinum, það er augljóslega eitthvað í gangi og ég vil vita hvað það er.

Restin af skóladeginum leið án frekari truflana. Áður en ég vissi af voru nemendurnir farnir heim til sín og ég stóð einn í skólastofunni. Eftir að ég var búinn að ganga frá leit ég inn til Katrínar, en hún var farin. Ég slökkti ljósin og læsti á eftir mér. Ég ákvað að heimsækja Hólmgeir til að athuga hvort hann væri búinn að jafna sig á þynnkunni og væri tilbúinn að spjalla við mig. Ég vonaðist til að geta rætt við hann um Kolbrúnu, svona til að heyra hvaða sögu hann hefði að segja.

Inni í ráðhúsinu var allt eins og það átti að sér að vera, nema hvað Kolbrún sat náttúrulega ekki við skrifborðið sitt. Ég fór rakleiðis inn til Hólmgeirs, dyrnar stóðu opnar og ég steig inn fyrir dyrakarminn. Hann leit upp úr einhverjum pappírum þegar hann tók eftir mér og brosti innilega. Mér brá við, því umbreytingin á honum var ótrúleg. Baugarnir undir augum hans voru horfnir, þreytan og þynnkan sem hrjáði hann síðast þegar ég hitti hann virtist í órafjarlægð. Ef eitthvað var, þá var Hólmgeir sprækari nú en fyrir morðið á Kolbrúnu. Hann bauð mér sæti.

- Hvað get ég gert fyrir…þig, spurði hann. Eitthvað við rödd hans sló mig, blærinn var ekki eins sá sem ég er vanur að heyra frá honum.

- Ja, ég ætlaði nú bara að athuga hvernig þú hefðir það.

- Fínt, ég hef það fínt, takk fyrir.

- Er Páll búinn að koma hingað?

- Já, hann kom skömmu eftir hádegi.

- Sýndi hann þér krufningarskýrsluna?

- Nei, er hún tilbúin?

Ég svaraði honum ekki strax. Hvers vegna ætli Páll hafi ekki sýnt honum skýrsluna eins og hann ætlaði sér að gera?

- Ég veit það ekki, mér datt bara í hug að athuga hvort að hún væri komin. Hann vill ekkert segja mér.

- Nei, hann hefur ekkert sagt mér. Skelfilegt mál, alveg hræðilegt. Ekki skil ég hvernig þessar marglyttur komust í laugina. Heldurðu að þær hafi farið í gegnum vatnskerfið? Ef svo er, þá gæti það þýtt að við þyrftum að loka fyrir það.

- Ég bara veit það ekki, ég hef engar skýringar á þessu, svaraði ég og reyndi að hylja undrun mína. Breytingin á Hólmgeiri var með endemum. Fyrir tveimur dögum var hann nær frávita af svefnleysi og drykkju, sjálfum fannst mér líklegra að hann hefði fengið einhvers konar taugaáfall, en þarna stóð hann og lét sem ekkert hafi í skorist og allt ætti sér eðlilegar skýringar.

- Jæja, úr því þú veist ekkert, þá ætla ég að drífa mig heim, sagði ég og stóð á fætur. Mér leið mjög sérkennilega þarna inni, eins og eitthvað væri ekki eins og það ætti að sér og mig grunaði einna helst að Hólmgeir væri farinn yfir um.

- Já, verið þér sælir, svaraði hann og brosti til mín. Um stund fannst mér eins og ég væri að horfa á allt aðra manneskju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 28.9.2008 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband