19. október
Ég fór ekki í sund í morgun, bæði vegna þess mig hreinlega langar ekkert voðalega mikið þangað eftir allt sem hefur gerst auk þess sem laugin er lokuð. Þar af leiðir mætti ég frekar úrillur og ekki nógu vel vakandi í vinnuna. Nemendurnir voru undarlegir, eins og þeir vissu ekki alveg hvernig þeir ættu að haga sér, það er að segja þeir fáu sem yfirhöfuð mættu. Eflaust hafa þeir ekki farið varhluta af þeirri umræðu sem Páll vísaði til í skýrslutökunni í gær. Það kom mér á óvart að sjá Snorra aftur hreinan og fínan, ég held að krakkarnir hafi líka verið undrandi yfir þessari breytingu á drengnum. Systir hans var hins vegar eins og hún á að sér að vera. Skrýtið að aðeins annað þeirra virðist hafa tekið upp á því að þrífa sig. Hann var meira að segja vatnsgreiddur.
Ég reyndi að halda úti einhverju starfi en það gekk fremur illa. Krakkarnir voru á nálum og vissu hreinlega ekki hvernig þau áttu að sér að vera. Stofan var hálftóm og augljóst að þau söknuðu samnemenda sinna. Í raun gekk þetta ágætlega þar til að Sigurdís Káradóttir rétti upp hönd og spurði:
- Hvernig var að koma líkinu? Var það viðbjóðslegt?
Ég starði í blá augu hennar. Í þeim greindi ég ekkert annað en sakleysislega forvitni, þó fannst mér spurningin óviðeigandi og næstum því illgjörn. Áður en ég náði að svara kom næsta spurning, nú frá Þórarni.
- Varst það ekki þú sem sást hana síðast á lífi?
Krakkarnir sátu og störðu á mig, augljóslega mjög spennt að heyra svör mín. Ég vissi varla hvaðan á mig stóð veðrið. Mér fannst eins og næsta spurning hlyti að vera, hvort ég hafi myrt hana. Reyndar er ég ekki viss um þau viti að hún var myrt. Ætli flestir í þorpinu geri ekki ráð fyrir að marglytturnar hafi drepið hana? Ég efast um að Páll hafi látið niðurstöður krufningarinnar fara eitthvað á flakk. Í fyrstu átti ég frekar erfitt með að koma frá mér heilli setningu. Ég ræddi við þau það sem eftir lifði af tímanum um atburðina og einhvern veginn var það ákveðin hreinsun fyrir mig. Ég reyndi að útskýra fyrir þeim mína upplifun og ég fékk ekki betur séð en að mörg þeirra væru mér þakklát, því ábyggilega hefur ekki verið spjallað við þau um þessa hluti heima. Krakkarnir hafa kannski heyrt út undan sér hvað hafði gerst en enginn tekið sér tíma til að hjálpa þeim að skilja og komast yfir fréttirnar. Á meðan við ræddum saman sat Snorri teinréttur í sætinu og fylgdist alvarlegur með mér. Augu hans viku aldrei af mér og það var ákaflega óþægilegt að sitja undir augnaráði hans. Mér fannst sem eitthvað annað lægi undir, eitthvað annað og mikilvægara. Ég ætti kannski að ræða við hann í einrúmi.
Í stofunni hinum megin á ganginum lenti Katrín í svipaðri reynslu. Nemendur hennar spurðu óteljandi spurninga og hún reyndi að svara eins vel og hún gat, uns þol hennar þraut. Ég varð var við umgang frammi og leit út á gangi, ég sá hana þá hverfa inn um skrifstofudyrnar. Ég bað nemendur mína um að halda áfram með lexíur sínar og fór inn til hennar. Hún sat og huldi andlitið í höndum sér. Ég greip um axlir hennar og reyndi að hughreysta. Hún þurfti að jafna sig og gerði það nokkuð fljótt. Innan tíðar var hún staðin á fætur, slétti úr pilsi sínu og þurrkaði vota augnhvarmana. Ég strauk kinn hennar og gerði mitt besta til að brosa, ég veit ekki hvernig það kom út en hún virtist mér þakklát. Skóladagurinn rann sitt skeið að lokum og krakkarnir hlupu hver til síns heima. Við Katrín spjölluðum saman um hvernig best sé að taka á þessu með krökkunum og ákváðum að ræða við séra Tómas. Ég er nokkuð viss um, þó karlinn sé kominn til ára sinna, að hann geti skýrt þetta dauðsfall út fyrir þeim. Ég hygg að við Katrín hefðum jafnvel líka gott af því að hlusta á hann. Ég man að hann kom allavega tvisvar til að ræða við móður mína á sínum tíma og hún var honum ævinlega þakklát. Ég þarf að heyra í honum á morgun.
Eftir að Katrín var horfin á braut ákvað ég að heimsækja Hannes. Ég vildi ekki fara heim strax en hafði svo sem ekkert að gera í skólahúsinu. Ég veit ekki hvað þorpsbúar halda eða munu segja, er þeir heyra að ég mæti daglega á lögreglustöðina eftir líkfundinn. Æ, mér er sama, þeir mega eiga sig með þetta slúður, þetta er smáborgaraháttur eins og Alda sagði. Það voru ekki jafn margir í dag og í gær, í anddyrinu sátu aðeins tveir menn. Annars vegar var þar starfsmaður sundlaugarinnar, ég man aldrei hvað hann heitir, enda langt um yngri en ég og því af annarri kynslóð. Hinn var Hólmgeir. Hann brosti daufur í dálkinn til mín er ég gekk inn og ég sá strax að hann var skelþunnur. Hann hafði ekki haft fyrir því að raka sig í framan og það stafaði sterkri áfengislykt af honum, sem minnti mig á hversu langt er síðan ég varð var stækjunnar sem kemur frá ströndinni. Er ég orðinn það vanur henni að ég er hættur að finna hana? Hólmgeir horfði á mig eins og hann langaði að segja mér eitthvað en síðan var sem hann hætti við. Ég er forvitinn um hvað það gæti hafa verið. Ég reyndi að spjalla við hann en Hólmgeir bað mig um að ræða við sig síðar. Ég virti það við hann og hélt áfram niður í kjallara, þar sem fangaklefarnir eru. Hannes er búinn að koma sér ágætlega fyrir og er ég gekk inn sat hann og grúfði sig yfir smásjá. Hann leit upp er hann varð mín var og brosti.
- Mikið er ég ánægður að þú skulir vera kominn. Ég þarf að sýna þér svolítið stórmerkilegt.
Hann benti mér á að koma nær. Í hvítum bakka á borðinu lá marglytta, hún var gott sem ósýnilega ef ekki væri fyrir þrjá örmjóa fjólubláa hringi sem mynduðu eins konar þríhyrning.
- Þetta er ein af marglyttunum sem ég fjarlægði úr sundlauginni eftir að konan fannst. Þú fyrirgefur, ég man ekki hvað hún hét. Ég er skelfilegur í að muna nöfn. Stundum gleymi ég því hvað ég heiti.
- Kolbrún, sagði ég.
- Já, einmitt. Hvað um það Ég hef aldrei áður rekist á Chiropsalmus quadrigatus hér við land. Heimkynni þeirra eru hinu megin á hnettinum, þar er þessi tegund marglytta kölluð Vespur hafsins. Fá dýr á jörðinni eru eitraðri. Ef angi snertir húð manns tekur það ekki nema örfáar mínútur þar til sá hinn sami er látinn. Það sem gerir þessa tegund enn hættulegri er að hún er nokkurn veginn ósýnileg, hún syndir meðfram ströndum, sækir í staði þar sem ferskvatn rennur út í sjó og drepur allt sem hún nær til. Það sem er hins vegar undarlegt, er að venjulega er þessi tegund miklu stærri, getur náð allt að 4 metra lengd. Þessi litla marglytta er réttir 30 cm í þvermál og angar hennar voru tæpir 80 cm.
Ég leit á Hannes og vissi ekki alveg hverju ég átti að svara. Sundlaugin hafði þá verið full af baneitruðum marglyttum og ég hafði næstum kastað mér út í hana til að bjarga Kolbrúnu. Ekki veit ég hvaða verndarengill vakir yfir mér, en ég prísa mig sælan að hafa ekki látið verða af því. Ég skoðaði dýrið nánar.
- Ranka þær við sér þegar þær lenda í ferskvatni, eins og þær á ströndinni?
- Ég held ekki. Þær sem ég tók sýndu engin viðbrögð þegar ég prófaði það.
Ég stóð um stund hugsi og starði á marglyttuna. Hvernig má það vera að þessi tegund hafi birst í lauginni? Hannes velti því svo sem lítið fyrir sér, hann var æstur yfir því að vera uppgötva ný afbrigði.
- Hugsaðu þér, þessi tegund hefur aldrei fundist hér við land. Hitastig hafsins er ekki nógu jafnt, veturnir eru alltof kaldir í sjónum hér í kring.
- Bíddu, er ekki hiti hafsins nokkuð jafn, spurði ég undrandi.
- Margir halda það, en raunin er sú að hitastig sjávar getur sveiflast töluvert. Vökvi heldur varma mun betur en lofttegundir, en hann tekur einnig lengri tíma að hitna. Þetta er af því vökvi hefur meiri eðlisvarma en loft, en þetta veistu, ekki satt? Hér í kringum landið eru bæði heitir og kaldir sjávarstraumar og á veturna getur hiti sjávarins fallið allt niður í 3° - 5°C.
Ég kinkaði bara kolli, Hannes hélt áfram að tala.
- Þetta eru samt ótrúlega merkilegar lífverur. Líkami þeirra er eins einfaldur og hugsast getur, fá dýr í náttúrunni eru jafn fullkomin að gerð. Þær eru að mestu vatn, hugsaðu þér, vatn í vatni. Líkami þeirra er 95% vatn, að því leyti líkjast þær svipudýrum og öðrum örverum. Þær hafa engan heila, hvorki mænu né hjarta, aðeins maga og kynfæri. Munnarmar draga inn fæðuna sem angarnir ná í og bera í munninn. Þær lifa til að drepa og drepa til að lifa, einfaldara verður það ekki.
- Er það ekki þannig með flest dýr? Mætti kannski ekki bæta við, að þær fjölga sér til að tryggja viðgang tegundarinnar?
- Jú, auðvitað, en flest dýr eru flókin að ytri og innri gerð. Sem dæmi má nefna, að marglyttur nýtast engum öðrum dýrum sem fæða, nema kannski öðrum af sömu tegund. Þær eiga sér enga óvini í náttúrunni, ekki einu sinni maðurinn er þeim skeinuhættur nema með óbeinum hætti. Við eigum okkur marga náttúrulega óvini, því maðurinn er of flókið lífform. Ef það liggur fyrir manninum að deyja út verður það sökum þrá hans eftir einfaldleika.
Ég leit á Hannes, sem horfði dreymin á marglyttuna í bakkanum. Við ræddum saman um stund, hann sagði mér frá því sem hann ætlaði sér að gera næstu daga en þegar ég sá að klukkan var farin að nálgast sex ákvað ég að drífa mig heim. Hann virtist þó ekki á þeim buxunum, ég á alveg eins von á hann sitji ennþá í fangaklefanum og grúfi sig yfir smásjána sína.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Innlitskvitt
Ómar Ingi, 27.9.2008 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.