Kl. 22:10
Fjalar stóð um stund og fylgdist með Nirði. Þegar Njörður settist og byrjaði að skera út rúnina sneri Fjalar athygli sinni annað. Hann beygði sig niður og skoðaði þessa undarlegu himnu. Hún var volg viðkomu og nokkuð hrjúf, samt var eins og hún gældi við fingur hans. Hann reyndi að skera í hana, en einhverra hluta vegna virtist himnan harðari hér en inni í messa. Þá fann Fjalar fyrir svolitlu sérstöku. Hann rétti úr sér og leit á Njörð, sem var niðursokkinn í verk sitt. Hann virtist ekki hafa tekið eftir neinu. Fjalar lokaði augum og einbeitti sér. Jú, þarna var það aftur. Það var eins og skipið risi og hnigi, bara örlítið, næstum ekki merkjanlegt. Ætli það sé loksins tekið að blása, hugsaði Fjalar með sér. Vindur sem ýfi upp öldur, sem síðan renna sér inn í höfnina og hreyfa við öllum bátum og skipum þar? Það væri óskandi, mikið væri gott að losna við þessa árans þoku, sagði Fjalar við sjálfan sig. En engu að síður kviknaði grunur í huga hans. Hvað ef skipið hefði losnað frá bryggjunni?
Skyndilega hrökk Fjalar upp úr þessum hugleiðingum sínum. Þeir voru ekki lengur einir. Einhver staðar úti í dimmrauðu rökkrinu heyrði hann í hundinum. Hvernig klærnar skullu í hörðu gólfinu. Hvar var hann? Var hundurinn einhvers staðar þarna frammi og beið þeirra? Sat hann kannski fyrir þeim? Fjalar tók upp byssuna. Hendur hans skulfu og höfuðverkurinn ágerðist. Hann gekk eins langt og hann gat í átt að dyrunum, án þess þó að fara út fyrir hringinn. Þá hvarf hljóðið skyndilega. Varð hundurinn hans var? Fann hann kannski lyktina af honum? Fjalar reyndi að sjá út um opnar dyrnar, en það var of mikið myrkur til að hann gæti greint nokkuð, auk þess sem reykur frá eldinum var farinn að stíga upp. Kannski var hann að láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur. Hann reyndi að slappa af. En það var erfitt. Hjartað barðist um í brjósti hans. Hundurinn var þarna úti og beið hans. Óumflýjanlegur, eins og dauðinn sjálfur. Hvar var hann? Fjalari hitnaði og sviti spratt fram. Var þetta flensan að hrjá hann?
Þá hafði hann heyrt hann annað hljóð, þrátt fyrir eintóna söng Njarðar, sem virtist koma innan úr lestinni. Eins og einhver drægi andann mjög þungt. Sviti spratt fram á efri vörinni. Hann gekk ofurvarlega nær hljóðinu. Hvað gat þetta verið? Gæti hundurinn hafa sloppið óséður inn? Var hann kannski þarna og lék sér að því að hræða Fjalar? Hann steig varfærnislega framhjá Nirði og rýndi út í rautt myrkrið. Einhvers staðar þarna, djúpt niðri í lestinni, var eitthvað. Eldurinn hafði nú brunnið í nokkrar mínútur og reykur var farinn að safnast upp. Fjalari var farið að svíða í augun. Hann reyndi engu að síður að rýna fram fyrir sig og sjá hvað olli þessu óhugnanlega hljóði. Hvað var þarna úti? Var þetta hundurinn? Var það hann sem dró andann svo þungt, eins og risastór, særð skepna?
Hann steig varfærnislega yfir eldinn og læddist lengra inn í lestina. Fjalar var ekki viss, en honum fannst sem einhver væri þarna í myrkrinu en hann gat ekki séð hver það var. Hann rýndi fram fyrir sig en allt kom fyrir ekki. Þá varð hann var við krafs í viðarkassa við hliðina á sér. Viðurinn var fúinn og það var Fjalari auðvelt að opna hann.
Skyndilega var sem reykurinn drægist í sundur ofan í kassanum. Í ljós kom litli, guli hundurinn. Hundurinn starði á hann og í augum hans þóttist Fjalar óseðjanlegt hungur og grimmd. Litli hundurinn steig upp úr kassanum og um leið tók þessi smávaxni líkami undarlegum breytingum. Vöðvarnir tútnuðu út og rifu húðina utan af honum. Það heyrðust tveir lágir smellir um leið og hundurinn reis á afturlappirnar, smellir eins og þegar kjúklingabein er brotið. Hundurinn virtist stækka allur og verða meiri. Fjalar kom ekki upp orði. Hundurinn hélt áfram að taka breytingum, framlappirnar lengdust og höfuðið stækkaði. Hundurinn steig nær. Andlitið var hulið að mestu í skugga en augu hans voru eldrauð og brunnu í myrkrinu, eins og tveir kolamolar, í andliti hans, sem að öðru leyti var hulið myrkri. Í þeim sá Fjalar meira hatur en hann hafði nokkurn tíma áður orðið vitni að. Samt var eins og hann gæti séð í gegnum veruna, eins og hún væri kvikmynd sýnd af sýningarvél.
Hann starði á hundinn. Í senn var hann heillaður af einkennileika þessa en um leið óttaðist Fjalar hann meira en hann hræðst annað nokkurn tíma áður. Hundurinn stóð nú hinum megin við logana. Hann einblíndi á Fjalar, sem gat ekki komið upp orði. Hann reyndi að kalla á Njörð en var ekki viss um hvort hann gæti heyrt í sér. Sjálfur heyrði Fjalar ekkert annað en þungan andardrátt hundsins. Sá ekkert annað en þessi skelfilegu, dáleiðandi augu.
Síðan tók hundurinn stökk fram. Fjalar ætlaði að stíga eitt skref aftur en fann hvernig fætur sínir voru sem rótfastur við gólfið í lestinni. Skelfingu lostinn starði Fjalar á hundinn dragast nær. Á enni hans brunnu svipaðar rúnir og fundist höfðu hjá þeim myrtu, samt var eitthvað sem var öðruvísi. Nú stóð hundurinn aðeins örfáa metra frá honum og þá fyrst kom Fjalar auga á andlitið.
Fjalar horfðist í augu við sjálfan sig! Andlitið var hans eigið.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar Ingi, 5.9.2008 kl. 08:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.