Þoka

Kl. 21:20

 

Njörður stóð á fætur og horfði á dyrnar fyrir framan sig. Á þeim var að finna alveg eins innsigli og hafði verið á dyrunum sem dr. Berger stóð við á myndinni. Hann vissi reyndar ekkert um hvernig það hafði verið gert eða hvort það væri í raun einhvers konar galdratákn. Njörður hafði reyndar ekki skorið það í hurðina en hann vonaði að efnin sem hann hafði látið í seyðinn væru nógu kröftug til að halda aftur af verunni.

Hann sneri sér við. Fyrir aftan hann stóð Fjalar og hélt á lítilli, svartri byssu. Fjalar starði út dimman ganginn. Skammbyssan hélt sex skot og var frekar einföld að gerð. Njörður hafði vanist því að umgangast byssur á bænum hjá afa sínum. En honum leið aldrei vel innan um þær. Hann kunni illa við þá tilfinningu sem helltist yfir hann er hann handlék þær.  

-Hvað …

-Uss, sagði Fjalar hvasst.

Eftir nokkra stund leit Fjalar á Njörð og hvíslaði:

-Ég heyri ekki lengur í honum. Hann hlýtur að hafa villst. Eða hann bíði þarna í myrkrinu eftir okkur. Bíður eftir að við hættum að fylgjast með honum.

-Hver?

-Hundurinn. Hann var að leita að okkur. Ég hélt hann myndi birtast í ganginum hvað úr hverju. Ertu búinn?

-Hundurinn!? Um hvað ertu að tala?

-Litla, gula hundinn.

Njörður starði um stund á Fjalar. Hann var ekki viss um að Fjalar væri með réttu ráði. Það var eins og hann væri í allt öðrum heimi.

-Ertu búinn, spurði Fjalar.

-Já, með hurðina, nú þurfum við að fara inn í lestina og lokka veruna fram. Hvar fékkstu þessa byssu?

Fjalar leit á litla, svarta hlutinn í hönd sinni eins og hann gerði sér ekki grein fyrir því hann væri þar.

-Betra að vera við öllu búinn, sagði hann loks og stakk byssunni aftur í vasann. Njörður horfði um stund á Fjalar og velti því fyrir sér hvort hann ætti að senda hann aftur upp á þilfar.

Njörður ákvað að hugsa ekki meira út í það að svo stöddu, heldur sneri sér aftur að dyrunum og bjóst til að opna þær. Þá var sem skipið hallaði skyndilega óþægilega mikið, svo hann varð að grípa í sveifina á hurðinni til að halda jafnvægi.

-Hvað var þetta eiginlega, spurði Fjalar.

Njörður svaraði honum engu. Það læddist að honum skelfilegur grunur og hann vissi, ef hann myndi deila honum með Fjalari væri allar líkur á því að hann myndi missa stjórn á sér.

-Við skulum flýta okkur, sagði hann og sneri sveifinni. Hlerinn opnaðist inn í lestina og við þeim blasti sérkennileg sýn. Lestin var öll þakin þessari undarlegu rauðu himnu. Hún lá eins og þykkt teppi yfir öllu. Um leið gaus upp sami fnykur og þeir höfðu fundið í messanum, stækja sem kallaði fram myndir af kirkjugörðum og rotnandi líkömum marrandi í hálfu kafi í maðkétnum, fúnum kistum. Hún kæfði vit þeirra og um stund fannst Nirði sem hann næði ekki andanum.

-Guð minn eini, sagði Fjalar og greip fyrir andlit sitt. Úr augum hans skein hversu viðbjóðsleg honum þótti þessi sýn. Undarlega birtu stafaði frá himnunni og jók enn á þann sjúklega blæ sem yfir öllu var. Hvað ætli hafi gerst hérna, hvað er þetta eiginlega, hugsaði Njörður með sjálfum sér.

Hann lokaði augum og dró andann djúpt. Þetta þurfti að gera, sama hvað allri lykt leið. Hann herti upp hugann, beygði sig niður og lét tóma skálina milli stafs og hurðar. Síðan steig hann yfir dyrakarminn. Fjalar fylgdi í humátt á eftir honum og saman gengu mennirnir inn í miðja lestina. Þar opnaði Njörður bakpokann og dró upp úr honum stóran poka með svörtu dufti og annan svipaðan minni.

-Hvað er þetta, spurði Fjalar.

-Mulin grillkol og brennisteinn. Ég ætla biðja þig um að taka kolin og búa til ágætan hring með þeim. Það væri ágætt ef þú skærir bara lítið gat á pokann og létir renna nokkuð jafnt úr honum. Það skiptir hins vegar gríðarlega miklu máli að hringurinn sé hvergi brotinn. Gættu samt að því að geyma örlítið eftir, ég þarf líka að nota kolin í annað. 

-Ekkert mál, svaraði Fjalar og tók við pokanum. Hann gerði eins og Njörður bað um. Sjálfur fór Njörður ofan í kolahringinn með brennisteininum. Hann lét síðan afganginn úr hvorum poka í haug í miðjum hringnum. Því næst tók hann upp síðustu hlutina úr bakpokanum, kveikivökva, gamalt dagblað, kveikjara, egg, hrafnsfjöður, trébút, útskurðarhníf, sprautunál og sprautu. Allt lagði hann snyrtilega fyrir framan sig. Þegar hann tók eftir svipnum á andliti Fjalars gat hann ekki varist brosi og sagði:

-Ekki einu sinni spyrja, það tekur of langan tíma að útskýra þetta allt saman.

Hann tók upp kveikilögurinn og rétti Fjalari.

-Ertu ekki til í að bleyta vel í kolunum?

Án þess að svara tók hann við brúsanum. Á meðan Fjalar sprautaði eldfimum vökvanum yfir duftið vakti Njörður sér blóðs í öðrum lófanum og lét dropa í dufthauginn í miðjunni. Síðan tók hann upp sprautuna og nálina og fyllti hana blóði sínu. Þá teygði hann sig í eggið og ofurvarlega boraði gat á skurnina með nálinni. Hann fann undir eins breytingu á lyktinni í kringum hann, sterkan og fúlan óþef lagði úr egginu. Því næst sprautaði hann blóðinu í eggið, en gætti þess að gera það ekki of hratt svo að skurnin myndi nú ekki brotna. Þegar Njörður hafði lokið þessu sá hann hvar Fjalar stóð fyrir aftan hann og fylgdist með. Á andliti hans var undarleg gretta, sem gaf greinilega til kynna hversu honum fannst um aðfarir Njarðar, sem lét sér hins vegar fátt um finnast og benti á dagblaðið.

-Taktu blaðið og kveikjarann. Þú þarft að kveikja upp í haugnum en byrjaðu fyrst á því að bera eld að hringnum. En sama hvað gerist, og hlustaðu nú vel, sama hvað gerist þá máttu ekki fara út fyrir hringinn fyrr en ég gef þér merki. Skilurðu þetta, sama hvað gerist, sagði hann ákveðið.

-Já, svaraði Fjalar og náði í hlutina sem Njörður hafði sagt honum að nota. Innan tíðar logaði eldur glatt allt í kringum þá. Njörður kastaði egginu í þann sem brann í miðjunni. Samstundis fengu logarnir á sig grænleitan blæ en litur þeirra lifði stutt. Hins vegar steig upp undarlega sætur ilmur og hékk yfir mönnunum tveimur. Njörður náði í trébútinn og útskurðarhnífinn. Hann settist á hækjur sér við eldinn og tók að skera út í viðinn flókinn en kraftmikinn galdrastaf. Hann lét spænina falla í eldinn og þuldi um leið vísu sem eignuð var Agli Skallagrímssyni.

-Skalat maðr rúnar rista,

nema ráða vel kunni.

Það verðr mörgum manni,

er of myrkvan staf villist.

Sá eg á telgdu tálkni

tíu launstafi ristna.

Það hefr lauka lindi

langs oftrega fengið.

Hann vandaði sig við að skera út galdrastafinn. Hann samanstóð af þremur mjög kröftugum rúnum og hann þurfti að vekja kraft hverrar fyrir sig. Fyrst ákallaði hann þursinn.

-Þurs er kvenna kvöl

og klettabúi

og varðrúnar ver.

Saturnus þengill.

Njörður fann hvernig það var sem kaldur gustur færi um hann. Hann fylltist spennu og það spratt fram sviti á enni hans. Næst var að draga fram kraft ássins.

-Óss er aldingautur

og Ásgarðs jöfur

og Valhallar vísi.

Júpíter oddviti.

Hárin á hnakka Njarðar risu og hann fékk gæsahúð. Hann var viss um að stafurinn sem var að myndast á trébútnum væri byrjaður að draga í sig kraft. Þursinn og ásinn tókust á og við það losnuðu gríðarleg öfl úr læðingi. Þá var komið að síðustu rúninni, þeirri sem Njörður vonaði að ljóðmælandi Hávamála hafði notað til að vekja upp virgilnáinn, rúnina Tý.

-Týr er einhendur áss

og úlfs leifar

og hófa hilmir.

Mars tiggi.

Rúnin var tilbúin.

 

run2

 

Hann skoðaði galdrastafinn um stund en teygði sig síðan í hrafnsfjöðrina og stóð á fætur. Hvoru tveggja hélt hann yfir eldinum og þuldi síðasta kvæðið, en jafnframt öflugustu særingu sem hann hafði fundið:

-Þurr sárriþu,

þursa dróttinn,

fliú þú nú!

Fundinn estu.

 

Haf þǽr þríarr

Þráarr, ulf!

Haf þǽr níu

Ńøþirr, ulf!

 

Hann reyndi eins og hann gat að bera fram orðin rétt, en það var erfitt enda veit enginn með vissu hvernig mörg þessara orða voru borin fram til forna.

Loks lét Njörður trébútinn falla í eldinn ásamt hrafnsfjöðrinni. Eldurinn brann glatt og loftið í lestinni var orðið mettað reyk. Hann sneri sér við til að láta Fjalar vita að hann væri búinn.

-Fja...Jesús Kristur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

-Fja...Jesús Kristur!

Ómar Ingi, 4.9.2008 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband