Kl. 20:05
Ljósastaurarnir vörpuðu fölri birtu niður á höfnina en megnuðu ekki að skína í gegnum þokuna nema rétt í kringum sig. Birta þeirra myndaði einmanalegar keilur og í einni þeirra stóð Njörður og beið eftir Fjalari. Þeir höfðu sammælst um að hittast við skipið um klukkan átta. Hafnarbakkinn virtist yfirgefinn og enginn var á ferli í kvöldmyrkrinu. Hvorki mávahlátur né kattabreim rauf þá grafarþögn sem virtist umlykja skipið, þar sem það lá bundið. Hann leit á armbandsúr sitt órólegur, það hafði hann fengið í stúdentsgjöf frá móður sinni. Klukkan var sjö mínútur yfir, Fjalar var of seinn þó ekki munaði nema örfáum mínútum. Nirði líkaði illa að bíða eftir fólki. Í hvert sinn sem Njörður andaði frá sér var sem reykjarský myndaðist við vit hans, ský sem síðan rann saman við hvítt þokumistrið. Hann fann hvernig kuldinn skreið upp eftir bakinu, engu að síður fann Njörður að hann var farinn að svitna. Hvað ef þetta gengur ekki upp, spurði hann sjálfan sig.
Loks mátti greina dauft fótatak einhvers staðar í mistrinu og innan tíðar tóku útlínur Fjalars að greinast frá þokunni, urðu fyrst að dökkum skugga sem dróst nær uns hann var orðinn sýnilegur. Njörður leit aftur á úrið.
-Tíu mínútur, sagði hann lágt við sjálfan sig og reyndi að láta þessa töf ekki fara í taugarnar á sér. Hann beygði sig niður og tók upp rauða bakpokann, sem lá við fætur hans.
-Þú ert seinn, sagði hann við Fjalar.
-Já, þú afsakar, svaraði Fjalar. Hann var klæddur í dökkan jakka og gallabuxur og hélt á ómerktum hvítum plastpoka. Njörður hafði aldrei séð hann án þess að vera í lögreglubúninginum og ef hefði ekki verið fyrir bústinn líkamsvöxt hans hefði Njörður eflaust ekki séð strax hver var þarna á ferðinni.
-Fékkstu allt?
-Já, en það var ekki auðvelt. Það er einmitt þess vegna sem ég er seinn. Það tók heillangan tíma að sannfæra þau í Blóðbankanum.
-Hvað létu þau þig hafa mikið?
-Einn lítra.
-Það ætti að nægja.
Fjalar rétti Nirði plastpokann, sem opnaði hann og kíkti ofan í. Ofan í pokanum lá annar poki, fullur af blóði.
-Þori ég að spyrja hvað þú ætlar að gera við allt þetta, spurði Fjalar.
-Nei, svaraði Njörður blátt áfram en bætti síða við:
-Því minna sem þú veist, því betra. Þú þarft að hjálpa mér, ég segi þér til um hvert þitt hlutverk er þegar þar að kemur en það væri mun fljótlegra og betra ef þú létir allar spurningar bíða þar til við erum búnir.
Fjalar horfði um stund á Njörð en kinkaði síðan kolli. Njörður reyndi að brosa til hans. Hann beygði sig niður og opnaði bakpokann. Upp úr honum dró hann hálsmen, sem samanstóð af leðuról og litlum trébúti. Á trébútana höfðu verið ristar tvær rúnir.
-Þetta eru verndarrúnir. Ef þú verður verunnar var, reyndu að sjá til þess að þú sjáir hana áður en hún sér þig, sagði Njörður. Fjalar tók við hálsmeninu og setti á sig. Án þess að segja orð gengu þeir að landganginum, þar sem þeir stöldruðu við. Skipið virtist bíða þeirra og einhverra hluta vegna var Njörður sannfærður um það vissi mæta vel af þeim, hvernig svo sem það mátti vera. Það var bara eitthvað við þetta dökka og skuggalega skip sem var undarlegt og ólíkt öllu sem hann hafði nokkurn tíma séð, heyrt eða upplifað. Þegar hann horfði á það leið honum eins og hann hefði fundið mánaðargamlan matarbita, löngu gleymdan og myglaðan langt umfram að hægt væri að bera nokkur kennsl á hann, ekkert eftir nema grænn, viðbjóðslegur klumpur. Eins og þetta skip.
-Ertu trúaður, hvíslaði Njörður að Fjalari.
-Ja, eins og mér er unnt. Af hverju spyrðu?
-Gott. Ég ætla biðja þig um að hafa eftir mér þulu.
Fjalar samþykkti það.
-Jesus Christus, Emanuel: pater et Domine. Deus meus Zebaoth, Adonaí, Unitas, Trinitas, Sapientia,: via, vita, manus, Homo, usiono, Caritas et terus, Creator, Redemtor, Suos, Finis, unigienitus, Fons, Spes, imas et tu Ergomanus, Splendor, Lux, Grammaton, Flos, Mundus, imasio, paracletus, Columba, Corona, prophetas, Humilas, Fortissimus, Atanatos, Kÿrias, Kÿrios, Kÿrieleison. Imas, Lux tua, Grammaton, Caput, Alpha et primo Genue, isus, Agnus, ovis, Vitulos, Serpens, Leo, Vermus, unus Spiritus Sanctus, Helio, Heloj, Lamasabactani, Consummatum est, inclinate capite, Spiritus, Jesus vincet, Jesus imperat, Redemtor, Deus Abraham, Deus Isaac, Deus Jacob.
Uriel, Tobiel, Geraleel, Raphael, Michael, Cherubin, Cheraphin, Caspar, Fert miram, Melciorus, Balthasar, Aurum, et triva nomi, quis Super pontativ, Solvetor, Avisibet, petate, Adam, Eva, Jesus Nazarenus, Rex judiorum, Jesus Christus fili Dei, Misere mei.
Petrus, Andrias, jacobus, johannes, Philippus, Bartholomeus, Simon, judas, Matthias, Lucas, Paulus, Barnabas. Qui me Defendit a Canibus, in manus Comentuum Spiritum meum, Redemisti meum Verita tue Amen.
Þegar þeir höfðu lokið að þylja þetta upp leit Fjalar á Njörð og spurði:
-Hvaða þula var þetta?
-Henni er ætlað að verja okkur. Við vorum að kalla Guð, engla hans og alla lærisveinana til liðs við okkur og fara fram á hjálp þeirra.
Fjalar kinkaði kolli og þeir héldu áfram upp landganginn.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar Ingi, 29.8.2008 kl. 21:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.