Undrin við Lönguströnd

VI

 

13. október

 

Jæja, hvar á ég eiginlega að byrja? Þetta hefur verið viðburðarríkur dagur, svo ekki sé nú minna sagt. Það verður reyndar alltaf upplit á þorpsbúum þegar við fáum gesti fyrir utan sumarleyfistímann. En hvað er ég að rausa, ætli sé ekki best að hefja frásögnina á byrjuninni.

Eins og flesta morgna gekk ég upp í sundlaug eftir morgunmat. Þar hitti ég fyrir meðal annarra Pál, eins og ég hafði vonað. Við komum okkur vel fyrir í pottinum og ræddum saman í lágum hljóðum um Hólmgeir. Ég gerði honum grein fyrir áhyggjum mínum og sagði honum frá því sem ég hafði upplifað fyrir nokkrum dögum. Þetta virtist ekki koma Páli á óvart, hann kinkaði bara kolli dapur í bragði og svaraði:

- Ég hef líka tekið eftir því að eitthvað virðist hrjá hann, en hvað getum við svo sem gert? Ef hann leitar ekki til okkar, eigum við þá eitthvað að vera hnýsast í hans mál? Heldurðu að hann yrði sáttur við það?

- Ég er efins um það. Hann er hins vegar augljóslega alveg útkeyrður, á barmi taugaáfalls. Hann þarf að taka sér frí eða reyna að slappa aðeins af. Allavega meðan hann er að vinna úr sínum málum. Mig grunar, að Alda hafi líka tekið eftir þessu því ég mætti henni sama dag, hún arkaði út úr ráðhúsinu og virtist töluvert niðri fyrir. Ég veit ekki, hvort þetta tengist áhyggjum okkar, en mér finnst það mjög líklegt. Ég ætti náttúrulega ekki að vera slúðra þetta, ég hef bara áhyggjur af Hólmgeiri. Ætli það sé góð hugmynd að ræða við Öldu?

- Eflaust. Þó ekki væri nema til að athuga hvort hún hafi orðið vör við það sama, svaraði Páll og starði um stund fram fyrir sig annars hugar. Síðan bætti hann við: - Hún gæti hins vegar tekið því illa. Þú veist hvernig hún er. Farðu mjög varlega að henni, annars er hætt við að hún móðgist.

Skömmu síðar kvaddi hann mig og stóð upp úr pottinum. Sjálfur sat ég örlítið lengur og tók þátt í umræðum dagsins. Enn og aftur var marglyttumálið til umfjöllunar. Margir af sjómönnunum telja að marglytturnar drepi fiskinn hér í firðinum, fjöldi þeirra sé slíkur að ekki sé hugsanlegt að nokkurt annað líf þrífist. Mér finnst þær skýringar alveg jafn góðar sem hverjar aðrar.

Í dag komu nemendurnir. Ég fylgdist rólegur með hópnum streyma inn í stofuna. Að venju voru allir spariklæddir og ég laumaðist til að kíkja út um stofugluggann. Ég gat ekki komist hjá brosi, sumt breytist aldrei. Fyrir utan stóðu flestar mæðurnar prúðbúnar og biðu álíka eftirvæntingarfullar og börnin. Ég dreifði til þeirra stundaskránum og þeim fáu bókum sem ég hafði. Börnin sátu spariklædd og stillt á meðan ég fór yfir skólareglurnar og minnti þau á að ástunda nám sitt vel. Sama ræða og ég fór með í fyrra og árið þar áður. Ætli þau taki ekki eftir því? Í það minnsta þau elstu. Eftir um klukkustund kvaddi ég nemendurna og þau hlupu út þar sem mæður þeirra tóku á móti þeim. Næst myndi skarinn halda í verslunina til Gróu að kaupa skriffæri og stílabækur. Sumar venjur er þess virði að halda í. Ég held, að þetta sé ein þeirra. Ég gekk frá í stofunni og kíkti síðan inn til Katrínar. Hún var klædd í dökkan kjól og hvíta blússu, hún hafði sett hárið upp og varalitað sig. Hún sat í kennarastólnum, gleraugu hennar lágu á borðinu fyrir framan hana og það var eins og ég væri að sjá hana í alveg nýju ljósi. Ég stóð um stund í dyrunum og starði á hana, mér virtist hreinlega geisla af henni. Birtan sem barst inn á milli gluggatjaldana myndaði eins konar sólstaf sem baðaði hana í fölu ljósi og það virtist draga fram einstaka fegurð hennar. Ég ræskti mig og hún hrökk við.

- Guð minn góður, ég tók ekki eftir þér, Hermann, sagði hún og brosti um leið og hún setti upp gleraugun. Ég fann hvernig mér hitnaði í framan og reyndi því að afsaka mig einhvern veginn. Ég sneri því talinu strax að komu vísindamannsins og hvernig við gætum notfært okkur veru hans hér í skólastarfinu. Hún varð strax mjög hrifin af hugmynd minni og var fljótt komin á flug með ýmsar útfærslur á henni. Ég stóð bara og hlustaði hugfanginn á hana. Þegar klukkan tók að nálgast eitt og við vorum búin að snæða hvort okkar nesti bauð ég henni að koma með mér niður á höfn. Von var á strandferðaskipinu skömmu síðar og mig langaði til að vera viðstaddur er vísindamaðurinn kæmi til þorpsins. Ég er nefnilega ekki svo ólíkur húsmæðrunum, mér finnst gaman að sjá nýtt fólk og geta spjallað um nýjustu atburðina í þorpinu við fólk. Kannski er ég búinn að vera of lengi innan um börn. Úff, ef Katrín myndi heyra í mér, hún væri vís til að taka af mér höfuðið. Hún hefur ekki lítið agnúast út í gamaldagshugmyndir okkar hérna í þorpinu um hlutverk karla og kvenna. Seinasta vetur reyndi hún að halda fund í skólahúsinu fyrir konur til að kynna fyrir þeim nýjustu stefnurnar í kvennafræðum, eins og hún kallaði það. Því miður mættu ekki nema örfáar og flestar voru þær í yngri kantinum. Ætli Langaströnd sé nokkuð tilbúin fyrir nýjar hugmyndir í þeim efnum?

Við röltum rólega niður að höfn þegar við urðum vör við skipsflautu strandferðabátsins. Svart stefnið klauf sléttan hafflötinn og mér varð skyndilega hugsað til allra marglyttanna sem tættust í stundur í skrúfunni. Það var eitthvað við tilhugsunina sem olli mér ónotakennd, vitandi það að fjörðurinn var fullur af þessum undarlegu lífverum þótti mér frekar ógeðfelld hugsun. Samt var erfitt að koma auga á þær. Marglytturnar voru ósýnilegar undir kyrrlátu yfirborðinu. Við settumst á kassa skammt frá bryggjunni þar sem skipið leggur venjulega að. Ég tók fljótlega eftir þeim Páli og Hólmgeiri, þeir stóðu og ræddu saman í hálfum hljóðum. Mér sýndist Hólmgeir gjóa til mín augum og ég fékk á tilfinninguna að þeir væru að ræða um mig. Hann tók eftir að ég var að fylgjast með þeim og heilsaði mér, en mér virtist þeir ekkert áfjáðir í að spjalla við mig, þannig ég sat bara sem fastast við hlið Katrínar.

Ég verð nú samt að viðurkenna að vísindamaðurinn kom mér nokkuð á óvart. Skipið kom að bryggjunni skömmu eftir að við settumst og innan tíðar var búið að tryggja festarnar og landgangurinn kominn upp. Eftir nokkrar mínútur birtist dr. Hannes og þeir Hólmgeir og Páll flýttu sér til hans. Ég átti von á að hann væri virðulegur karlmaður í eldri kantinum, en undrun mín var þó nokkur þegar ungur, strákslegur spjátrungur kom í ljós. Hann var klæddur eftir nýjustu tísku, með hatt og staf og í ljósbrúnum frakka. Hann virtist þó ekki haltra eða þurfa stafsins við að öðru leyti en því að benda hafnarstarfsmönnunum á koffortin sín og til að skipa þeim fyrir. Hann heilsaði félögum mínum með handabandi og brosti svo breitt að það skein í hvítar tennurnar. Töskur og pinklar vísindamannsins var komið fyrir í bifreið lögreglunnar, en hann var samferða Páli og Hólmgeiri upp að hóteli. Á meðan þeir gengu þangað sveiflaði vísindamaðurinn priki sínu, eins og hann ætti þorpið og brosti til stúlknanna sem höfðu komið í forvitnisferð niður að höfn, líkt og ég, og bauð þeim góðan dag. Flestar flissuðu bara og roðnuðu. Ég skaut augum að Katrínu, sem fylgdist undarleg á svip með háttalagi hans. Eitthvað við svipinn á andliti hennar fór í taugarnar á mér.

Þegar þeir voru horfnir inn á hótel stóðum við loks á fætur og héldum aftur upp í skóla. Á leiðinni ræddum við um hvernig best væri að fá hann til að kíkja á nemendur okkar og leyfa þeim að kynnast honum. Rétt áður en við komum aftur að skólahúsinu stal ég hansarós úr garði einum og kom fyrir í hári hennar. Hún fór að hlæja og spurði hvað ég væri að gera. Ég var búinn að hugsa upp mjög gott svar, en náði bara að stama eitthvað um blómarósir. Hvers vegna ætli ég verði svona taugaveiklaður í návist kvenfólks? Sérstaklega þegar ég ætla mér að vera góður eða geri eitthvað fallegt fyrir þær? Það er eins og allt snúist á haus í kollinum á mér og ég kem varla upp orði. Ég fann að mér hitnaði í framan svo ég flýtti mér og faldi mig inni í stofunni minni. Það sem eftir lifði dags sat ég við skrifborðið mitt og reyndi að koma einhverju í verk, en ég er hræddur um að það litla sem ég gerði hafi verið heldur mikið dútl. Skömmu áður en ég fór heim bankaði Katrín þó upp á og spurði hvort ég vildi ekki borða með sér á hótelinu í kvöld.

- Jú, svaraði ég, - hvað stendur til?

- Ég er að vonast til að við gætum kynnst vísindamanninum, svaraði hún og hallaði sér að dyrastafnum.

- Nú, já, en ég get ábyggilega komið því í kring, með því að tala við Hólmgeir. Hann hlýtur að geta séð til þess.

- Já, en það er ekki jafn … persónulegt. Ég vil heldur að við gerum þetta sjálf. Ertu kannski ekki til í að koma með mér?

- Jú, jú, ég skal koma. Klukkan hvað?

Við ákváðum að hittast um klukkan sjö í anddyri hótelsins. Ég flýtti mér heim og lagðist í heitt bað. Ég reyndi eins og ég gat að slaka á, en það er eins og eitthvað sé í farvatninu. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað það er, en mér finnst eins og ég sé að upplifa lognið á undan storminum. Það er eitthvað sem bíður handan við mörk örlaganna og á eftir að gerast. Eins og exi sem bíður þess að falla með öllum sínum þunga á háls fórnarlambsins. Ég vona bara að það eigi eftir að koma mér vel. Samt er í mér einhver geigur, einhver undarlegum grunur um að það sem mun gerast á næstu dögum þurfi að gerast og muni gerast, án þess ég fái nokkuð við ráðið.

Katrín var komin á undan mér, hún stóð við afgreiðsluborðið og spjallaði við Sigurdísi, dóttur Kára hóteleiganda. Hún var í bláum kjól sem náði rétt niður fyrir hné og hafði leyft hárinu að falla niður á axlir. Ljóst hárið myndaði eins konar gylltan ramma um fíngert andlitið. Ég fann hvernig ég svitnaði í lófunum og mér leið eins og ég væri strengdur upp á þráð. Inni í matsalnum, sem var þéttsetinn, litu allmargir upp þegar hún tók eftir mér og heilsaði með því að kyssa mig á kinnina. Ég tautaði einhverja afsökun en hún virtist láta sér í léttu rúmi liggja að ég skyldi hafa komið seinna en hún. Innan tíðar vorum við sest og mér leið örlítið betur þá, enda gat ég grúft mig ofan í matseðilinn. Skömmu eftir að við vorum sest sparkaði Katrín laust í fótlegg minn undir borðinu. Ég leit upp úr matseðlinum hálfhissa en hún brosti bara og benti mér með höfuðhreyfingu á hvar vísindamaðurinn gekk inn í matsalinn. Hann hafði skipt um föt og kominn í dökkar buxur og ljósa skyrtu. Ég hálfskammaðist mín fyrir að vera í lúnu jakkafötunum, sem eiga þó að heita spariklæðin mín. Hann kinkaði kurteisilega kolli til gestanna á borðunum í kring. Eftir að hann var sestur var sem alda færi yfir gestahópinn, óvenju margir hölluðu sér að borðfélögum sínum til að sýna að þeir væru inni í nýjasta slúðrinu. Það var samt eins og Katrín læsi hugsanir mínar, því hún lagði hönd sína á mína og strauk blíðlega yfir hana.

- Hafðu ekki áhyggjur, Hermann minn, mér finnst þú mjög fínn í kvöld. Auk þess skiptir útlitið ekki jafn miklu máli og hjartalag manns, sagði hún og horfði um stund í augu mér. Síðan bætti hún við með laumulegt bros á vörum.

- Bláu augun þín eru líka mun fallegri en hans.

Á svipuðum tíma og Tinna bar fram kvöldverð okkar birtist Hólmgeir í dyrunum. Hann fór rakleiðis að borði vísindamannsins og bauð sjálfum sér sæti. Þeir ræddu saman á meðan vísindamaðurinn borðaði, Hólmgeir pantaði sér hins vegar koníaksglas og kaffi og dreypti á hvoru tveggja á meðan hinn át. Þegar hann hafði lokið úr glasinu og bollanum stóð hann á fætur. Hann rak augun í mig og sá Katrínu við borðið hjá mér. Hann brosti út í annað og kom yfir til okkar. Hann sló létt í öxl mína og sagði:

- Nei, sæll og blessaður, Hemmi minn. Eruð þið kennararnir að fagna við upphaf nýs skólaárs?

- Ja, ætli ekki megi segja það, svaraði ég hálfkindarlegur, enda vissi ég varla hvernig ég átti að taka á móti honum. Mér datt einna helst í hug að hann væri drukkinn, sérstaklega eftir að ég fann hversu ramma áfengislykt lagði frá honum.

- Það er ágætt. Gott fyrir ykkur að lyfta ykkur upp endrum og eins. Ég er annars á hraðferð, má ekkert vera að því að spjalla við ykkur, þótt glaður vildi, sagði hann og kvaddi. Ég leit á Katrínu og gat ekki varist brosi. Við ræddum saman um heilmargt á meðan við snæddum og ég naut þess að vera í félagsskap hennar.

- Hann heitir Hannes, sagði hún eitt sinn er vísindamanninn bar á góma og gaut augum að honum.

- Ég veit, svaraði ég og bætti síðan við: - Hólmgeir var búinn að segja mér það, ég bara gleymdi að láta þig vita.

Annars var kvöldið virkilega skemmtilegt. Upp úr hálfellefu ákváðum við þó að ljúka þessu og stóðum á fætur. Á leið minni að afgreiðsluborðinu gaf ég mig á tal við Hannes og kynnti mig. Ég gerði honum grein fyrir hugmyndum okkar Katrínar og hann tók nokkuð vel í þær. Hann bað mig um að minna sig á samtal okkar og sagði mér hvar hann væri að finna. Svo virðist vera sem hann hafi fengið annan fangaklefa lögreglustöðvarinnar til afnota sem rannsóknarstofu. Kannski ekki furða, ég efast um að Kári hafi viljað lána herbergi til þeirra starfa og skólahúsið er upptekið. Það gistir hvort eð er aldrei neinn í þessum fangaklefum, ef eitthvað kemur fyrir þá er viðkomandi oftast bara látinn sitja heima hjá sér. Það er helst að strákarnir gerist full duglegir í drykkjunni þegar böll eru á sumrin, en á veturna er hér yfirleitt allt með kyrrum kjörum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 19.9.2008 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband