Kl. 22:25
Njörður kippti skálinni upp úr falsinum. Um leið skall hlerinn aftur. Hann flýtti sér að snúa sveifinni. Hvað hafði eiginlega gerst? Hvað hafði farið úrskeiðis? Hvernig mátti þetta vera? Var Fjalar morðinginn eftir allt saman? Hann sneri sér við og hraðaði sér út myrkvaðan ganginn. Þá heyrði hann ískur fyrir aftan sig, eins og klær væru dregnar eftir hörðu yfirborði. Hann leit yfir öxlina. Dyrnar inn í lestina opnuðust hægt og reykur skreið upp með loftinu að Nirði. Rauð skíma lak út og lýsti upp þröngan ganginn. Í dyrunum stóð Fjalar og horfði á Njörð. Hann var alblóðugur. Glyrnurnar brunnu af reiði og Nirði fannst um stund hann ekki eiga sér neinnar undankomu auðið. Hann vildi einna helst fá að leggjast niður og loka augum. Vakna og uppgötva að þetta var allt saman bara slæmur draumur. Martröð engu lík. En hann vissi að svo var ekki. Hann var fastur í þessu skipi. Innilokaður, umlukinn rauðu himnunni og kæfandi stækjunni. Fjalar lyfti annarri hendinni. Hann hélt á einhverjum rauðum, kringlóttum hlut. Blóð lak milli fingra hans. Njörður þurfti ekki að horfa lengi til að gera sér grein fyrir hvað þetta var. Þá mælti hann eitthvað sem Njörður skyldi ekki. Fjalar kreisti hjartað, svo það draup enn hraðar úr því. Njörður starði sem dáleiddur væri. Það var eitthvað sem var svo óeðlilegt, í raun svo ójarðneskt að í stað þess að hlaupa í burtu fannst Nirði hann tilneyddur að fylgjast með. Reykur fyllti nú ganginn svo að það byrgði honum sýn. Njörður steig eitt skref nær til að sjá betur. Þá kreppti Fjalar hnefann og hjartað sprakk í hönd hans, eins og skyrpoki. Blóð sprautaðist á milli fingranna og slettist á veggina í kring. Himnan tók að glóa þar sem blóðið lenti, sem virtist sjúga blóðið í sig, eins og hún væri að nærast á því. Njörður tók eftir þráðum í himnunni, þráðum sem var hægt að lýsa sem eins konar æðum, ekki ósvipuðum þeim sem er að finna í laufblöðum. Með þeim færðist rauði bjarminn út ganginn, nær Nirði.
Njörður fann hvernig maginn herptist saman og hann kúgaðist. Hryllingarsvipur kom á andlit hans um leið og hann sá Fjalar leggja af stað í áttina að sér. Hann snerist þegar á hæli og hljóp af stað. Njörður klifraði upp stigann inn á annan gang, þann sama og messinn var í. Þaðan myndi hann komast upp á þilfar. Hann leit aftur fyrir sig. Fjalar var kominn að stiganum og horfði upp á eftir Nirði. Hann steig aftur fyrir sig en rann. Njörður heyrði þegar Fjalar steig í fyrsta þrepið, síðan það næsta. Hann stökk aftur á fætur. Það var erfitt að sjá fram fyrir sig þarna uppi. Allt var myrkt. Hann lét aðra höndina hvíla á veggnum. Þannig fetaði hann sig áfram út ganginn að næsta stiga. En áður hann náði þangað fann hann Fjalar stíga inn á ganginn. Hann heyrði ekki í honum, en vissi einhvern veginn af honum fyrir aftan sig, návist hans var yfirþyrmandi og kúgandi. Hann fann hvernig augu Fjalars hvíldu á sér, yfir hann helltist sú tilfinning að hann væri ekkert annað en bráð rándýrs. Njörður lét höndina falla af veggnum og hljóp af stað eins hratt og fætur toguðu. Njörður þaut áfram inn ganginn í algeru myrkri. Hann rétt náði að stöðva sig áður en hann skall á handriði stigans. Móður hóf hann sig upp í fyrsta þrepið og tók að klifra upp stigann til að komast upp á þilfar.
Skyndilega fann hann nístandi sársauka í vinstri fætinum. Njörður leit aftur fyrir sig. Fjalar stóð fyrir aftan hann. Hann hafði slegið til Njarðar. Buxurnar voru rifnar og blóð fossaði úr fjórum djúpum skurðum á kálfanum. Njörður lét þunga líkama síns hvíla á hægri fætinum. Síðan sparkaði hann aftur fyrir sig eins fast og hann mögulega gat. Hann fann hælinn lenda á einhverju hörðu. Það heyrðist hár smellur, eins og þegar bein brotnar. Hann heyrði Fjalar gefa frá sér ergilegt urr. Njörður steig í næsta þrep. Um leið og hann steig niður fannst honum sem vinstri fóturinn myndi gefa eftir. Það var sem enginn kraftur væri eftir. Engu að síður beitti hann sig viljastyrk og neyddi sjálfan sig til að halda áfram. Fjalar stökk á eftir honum. Hann læsti klónum í jakka Njarðar og reyndi að toga hann niður, en Njörður ríghélt í handriðið. Sársaukinn í fætinum óx og hann fann blóð leka niður ökklann. Hann barðist við að halda sér uppi. Njörður heyrði hvernig klær Fjalars rifu í sundur klæði jakkans. Þunginn var svo mikill að hann var viss um að vöðvarnir í öxlum hans myndu rifna. Handleggirnir stífnuðu upp. Jakkinn var farinn að gefa eftir. Klæðið réð ekki við álagið. Njörður var ekki viss um að ná að halda þetta út. Fjalari var að takast að ná honum niður. Njörður vissi að þá myndi fara fyrir honum eins og Grími og öllum hinum. Honum var farið að sortna fyrir augum.
Þá gaf vinstri fóturinn sig. Hann missti allt afl. Um leið rak hann hnéð í stigann. Njörður beit á jaxlinn og einbeitti sér að því að halda sem fastast í handriðið. Hann færði þungann yfir á hægri fótinn. Hnykkurinn sem varð af þessu olli því að jakkinn rifnaði enn frekar. Njörður reyndi að koma undir sig vinstri fætinum. Fjalar teygði sig eftir betra taki. Um leið og Njörður fann slakna örlítið á smeygði hann ofurfljótt öðrum handleggnum úr jakkanum. Fjalar virtist gera sér grein fyrir þessu því hann sleppti annarri hendinni og reyndi að slá til Njarðar. Höggið kom aftan á lærin. Klærnar skáru í gegnum buxur og djúpt inn í holdið og Njörður öskraði af sársauka. Fjalar kippti í jakkann. Við það rifnaði hann svo Fjalar missti það tak sem hann hafði. Um leið og Njörður fann að hann var laus virtist allur sársauki og þreyta gleymd. Hann togaði sig upp. Í einu hendingskasti klifraði Njörður upp síðustu þrepin að dyrunum. Hann flýtti sér út og skellti hurðinni á eftir sér.
Hann horfði í kringum sig um leið og hann kastaði mæðinni. Nirði verkjaði í allan líkamann, sérstaklega axlirnar og hann fann hvernig heitur vökvi lak niður eftir fótleggnum úr sárinu á lærinu. Hann leit í kringum sig og tók eftir að grunur sinn reyndist á rökum reistur. Skipið var komið á ferðina. Það lá ekki lengur bundið við Reykjavíkurhöfn. Ég er fastur, hugsaði Njörður með sjálfum sér um leið og hann lokaði hleranum og lagðist upp að honum. Hann reyndi í snarhasti að rifja upp hvort hann hefði tekið eftir björgunarbátum eða nokkru slíku áður um borð. Hann skannaði í fljótheitum þilfarið en kom ekki auga á neitt sem gæti komið að gagni. Þá skall eitthvað þungt á hleranum. Hann hentist frá og skall harkalega á ryðguðu þilfarinu. Njörður reyndi að standa á fætur en var örmagna, flóttinn hafði reynst honum erfiður. Hleranum var hrundið upp. Fjalar steig út og horfði grimmilega á Njörð, þar sem hann lá gott sem bjargarlaus á þilfarinu. Njörður tók eftir að það vantaði eina af vígtönnunum. Úr sárinu blæddi dökkur vessi. Njörður reyndi að skríða undan. Fjalar greip í hálsmál Njarðar og lyfti honum upp. Hann reyndi að berjast um. Fjalar var honum miklu sterkari. Njörður sparkaði frá sér en Fjalar hélt honum nægilega langt frá sér. Hann starði grimmur á svip á Njörð. Eins og hann væri að meta hann. Njörður forðaðist að mæta augnráði hans. Hann hafði einu sinni fundið fyrir dáleiðandi áhrifum þess og vildi umfram allt ekki lenda í því aftur. Fjalar opnaði munninn. Í ljós komu hvítu þræðirnir. Njörður barðist um af öllu afli. Hann reyndi að nýta síðustu kraftana til að losna úr heljargreipum Fjalars. En allt kom fyrir ekki. Angarnir skriðu fram og tóku að fálma út í loftið. Njörður fylgdist með hryllingi er þykkir þreifararnir komu í ljós. En það var sama hvað hann reyndi, hann náði ekki að losa sig. Angarnir vöfðust um háls hans. Njörður fann hvernig hann sveið undan þeim. Eins og undan slæmu brunasári. Þeir hertu að. Njörður átti erfitt með andardrátt. Þreifararnir urðu sífellt lengri og stefndu í átt að brjósti Njarðar. Hann fann að hann gat sér enga björg veitt. Það er út um mig, hugsaði Njörður með sjálfum sér um leið og hann fann rotnunarstækjuna magnast í kringum sig.
Um leið og þreifararnir snertu brjóst hans skar hvítur blossi í gegnum kvöldmyrkrið. Njörður átti erfitt með gera sér grein fyrir hvað var að gerast. Hann sá illa fram fyrir sig. Blossinn hafði verið svo sterkur að það tók augun drykklanga stund að jafna sig. Hann fann að hann skall með þungum dynki á þilfarinu. Njörður reyndi að skríða í burtu en rak höfuðið í eitthvað. Hann heyrði Fjalar gefa frá sér skrækt, hátóna öskur. Njörð verkjaði í eyrun undan því, hann hafði aldrei heyrt jafn ómennskt hljóð. Hann reyndi að horfa í kringum sig en sá allt í móðu. Fyrir framan sig greindi Njörður Fjalar. Hann virtist engjast um af kvölum. Angarnir og þreifararnir leituðu villt út í loftið. Njörður stóð hægt á fætur. Hann var farinn að sjá aðeins skýrar. Þá fann hann hve hann verkjaði í brjóstið. Njörður fletti skyrtunni frá og tók eftir að trékubburinn á hálsmeninu var brotinn. Undir honum var blóð. Rúnin hafði brennt sig í gegnum húðina og skilið eftir flakandi sár.
Njörður horfði í kringum sig. Það var ekkert þarna sem hann gat notað til að bjarga sér. Ekkert nema ryðgaðir járnhlutir sem voru á einn eða annan hátt fastir. Fjalar virtist enn ekki hafa tekið eftir því að hann var staðinn á fætur. Hann öskraði enn ákafar en áður. Njörður gekk að borðstokknum. Fyrir neðan var kolsvartur sjórinn. Hann var lygn, aðeins skipið gáraði hafflötinn.
Þá hætti Fjalar skyndilega að öskra. Njörður leit aftur fyrir sig og sá hvar Fjalar stóð á fætur. Hann horfði í kringum sig uns hann sá hvar Njörður stóð. Augu hans brunnu enn heitar en áður af hatri og reiði. Njörður steig í flýti upp á borðstokkinn og kastaði sér fram af.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Ómar Ingi, 9.9.2008 kl. 18:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.