III
10. október
Líklega er fátt meira rætt meðal bæjarbúa en hið furðulega náttúrufyrirbrigði. Ég fór, eins og venjulega, í sundlaugina í morgun. Þar hitti ég fyrir Pál og Kára, en Hólmgeir lét ekki sjá sig. Við ræddum málið fram og aftur en komumst í raun að engri niðurstöðu. Enda svo sem ekki hægt að ætlast til þess, enginn af okkur er menntaður í slíkum fræðum og við getum því bara dregið yfirborðskenndar ályktanir af þeim upplýsingum sem við höfum. Það er erfitt að komast hjá því að hugsa um þennan atburð, maður er sífellt minntur á hann þegar út er komið, slíkur er fnykurinn.
Það rigndi þegar ég kom út úr sundlaugarhúsinu. Ég staldraði við í anddyrinu til að klæða mig í úlpuna mína og setja upp hattinn en kom þá auga á Skelmi. Gamli maðurinn stóð við horn á hvítmáluðu húsi neðar í götunni og starði til mín með sínu eina heila auga. Í fyrstu hélt ég að hann væri að fylgjast með mér. Skelmir er um margt sérkennilegur. Hann fluttist hingað fyrir mörgum árum en hefur aldrei náð að festa hér rætur. Þeir eru fáir íbúarnir sem sýna honum og uppátækjum hans umburðarlyndi og ég man hversu faðir minn blótaði alltaf kæmi hann auga á hann einhvers staðar nálægt sér. Það er eitt af því fáa sem ég man um föður minn. Sem barni var mér hótað því að ef ég hagaði mér ekki vel, þá yrði ég sendur til Skelmis. Ég man að ég lá sumar nætur andvaka af ótta við að móðir mín myndi láta verða af því. Í raun heitir hann Ívar en hefur alla tíð þurft að bera þetta ljóta uppnefni og ég efast um að margir muni hvert raunverulegt nafn hans er. Með honum kom Alda dóttir hans, hún er tveimur árum yngri en við Páll en jafnaldra Hólmgeirs. Ég flýtti mér út en er hann sá mig snerist hann á hæli og haltraði í burtu. Ég tók á mig stökk og náði honum fljótt. Ég greip í frakkakraga hans, en ég hefði betur látið það ógert. Hönd mín var þakin hreisturflögum og angaði af lýsi, lykt sem ég hef ekki náð að þvo almennilega af mér. Það er alltaf hálfundarlegt að hitta Skelmi. Andlit hans er gott sem afmyndað, langt ör nær frá hárrótum og niður yfir vinstra augað allt að munnvikum. Ég veit ekki hvernig hann náði í það, held reyndar að enginn hér í þorpinu viti það. Nema kannski Alda. Ég hef aldrei haft það mikil samskipti við hann, að ég hafi vanist því að horfa inn í tóma augntótt. Ég skil ekki af hverju hann notar ekki lepp eða gerviauga, hann gæti að minnsta kosti látið ganga betur frá tóttinni en nú er. Honum virðist hins vegar vera sama, jafnvel þó fólki pískri og börn atist í honum þegar hann gengur hjá. Eins og gefur að skilja hafa spunnist margar sögur um hann, mislífseigar þó, en líklega hefur enginn lifað jafn lengi og sú, að hann stundi kukl ýmis konar.
- Sæll, Skelmir, sagði ég og reyndi að hljóma nokkuð eðlilegur.
- Hvað vilt þú, svaraði hann rámur og virtist frekar pirraður. Hann kippti að sér hendinni og losaði frakkann úr taki mínu. Ég ræskti mig og gerði mér skyndilega grein fyrir hversu fáránleg þessi aðstaða var. Mér varð svarafátt í fyrstu en ákvað að spyrja hann, eins og ég hef spurt svo marga íbúa, út í marglyttumálið.
- Mig langaði bara til að heyra hvað þér finnst um fundinn á baðströndinni. Þú hefur heyrt af honum, ekki satt?
Það hnussaði í honum. Skelmir snerist á hæli og haltraði í burtu, muldrandi eitthvað sem ég átti erfitt með að greina. Ég stóð eins og glópur úti á miðju stræti, lafmóður eftir hlaupin og horfði á eftir honum hverfa út götuna. Ég dreif mig af stað og gekk niður að ráðhúsi. Mig vantaði heimild til að panta nýjar bækur í skólann. Þar sem ég hef kennt hér lengur en Katrín gegni ég hlutverki nokkurs konar skólastjóra, þrátt fyrir að hún væri eflaust betur til þess fallin en ég. Er ég kom inn á Aðalstræti sá ég hvar Alda, dóttir Skelmis, gekk í fússi út úr ráðhúsinu. Það kom þorpsbúum algerlega í opna skjöldu þegar það spurðist út að hún og Hólmgeir væru að draga sig saman. Mörgum fannst sem þar væri hann að taka niður fyrir sig en ég skil hann ágætlega. Alda er viðkunnanleg og einkar elskuleg heim að sækja. Hún hefur lagt sig fram um að kynnast okkur vinum hans, en hún ræðir hins vegar aldrei um föður sinn eða uppvöxt sinn, í það minnsta ekki svo ég hafi heyrt til. Hún er afskaplega ólík föður sínum, hann grófbyggður og að því er virðist illa farinn, ef svo mætti til orða taka, en hún fíngerð og smábeinótt. Ég hef aldrei hitt hana án þess hún hafi að minnsta kosti sett upp hárið, hún hefur sig alltaf til og fylgist vel með nýjustu tísku. Augu hennar eru græn og seiðandi, Hólmgeir talaði um það á sínum tíma að hann gæti horft í þau endalaust. Þegar samdráttur þeirra komst í hámæli voru margir sem göntuðust við hann og líktu sambandi þeirra við ævintýrinu um Öskubusku. Öldu virtist vera nokkuð mikið niðri fyrir er við mættumst. Ég tók ofan og heilsaði henni. Svipur hennar mýktist örlítið og hún svaraði:
- Komið þér sælir, Hermann.
Þrátt fyrir að þau hafi verið gift í hátt í 15 ár og við þekkst umtalsvert lengur hefur hún ekki vanið sig af því að þéra okkur vini Hólmgeirs. Hún segist vilja halda í góða siði og almenna kurteisi þegar við höfum farið fram á að hún þúi okkur. Við höfum fyrir löngu lært að það þýðir lítið að fá hana ofan af því, það sem hún á annað borð ákveður eða bítur í sig, heldur hún fast í. Við skiptumst ekki á fleiri orðum. Alda hélt sína leið áður en ég náði að svara henni og gaf sterklega til kynna að hún hefði ekki áhuga á að spjalla við mig. Ég fór því inn í ráðhúsið.
Kolbrún, ritari Hólmgeirs, sat við skrifborðið sitt og grúfði sig yfir einhverja pappíra er ég gekk inn. Klukkan var svo sem ekki margt og fáir mættir til vinnu. Hún leit upp er ég nálgaðist og ég tók eftir að hún hafði verið að brynna músum. Í annað skipti í þessari viku kem ég að konu sem hefur nýlega grátið. Hún brosti og bauð mig velkominn, sagði að Hólmgeir sæti inni hjá sér um leið og hún stóð upp og hvarf inn á klósett. Ég horfi á eftir henni uns dyrnar höfðu lokast. Kolbrún er ein af þessum kvenmönnum sem ekkert þurfa að hafa fyrir að öðlast athygli karlmanna. Ljóst hárið, rauðar varirnar og munúðarfullar hreyfingar hennar tryggja að ekki eingöngu menn líta við er hún gengur hjá. Hún flutti hingað fyrir þremur árum, í fyrstu vann hún á hótelinu hjá Kára en þegar það losnaði staða í ráðhúsinu bauð Hólmgeir henni hana.
Hólmgeir stóð við skenk sem er undir glugga og horfði út yfir Aðalstræti. Hinum megin við rúðuna hímdu húsin grámygluleg í haustinu, eins og þeim væri jafn mikil eftirsjá í sumrinu og okkur íbúunum. Mér sýndist hann halda á glasi með gulbrúnum vökva í, hann kláraði í fljótheitum úr því er hann sá mig. Um leið og hann kyngdi drykknum gretti hann sig. Hann hefur eflaust áttað sig á svipnum á andliti mínu, því hann brosti og sagði afsakandi:
- Það er margt sem sækir að mér þessa dagana, maður verður að róa taugarnar, þú skilur.
Ég var ekki viss um hvernig ég ætti að taka þessu. Ég átti erfitt með að ímynda mér að þetta marglyttumál geti verið svo taugastrekkjandi að hann þurfi bleyta upp í sér fyrir klukkan tíu að morgni til. Ætli eitthvað bjáti á hjá þeim Öldu? Ég hefði kannski átt að ganga á lagið og spyrja hann út í hvað væri að angra hann. Eflaust hefðu svör hans varpað einhverju ljósi á háttalag hans undanfarna daga. Mér fannst það bara ekki við hæfi. Einkamál manns eru einkamál hans.
- Er nokkuð að frétta af málinu, spurði ég. Hólmgeir virtist skyndilega koma til sjálfs sín, það birti yfir andliti hans og hann flýtti sér að dökku skrifborðinu. Hann rótaði um stund á borðinu uns hann fann það sem hann var að leita að. Hann lyfti litlum, hvítum miða. Ég myndi segja að hann hafi verið sigri hrósandi en það er kannski full sterkt til orða tekið. Hann var þó sýnilega ánægður.
- Já, ég hafði samband í gær í háskólann í höfuðborginni og þeir ætla að senda hingað vísindamann, svaraði hann loks.
- Veistu hvað hann heitir eða hver það er sem þeir ætla að senda?
- Já, dr. Hannes Thoroddssen, sjávarlíffræðingur. Ég ræddi við hann um stund í gær og hann var mjög áhugasamur um að koma og rannsaka þetta fyrirbæri.
- Hvað með hreinsun? Á ekkert að skola þessum hræum í burtu? Stækjan er svo sem ekki jafn slæm í dag og hún var fyrir tveimur dögum. Ég veit ekki hvort það er vegna þess ég er farinn að venjast henni.
- Já, ég er nú í óða önn að skipuleggja hana. Þetta ætti að skýrast á næstu dögum, svaraði hann.
Við ræddum þetta um stund uns ég ákvað að koma mér að erindinu. Hólmgeir tók ágætlega í bón mína og sagðist ætla að skoða hvað hann gæti gert fyrir okkur Katrínu. Ég þurfti að minna hann á að hann væri í raun ekki að gera þetta fyrir okkur heldur fyrir nemendurna. Það er skrýtið að hugsa til þess, að jafnvel stjórnmálamenn, sem eiga nú að hafa vit fyrir fjöldanum, sjá stundum ekki skóginn fyrir trjánum. Sérstaklega þegar kemur að menntamálum. Ég hef hlustað á umræður þingmanna í útvarpinu og verð að viðurkenna að sumt af því sem sagt er þar, er hreinasta vitleysa. Sleggjudómar sem hent er fram af vankunnáttu og þekkingarleysi. Einna verst finnst mér þó hversu sjaldan þeir sem stjórna skilja að sá peningur sem lagður er í menntun er fjárfesting til framtíðar.
Ég fór upp í skóla eftir að hafa lokið erindum mínum í ráðhúsinu. Ég kom þó litlu í verk, því náttúran og fyrirbrigðið með marglytturnar áttu hug minn allan. Ætli vísindamaðurinn geti komist að því hvað hefur orðið til þess að allar marglytturnar hafi endað á baðströndinni? Sama hversu ég brýt um það heilann því undarlegra finnst mér það. Hvernig ætli standi á þessu? Hvaða skýringu er að finna á þessu furðulega fyrirbrigði? Ég læt þetta vera lokaorðin í kvöld.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.