15. október
Eftir messu bauð ég Katrínu á Bláu könnuna. Við settumst þar niður og fengum okkur pönnukökur með sultu og rjóma og drukkum heitt súkkulaði. Ég sagði henni frá bón Hannesar. Hún var ánægð fyrir mína hönd og ég fékk ekki betur heyrt en hana langi örlítið sjálfri að fá að taka þátt í rannsókninni. Kannski hefði ég frekar átt að stinga upp á henni en að taka þetta að mér, hún er nú gott sem nýútskrifuð og eflaust mun betri í svona háskólasamræðum. Hún hefur þar að auki meiri áhuga á raungreinum en ég, mér finnast tungumálin skemmtilegust.
Ég fylgdi henni heim um klukkan eitt en sá á heimleiðinni að ljósið í fangaklefa Hannesar var kveikt, þannig ég ákvað að kíkja inn til hans. Án þess ég viti nokkuð um það, þá grunar mig að hann sé trúlaus. Ég sá hann til að mynda ekki í kirkjunni og ég hef heyrt að margir vísinda- og fræðimenn þessa dagana aðhyllist trúleysi. Ég veit ekki hvort heimurinn sé nokkuð skárri án Guðs. Er ekki ágætt að vita af einhverjum eða einhverju sem tekur á móti okkur þegar við loks kveðjum þennan heim? Mér finnst það þægilegri tilhugsun en sú, að þegar þessu lífi lýkur taki ekkert við nema viðarkassi, mold og maðkar sem éta sig í gegnum rotnandi holdið. Hannes var enn að koma sér fyrir og hafði ekki haft tíma til að rannsaka marglytturnar að einhverju ráði. Hins vegar benti hann mér á nokkuð sem honum fannst óeðlilegt. Hann tók eina slíka úr fötunni og lagði á borð.
- Sjáðu hvað gerist, sagði hann.
Síðan sótti hann vatn í glas. Hann hellti úr glasinu yfir marglyttuna og innan tíðar fór hún öll að titra. Það var eins og líf kæmi aftur í hana, undarlegum bjarmi fór um hana all og hún kipptist við er hann ýtti við henni með blýanti. Ég horfði forviða á Hannes sem starði skælbrosandi á holdýrið, eins og stoltur eigandi hunds sem er nýbúinn að læra að sitja eftir skipun.
- Þær eru ekki dauðar, venjulega væru þær farnar að leysast upp eftir þetta langan tíma á þurru landi, sagði hann og leit á mig.
- Ég sé það, en er þetta ekki drykkjarvatn sem þú ert með þarna?
- Jú, ég veit ekki hvað veldur þessu. Þær liggja í saltvatni en samt sýna þær ekki sömu viðbrögð við því.
- Merkilegt! En hvers vegna í ósköpunum ætli þetta sé svona? Er þetta ekki frekar óeðlilegt?
- Þetta er í hæsta máta óeðlilegt, Hermann. Ég hreinlega veit ekki hvers vegna þær haga sér svona, en ætla mér að komast að því.
Við ræddum saman um stund en Hannes var á kafi í einhverjum kenningum og tilgátum þannig ég ákvað að láta hann einan. Ég skildi við hann þar sem hann sat við smásjána sína. Þetta atvik var mér mjög hugleikið á leið minni heim. Mér varð skyndilega hugsað til allra marglyttanna sem lágu á ströndinni í rigningunni í gær. Ætli ströndin hafi öll iðað af lífi? Mörg þúsund marglyttur sem kipptust við um leið og fyrstu droparnir tóku að falla. Mér finnst þessi tilhugsun, satt best að segja, hryllileg. Þegar ég kom heim og náði loks úr mér hrollinum, sat eftir ein hugsun. Hvað veldur þessu? Hvernig stóð á því að marglyttan lifnaði við er vatni var hellt yfir hana? Hvers vegna ætli þær bregðist ekki eins við sjó? Ég er mjög forvitinn um þetta. Hannes kemst vonandi að því hvað er að gerast með þessar marglyttur, hvort þetta sé einhver stökkbreyting eða afbrigði sem enginn hefur áður fundið, hann hlýtur að finna eitthvað út úr þessu. Ég vona það að minnsta kosti.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.