Þoka

Kl. 23:50

 

Njörður leit inn í lestina. Eitthvað undarlegt hljóð hafði náð athygli hans. Eins og þegar trjágrein brotnar. Fjalar sneri baki í hann og stóð grafkyrr hinum megin við eldhringinn, við opinn kassa. Hann hafði klætt sig í einhvers konar hanska með löngum klóm og var í þann mund að setja á sig undarlega lagaðan hjálm eða hatt, sem minnti Njörð einna helst á höfuð hunds eða úlfs. Njörður reyndi að kalla til hans en Fjalar virtist ekki heyra í honum. Hvað gekk að Fjalari? Skyldi hann hafa orðið einhvers var? Njörður gekk fram fyrir eldinn í miðju hringsins.

-Hvað …

Fjalar starði á hendur sínar. Það var eins og hann gerði sér ekki alveg grein fyrir því sjálfur hvað hann var að gera, eins og hann hefði ekki fulla stjórn á sjálfum sér. Hann hafði klætt sig úr skyrtunni og stóð ber að ofan. Á húð hans voru að myndast einhvers konar ör eða merki, eins og þau væru í senn dregin á og rist ofan í húðina. Það var erfitt að greina hvort var. Á enni hans brunnu gylltar þebískar rúnir, eins og þær sem höfðu fundist við lík mannanna fjögurra, nema þær sneru rétt. Augun voru þó sýnu verst. Eins og tveir örsmáir, logandi blóðdropar. Fjalar sneri sér hægt við. Efri vörin lyftist örlítið og hann urraði að Nirði, sem vildi helst öskra af ótta og flýja í burtu en hann gat það ekki. Var þetta virkilega Fjalar?

Hvað hafði hann eiginlega gert? Hafði hann kallað fram þessa skelfilegu veru í líkama Fjalars? Hafði særingin mistekist svona illa? Eða hafði Fjalar myrt mennina? Hafði hann misst vitið og framið morðin?

-Fjalar, náði Njörður loks að segja. Rödd hans brotnaði. Hann fann hvernig það var sem þróttur hans væri rifinn úr honum. Hvað var þetta eiginlega? Var þetta Mentuhotep IV? Var þetta Fjalar? Hvað hafði eiginlega gerst? Gat verið að hann hafi haft rétt fyrir sér í upphafi? Le Myth du Loup-Garou. Hélt Fjalar að hann væri varúlfur? Hvernig gat það staðist? Hvernig tengdist skipið þessu öllum saman? Hvað gerði hann við hjörtun? Hugsanir þutu um kollinn á Nirði á margföldum ljóshraða. En hann þurfti svör, ekki fleiri spurningar.

Fjalar opnaði munninn meira. Út um annað munnvikið lak það sem virtist vera hvítur, örmjór ormur. Fleiri fylgdu í kjölfarið. Þeir iðuðu eins og maðkar út í loftið. Skömmu síðar kom í ljós þykkari angi, einna helst minnti þetta Njörð á marglyttu. Þræðirnir snerust í kringum munninn á Fjalari. Allt um kring virtist himnan taka við sér. Rauðleit birtan var enn sterkari nú en áður. Þrátt fyrir reykinn frá eldunum var birtan svo skær að Njörður varð að skýla augunum. Stækjan magnaðist upp og var kæfandi, eins og hún væri að bregðast við Fjalari, sem steig nær og teygði hvítu þræðina og armana að Nirði. En um leið og Fjalar kom að eldhringnum var eins og hann ræki sig á ósýnilegan vegg. Hann öskraði í bræði. Skyndilega var sem Njörður kæmi til sjálfs sín, hann gerði sér nú grein fyrir því hvert næsta fórnarlamb var. Hann sjálfur.

Hvað gat hann gert? Hvað átti hann að gera? Út undan sér sá hann jakka Fjalars. Upp í huga hans skaut sýnina af skammbyssunni hans. Hann varð að stöðva Fjalar. Njörður stökk af stað og kastaði sér á gólfið. Fyrir aftan hann heyrði hann lágt urr koma frá Fjalari. Njörður tók upp jakkann. Hann opnaði vinstri vasann og stakk hendinni ofan í hann. Vasinn var tómur. Njörður sá út undan sér Fjalar opna munninn enn frekar og enn fleiri hvítir þræðir og armar birtust og leituðu út í loftið. Gríðarleg rotnunarstækja fyllti vit hans. Njörður opnaði hægri vasann. Hann fann hvernig kalt stálið nam við fingurgóma sína. Hann hrópaði upp af gleði. Um leið fann hann hvernig eitthvað vafðist um háls sér, eitthvað slímugt og hann sveið undan því. Hann reyndi að losa sig en allt kom fyrir ekki. Njörður náði að snúa sér við og munda byssuna. Hann reyndi að sjá Fjalar þar sem hann stóð handan eldhringsins. Síðan hleypti Njörður af.  Skothvellurinn bergmálaði í lestinni. Hann heyrði engu að síður Fjalar öskra af bræði og um leið losnaði takið sem hann hafði á Nirði. Njörður sneri sér við og spratt á fætur. Hann lyfti byssunni á nýjan leik. Hann lokaði augum og skaut. Fjalar kipptist til er kúlan hæfði hann. Njörður hleypti aftur af. Síðan aftur og aftur uns hann heyrði ekki lengur skothvelli. Fjalar féll fram fyrir sig.     

Njörður hljóp af stað og út um dyrnar. Í hamaganginum rauf hann ómeðvitað eldhringinn. Er hann kom að hleranum leit hann aftur fyrir sig og sá hvar Fjalar reis hægt á fætur. Hann beraði beittar tennurnar og stökk af stað eftir Nirði.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband