16. október
Ég fór út nokkuð snemma, enda vaknaði ég fyrir allar aldir af einhverjum sökum og var langfyrstur ofan í laugina. Það er ágætt að hafa hana út af fyrir sig, ekkert sem truflar og friður til að hugsa. Ekki leið nú þó á löngu áður en fleiri birtust, en þessar mínútur sem ég var einn voru ákaflega notalegar. Annars var svo sem lítið sem gerðist, hvorki Páll né Hólmgeir létu sjá sig og ég sat og spjallaði við eldri mennina í heita pottinum. Eins og svo margir aðrir í þorpinu kunnu þeir sínar skýringar á þessu öllu saman, ég lét þær sem vind um eyru þjóta enda hver annarri ótrúlegri.
Ég var því mættur tímanlega upp í skóla, enda má með sanni segja að skólastarfið byrji ekki af neinum krafti fyrr en á þriðja degi. Fyrsti skóladagurinn fer alltaf í spjall og kynningu, annan daginn nota krakkarnir til að koma sér fyrir en á þeim þriðja hefst kennslan fyrir alvöru. Nemendur mínir mættu fínir og stroknir, tilbúnir að nema nýja hluti og staðfesta þá vitneskju sem þeir höfðu fyrir. Merkilegt hve stór hluti kennslunnar fer í að tryggja að krakkarnir viti ákveðin sannindi, - sannindi sem mætti kalla almenn. Jörðin er hnöttótt, á eftir vetri kemur vor og Jesús Kristur dó á krossinum. Eitthvað sem allir vita og flest geta þau lært þetta heima hjá sér.
Ég sagði að nemendurnir hefðu mætt fínir og stroknir í skólann. Það er reyndar ekki alveg satt. Snorri Hölluson og systir hans, Bergdís, mættu seint og illa búin. Ég reyndi að láta þau ekki finna hversu leiðar mér þykja aðstæður þeirra. Halla er ein með þau þrjú, eldri systkinin og Má, sem er í bekknum hjá Katrínu. Halla er, því miður, drykkfeld og ég veit til þess að sumir karlmenn hér í þorpinu hafa leitað til hennar með þvottinn sinn, eins og það er kallað. Það hefur því komið í hlut Snorra og sumpart Bergdísar að hugsa um Má. Það er ekki nema ár á milli þeirra eldri en Már en 6 árum yngri en Bergdís. Mér sýndist þau hafa gert heiðarlega tilraun til að þvo sér í framan, en án sápu er erfitt að ná sumum óhreinindum af, auk þess var dökkur lubbinn ógreiddur nema hvað Bergdís hafði reynt að taka sítt hárið saman í fléttu sem hékk frekar máttlaus niður bak hennar. Hinir krakkarnir forðast þau líka eins og þau séu holdsveik, uppnefna þau Lúsablesana og það virðist sama hversu oft ég tala um þetta við bekkinn, virðist það ekki hafa áhrif. Mig grunar að miklu leyti megi skrifa þessa illgirni krakkanna gagnvart Höllubörnum á umræður þær sem ég ímynda mér að séu á hverju heimili eða þegar tvær, kannski þrjár húsmæður hittast yfir kaffibolla og gæta ekki að litlum eyrum.
Ég ræddi við Katrínu eftir að nemendur voru farnir heim um stöðu þessara systkina. Hún hefur svipaða sögu að segja af Má, hann virðist oftast nær illa hirtur og er hafður að háði og spotti af hinum krökkunum. Hún vill að við höfum samband við sýsluyfirvöld og látum þau vita að það sé ekki nógu vel hugsað um þau Höllubörn. Ég veit ekki með það, ég vil síður vera skipta mér um of af slíkum málum. Ég hef reynt það einu sinni og verð að teljast heppinn að hafa sloppið með líf og limi úr þeirri vitleysu. Það er nú nefnilega þannig, að í smábæ sem þessum fréttist mjög fljótt hver það var sem kallaði til yfirvöldin og það er sjaldnast vinsælt eða vel séð. Það væri nær að ég ræddi við Höllu eða Hólmgeir, svona til að athuga hvort ekki megi útvega henni einhverja aðstoð eða hvort hægt sé að koma krökkunum fyrir einhvers staðar, í það minnsta tímabundið. Katrín var ekki sátt við afstöðu mína, en ætlaði að virða hana, svona allavega fyrst um sinn og sjá hvort tillögur mínar munu hafa einhvern árangur. Ætli ég verði ekki að heimsækja Höllu í vikunni?
Á leiðinni heim hitti ég Kolbrúnu. Við gengum saman áleiðis og röbbuðum um hitt og þetta. Það er ákaflega notalegt að ræða við hana, mér líður alltaf eins og hún hafi mikinn áhuga á því sem ég er að tala um og maður finnur einhvern veginn til sín. Er það kannski ein af þeim galdraáhrifum sem hún virðist hafa á menn? Ég spurði hana út í Hólmgeir, hvort hún hefði orðið vör við að hann væri eitthvað ólíkur sjálfum sér eða ekki eins og hann á að sér að vera. Kolbrún var nú ekki viss um það, en þó viðurkenndi hún að hann hafi verið nokkuð upptekinn og fjarlægur undanfarna daga. Hins vegar vildi hún meina að það væri fyrst og fremst vegna þess hann hefði einfaldlega nóg á sinni könnu og ábyrgðin sem fylgdi starfinu mikil, því ætti ekki neinn að undra þó hann væri hugsi af og til. Ég veit ekki hvað það var, en allan tímann sem við ræddum saman um Hólmgeir fannst mér eins og hún væri að draga eitthvað undan, væri ekki að segja mér allan sannleikann. Kannski var það bara ímyndun í mér. Henni virtist allavega í mun að sannfæra mig um að þetta væri allt saman eðlilegt og ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af neinu. Ég vona að það sé rétt hjá henni.
Það var þó eitt sem hún sagði sem vakti furðu mína. Hana hafði dreymt undarlega og vildi heyra hvort ég gæti ráðið drauminn.
- Mér fannst sem ég stæði hér fyrir utan, sagði hún og benti á lágreista húsið sem hún býr í, - og við hliðið stóðu tvær beljur, kýr og naut. Það var blátt á litinn og vel hyrnt en hún fjólublá. Halar þeirra voru bundnir saman. Þau gengu hér niður eftir götunni. Skyndilega kom mikil flóðalda og virtist ætla að kaffæra þau. Nautið tók þá að naga af sér halann en kýrin, hún stóð stjörf og starði á vatnsvegginn færast nær. Nautinu tókst að losna í þann mund sem báran skall á þeim. Það náði að standa hana af sér en þurfti að horfa á eftir kúnni þar sem hún hvarf ofan í dimmbláan brekann. Eftir það sneri nautið við og gekk aftur upp strætið. Þá vaknaði ég. Hvað heldurðu að þessi draumur merki?
Ég hafði engin svör til handa henni, enda síst vel til þess fallinn að ráða drauma. Mig dreymir afskaplega sjaldan nokkuð með viti í og hef lítið hugsað út í þá. Þó var eitthvað við hvernig hún sagði frá draumnum sem fékk hárin á höfði mér til að rísa. Það færðist dreyminn svipur yfir andlit hennar og þegar frásögninni lauk, var eins og hún væri hrædd. Eins og hún óttaðist hann kynni að rætast. Ætli hún hafi upplifað drauminn sem martröð? Hún minntist ekkert á það. Ég botna hvorki upp né niður í veröldinni þessa dagana. Kannski ég geti hugsað skýrar í fyrramálið.
Flokkur: Bækur | Miðvikudagur, 24. september 2008 | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Ómar Ingi, 24.9.2008 kl. 10:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.