Þoka

Jæja, nú fer að líða að undir lok sögunnar. Mér telst til að rétt um 10 færslur séu eftir. 

 

Kl. 15:40

 

Þegar Fjalar sneri aftur á lögreglustöðina beið Njörður hans frammi í anddyri. Fjalar benti honum að fylgja sér inn á skrifstofu. Fjalar fékk sér sæti við skrifborðið og horfði á Njörð loka dyrunum og setjast á móti honum. Fjalari virtist Nirði vera nokkuð niðri fyrir, hann var eins og smástrákur sem gat ekki beðið eftir því að segja móður sinni frá því sem hafði gerst í skólanum. Fjalar hallaði sér aftur í stólnum.

-Jæja, hvernig gengur?

-Ég held, sagði Njörður, en kláraði ekki setninguna. Hann starði um stund þögull á Fjalar. Að lokum sagði hann:

-Ég heyrði í útvarpsfréttum að einhver hafi myrtur í nótt?

Fjalar kinkaði hægt kolli og lokaði augunum.

-Hver?

-Einn úr rannsóknarlögreglunni.

-Lögreglunni!?

-Já.

-Hvernig … ég meina, hvers vegna? Tengist það þessu?

-Já.

-Jesús minn eini, ætlar þessu aldrei að linna?

Fjalar svaraði engu en leit á Njörð. Honum virtist nokkuð brugðið og örsmáar svitaperlur höfðu sprottið fram á enni hans.

-Hvernig?

-Hvernig hvað, svaraði Fjalar.

-Hvernig tengist þetta morðmálinu?

-Á sama hátt og öll hin morðin. Allir hinir myrtu hafa komið um borð í þetta bölvaða skip.

-Ja, hérna. Vitið þið hverjir hafa farið um borð?

-Já, svona nokkurn veginn.

-Og vaktið þið ekki þá einstaklinga?

-Jú, þeir eru undir eftirliti. Reyndar flestir úr lögreglunni eða Landhelgisgæslunni. Þór er kominn langt norður fyrir land og þar um borð eru flestir þeirra sem fóru fyrst um borð, afgangurinn er að undanskilinni Guðbjörgu lögreglumenn og það hefur verið rætt við þá og félaga þeirra.

-Guðbjörg, þarna fréttakonan, er það ekki? Hefur hún farið um borð líka?

-Já.

-En hún er ennþá á lífi, ekki satt?

-Jú, jú. Hún er reyndar á spítala eins og er.

-Merkilegt, sagði Njörður hugsi.

Fjalar stóð á fætur og greip kaffibollann sinn af borðinu. Hann gekk fram, fyllti bollann af kaffi og annan til. Þegar hann sneri aftur inn á skrifstofuna rétti hann Nirði annan bollann en settist aftur í sætið sitt og saup á heitum vökvanum.

-Mér sýndist þér ekki veita af einum bolla eða svo.

Njörður þakkaði fyrir og fékk sér sopa.

-Jæja, snúum okkur aftur að þér og rannsóknum þínum, Njörður. Segðu mér nú frá hvers þú hefur orðið vísari.

Njörður lagði bollann frá sér á borðið og tók upp skrifblokk úr töskunni sinni. Hann opnaði hana og tók fram myndina, sem fundist hafði um borð í skipinu og glósurnar sínar.

-Jú, sjáðu nú til. Eins og ég var búinn að komast að og segja þér, þá vísar Tep-tu-f til Anpu eða Anubis, sjakalaguðsins sem gætir ríkis hinna dauðu. Eitt og sér gagnast sú vitneskja lítið, í raun ekki neitt, því það segir ekki neitt um morðingjann. Er hann að ákalla guðinn? Er þetta kannski bara eitthvað sem hann gerir til að afvegaleiða ykkur í lögreglunni? Hins vegar sú staðreynd að hann notast við þebískar rúnir bendir til þess að hér er lærður einstaklingur á ferð, ef hann er ekki með einhverja akademíska menntun að baki þá hefur einhver skólað hann í ,,hinum myrku fræðum”, ef svo má að orði komast, það er göldrum, nekrómansíu og slíku. Reyndar er til fullt af fólki sem kann þebískar rúnir og notar á jákvæðan hátt, en ég er nokkuð viss um að sá sem hér um ræðir noti þessar rúnir ekki með þeim hætti. Til að byrja með þá ristir hann þær öfugar, ekki réttar heldur speglar þær. Í öðru lagi eru þær ristar við losun gríðarlegra krafta, - í rauninni má kalla morðin nokkurs konar fórnir og eflaust ætlaðar til að magna upp seiðinn sem bundinn er í rúnunum. Og rúnirnar snúa öfugt, eins og ég sagði áðan og það gæti haft tvær merkingar. Annars vegar er þeim ætlað að vera enn ákafari, enn öflugri eða að þetta er einhvers konar útúrsnúningur á öðrum galdri.

Fjalar kinkaði kolli.

-Ertu þá að segja að morðinginn sé einhver snarruglaður vitleysingur sem heldur að hann geti galdrað?

-Já og nei. Ég var farinn að hallast að þeirri skoðun þar til þú komst með myndina, svaraði Njörður og tók upp myndina. Hann rétti Fjalari hana og hélt síðan áfram:

-Hefurðu heyrt um dr. Berger?

Fjalar hristi höfuðið.

-Dr. Berger var fornleifafræðingur og titlaði sig sem sérfræðing í egypskum fræðum. Hann var reyndar mjög umdeildur og mistækur, svo ekki sé meira sagt. Margar kenningar hans voru algerlega út í bláinn og oftar en ekki varð hann athlægi starfsbræðra sinna.

-Hvernig tengist hann þessu máli?

-Jú, sjáðu til. Þessi mynd er af honum, að ég held. Ég hef reyndar bara séð eina mynd af dr. Berger, en ég er nokkuð viss um að þetta sé hann.

-Ég skil. En hvernig tengist þetta allt saman því sem við erum að fást við hérna?

-Mér var eitt sinn sögð sú saga af dr. Berger að hann hafi ætlað sér að finna grafhýsi Mentuhotep IV, en það hafa fundist afar fáar vísbendingar eða fornleifar sem staðfesta tilvist þess faraós, þar sem hann ríkti á einu stormasamasta tímabili í sögu Egyptalands til forna. Reyndar eru ekki allir fræðimenn sannfærðir um að hann hafi verið til, en samkvæmt Turin listanum eru sjö ár á milli þess að Mentuhotep III fellur frá og Amenemhat I tekur við, en þessi skil marka einmitt mærin á milli fornríkisins og miðríkisins. Á þeim tíma risu margir smákonungar og aðalsmenn og reyndu að sölsa undir sig völd, auðæfi og landsvæði. Sumir hafa haldið því fram, og þeirra á meðal var dr. Berger, að á þeim tíma hafi Mentuhotep IV ríkt. Það hefur fundist ein vísbending um það, steinplatti þar sem bæði nöfn Mentuhoteps og Amenemhat koma fram. En hvað um það, dr. Berger fór sem sagt til Egyptalands 1920 og ætlaði sér að finna grafhýsið. Ekki fer neinum sögum af þessari leit hans, en hann hvarf 1922 og ekkert hefur spurst til hans síðan. Ekki fyrr en nú. Sé það rétt að þetta skip hafi verið í flutningum fyrir þýska Egyptalandssafnið, þá tel ég ekki ólíklegt að hann hafi verið í einhverju sambandi við það, úr því að myndin af honum fannst um borð. Og ef við gerum ráð fyrir því, þá hlýtur þetta skip hafa verið að flytja muni til Þýskalands, er þá nokkuð óeðlilegt að áætla að hann hafi fundið grafhýsið?

Fjalar hristi höfuðið. Hann var ekki alveg viss um hvert Njörður væri að leiða hann, en ákafinn í röddinni og áhugi hans var smitandi.

-Skoðaðu myndina vel. Taktu eftir steinhellunni sem mennirnir standa við.

-Já, hvað með hana?

-Sérðu merkið sem er á henni miðri?

Fjalar hallaði sér fram og rýndi í myndina.

-Merkið!? Þessar ógreinilegu rákir hérna, spurði hann.

-Já. Hérna, notaðu þetta, svaraði Njörður og rétti Fjalari stækkunargler úr töskunni sinni, Fjalar grúfði sig yfir myndina til að skoða hana betur. Með hjálp stækkunarglersins sá hann merkið betur. Fimm arma stjarna og einhverjar myndrúnir. Hann leit upp á Njörð, sem brosti og iðaði í sætinu af spenningi.

-Og ég geri þá ráð fyrir að þú vitir hver merking þessa er?

-Já. Sjáðu nú til, híróglífan stjarna innan í hring merkir venjulega stjarna á himni, en í þessu tilfelli er það ekki svo. Fimm arma stjarna án hrings merkir nefnilega ríki hinna dauðu, ríki Anubis, og ég tel að hringurinn tákni einhvers konar vörn eða landamæri, sem sá sem í grafhýsinu lá gat ekki komist yfir. Híróglífurnar umhverfis stjörnuna þýða: Faraó nauðugur bundinn til eilífs lífs. Vörnin umhverfis stjörnuna segir okkur því að hann hafi ekki komist í ríki hinna dauðu, hvað svo sem olli því. Fyrir vikið er sá látni fastur á milli tveggja heima, milli okkar heims og þess næsta.

-Allt í lagi, en ég er samt ekki að ná því hvernig þetta tengist morðunum hér.

-En bíddu nú hægur. Nú er ekki öll sagan sögð og geymdi ég það besta þar til í lokin. Á svipuðum tíma og Amenemhat I var að taka við völdum í Egyptalandi var sagan af Neferti spámanni skráð. Þó að sagan sé skráð á tímum Amenemhat ættarinnar, þá er henni sett svið miklu fyrr, á tímum 4. konungsættar. Neferti var kallaður fyrir Snefru faraó og átti að skemmta konungnum með sögum. Þess í stað spáði hann til um framtíðina. Í spádómi Neferti er Egyptalandi lýst og lýsingin er vægast sagt skelfileg. Níl þornuð upp, útlendingar ráða ríkjum, óreiða ríkir, allt á hvolfi. Ríkið logar í illdeilum, hinir dauðu lifna við og svo mætti lengi telja. En Neferti spáir líka fyrir um það muni koma fram bjargvættur, að nafni Ameny, og hann muni draga ríkið fram úr skugganum. Ameny er stytting á Amenemhat. Ef við gefum okkur það að þessi spádómur eigi við einhver rök að styðjast, hvort sem þetta er sönn saga eða fabúleruð af hirðskáldum Amenemhats, þá felast í henni ákveðin skilaboð um hvernig umhorfs hefur verið í Egyptalandi á valdatíma Mentuhoteps IV. Óreiða og alls kyns illindi ráðandi. Og sú staðreynd, að hann hefur verið grafinn með þeim hætti að varna honum inngöngu í ríki hinna dauðu bendir til þess að þeir sem tóku við af honum, hvort sem það var gert með valdi eða ekki, vildu þeir alls ekki að hann færi lengra. Í raun bjuggu þeir honum fangelsi niðri í þessu grafhýsi. Hann varð í raun nokkurs konar lifandi dauður. Kannski að Amenemhat hafi sjálfur staðið fyrir þessu, kannski að aðalsættin hafi gert uppreisn gegn Mentuhotep  og komið Amenemhat til valda. Hver veit, ég er ekki alveg nógu vel að mér í sögu Egyptalands.

-Já, en hvernig tengist þetta morðunum, spurði Fjalar aftur og var farinn að hungra eftir skýringum.

-Forn-Egyptar trúðu því, að hjartað geymdi sálina og til að komast í ríki hinna dauðu var hjarta manns vegið á móti hvítri fjöður sannleikans. Ef það reyndist léttara þá var viðkomandi hleypt inn, annars var hinn látni étinn af djöflum. Ég held, að til þess að koma í veg fyrir að Mentuhotep IV kæmist inn í ríki hinna dauðu hafi hjartað verið fjarlægt úr líkama hans og hann grafinn án þess. Með því móti gæti hann ekki stigið inn í dómssal Ósírisar, því enginn dauðlegur maður komst þangað án þess að hafa hjartað meðferðis. Þess vegna safnar hann hjörtum núna. Mentuhotep leitar að hjarta sem passar.

Fjalar starði hissa á Njörð.

-Fyrirgefðu, en ertu til í að segja þetta síðasta einu sinni enn?

-Mentuhotep leitar að hjarta sem passar.

-Þannig að við erum að eltast við einhverja múmíu. Er það vísindaleg niðurstaða þín, spurði Fjalar og fann hvernig reiðin kraumaði í sér. Hafði hann virkilega látið þennan svokallaða fræðimann teyma sig áfram á asnaeyrunum?

-Já og nei, svaraði Njörður og virtist ekki láta neinn bilbug á sér finna. -Ég held, að það sem er eftir af Mentuhotep IV sé að leita að hjarta sem getur komið honum inn í ríki hinna dauðu. Hvort það sé múmía, -æ, veistu, mér finnst það ólíklegt, allavega ekki í þeirri mynd sem er venjulega er dregin upp af þeim í bandarískum kvikmyndum. Lýsing Védísar er líka langt frá því að vera af manni vafinn í lín, hún á frekar við um Anpu. Reyndar bar Anpu höfuð sjakala, en ekki hunds. Það er reyndar ekki mikill munur á þessum tegundum, skilst mér, hvor sín hliðin á sama peninginum.

-Hvernig líta sjakalar út?

-Litlir, með mjótt trýni og stór eyru.

-Hvernig eru þeir á litinn?

-Ég er ekki viss, gulir að mig minni. Gulir og svartir. Ég er annars ekkert sérstaklega vel að mér í dýrafræðum.

Fjalar horfði um stund á Njörð. Það var eitthvað við frásögn hans sem greip hann og þó hann vildi einna helst kasta Nirði á dyr fyrir að eyða tíma sínum í slíka vitleysu. Kannski er ég orðinn of þreyttur, eða einfaldlega of gamall fyrir þetta, sagði hann við sjálfan sig.

-Litlir, gulir og með mjótt trýni?

-Já, af hverju spyrðu?

Fjalar fann hvernig sviti spratt fram á baki sér og hann vildi helst geta látið sig hverfa. Var það litla kvikindið sem hann var alltaf að rekast á? Gat verið að Njörður væri kominn á rétta slóð?  

-En hvers vegna ætti ég ekki bara að láta sökkva skipinu? Það virtist leysa málið í Frakklandi á sínum tíma? spurði Fjalar og reyndi að láta á engu bera.

-Leysti það málið? Skaut það ekki bara vandamálinu á frest?

-Svo virðist vera, svaraði hann og sat hugsi um stund. Ef Njörður hafði rétt fyrir sér, hvernig áttu þeir að ráða niðurlögum þessarar veru? Hvað var hægt að gera?

-Hvað leggur þú til að við gerum?

Njörður sat um stund hljóður og horfði rannsakandi á Fjalar.

-Tja, þegar stórt er spurt er fátt um svör. Ég veit það ekki, en einhvern veginn verður að stöðva þessi morð. Svo virðist vera sem franska lögreglan hafi náð að hrekja þennan morðingja á brott með því að sökkva skipinu. Engu að síður er það nú komið hingað, um það bil þrjátíu árum seinna. Eftir því sem ég kemst næst þá hefur dr. Berger eflaust hleypt þessari veru út, það er að segja ef sagan af honum er sönn. Þá hefur hún verið læst inni svo árþúsundum skiptir. Ég held, að við þurfum að gera eitthvað svipað því sem var gert þarna til forna. Lokka veruna fram og læsa hana inni með hjálp einhverja galdra. Lengi vel voru galdrar vísindi og ég tel, að það sé sú lausn sem við stöndum frammi fyrir núna.

-Galdrar, sagði Fjalar hugsi en bætti síðan við: -Ef þú hefðir sagt mér þessa sögu fyrir viku hefði ég látið taka þig höndum og fært upp á Klepp til rannsóknar. En miðað við atburði undanfarna daga þá er einhvern veginn allt þess virði að prófa það. Hvað hefurðu eiginlega í huga og hvernig get ég orðið þér til aðstoðar?

Njörður skýrði honum frá hugmynd sinni.

Eftir að Njörður var farinn sat Fjalar eftir í rökkvuðu herberginu. Hann hálfpartinn vonaði að Nirði tækist ætlun sín. Ef Njörður hefði rangt fyrir sér, þá væri aldrei að vita nema hann næði að lokka fram morðingjann og Fjalar gat látið nokkra lögreglubíla vera viðbúna kalli frá sér. Svo var hin hliðin á þessu, hefði Njörður rétt fyrir sér þá gæfist Fjalari tækifæri til að koma höndum yfir þennan hund eða sjakala. Náttúrulega var sá möguleiki fyrir hendi að þetta væri allt saman bull og vitleysa, en samt var eitthvað sem sagði Fjalari að þeir væru á réttri leið. Kannski var það bara von hans.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 28.8.2008 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband