Undrin við Lönguströnd

18. október

 

Mér leið sumpart eins og ég væri ekki vaknaður, heldur gengi í draumi um þorpið. Kannski er það vegna frásagnar Kolbrúnar, sem sækir á mig. Ég veit ekki af hverju en ég verð að komast að því. Ætli Katrín viti eitthvað meira en ég, þeim tveimur var víst ágætlega til vina? Æ, ég veit það ekki. Mér finnst eins og grundvallarlögmál hafi hnykkst til og færst úr stað. Ég hef aldrei vitað til þess að nokkur hafi látist með þessum hætti hér í þorpinu, hvað þá annars staðar. Þetta er heldur ekki einleikið, þetta með marglytturnar. Ég vona bara að Hannes fari að komast að því hvers vegna þær ráku á land.

Alls staðar er flaggað í hálfa stöng. Fréttir sem þessar þurfa engra fjölmiðla við, þær berast með morgunkaffinu, sniglast milli garða eins og læður í veiðihug. Ég var friðlaus inni við og dreif mig út eins fljótt og auðið var. Ég gat ekki einbeitt mér, ráfaði stefnulaust um þorpið og reyndi að koma einhverri stjórn á hugsanir mínar. Mynd af Hólmgeiri skaut upp í huga mér, þar sem hann stóð við laugarbakkann. Ég get ekki alveg útskýrt hvers vegna hann virtist taka þetta svo nærri sér, eftir því sem mér skilst var ekkert sérstaklega hlýtt á milli hans og Kolbrúnar. Að minnsta kosti varð ég ekki var við það í heimsóknum mínum á skrifstofur bæjarstjórnar, hann var frekar kaldur í framkomu sinni við hana ef eitthvað er.

Ég endaði við skólahúsið en þar var enginn. Ég hleypti sjálfum mér inn og settist við skrifborðið mitt, svona rétt til að öðlast frið. Ég veit ekki af hverju, en einhvern veginn líður mér ákaflega vel inni í skólastofunni minni. Ætli það sé ekki vegna þess að þar stýri ég aðstæðum, ég stjórna og er alvaldur. Nemendurnir geta vissulega komið með athugasemdir en þegar allt kemur til alls, þá ræð ég. Þar sem ég sat í stólnum mínum og með fæturna uppi á borði og reyndi að slappa af, var bankað á útidyrnar. Ég stóð upp og fór fram til að opna. Fyrir utan stóð Snorri Hölluson. Hann hafði þvegið sér og greitt dökkt hárið, sem annars virtist hreint, aldrei þessu vant. Hann starði á mig, alveg óhræddur, augnatillit hans kalt og yfirvegað. Mér fannst það fremur undarlegt, því hann er ekki vanur að horfa í augu mér. Ég opnaði útidyrnar.

- Sæll, Snorri minn. Hvað ertu að gera hér í dag?

- Ég hélt það væri skóli í dag, svaraði hann og brosti. Eða glotti öllu heldur. Eitthvað við far hans kom mér spánskt fyrir sjónir.

- Nei, karlinn minn, í ljósi atburða undanfarinna daga var ákveðið að fresta skólahaldi fram á fimmtudag.

- Jæja þá. Við sjáumst, Hermann kennari, sagði hann og rölti á brott. Ég stóð um stund og fylgdist með honum. Ætli Katrín hafi farið sjálf heim til Höllu og rætt við hana? Ég ætti kannski að reyna hitta á Katrínu á morgun og athuga það.

Um hádegisbilið gekk ég niður á lögreglustöð, því ég var nokkuð viss um að Páll vildi spjalla við mig og, - eins og Gunnar nefndi í gær, taka af mér skýrslu. Það kom mér á óvart að sjá hversu margir voru þar inni. Mér fannst eins og hálfur bærinn væri mættur og lögreglumennirnir voru önnum kafnir við að ræða við fólkið. Það var gríðarlegur hávaði og minnti mig sumpart á fuglabjargið við bæinn hans afa gamla. Þangað var ég sendur á sumrin og mér eru minnisstæðar ferðir í bjargið til eggjatöku. Um leið og ég hafði aldur til, var ég látinn síga niður og hirða úr hreiðrum fuglsins. Afi brýndi þó fyrir mér að taka aðeins eitt egg úr hverju hreiðri, nema þeim þar sem aðeins eitt var. Það var honum mikilvægt að komið væri af virðingu fram við náttúruna og taka aðeins það sem þurfti til að komast af, en ekki meira. Hann var ekki ánægður með nágranna sína, sem höfðu selt einhverjum ríkisbubbum, eins og hann kallaði þá, rétt til að veiða lax í ánni sem rann í fjörðinn.

Ég hafði ekki staðið lengi í anddyri lögreglustöðvarinnar þegar Páll tók eftir mér. Á meðan ég stóð og beið, eins og svo margir aðrir, fannst mér augu flestra viðstaddra hvíla á mér. Þau horfðu á mig eins og ég hefði gert eitthvað af mér, eins og ég væri skítugur. Ég heilsaði en fáir tóku undir kveðju mína. Páll kallaði mig til sín og bauð mér að setjast inn á skrifstofu til sín. Hann hellti kaffi í tvo bolla og settist síðan sjálfur við borðið sitt. Hann tók upp blýant og skýrslublað, horfði síðan á mig og það var sérkennilegur svipur á andliti hans. Eins og hann væri að meta mig.

- Jæja, Hemmi, við þurfum að taka af þér skýrslu þar sem það lítur út fyrir að þú hafir verið síðastur til að hitta Kolbrúnu á lífi og fyrstur til að koma að henni, sagði hann hálfdapur á svip. Það fór kvíðahrollur um mig, ég hafði ekki áður hugsað út í málið þannig.

- Já, ætli það ekki, svaraði ég.

Ég sagði honum fyrst frá gönguferð okkar Kolbrúnar og það sem okkur fór á milli og dró hvergi undan. Síðan fór ég yfir morguninn sem ég fann hana í lauginni. Hann spurði mig í þaula út í hin minnstu atriði og lét mig segja sér aftur og aftur frá þessu. Mér leið alveg skelfilega á meðan, því ég upplifði þetta samtal okkar miklu frekar sem yfirheyrslu en nokkurn tíma skýrslutöku. Í lokin, þegar hann hafði lokið við að skrifa skýrsluna, rétti hann úr sér og spennti greipar fyrir aftan hnakka. Hann horfði um stund á mig og andvarpaði.

- Nú ætla ég að segja þér nokkuð sem ég vil ekki að fari neitt lengra, skilurðu?

Ég kinkaði kolli.

- Ég fékk krufningarskýrsluna snemma í morgun í hendurnar. Svo virðist sem Kolbrún hafi verið myrt.

Ég greip andann á lofti.

- Myrt!? Hvernig þá?

- Hún var slegin með einhverju þungu aftan á höfuðið. Líklega hefur það verið nóg til að rota hana allduglega.

- Gæti hún ekki hafa dottið og rekið höfuðið í?

- Það held ég ekki, því á henni eru fleiri áverkar. Til dæmis eru sár aftan á hælum hennar sem benda til þess hún hafi verið dregin eftir hrjúfu yfirborði, eins og steinflísunum á bakkanum. Henni hefur verið hent í laugina, þar sem hún drukknaði að lokum.

- Ja, hérna megin. Morð á Lönguströnd. Hver gæti hafa framið það?

Páll svaraði ekki en starði á mig. Þá þyrmdi skyndilega yfir mig. Hann grunaði mig. Ég hafði, jú, séð hana síðastur á lífi og komið fyrstur að líkinu. Auðvitað var eðlilegt að ég væri efstur á lista yfir grunaða. Hann vissi líka að á sínum tíma hafði ég fellt hug til hennar, en það er liðin tíð.

- Páll, ég gerði það ekki, sagði ég örvæntingarfullur, - þú veist ég gerði það ekki. Þú þekkir mig. Ég gæti ekki gert flugu mein.

- Hemmi minn, vertu alveg rólegur, svaraði hann og bætti við, - ég er ekki að ásaka einn eða neinn. Hins vegar máttu alveg eiga von á því að íbúarnir hérna, ja, hagi sér undarlega svona til að byrja með. Þú þekkir hvernig lífið hérna er. Menn geta verið teknir af lífi félagslega án dóms og laga. Ég hef engan sérstakan grunaðan um verknaðinn en ég á líka eftir að ræða við töluvert af fólki. Engu að síður langar mig til að biðja þig um að vera ekki að fara neitt í burtu án þess að tala við mig fyrst. Allt í lagi?

Ég kom ekki upp orði. Ég stóð á fætur og dreif mig út. Ég vissi hreinlega ekki hvert ég átti að fara eða hvað ég gat gert. Ekki fyrir mitt litla líf þorði ég til Katrínar, ég var viss um að hún myndi skella beint á nefið á mér. Ég leið um þorpið eins og svefngengill í miðri martröð og rankaði ekki við mér fyrr en ég stóð fyrir framan ráðhúsið og tók þá eftir að ljós var í glugganum á skrifstofu Hólmgeirs. Ég fann hann inni á skrifstofu sinni. Hann spratt upp úr stólnum sínum þegar hann sá mig, mér sýndist hann hvorki hafa sofið né hirt nokkuð um útlit sitt síðan ég hafði síðast séð hann standa við laugarbakkann. Músabrúnt hárið var úfið og hvít skyrtan krumpuð. Hann hafði tekið af sér hálsbindið. Augun voru þrútin og þreytuleg, hann tók á móti mér með handabandi og bauð mér sæti. Hann náði í tvö glös og skenkti í þau koníaki, heldur fannst mér vel úti látið en ég kvartaði ekki. Hann riðaði og ég rétt náði orðaskilum.

- Merkilegt, sagði hann þvoglumæltur.

- Hvað þá?

- Að þú skulir einmitt koma, mér varð hugsað til þín rétt áður en þú steigst inn um dyrnar.

Ég þagði og horfði á hann, mér virtist hann vera mun drukknari en ég hafði nokkurn tíma áður séð hann. Hólmgeir reikaði örlítið í spori en náði að setjast í stól sinn, um leið og hann lenti í sætinu andvarpaði hann. Ég reyndi að ræða við hann en hann virtist mér of drukkinn til að ná einhverju af viti upp úr honum. Hann var byrjaður að dotta í stólnum þegar Alda kom inn. Hún var mild á svip, klædd grárri dragt og með svartan hatt á höfði. Hún heilsaði mér kurteisilega en sneri síðan athygli sinni að eiginmanni sínum.

- Jæja, Geiri minn, er ekki kominn tími á að þú komir heim, spurði hún þýðlega.

Eitthvað í svip Hólmgeirs breyttist, hann minnti mig á þá tíma er við vorum yngri, yfir hann kom einhver undarleg auðmýkt sem jaðraði við ótta. Hann leit niður, þorði vart að mæta augnaráði hennar og muldraði eitthvað sem ég greindi ekki. Hún gekk yfir að skrifborðsstól Hólmgeirs og náði í jakka hans.

- Vilduð þér vera svo vænn að aðstoða mig og styðja hann út í bíl, spurði hún mig.

Ég kinkaði kolli og gerði það sem hún fór fram á. Þegar hann var kominn í aftursætið leit hann svo undarlega á mig, næstum sem hann væri að biðja um hjálp. Hvers vegna ætli hann hafi verið hræddur? Alda bað mig um að hafa sem allra fæst orð um þetta, sérstaklega um drykkju Hólmgeirs.

- ...þér vitið hvernig fólk smjattar á svona löguðu, smásálirnar njóta að hafa þess háttar á milli tannanna.

Síðan þakkaði hún mér fyrir hjálpina og settist inn í bílinn. Ég horfði á eftir honum renna út götuna og hverfa fyrir horn. Ekki skil ég hvað er að gerast í lífi Hólmgeirs. Fjandinn hafi það, ég skil varla hvað er að gerast í mínu eigin lífi! Ég trúi því varla að fólk skuli halda að ég hafi drepið Kolbrúnu. Hvers vegna ætti ég að gera það? Æ, þetta er allt eins og ég sé staddur mitt í minni eigin martröð en geti ekki vaknað. Vonandi að morgundagurinn verði betri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Til lukku með það sem er á leiðinni.  Gaman að lesa hjá þér.  18.okt er mér hugleikinn, fæðingardagur mannsins míns heitins.  Kær kveðja frá Selfossi

Ásdís Sigurðardóttir, 26.9.2008 kl. 16:38

2 Smámynd: Ómar Ingi

Kvittz

Ómar Ingi, 26.9.2008 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband