Undrin við Lönguströnd

II

 

9. október  

 

Ég hrökk upp með andfælum þegar eitthvað þungt skall á húsþakinu. Er ég leit út um svefnherbergisgluggann sá ég hvernig veðrið hamaðist, sjórinn gekk yfir hafnargarðinn og kastaði smábátunum til og frá. Öskrandi vindurinn þeytti spýtnabraki og rusli hátt í loft, sem fiður væri. Áður en nóttin var úti átti ég eftir að heyra fleiri hluti lenda í húsinu mínu. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að fara út. Ég lá uppi í rúmi og hlustaði á veðurofsann kyrja sinn myrka söng. Það hvein í mæninum og undir sænginni óskaði ég þess að krafturinn rifi ekki þakið hreinlega af. Undir morgun rann á mig svefnhöfgi og ég hvarf inn um hlið Morfeusar. Ég veit ekki hvort það hafi einfaldlega verið óveðrið, en mig dreymdi ákaflega illa og þegar ég vaknaði fannst mér ég varla hafa hvílst neitt að ráði. Mér fannst sem ég væri á kafi í vatni og ætti mér engrar undankomu auðið, einhvers staðar handan við sjónmörk mín var ég viss um að eitthvað fylgdist með mér, - eitthvað sem kveikti með mér ugg.

Jafn skelfilegt og veðrið var síðustu nótt var morguninn fagur. Þar sem ég stóð við eldhúsgluggann og starði út yfir fjörðinn, fannst mér eins og einhver undarlegur friður væri yfir öllu. Nokkrir sólstafir teygðu sig niður og snertu gáraðan hafflötinn og örfáir geislar léku sér í skógivaxinni hlíðinni hinum megin fjarðarins. Gult, rautt og appelsínugult laufþykknið kallaðist á við skugga og ljós, myndaði seiðandi sjónarspil birtu og lita. Um stund óskaði ég þess að vera listmálari, til að geta fangað þetta augnablik en hæfileikar mínir á því sviði eru víst af frekar skornum skammti. Ef ég ætti nógu fögur orð, líkt og skáldin hér áður fyrr, þá hefði ég ort um þetta augnablik ljóð. Ég myndi kalla það Eilíft andartak að hausti. En ég verð seint flokkaður í hóp skálda, þrátt fyrir máttlitlar tilraunir mínar. Það að fá tvö ljóð birt í bæjarblaðinu telst vart til afreka á sviði ritlistarinnar.

Eftir ég lauk við morgunmatinn tók ég til sundfötin mín. Þegar ég kom út varð ég var við skelfilega stækju. Eins og eitthvað dragúldið væri skammt frá mér. Ég leit í kringum mig en tók ekki eftir neinu. Ég hélt í humátt að sundlauginni og viðraði í allar áttir, til að komast að hvaðan fnykinn bæri að. Hvar sem ég mætti öðrum íbúum var ekki um annað rætt en þessa ógeðfelldu lykt. Ég ákvað að fara ekki í sund, mig hreinlega hryllti við að vera úti. Eins og mér hafði fundist morguninn fagur. Mig langaði heldur að vera inni og loka að mér. Sundfötunum skilaði ég aftur heim og sá þá hvar tveir menn gengu nokkuð rösklega út að baðströnd. Mér sýndist annar þeirra vera Páll, en hann er nokkuð auðþekktur á dökkum einkennisklæðnaði sínum og af því hann er hærri en flestir menn í þorpinu.

Ég flýtti mér að elta þá. Þeir hurfu úr sjónmáli skömmu áður en ég kom inn á Strandgötu en eftir stutta leit sá ég hvar mennirnir stóðu á grjótgarðinum fyrir ofan baðströndina. Ég greikkaði sporið og náði þeim innan skamms. Vissulega var annar þeirra Páll en það kom mér á óvart að sjá Hólmgeir, bæjarstjóra, með honum. Stækjan var mun sterkari og mér fannst næstum ólíft þarna við ströndina. Ég fann hvernig tár þrýstu sér fram í augnkrókana og ég þurfti að hafa mig allan við að kúgast ekki. Líkt og við Páll ólst Hólmgeir upp hér á Lönguströnd en hann er samt af ólíku sauðahúsi. Foreldrar hans voru kaupmannshjónin hér í plássinu og hann var alltaf á ákveðinn hátt hafinn yfir okkur. Kannski að virðingin sem foreldrar okkar báru fyrir hjónunum hafi smitast á okkur. Eftir að foreldrar hans féllu frá tók hann við versluninni en seldi hana nokkrum mánuðum síðar og hellti sér út í bæjarpólitíkina. Það kom okkur Páli svo sem ekki á óvart - reyndar kom það fæstum sem þekkja hann á óvart - því hann var alltaf framarlega í félagslífinu í skólanum á sínum tíma og á kafi í ungmennafélagsstarfinu. Ég kastaði kveðju á þá en þegar þeir sneru sér að mér, fannst mér eins og þeim væri illa við að ég truflaði þá. Augnaráð Hólmgeirs var flöktandi og hann forðaðist eins og heitan eldinn að horfast í augu við mig. Þeir tóku fremur þurrlega í kveðju mína. Ég kíkti yfir öxlina á þeim en var ekki búinn undir þá sýn sem mætti mér.

Ströndin var þakin marglyttum. Ég sá hvernig öldurnar skoluðu sífellt fleiri á land. Þær hlutu að vera mörg þúsund talsins. Þeir Páll og Hólmgeir mæltu ekki orð frá vörum. Ég starði líkt og þeir í orðlausri undrun á rót stækjunnar. Hvað í ósköpunum gæti hafa ollið þessu?

- Guð sé oss næstur, sagði ég og sneri mér aftur að vinum mínum. Andlit Páls var sem meitlað í stein, kalt, hugsandi en ákveðið. Hólmgeir virtist hins vegar ekki vita sitt rjúkandi ráð. Ég varð var við sérkennilegt blik í bláum augum hans, fjarrænt óttaleiftur og ég er hreinlega ekki viss um hvort það eða sýnin af marglyttunum situr ofar í huga mér. Hólmgeir hefur alla tíð verið fullur sjálfstrausts og ráðagóður, en þarna á grjótgarðinum var sem hann ætti ekkert svar. En hvað er ég svo sem að rausa, sjálfur hef ég ekki hugmynd hvers vegna marglytturnar hafa flotið þúsundum saman upp á ströndina. Ætli andlit mitt hafi ekki verið eitt spurningarmerki?

- Hvað gæti hafa gerst sem orsakaði … þetta, spurði ég og leið strax hálfkjánalega á eftir. Hvernig gat ég ætlast til að þeir vissu það?

- Ég veit það ekki, Hermann, svaraði Páll og bætti síðan við: - Mig grunar þó að þetta megi rekja til óveðursins í nótt.

Hólmgeir leit upp til Páls en sagði ekki neitt. Við stóðum um stund og horfðum á fyrirbrigðið. Ég var furðu lostinn og get enn ekki ímyndað mér hvers vegna svona gerist. Ég hef vissulega heyrt um grindhvali sem synda í torfum upp í landsteina eða fiska sem hrygna á þurru landi, en hvort tveggja gerist í fjarlægum löndum. Marglyttur er líka svo einkennileg dýr, ég get ekki séð fyrir mér það búi mikil hugsun í þeim. Þær eru gott sem ekkert nema vatn.

- Ætli ég þurfi ekki að hringja eftir hjálp úr höfuðborginni, sagði Hólmgeir. Rödd hans brast í fyrstu en síðan var eins og hann manaði sig upp. Hann hélt síðan áfram, ögn ákveðnari: - Við þurfum að minnsta kosti fá aðstoð við að hreinsa svæðið. Ekki látum við hræin liggja þarna og úldna, það verður ekki búandi hér í Lönguströnd ef það gerist.

