Undrin við Lönguströnd

14. október

 

Hvað hefur skaparinn gert yndislegra en rigningu?

Í dag hefur rignt sem hellt sé úr fötu. Breytingin er kærkomin, því loftið er ferskara eftir úrhellið. Vatnið hreinsar og þrátt fyrir að stækjan rísi að nýju, þá er samt eins og ofankoman hafi endurnært þorpið og ekki síst mann sjálfan. Það var ósköp notalegt að finna dropana falla á höfuðið á meðan ég synti í morgun. Aldrei þessu vant mætti Hólmgeir í laugina en var langt frá því að vera jafn hress og í gærkvöldi. Hann minntist ekkert á að hafa hitt mig og þegar ég þakkaði honum fyrir síðast, kom undarlegur svipur á andlit hans, eins og hann myndi ekki alveg hvenær það hafði verið. Ég sagði honum frá gærkvöldinu en hann kannaðist ekki við neitt. Hann reyndi að slá þessu öllu upp í létt grín en eitthvað við augu hans sló mig. Það var eins og í þeim væri einhver skelfing, grunur um eitthvað hræðilegt. Ég veit ekki hvað það var, en ég er nokkuð viss um hann hafi orðið mjög hvekktur við að heyra frásögn mína, eins og hún fæli í sér einhverja uppgötvun eða staðfestingu. Ég veit ekki af hverju ég hef þetta á tilfinningunni. Mér þykir hegðun hans í hæsta máta undarleg, því hann er vanur að koma til dyra eins og hann er klæddur. Það er langt frá því líkt honum að vera í einhverjum feluleikjum. Við höfum þekkst frá því við vorum smápollar, hvers vegna ætti hann að þurfa þess? Ég vona bara að hann jafni sem fyrst, en ég er mun sannfærðari nú en áður að eitthvað bjátar á. Ég ætla að heimsækja Öldu á morgun og ræða við hana, kannski kann hún einhverjar skýringar á þessu.

Fyrsti alvöru skóladagurinn var ánægjulegur. Krakkarnir iðuðu í sætunum og gátu vart hamið sig af gleði yfir því að kennslan skuli loksins vera byrjuð aftur. Skólaárið er umtalsvert styttra hér en til að mynda í höfuðstaðnum. Á því eru eðlilegar skýringar, krakkarnir sinna ýmsum störfum og foreldrar þurfa á þeim halda uns sumarleyfistíminn er liðinn. Við Katrín þurfum hins vegar að vera þeim mun duglegri að ýta á eftir þeim og tryggja að þau komist yfir álíka mikið efni og aðrir grunnskólanemendur, enda kennum við ennþá á laugardögum þrátt fyrir að það hafi verið afnumið á flestum öðrum stöðum. Við náðum ekki að spjalla mikið saman í dag, enda var svo sem í nægu að snúast, en engu að síður minnti Katrín mig á að fara og ræða við Hannes.

Ég leit því við á lögreglustöðinni á leið minni heim. Ég byrjaði á því að kíkja inn til Páls, hann sat við dökka skrifborðið sitt - skrifborðið sem ég man að faðir hans sat oft við og reykti pípu – og fletti í gegnum fréttablöðin. Bæjarpósturinn var nú þynnra lagi í dag, eins og venjulega á veturna en blaðið úr höfuðborginni var þykkt. Páll tók vel á móti mér og bauð upp á kaffi og kleinur. Ég sagði honum frá gærkvöldinu og ég sá ekki betur en hann hafi glott þegar ég sagði honum með hverjum ég hefði verið. Hann var nú samt ekkert að stríða mér, eins og hann hefði eflaust gert fyrir nokkrum árum. Páll gat dregið mann sundur og saman í háði, en samt var hann aldrei meinfýsinn eða rætinn. Hann gat verið svo fyndinn að maður komst vart hjá því að hlæja sjálfur. Hins vegar hefur hann ekki sýnt þá hlið á sér í langan tíma. Ég hygg að eftir hann tók við af föður sínum þá hafi hann fullorðnast og ákveðið að slík hegðun ætti ekki við lögreglustjóra. Með hverjum degi sem líður líkist hann sífellt meira og meira föður sínum. Ég bíð bara eftir því hann taki upp á því að reykja pípu.

Eftir stutt spjall þá sýndi Páll mér hvar Hannes hafði komið sér fyrir. Fangaklefinn er ekki stór en einhvern veginn hafði lögreglumönnunum tekist að koma þar fyrir löngu borði og stól. Hannes hafði sett upp alls kyns tilraunaglös og smásjá á því auk skriffæra og stílabókar. Hann var ekki við þegar ég kom, Páll sagði að hann hefði rölt út á strönd til að safna sýnum. Ég mætti honum hins vegar í dyrunum er ég var að fara.

- Sæll, sagði ég, - þú ert bara strax byrjaður.

- Já, er eftir nokkru að bíða, svaraði hann glaður í bragði, klæddur í svört stígvél og með rauða vatnsfötu. Í fyrstu hélt ég hann hefði fyllt fötuna af vatni en þegar ég gáði betur kom í ljós að í henni voru þrjár marglyttur. Ég fylgdi honum inn í klefa og við reyndum að finna góðan tíma fyrir heimsókn Hannesar í skólann. Þegar það hafði gengið eftir þakkaði ég honum fyrir og gerði mig líklegan til að hverfa á braut.

- Þú kennir líffræði, ekki satt, spurði Hannes.

- Jú, svona í og með, eins og flest annað. Hér er ekki alveg sama form á greinakennslu og í borginni, svaraði ég.

- Ertu ekki til í að aðstoða mig í þessa rannsókn? Gætir kannski kíkt á mig eftir kennslu og hjálpað mér? Það er svo þægilegt að hafa einhver til að spjalla við, einhvern sem hefur örlítið vit á líffræði. Mér sýnist þú vera einna líklegastur hér í plássinu til að geta orðið mér innan handar.

Ég var svo upp með mér að ég gat ekki neitað honum. Það er líka ágætt að vera í innsta hring, þurfa ekki að reiða sig á frásagnir annarra af framvindu málsins. Ég hlakka strax til morgundagsins. Ætli hann vinni á sunnudögum? Best að fara drífa sig að sofa, svo ég verði nú útsofinn og viðræðuhæfur.

 

---

 

Ég get ekki sofið, það er einhver óeirð í mér. Mér líður eins og vikuna sem pabbi dó. Ég man ennþá, eins og það hafi gerst í gær, þrátt fyrir ég hafi bara verið fimm ára þá, þegar séra Tómas og Dagbjartur, faðir Páls, komu heim með fréttirnar. Pabbi var sjómaður, eða öllu heldur trillukarl, eins og svo margir karlmenn í þorpinu. Veðrið hafði farið snarversnandi allan daginn og trillurnar skiluðu sér seint en þeir sem komu inn síðastir báru heim þær fréttir að þeir hefðu séð brotsjó skella á fleyinu hans pabba og draga það niður. Þeir gátu ekkert gert til að hjálpa honum. Mamma hélt utan um mig og stóð í anddyrinu á meðan hún hlustaði á mennina tvo. Fyrir utan hringdu kirkjuklukkurnar. Eyra mitt lá upp að kvið mömmu. Ég heyrði hvernig hjarta hennar sló ótt og títt. Ég leit upp og sá að neðri vörin titraði örlítið, en augnaráð hennar var kalt sem stál. Þeir vottuðu okkur samúð sína, Dagbjartur klappaði á koll minn og brosti hughreystandi til mín. Ég reif mig lausan og hljóp út. Leiðin lá niður á bryggju. Ég settist á einn bryggjustaurinn og sat þar í rigningu og hávaðaroki og beið eftir pabba, eins og ég hafði gert svo oft áður. Þegar Dagbjartur fann mig var ég holdvotur og hríðskalf.

Alla næstu viku mætti ég vongóður niður á bryggju og settist á þennan sama staur. Hinir strákarnir í þorpinu hlupu hlæjandi í faðm feðra sinna. Stundum köstuðu vinir pabba á mig kveðju en ég sat sem fastast, horfði út að fjarðarmynninu og svaraði:

- Ég er að bíða eftir pabba, hann fer alveg að koma.  

Skömmu síðar var haldin minningarathöfn. Það var í fyrsta og eina skiptið sem ég sá móður mína gráta. Eftir hana hætti ég að fara og setjast á staurinn minn og bíða eftir pabba.

Mér líður samt stundum eins og ég sitji ennþá á þessum bryggjustaur.    

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Lestrarkvitt

Ómar Ingi, 22.9.2008 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband