IV
11. október
Dagurinn var frekar tilbreytingarlítill. Ætli íbúar Löngustrandar séu ekki farnir að venjast óþefnum eða búnir að fá nóg af því að ræða þennan undarlega atburð? Allavega er ég gott sem hættur að velta stækjunni fyrir mér. Fyrst þegar ég kom út í morgun fann ég hvernig hún myndaði sviða í andlitinu en síðan var eins og ég yrði annað hvort ónæmur fyrir henni eða svo dofinn í nefinu vegna áreitisins að lyktarskynið fór í verkfall. Hvort heldur sem var, þá er ég feginn að þurfa ekki lengur að finna þennan fnyk. Skrýtið samt hve maður getur vanið og sætt sig við ótrúlega margt. Þúsundir marglytta liggja úldnar í fjörunni og stækjan eftir því, samt heldur maður áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það virðist sama hvaða aðstæður mannskepnan kemst í, sama hve umhverfi hennar er óvistlegt, alltaf finnur hún leið til að komast af. Í þurrustu eyðimörkum jafnt sem köldustu heimskautasvæðum. Svo sem ekkert draumalíf á þessum stöðum, en samt hafa flokkar fólks fundið leið til að búa þar. Hefur nokkur dýrategund slíka yfirburði? Þvílíka fjölhæfni?
Ég eyddi deginum í skólahúsinu og reyndi að koma einhverju lagi á bókakostinn. Það er alveg deginum ljósara að kaupa þarf tölvert af bókum, þó ekki væri nema fyrir önnina eftir jól, þá myndi það strax vera mun skárra. Ég vil síður að börnin séu tvö til þrjú um hverja bók, eins og ég þurfti að hafa skipulagið í fyrra. Samt læðist að mér sá grunur að bæjarfélagið láti það liggja milli hluta, eins og síðasta vetur, að versla inn það sem vantar upp á. Hvernig er hægt að vinna við þessar aðstæður? Ég hef oft rætt þetta við Hólmgeir og þó hann sé allur af vilja gerður, þá ræður hann þessu víst ekki einn. Stundum finnst mér eins og ég eigi að ausa vitneskjunni upp úr mér og nemendurnir eigi bara að læra það sem ég segi. Kjafturinn og krítin, kallaði þetta einhver, en þannig er þetta bara ekki. Við verðum að hafa bækur.
Katrín mætti til vinnu í dag og var nokkuð hress. Við spjölluðum saman í hádeginu og ákváðum að reyna halda skólaskemmtun í fyrra fallinu þetta árið. Það dróst of lengi í fyrra. Hún vill að við setjum upp leikrit, það gæti verið gaman. Af hverju er ég ekki lengur jafn hugmyndaríkur og hún? Mér finnst, eins og ég sé fastur í einhverjum skrifstofustörfum, einhvern veginn orðinn að svona blók sem hugsar meira um umbúðirnar en innihaldið. Er það svo? Ég var ekki þannig. Einhvern tíma hefði það ekki skipt mig máli hvort allir hefðu bækur eða ekki. Hefur reynslan þá haft jákvæð eða neikvæð áhrif?
Eftir kvöldmat gekk ég niður að baðströnd. Það kom mér nokkuð á óvart að rekast á Skelmi þar. Hann sést vanalega ekki þeim megin í þorpinu, þar sem kofaræksni hans er alveg hinum megin og hann heldur sig eiginlega bara þar, nema þegar hann vantar eitthvað innan úr þorpi. Eftir því sem mér skilst á þeim sem til þekkja, þá er honum meinilla við ströndina og alla þá gesti sem hún dregur að sér. Hann var ennþá í sama frakka og er ég hitti hann síðast, ég gat næstum fundið óþefinn af honum þar sem ég stóð. Mér finnst ég geta enn fundið lýsislyktina af fingrum mínum, það er sama hve ég skrúbba hendur mínar og þvæ, af vill hún ekki. Kannski er þetta bara í nösunum á mér. Skelmir sat á stóru, sjóbörðu grjóti neðarlega í varnargarðinum og horfði yfir ströndina, næstum dreyminn á svip. Ef ég hefði ætti að ráða í látbragð hans myndi ég segja að hann hefði líklega í fyrsta skipti sýnt af sér einhverja tilburði í áttina að því að vera hamingjusamur. En ég þekki hann ekki neitt og get ekki dæmt um hvort svo hafi verið í raun og veru. Sólin var að síga niður fyrir sjóndeildarhringinn og kastaði fölbleikum bjarma á allt. Geislarnir spegluðust í glæru formi úldnandi marglyttanna, ströndin virtist öðlast bleikt líf í aftanskærunni. Ég heilsaði Skelmi, hann leit á mig en svaraði engu. Við fylgdumst í þögn með sólinni hníga til viðar. Er hún var sest stóð Skelmir á fætur, teygði sig í staf sem lá við hlið hans og sneri sér að mér.
- Vissirðu að marglyttur eru að mestu vatn, spurði hann og starði á mig. Það var eitthvert blik í auga hans sem ég átti erfitt með að átta mig á.
- Ja, erum við ekki öll að mestu vatn, svaraði ég og reyndi að hljóma hress, eins og nærvera hans hefði engin áhrif á mig.
- Láttu ekki eins og kjáni.
Eftir stutta stund bætti hann síðan við:
- Hugsaðu þér blöðru, fulla af lofti en hún er lifandi, bæði grimm og hættuleg. Hún ræðst gegn þér og tekur þig af lífi með eitri og rafmagni. Samt er hún úr lofti, að mestu úr lofti og það er nóg af því umhverfis okkur, ekki satt? Þannig eru marglyttur, lifandi vatn í vatni . . . vatn í vatni, grimmara en þú getur nokkurn tímann gert þér hugarlund.
Eitthvað við röddu hans smaug í gegnum merg og bein og náði ísköldu taki á meðvitund minni. Hún var hrjúf og gróf, djúpur tónn hennar barst í gegnum rökkrið og fangaði athygli mína. Ég hef aldrei hugsað mikið um þessar lífverur, nema núna rétt síðustu daga af augljósum ástæðum. Þegar hann hafði lokið máli sínu gekk hann á brott. Eftir stóð ég og starði með skelfingu á þær þúsundir marglytta er lágu lífvana á ströndinni.
Ég er enn að reyna hrista þessa mynd úr höfðinu.
Flokkur: Bækur | Miðvikudagur, 17. september 2008 | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Ómar Ingi, 17.9.2008 kl. 18:34
Hvernig gengur þetta með bókina
Heiður Helgadóttir, 18.9.2008 kl. 08:04
Bara ágætlega, takk fyrir.
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 18.9.2008 kl. 08:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.