Kl. 20:40
Fjalar leiddi Njörð niður að dyrunum í lestina. Þegar þeir fóru að færa sig neðar í skipið varð stækjan sterkari og meira kæfandi. Allt var dauðahljótt, nema ef vera skyldi bergmál fótataka þeirra.
Hann teygði sig í sveifina sem hélt hleranum inn í lestina aftur, en Njörður stoppaði hann. Njörður tók af sér bakpokann og opnaði. Upp úr honum tók hann pokann sem Fjalar hafði fengið hjá Blóðbankanum. Fjalar mundi vel eftir þeim tíma þegar blóðið var geymt í flöskum, áður en plastpokarnir leystu þær af hólmi. Móðir hans hafði verið ein af hjúkrunarfræðingunum sem unnu með dr. Níels Dungal þegar Blóðbankinn opnaði fyrst í kjallara Landspítalans. Fjalar hristi höfuðið, það voru mörg síðan hann hafði hugsað til móður sinnar. Hann hafði farið og lagt kerti á leiði hennar á jólum og öðrum hátíðisdögum, finndi hann til þess tíma. Það hafði reyndar ekki gerst í nokkur ár og því kom það í hlut eiginkonu hans að sinna því hlutverki. Minning móður hans náði á undraverðan hátt að leiða huga Fjalars að einhverju öðru en því verkefni sem lá frammi fyrir mönnunum tveimur. Hann vissi af gula hundinum uppi á dekki og sú vitneskja nagaði hann, dró úr honum allan mátt þegar hann hugsaði til þess, honum leið eins og eitthvað slökkti á hugsun hans, tilfinningum og vöðvum. Hvað var það við þennan hund? Hvernig stóð á því að þetta pínulitla hundspott skelfdi hann svo?
Njörður var sestur niður og lét blóð renna hægt í litla skál. Fjalar hafði litla sem enga hugmynd um hvað Njörður ætlaði sér að gera, það skipti svo sem ekki höfuðmáli. Það sem var mikilvægt, var að lokka fram geðsjúklinginn eða hvað það var nú sem stóð fyrir þessu öllu saman, - morðingjann eða veruna. Hann hafði hugsað sér að binda endahnút á rannsóknina, ef Nirði tækist að draga fram hvern þann sem stæði fyrir þessu, og sá hnútur yrði rammlega hnýttur.
Fjalar leit aftur fyrir sig. Hann hafði sterklega á tilfinningunni að einhver væri nú þegar á hælum þeirra. Eftir að þeir yfirgáfu messann hafði hann einu sinni heyrt eitthvað undarlegt hljóð, ekki ósvipuðu því sem hann heyrði uppi á þilfari. Honum fannst sem það léki kaldur gustur um líkama hans þegar hann hugsaði út í þetta. Var þetta sami hundur og hann hafði séð fyrr í vikunni? Skyldi Guðbjörg hafa einnig séð hann? Hvers vegna óttaðist hann svo þennan hund? Hvað með það þó Guðbjörg hafi rekið augun í svipaðan hund áður en hún hvarf ofan í skipið? Skyldu hinir myrtu hafa orðið varir við eitthvað svipað?
-Jæja, þá er þetta klárt, sagði Njörður og virtist frekar vera að tala við sjálfan sig en Fjalar. Njörður var búinn að tæma úr blóðpokanum í skálina. Fjalar tók eftir nokkrum kekkjum í rauðum vökvanum.
-Hvað er þetta?
-Ég lét konsentrat, - eða öllu heldur safa úr blöðum Belladonna út í blóðið ásamt muldu kjálkabeini úr ketti.
-Muldu kjálkabeini úr ketti? Hvar komstu yfir það?
Njörður virtist ekki heyra spurningu Fjalars, heldur tók upp hvítan trélit. Hann teiknaði á dyrnar fyrir framan sig einhver undarleg tákn, meðal annars það sem hann hafði séð á myndinni úr skipinu. Fjalar fylgdist hljóður með. Þegar hann hafði lokið við að teikna merkin tók hann fram skálina. Blóðið var ekki lengur rautt í henni, heldur hafði tekið dekkri lit, var nú orðið rauðfjólublátt. Fjalar leit undrandi á Njörð, sem hélt ótrauður áfram.
-Elon, Elon lamazabatani, Deus meus, Deus meus, ut quid dereliguisti, et M agios theos Maria me hael, cherubim et seraphim benedi, þuldi Njörður upp um leið og hann lét vísifingur ofan í skálina. Síðan dró hann fingurinn eftir hvítu strikunum á hurðinni. Fyrst byrjaði hann á einhverju undarlegu stafarugli, sem hann hafði skrifað efst á hægra horn hlerans.
S A T O R
A R E P O
T E N E T
O P E R A
R O T A S
Um leið söng hann og tónaði eins og prestur:
-Sathan operator te, operator te Sathan.
Um leið og hann sleppti síðasta orðinu kipptist skipið til og skrokkur þess nötraði allur og skalf. Fjalar féll aftur fyrir sig og skall í hörðu gólfinu. Hann stóð fljótlega aftur á fætur og fullvissaði Njörð um að það væri í lagi með sig.
Þegar skjálftinn var liðinn hjá hélt Njörður áfram. Fjalar hallaði sér upp að öðrum veggnum og nuddaði á sér hnakkann, hann hafði skollið óþægilega niður og rekið höfuðið í. Hann renndi fingrunum yfir hnakkann. Þegar hann leit á þá tók hann eftir að þeir voru blóðugir.
Skyndilega heyrði hann hljóðið aftur. Það nálgaðist. Einhver var að koma. Hann heyrði hvernig það var sem væri gengið á fótum með hvössum klóm eftir járngólfinu. Allt í einu var sem höfuð hans ætlaði að springa, æðarnar þöndust út og höfuðverkurinn skall með fullum þunga. Fjalar greip um höfuð sitt, honum fannst sem það myndi bresta eða jafnvel springa eins og blaðra. Hann varð að gera eitthvað, varð komast út. Hundurinn var að koma!
-Hann er að koma, fljótur, sagði hann.
Njörður dýfði enn fingri ofan í vökvann og dró hann eftir táknunum sem hann hafði teiknað á hurðina.
P
A
A T O
E
R
PATERNOSTER
O
S
A T O
E
R
Um leið söng hann:
-Consumatum est Eloy Eloy lama zabatani Deus meus Deus meus ut qui dereliquisti me Sator arepo tent opera rotas Christus vincit Christus regnat Christus imperat In nomine pater et fili et spiritus sankti.
Aftur fór mikill skjálfti um skipið. Fjalari var hætt að standa á sama. Hann heyrði enn hljóðið nálgast. Hundurinn fór ekki hratt yfir en hreyfing skipsins hafði ekki mikil áhrif á hann. Njörður var í eins konar leiðsluástandi. Hann sat sem fastast og ekkert virtist geta truflað hann.
-Flýttu þér, sagði Fjalar og leit óttafullur aftur fyrir sig. Hann var viss um að á hverri stundu myndi hundurinn koma í ljós. Hann reyndi að leiða hugann að einhverju öðru en höfuðverknum og hundinum, en það gekk illa, hann átti allt eins von á því að heili sinn myndi þá og þegar þröngva sér út um eyru hans og leka niður á axlir hans svo ákafur var verkurinn.
Njörður hrærði upp í skálinni og dýfði vísifingri á ný ofan í hana. Þá dró hann fingurinn eftir síðasta merkinu, sem var það sama og var á myndinni af dr. Berger.
Fjalar sneri sér við og fylgdist með hinum enda gangarins. Hljóðið færðist hægt en ákveðið nær. Hann tók skammbyssuna upp úr vasanum. Í fljótheitum athugaði hann hvort skotin væru ekki örugglega öll enn á sínum stað.
-Ego sum Alpha et Omega principum et finis dicit Dominus Deus qui est et qui erat et qui venturus est Omnipotens, söng Njörður fyrir aftan hann. Um leið og hann sleppti síðasta orðinu varð allt hljótt. Fjalar hélt niðri í sér andanum og beið drykklanga stund. Hvað ætli hafi orðið um hann, hugsaði Fjalar með sér. Ætli hann bíði þarna úti í myrkrinu? Sitji og stari á okkur sínum kolsvörtu augum? Bíði eftir fullkomnu tækifæri til að ráðast gegn þeim?
Fjalar hristi höfuðið og reyndi að telja sjálfum sér í trú um að þessi ótti hans væri ekki á rökum reistur og í raun kjánalegur. Hann gæti vel tekist á við hundræksnið, svona lítill hundur og hann hafði nú áður þurft að fást við lausa hunda. En það var samt eitthvað við þennan hund, eitthvað svo framandi og skelfilegt en samt ævafornt. Grimmd hans var gott sem áþreifanleg og einhvern veginn vissi Fjalar að ef hann myndi hitta hundinn fyrir aftur myndi hann ekki sleppa jafn auðveldlega og síðast. Þetta vissi hann en hann hafði ekki hugmynd um hvernig.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Úff
Ómar Ingi, 3.9.2008 kl. 08:23
spennandi !
Ragnheiður , 3.9.2008 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.