Páll kinkaði kolli. Við snerum aftur inn í þorpið og á leiðinni ræddu þeir um að reyna halda þessu frá fjölmiðlum, svona til að koma í veg fyrir að ímynd bæjarins sem ferðamannastaðar yrði fyrir skakkaföllum. Mig langaði til að benda þeim á að það væri skylda bæjarstjórnar að upplýsa íbúa og tilvonandi gesti af svona atburðum, ef vera kynni vegna ofnæmis, fyrir heilbrigðissakir eða jafnvel vegna hugsanlegrar mengunar, en ég lét það ógert þar sem ég var nokkuð viss um að þau ummæli mín hefðu fallið í fremur grýttan jarðveg. Hólmgeir flýtti sér inn á skrifstofur bæjarráðs en við Páll gengum saman að lögreglustöðinni, sem er þar skammt frá. Páll var áhyggjufullur, það kom mér hins vegar á óvart að marglytturnar virtust ekki vera rót þess.

- Ég veit ekki hvað hefur komið yfir hann, sagði Páll og átti við Hólmgeir. - Það er eitthvað meira sem liggur þarna að baki en virðist við fyrstu sýn. Undanfarnar tvær, þrjár vikur hefur hann verið æði undarlegur í hegðun, fjarrænn og fáskiptinn. Hefurðu ekki tekið eftir því? Ég þekki ekki ástæður þessa, stundum er sem hann sé ekki hann sjálfur. Sem betur vara þessar stundir stutt, oft ekki lengur en örfáar mínútur. Kannski hann sé að fara yfir um, hann vann eins og berserkur í allt sumar, oft langt fram eftir, oftar en ekki sá ég ljós loga á skrifstofu hans þegar ég var á leið heim seint á kvöldin.

Áður en ég náði að svara kvaddi Páll mig. Á leiðinni upp í skóla hugsaði ég um þetta. Páll hefur rétt fyrir að því leyti að Hólmgeir hefur unnið mjög mikið í sumar. Hann hefur oftar enn sleppt morgunsundinu okkar og þegar hann hefur mætt hefur hann verið þreyttur og sljór til augnanna. Ég hef svo sem ekki velt fyrir mér af hverju, en mig grunar að Páll hafi bara rétt fyrir sér. Hólmgeir er orðinn þreyttur, kannski að hann hafi séð fram á rólegri tíma nú þegar sumrinu er lokið. Varla að svo muni verða þó í bráð vegna þessara marglytta.

Ég hitti Katrínu í kvöld og bauð henni út að borða á Bláu Könnunni. Hún var öllu hressari en í gær. Hún sagði mér frá sambandi sínu og þessa manns sem hafði ætlað að flytja til hennar. Mér virðist hann vera óttalegur skúrkur. Ég reyndi að eyða talinu og spurði hana út í komandi vetur. Hún þurfti litla hvatningu, eins og oftast, til að ræða um skólastarfið. Ég naut þess að hlusta á hana skeggræða hinar og þessar hugmyndir, ég man þegar ég var svona. Eldhuga myndi móðir mín kalla Katrínu. Ætli það fari svona fyrir öllum kennurum? Byrjum við kannski æstir, tilbúnir í slaginn og viljum umbylta kerfinu sem við ólumst upp við en komumst síðan að raun um að það skiptir engu máli hvað við gerum? Góðir nemendur halda áfram að vera góðir nemendur en slæmir nemendur eru áfram slæmir. Má kannski segja það sama um okkur kennarana?

Hún virtist samt óvenju hress miðað við hvernig henni leið í gær. Kannski hún hafi ósjálfrátt vitað í hvað stefndi og verið búin að sætta sig við það. Annars veit ég það ekki, fyrir mér er kvenfólk ein stærsta ráðgáta þessa lífs. Mér virðist ekki takast að vinna þær á mitt band, jafnvel í kennslunni á ég erfitt með að halda athygli þeirra. Ég veit að móðir mín skilur ekki hvers vegna ég, kominn á fertugsaldur, skuli enn ekki hafa fært henni barnabörn. Ætli það gerist nokkurn tíma? Katrín er hins vegar yndisleg og margt í stúlkuna spunnið. Mér líður alltaf mjög vel í kringum hana. Hvers vegna ætli standi á því? Er ég að verða ástfanginn á gamals aldri?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 15.9.2008 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband