V
12. október
Merkilegt hvað mörgum finnst óþægilegt að vera í þoku. Mér finnst það einmitt ákaflega notalegt. Þá er eins og hægist á öllu, fólk fer hljóðlega um og næstum að maður fái á tilfinninguna að ekki megi raska ró þokunnar. Öll hljóð verða svo ankannaleg og fjarlæg, líkt og þau eigi sér enga uppsprettu, þar sem ekki verður komið auga á hvaðan þau koma. Þegar ég vaknaði í morgun lá hnausþykkt mistur yfir öllu, það var eins og þorpið hefði verið vafið inn í bómull. Húsin minntu frekar á skugga þeirra sjálfra og hið sama má segja um íbúa Löngustrandar. Það sást vart á milli húsa og þegar ég kom út fann ég hversu kalt var. Örsmáar ísnálar svifu um og strukust öðru hvoru við vanga minn, líkt og frosnir fingur. Allt var dauðahljótt er ég rölti út í sundlaug, hvergi var sála á ferli og ég glotti með sjálfum mér, því þessi stund var eins og hún hefði verið klippt úr draumi. Engu að síður var einhver rafmögnuð spenna í loftinu. Ég áttaði mig ekki alveg á hvað það var en mér leið eins og eitthvað væri að, eitthvað væri breytt. Mér fannst eins og ég væri ekki einn, ég leit um öxl nokkrum sinnum til að sannreyna að enginn væri að elta mig. Ég kom ekki auga á neinn. Þetta var í rauninni í fyrsta sinn sem ég hef fundið fyrir ónotakennd í þoku.
Í allan dag hefur skýfallið legið yfir þorpinu. Sólarupprás dró lítillega úr þykkt þokunnar en virtist mér jafnframt auka á dulúðina sem henni fylgdi. Skuggar húsa virtust dökkna og dýpka, styttur fengu á sig undarlegan og fjarlægan blæ. Eftir því sem leið á daginn létti örlítið meira til en aldrei hvarf þokan að fullu. Kannski vegna þess að það hefur verið logn, vind hefur vart hreyft að ráði. Við höfnina stóðu sjómennirnir er ég átti þar leið framhjá um hádegisbilið og spjölluðu saman. Enginn þeirra hafði farið út í dag. Ég rabbaði við þá um stund og komst að því að hér í firðinum er ekki hægt að fiska nokkurn skapaðan hlut, marglyttur vefjast um veiðafærin og þeir fáu fiskar sem koma á annað borð upp eru dauðir. Þetta kemur heim og saman við það sem Páll talaði um í pottinum í morgun. Hann sagði, eftir að hafa kíkt út á baðströnd, að hann hafi komið auga á hræ fiska í aðstreyminu og í fjörunni. Hvers vegna ætli þeir hafi ekki verið þegar við komum fyrst?
Það er samt eins og þokan hafi magnað upp stækjuna frá ströndinni. Þessi súra rotnunarlykt hefur aukist og ég sá þó nokkra sem gengu um með einhvers konar vörn, sumir voru með andlitsgrímur en aðrir smurðu lyktsterku kremi undir nef sér, ég held að það sé einhvers konar mentólsmyrsli, kannski ég ætti að fá mér þannig? Þessi óþefur er skelfilegur og mér verður hreinlega flökurt við að koma út á morgnana. Kannski er það bara sú áminning sem hann ber með sér, sýninni af marglyttunum skýtur upp í huga mér um leið og ég finn hann. Mikið væri nú gott að fá örlitla golu, til að feykja þessum daun á haf út.
Ég sat fram eftir kvöldi í skólahúsinu og las mér til um marglyttur. Ég var þar aleinn því Katrín hafði fyrir löngu farið heim. Það er mér svo sem engin nýlunda að vera einn í húsinu, en mér leið hálfkjánalega áðan. Ég veit ekki af hverju, en þessi tilfinning læddist engu að síður að mér. Ég dró fram allar þær líffræðibækur sem ég fann og fletti fram og aftur í þeim. Því miður var ekki mikið á þeim að græða, ekki nema örfáar myndir og latnesk heiti þeirra tegunda sem voru sýndar. Mér er hugleikið hvers vegna þetta hafi gerst? Getur verið að eitthvað í umhverfinu, sjónum, hafi breyst? Orðið til þess að vistkerfið hrundi? Ég komst hins vegar ekki að neinni niðurstöðu, enda hef engar forsendur til þess. Ég er bara kennari.
Á morgun kemur vísindamaðurinn. Það verður gaman að heyra hvort hann kunni einhverjar skýringar á þessu. Mér heyrðist hins vegar á Hólmgeiri, að þessi maður hafi ætlað sér að rannsaka þennan atburð. Ég ætti kannski að tala við hann og reyna fá hann til að spjalla við krakkana í skólanum, þau hefðu ábyggilega gaman af því að ræða við alvöru vísindamann. Katrín verður eflaust ánægð með þessa hugmynd mína, hún er svo mikið fyrir svona lagað. Ég fæ vonandi fallegt bros frá henni. Á morgun tökum við Katrín líka á móti krökkunum í fyrsta sinn þennan vetur. Þau munu koma til að taka við námsbókum og stundaskrám. Ég vildi óska þess ég gæti látið alla hafa bækur, en það er því miður ekki hægt. Ég get hreinlega ekki látið nemendur fá bækur sem hanga varla saman eða vantar á kápuna og einhverjar opnur. Ég hef reynt að skipuleggja það þannig, að systkini eru saman um bækur eða nágrannar. Þannig vona ég að bækurnar nýtist sem best.
Á leið minni heim tók ég eftir að enn logaði ljós á skrifstofu Hólmgeirs og ég fékk ekki betur séð en hann væri enn þar við vinnu. Ég vona að hann ofgeri sér nú ekki. Honum hættir til að taka starf sitt full hátíðlega. Ég veit hann hefur í mörg horn að líta en ég get ekki horft framhjá heimsókn minni fyrr í vikunni. Ég hef áhyggjur af honum. Honum virtist líða illa og hann hefur ekkert mætt í sund undanfarna daga. Ég veit ekki hvort ég eigi að vera hnýsast eitthvað í einkamál hans. Myndi ekki sannur vinur gera það? Hann kannski biður um aðstoð þegar hann þarf á henni að halda. Ég ætla að ræða þetta mál við Pál á morgun í sundlauginni. Hann veit hvað gera skal.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar Ingi, 18.9.2008 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.