17. október
Hvað er eiginlega að gerast? Það er eins og allt sé á hvolfi og enginn viti neitt í sinn haus. Fyrst þetta undur með marglytturnar, nú Kolbrún. Ég vildi óska þess ég gæti bara sofnað og gleymt þessu öllu saman, en í hvert skipti er ég loka augunum sé ég líkama hennar fyrir mér fljótandi í lauginni.
Ég vaknaði snemma í morgun. Það var svalt í veðri og héla lá á visnuðum gróðrinum. Ég flýtti mér því upp í sundlaug til að geta komist sem fyrst ofan í heitt vatnið. Ég kom á sama tíma og fyrstu starfsmennirnir, þeir hleyptu mér inn með sér enda mætti kalla mig fastagest. Skóhillurnar voru auðar og ég var ekki lengi að skipta um föt og fara í sturtu. Þegar ég kom út var allt hljótt fyrir utan suðið í hreinsibúnaði laugarinnar. Ég tók á mig stökk og hljóp að bakkanum. Þar stansaði ég augnablik og ég held, að þar hafi örlögin tekið í taumana. Einhverra hluta vegna ákvað ég að stinga mér ekki ofan í vatnið, eins og ég geri annars oftast. Kannski að guðleg forsjón hafi spilað þarna inni. Í lauginni var nakinn líkami og ég sá fljótlega að þetta var Kolbrún. Hún sneri baki mót himni og með opinn faðm, en fætur hennar voru krosslagðir. Ég hrópaði fyrst nafn hennar en síðan á hjálp af öllum lífs og sálar kröftum þegar ég fékk engin viðbrögð frá henni. Aldrei fór ég út í vatnið til að hjálpa henni. Af hverju ekki? Var það ef til vill einhver ósýnileg hönd sem stýrði mér? Skyndilega kom ég auga á hreyfingu í vatninu, örlitla gáru á yfirborðinu og ég þurfti virkilega að rýna ofan í laugina til að sjá hvað olli henni. Mér til skelfingar sá ég að laugin var morandi full af marglyttum!
Það er mér ráðgáta hvernig í ósköpunum þær komust í laugina. Ég rétt náði að halda aftur af laugarverðinum þegar hann kom hlaupandi. Innan stundar voru bæði Páll og Gunnar læknir komnir á staðinn. Ekki leið á löngu þar til Hólmgeir birtist og á eftir honum Hannes. Ég sat hálfdofinn og fylgdist með þegar laugin var tæmd vatni og lík Kolbrúnar fiskað upp úr henni. Hólmgeir stóð og starði stjarfur á herlegheitin. Hann mælti ekki orð frá vörum. Hann var náfölur, enda Kolbrún náinn samstarfsmaður hans. Ég átti erfitt með andardrátt og fannst sem það myndi líða yfir mig. Ég var látinn leggjast niður og allt hringsnerist í hausnum á mér. Hvað gæti hafa gerst? Hvers vegna var Kolbrún þarna í lauginni? Nakin í ofanálag?
Þegar ég reisti mig við til að dreypa á vatnsglasi sem mér hafði verið fært sá ég þá Hólmgeir og Pál ræðast við í lágum hljóðum. Ég fékk ekki betur séð en Páli væri töluvert niðri fyrir. Ég veit ekki hvað þeir voru að tala um. Þar sem ég lá með vatnsglasið í hendinni varð mér hugsað til marglyttanna, Kolbrúnar og uppgötvunar Hannesar og aftur fór allt fleygiferð í hausnum á mér. Ég reyndi að standa á fætur og koma mér inn á klósett en náði því ekki og kastaði upp við dyrnar inn í karlaklefann. Páll og Gunnar komu aðvífandi og ákveðið var að senda mig heim í fylgd með lögreglumanni, Gunnar ætlaði síðan að líta inn til mín seinna í dag, sem hann og gerði.
Þegar ég var loksins kominn heim lagðist ég upp í rúm og reyndi að sofna, en það var sama hvað ég gerði. Ég bylti mér og reyndi að finna þægilega stellingu en allt kom fyrir ekki. Eftir um tvo tíma gafst ég upp og settist inn í eldhús við eldavélina og hlustaði á útvarpið. Það sveif höfgi á mig innan tíðar og þannig kom Gunnar að mér. Ég rankaði við mér er ég fann hrjúfa hönd hans á enni mér. Hann sagði ekki margt svo sem, aðeins að ég hlyti að hafa fengið vægt taugaáfall og ég ætti að taka því rólega næstu daga.
- Hvað með skólann, spurði ég, - hver á að kenna krökkunum?
Gunnar á einmitt son í bekknum mínum, Þórarinn. Hann er líkur föður sínum, með rauðan koll og sterklega vaxinn. Hendur hans minna frekar á bjarnarhramma en fíngerðar hendur manneskju. Eplið hefur ekki fallið langt frá eikinni, því ekki nóg með að þeir séu líkir í útliti heldur er atgervi þeirra gott sem hið sama. Þórarinn er rólegur og fámáll en hefur einhverja nærveru sem erfitt er að hunsa. Ég held, að hann sé leiðtogi innan nemendahópsins án þess þó að gera sér sjálfur grein fyrir því. Oft líta krakkarnir til hans eftir viðbrögðum, eða svo hefur mér sýnst.
- Ég held, svaraði Gunnar, - að Páll hafi rætt við Katrínu og þau ákveðið að gefa krökkunum frí fram á fimmtudag, svona til að byrja með að minnsta kosti. Það er ágætt, tel ég, að gefa þeim líka færi á að skilja hvað hefur gerst og ég efast ekki um að Páll vilji ræða við þig og taka skýrslu af þér. Hann bíður einmitt hér fyrir utan eftir að heyra hvernig þú hafir það.
- Hvað heldur þú að hafi gerst, spurði ég eftir andartaksþögn.
- Ég hef svo sem ekki myndað mér neina skoðun á því. Læt vísindamanninn og jafnvel Pál um að búa til kenningar og hugsmíðir um það sem hugsanlega hafi komið fyrir.
Ég horfði um stund á andlit Gunnars. Hann var sviplaus, sem hann léti sér engu varða um örlög Kolbrúnar. Hann hefur eflaust lesið í svip minn, því hann bætti við:
- Það er ekki það ég hafi ekki áhuga, en ég er læknir og fæst við raunverulega hluti. Ég veit, að það var mikið vatn ofan í henni, sem bendir til þess að hún hafi drukknað. Annars á ég alveg eftir að kryfja hana, þannig ég get svo sem ekki sagt neitt með fullri vissu.
Ég kinkaði kolli og sat hugsi eftir hann kvaddi. Ég stóð á fætur og kíkti út um gluggann. Þar stóðu þeir Páll og ræddu saman. Er hann kom auga á mig veifaði hann og ég las af vörum hans, að hann ætlaði að koma á morgun. Dagurinn leið að öðru leyti í einhverju móki, hér sit ég nú við skrifpúltið mitt og horfi út um kvistgluggann á stjörnurnar. Þessar sömu stjörnur hefur Kolbrún eflaust horft á milljón sinnum, jafnvel í gærnótt. Ég fæ ekki hrist úr mér skelfinguna frá því ég sá hana fljótandi í lauginni. Hvað gæti hafa gerst? Hvernig komust marglytturnar í laugina? Verður nokkurn tíma hægt að svara því?
Ég horfi út götuna, þangað sem kirkjan stendur einmanaleg í myrkrinu og lítur niður á þorpið með sínu dimma auga. Hvers vegna ætli Skaparinn hafi búið til marglyttur? Hvaða tilgangi þjóna þær? Hvers vegna Kolbrún? Hvað var hún að gera í sundlauginni? Æ, ef bara ég hefði svör, - vissu um að allt gæti orðið eins og það var.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvittz
Ómar Ingi, 25.9.2008 kl. 20:21
Var að lesa nánast alla söguna núna, kærar þakkir fyrir
Ragnheiður , 26.9.2008 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.