I
8. október
Það er stormur í vændum. Ég finn hvernig loftið er hlaðið orku sem bíður eftir því að finna útgönguleið, eins og klakabundin á sem þráir að brjótast undan breða og ís. Úti fyrir mynni fjarðarins eru illúðlegir skýjabakkar, þeir bylta sér og skríða hægt en ákveðið nær þorpinu. Í morgun var logn en um hádegi tóku trén að sveigjast örlítið og golan bar með sér saltan keim. Eftir því sem liðið hefur á daginn hefur hún sótt í sig kraft og nú dansa gulnuð laufblöð um í vindinum, eins og haustlituð fiðrildin sem fyrir nokkrum vikum flögruðu á milli garða. Það er einnig tekið að kólna, þegar ég steig fram úr rúmi mínu í morgun námu fætur mínir við kalt gólfið. Um stund fannst mér eins og ég hefði farið aftur í tímann, væri að vakna í miðjum maímánuði. Sumarið hefur verið óvenju hlýtt og ég hef ekki þurft að kynda húsið að neinu ráði. Ætli ekki sé kominn tími til að kveikja upp í kamínunni?
Eins og flestir íbúar Löngustrandar fór ég niður á höfn í dag og fylgdist með er strandferðaskipið lagðist að. Síðustu sumargestirnir stigu um borð og eftir um klukkustund eða svo var skipið aftur komið af stað og á leið út fjörðinn. Ég leit í kringum mig. Á andlitum íbúanna mátti greina sama svipinn, eflaust hefur mitt andlit verið líkt þeirra. Sumrinu er formlega lokið. Það er alltaf ákveðin eftirsjá en jafnframt léttir þegar síðustu ferðamennirnir hverfa á brott með bátnum. Þorpið byggir afkomu sína að einhverju leyti á þjónustu við þá og er vorar hópast fólk hingað. Ströndin er vinsæll ferðamannastaður og margir vilja eyða sumrinu við hafið. Ég hef svo sem aldrei skilið þessa þörf hjá sumum, mig langar helst til fjalla er vorar. Kannski að satt sé það sem mælt er. Það sem er ókeypis og hversdaglegt kann maður síst að meta.
Ég horfði á eftir strandferðaskipinu sigla á brott með síðustu sumarleyfisgestina. Við Páll, lögreglufulltrúi, stóðum saman á bryggjunni og störðum á eftir fleyinu þar til það var horfið út í bláleitan fjarskann. Þetta minnti mig á liðna daga og er ég leit á Pál sá ég glettnilegt blik í gráum augum hans, ég held hann hafi upplifað sömu tilfinningu og ég. Við höfum þekkst síðan við vorum smápattar og þau eru ófá haustin sem við höfum einmitt staðið í þessum sömu sporum og horft á eftir skipinu út fjörðinn. Það hefur margt breyst síðan þá. Ætli hótelið og fjallvegurinn séu ekki mestu umskiptin? Á meðan vagnaslóðinn var eina leiðin yfir heiðina ferðuðust sumargestirnir einkum sjóleiðina en eftir að umferðargatan var lögð hefur þeim farið sífellt fjölgandi sem koma akandi. Engu að síður halda íbúar þorpsins í þá hefð að fylgja síðustu gestunum sem fara með strandferðaskipinu niður á höfn og miðast vertíðarlok við brottför þeirra. Ekki er þó hægt að segja að það sé einhver ákveðin dagsetning sem miðað er við, en yfirleitt hefur dregið úr straumi gesta fram eftir september uns þeir síðustu kveðja í lok mánaðarins.
Eftir að hafa rætt um stund við Pál kvaddi ég hann og hélt sem leið lá upp í skóla. Ég þurfti að undirbúa kennsluna sem á að hefjast í næstu viku. Jafnvel skólinn hér í Lönguströnd tekur mið af ferðamannastraumnum, því allir sem vettlingi geta valdið eru látnir vinna. En þegar sumrinu lýkur fellur allt aftur í sitt ljúfara og hefðbundnara far. Í skólanum eru tveir bekkir, annar fyrir yngri nemendur en hinn fyrir þá eldri eða lengra komna. Ég sé um þá eldri en Katrín Sæmundsdóttir yngri bekkinn. Hún fluttist hingað frá höfuðborginni seinasta sumar þá nýútskrifuð. Hún tók við af Sigdísi Hansen, sem hafði sökum veikinda hætt veturinn áður. Ég þurfti að kenna báðum bekkjum í nokkra mánuði á meðan bæjarráðið var að finna og ráða nýjan kennara. Katrín er ung og ennþá uppfull af þeim eldmóði sem einkennir marga nýútskrifaða kennara. Það kemur stundum fyrir að ég gleymi mér við að hlusta á hana ræða hugmyndir sínar um nýbreytni í skólastarfinu, kannski vegna þess hún minnir mig á sjálfan mig. Samt er ég ekki nema örfáum árum eldri en hún, en þessi ár virðast vega þungt. Auk þess, er nokkuð svo nýtt undir sólinni?
Hún sat inni í stofunni sinni þegar ég kom. Hún var klædd í sumarlegan, rauðan kjól og ljóst hár hennar féll slétt niður bakið. Hún hafði tekið tvo lokka og vafið í fléttu, um hana var bundin þunnur, rauður borði. Hún virtist ekki hafa orðið mín vör, svo ég kastaði á hana kveðju. Er hún sneri sér að mér þar sem ég stóð í dyragættinni, tók ég eftir að augun voru þrútin og rauð. Ég gekk inn til hennar og spurði hvort nokkuð bjátaði á. Á borðinu fyrir framan hana lá bréf, en ég gætti mín á að kíkja ekki á hvað í því stóð. Hún þurrkaði sér um augun og reyndi að brosa.
- Nei, ekki svo, svaraði hún og leit niður. Ég tók fram vasaklút og rétti henni. Hönd hennar skalf örlítið er hún tók við honum.
- Jæja, sagði ég og bætti síðan við: - Þú veist nú samt hvar mig er að finna, ef þú vilt tala við einhvern.
Hún leit upp til mín og brosti. Í þetta skipti var brosið einlægt og ég fann að hún var mér þakklát. Katrín hefur ekki náð að laga sig vel að lífinu hér í þorpinu. Henni hefur reynst erfitt að eignast vini, kannski vegna þess að hún er utanaðkomandi. Ég held að við, sem höfum alið okkar daga hér í Lönguströnd, séum frekar lokað samfélag þegar allt kemur til alls.
- Æi, sagði hún og snökti. Ég var að vona, að Ásgeir myndi koma til mín. Ég hef sagt þér áður frá honum, ekki satt? Þegar við kvöddumst síðast töluðum við um, að hann myndi flytja hingað til mín þegar hann væri búinn í sínu námi. Hann kláraði í vor en frestaði sífellt að koma. Núna var hann að skrifa mér og sagði í bréfinu, að hann hefði
Hún náði ekki að klára setninguna, hún þurfti þess ekki. Ég sá í augum hennar brostnar vonir og einmanaleika. Ég gekk yfir til hennar og strauk henni um bakið.
- Katrín mín, ég held þú ætti bara að drífa þig heim og slappa örlítið af, sagði ég og fékk hana til að standa á fætur. Hún kinkaði kolli. Ég hjálpaði henni í kápuna og fylgdi henni heim til sín. Áður en við kvöddumst tók ég af henni loforð um hún myndi borða kvöldverð með mér á morgun.
Eftir að ég hafði snúið aftur í skólann og lokið verkum mínum þar gekk ég heim. Er ég horfði niður Miðstræti sá ég hvar starfsfólk Hótels Löngustrandar var í óða önn að hreinsa úr herbergjum og búa hótelið undir veturinn. Fyrir utan hótelið stóðu tvær konur og voru að viðra sængur og teppi. Kári, hótelstjóri, var ásamt syni sínum, sem er einmitt nemandi minn, að negla fyrir alla glugga á efri hæðinni. Hótelið er gott sem ekkert nýtt á veturna, þar sem hingað koma fáir gestir. Hins vegar er hægt að fá ágætan mat á hótelinu allan ársins hring og það notfæra heimamenn sér óspart. En þar hefur Kári samkeppni frá kaffihúsinu Bláu könnunni sem Hugrún, systir hans, rekur. Það er í raun táknrænt, að sjá þegar Kári tekur að negla fyrir gluggana á efri hæðinni. Það staðfestir þá tilfinningu mína að sumarið er liðið og veturinn sé í nánd. Hótelið er stærsta húsið í þorpinu og er að stórum hluta til hulið myrkri allan liðlangan veturinn. Á sumrin er það bjart og iðar af fjöri og látum. Jafnvel húsin í kring virðast fá á sig kaldhranalegri blæ á veturna. Svona hefur þetta verið svo lengi sem ég man eftir mér og verður eflaust um ókomna tíð.
Ég lít út um gluggann sem ég sit við og skrifa. Skýjabakkarnir dragast enn nær þorpinu og hafið, sem í morgun var fagurblátt, er nú sem frussandi iðupottur eða rándýr sem bíður þess að geta rifið bráð sína á hol. Það hefur algerlega skipt um ham frá því fyrr í dag og ég vona bara að engum af trillukörlunum okkar hafi látið sér detta í hug, að liggja úti í nótt. Ég ætti kannski að leggja frá mér pennann og athuga hvort allir gluggar séu ekki kyrfilega festir aftur. Það stefnir í hið versta veður í nótt. Ætlar veturinn að boða koma sína með ofsa?
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar Ingi, 13.9.2008 kl. 11:28
Þessi lofar góðu. Til hamingju með bókina!
Emelía (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 22:30
Takk :)
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 14.9.2008 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.