Þoka

Síðasta færslan í þessari sögu!

 

3. febrúar

 

Kl. 13:30

 

Allt var hvítt.

Guðbjörg gekk inn á stofuna þar sem Njörður lá. Hann virtist friðsæll þar sem hann lá sofandi. Umvafinn þeirri kyrrð sem einkennir oft spítala. Hún kom sér fyrir í gluggakistunni og starði á Njörð. Sárabindi höfðu verið vafin um háls hans og hægri fótleggurinn var í gifsi.  

Allt var hvítt. Veggirnir, rúmfötin og jafnvel náttborðið við hlið rúmsins. Rautt hár Njarðar stakk því í stúf við koddann. Húð hans var fölleit og undir augunum voru dökkir baugar. Hún vissi að hún átti ekki að vera þarna, en þar sem hún kannaðist við lögreglumanninn sem sat við dyrnar hafði henni reynst auðvelt að komast inn. Hún hafði brosað fallega til hans og blikkað, hann leyfði henni að kíkja inn í smástund. Ótrúlegt hve karlmenn féllu oft fyrir smá daðri.

Þegar hún heyrði að lögreglan hafði fundið Njörð meðvitundarlausan marandi í hálfu kafi úti fyrir Kollafirði og að skipið væri horfið tengdi hún strax þessa atburði saman. Hún gat ekki beðið eftir því að heyra hvaða sögu hann hefði að segja. Sjálf hafði hún verið útskrifuð af sjúkrahúsinu tveimur dögum áður. Áfallið hafði ekki verið eins alvarlegt og í fyrstu var talið. Hún jafnaði sig furðu fljótt. Guðbjörg reyndi að hugsa ekki um það sem hafði gerst, en það var erfitt. Fréttirnar voru fullar af alls kyns og misgáfulegum útskýringum blaðamanna. Ótrúlegustu kenningar höfðu skotið upp kollinum. En hún vissi að engin þeirra átti við nein rök að styðjast. Það vissi enginn um það sem var ofan í skipinu, nema þeir sem þangað höfðu komið. Enginn nema hún og hann, sem lá fölur fyrir framan hana.

Í fréttum útvarpsins hafði komið fram að Njörður væri enn sofandi og hefði verið síðan hann kom á sjúkrahússið fyrir nokkrum dögum. Það höfðu fundist undarlegir brunasár á hálsi hans, sem læknar og vísindamenn gátu ekki útskýrt. Sumir þeirra voru þó þeirrar skoðunar að þau mætti rekja til marglyttna, en hún trúði því ekki.

-Þú … hvað ert … hvar er ég, spurði Njörður lágt um leið og hann opnaði augun hægt.

-Þú ert á Landspítalanum.

-Hvernig …

-Þeir fundu þig meðvitundarlausan úti á Kollafirði, svaraði hún og settist í gluggakistuna. Fyrir aftan hana grillti í Esjuna inn á milli hríðarbylja. Njörður andvarpaði og lygndi aftur augum.

-Hvað gerðist eiginlega?

Njörður svaraði engu í fyrstu en sagði loks svo lágt að það var næstum ógreinilegt:

-Við fórum um borð.

Guðbjörg starði um stund á Njörð, eins og hún tryði honum ekki. Eftir stutta stund spurði hún:

-Sástu himnuna?

Njörður opnaði augun og sneri höfði sínu að Guðbjörgu. Svipurinn á andliti hans var jafngildi samþykkis.

-Já, ég sá hana, svaraði Njörður dauflega og sneri sér undan augnaráði hennar.

Guðbjörg leit á hann. Dökkur skuggi hvíldi yfir augum hans.

-Hvað gerðist? Hvað varstu að gera um borð?

-Við … ég reyndi að … ég veit ekki hvað við vorum að gera þarna. Þvílíkir bjánar sem við vorum.

-Við!? Varstu ekki einn?

-Nei, Fjalar var með mér.

Guðbjörg starði hissa á Njörð. Ekkert hafði verið talað um það í fréttunum að Fjalars væri saknað, það hafði heldur ekki neitt komið fram um það í blöðunum.

-Og hvað? Segðu mér frá þessu.

Njörður gerði tilraun til að setjast upp í rúminu. Á andlit hans kom gretta og hann teygði sig niður að vinstra lærinu. Augu Guðbjargar fylgdu hendinni ósjálfrátt og hún tók þá eftir að það var vafið í sáraumbúðir. Njörður sagði henni í fljótu bragði hvað hafði gerst um borð. Guðbjörg sat og hlýddi á frásögnina sem dáleidd.

-Ég veit ekki hvaða vera þetta var. Þó tel ég eitt víst, þetta var ekki sá sem ég hélt að þetta myndi vera. Fjalar, Mentuhotep IV eða hvað þetta var. Ég veit það ekki. Rúnirnar, rúnirnar ... þær sneru ekki öfugt, þær sneru rétt. Hann skrifaði þær eins og hann sá þær speglast í rúðunum. Var hann að reyna gefa okkur einhverja vísbendingu?

-Var að þá veran komin inn í Fjalar og búin að taka stjórn á honum?

-Ég veit það ekki. Ætli það ekki. Eða var þetta hann sjálfur sem myrti alla? Ég er ekki viss. Kannski að eitthvað hafi tekið stjórn á honum, eitthvað illt, eitthvað komið inn í hann. Það ... ég held, að hann hafi ekki verið með sjálfum sér. Það var svo undarlegt, svo andstyggilegt ... angar, þræðir út um munninn á honum ... á hálsinn á mér. Ég held, hann hafi ætlað að rífa úr mér hjartað. Ég var næstur.

Guðbjörg starði á Njörð. Hann varð enn fölari við að rifja þetta upp. Eins og allt blóð væri dregið úr honum. Það fór um hana  hrollur þegar hún reyndi að gera sér í hugarlund í hverju Njörður hafði í rauninni lent.

Skyndilega var hnippt í hana. Við hlið Guðbjargar stóð ung hjúkrunarkona og hún bað Guðbjörgu um að leyfa sjúklinginum að hvíla sig. Guðbjörg stóð á fætur.

-Mér þætti vænt um að heyra í þér þegar þú losnar héðan, sagði hún. Njörður kinkaði kolli. Hún stóð á fætur og lét á sig húfu. Hún reyndi að brosa til Njarðar og gekk fram.

Þegar hún kom út var hún fegin að finna ískaldan norðanvindinn blása í andlitið. Hríðarbylir og snjókóf gengu öðru hvoru yfir bílastæðið. Á leið sinni yfir það mætti hún eldri hjónum. Konan, sem var klædd í ljósbrúna kápu, ríghélt í handlegg mannsins og hélt um rauða húfu á höfði sínu. Er þau mættust heyrði Guðbjörg konuna segja:

-Sem betur fer er þokan horfin. Aldrei bjóst ég við ég myndi fagna norðangarranum, en allt er nú skárra en þessi leiðinda þoka.

Guðbjörg brosti dauft. Hún gerði sér skyndilega grein fyrir hversu sterk áhrif þokan hafði haft á lífið í borginni. Hún virtist hafa skilið fólk í sundur, hver og einn aleinn með sjálfum sér, slitinn úr samhengi við samfélagið. Hún hafði vart hugsað um annað en þetta skip áður en hún var lögð inn á spítalann. Eins og allir hafi verið staddir í einhvers konar millibilsástandi þar sem ekkert virðist geta bægt hinum andlega doða frá.

Hún gekk áfram upp Skólavörðuholtið og velti fyrir sér frásögn Njarðar. Hvaða andi var það þá sem hún varð vör við í skipinu? Ætli það tengist eitthvað þessum atburðum í Frakklandi sem hann hafði talað um? Hver var það sem leiddi hana þangað? Hvernig ætli skipið tengist þessu? Hvað hafði orðið um það? Skyldi það finnast einhvern tíma aftur? Guðbjörg gekk áfram út á Skólavörðustíg. Hálfbyggð kirkjan stóð eins og illa reist varða, næstum því brothætt í nöprum vetrarvindinum. Hún staldraði við og horfði á kirkjuna. Hvar var Guð á svona stundum? Hvers lags Guð var það sem leyfði mönnunum að myrða hvern annan?

Hún sneri sér frá kirkjunni og gekk niður að Aðalstræti. Hún hafði frétt að skrifa.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Alveg ágætis saga hjá þér Mr Horror

Ómar Ingi, 10.9.2008 kl. 11:48

2 Smámynd: Ragnheiður

Fín saga ! Takk fyrir

Ragnheiður , 10.9.2008 kl. 12:55

3 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Kærar þakkir fyrir að nenna lesa og fylgjast með.

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 11.9.2008 kl. 08:16

4 identicon

Hæhæ!

Ég var að klára að lesa. Lokakaflarnir voru hörkuspennandi. Takk fyrir að deila þessu með okkur. Ég hlakka til næstu sögu!

Emelía (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband