Þoka

Kl. 14:05

 

Fjalar reyndi að einbeita sér að fundinum sem hann sat ásamt nokkrum mönnum úr rannsóknarlögreglunni og frá tæknideildinni. Vísar veggklukkunnar siluðust áfram en Fjalari fannst sem þeir færðust frekar aftur en áfram. Hún var rétt orðin tvö og Fjalar vissi að svona fundir gátu dregist langt fram eftir degi. Hann hafði setið ótal svipaða fundi og allir snerust þeir um það eitt að skipuleggja hvernig rannsókn mála skyldi háttað og hverjir skyldu sjá um hvaða verk. Fundirnir vegna þessa máls voru orðnir hátt í tuttugu talsins en lítið hafði þokast og sama hvaða brögðum var beitt kom ekkert upp úr krafsinu. Engin fingraför, engin vitni ef frá var talin Védís, sem Fjalari skyldist að væri ekki viðræðuhæf, hún röflaði víst stanslaust um skrímsli og heimsendi. Lítið á því að græða, hugsaði hann með sjálfum sér um leið og sköllóttur maður frá tæknideildinni talaði um muninn á feldi hinna mismunandi heimilisdýra. Ein helsta vonin var að Njörður myndi komast að einhverju sem væri hjálplegt, eitthvað sem myndi ekki leiða rannsóknina niður enn eitt öngstrætið. Hann hallaði sér aftur í stólnum og teygði úr sér. Það var samt kominn annar og örvæntingarfyllri tónn í alla, margir höfðu þeir átt erfitt með að fela geðhrif sín þegar þeim var tjáð hver það var sem hafði verið myrtur þar um nóttina. Nú var þessi rannsókn komin á persónulegra stig og fyrir vikið voru allir ákafari í að finna hinn seka, hver svo sem það var.

-…og þá sjáið þið hversu undirfeldhárin eru fínni. En eins og þið eflaust getið sagt ykkur sjálfir, þá er ekki um undirfeldhár að ræða hér …

Fjalar andvarpaði og lygndi aftur augum. Hann hafði lesið skýrslu tæknideildarinnar, oftar en einu sinni en ekki séð nokkra hjálp í henni. Þar kom ekkert fram sem Grímur hafði ekki þegar sagt honum og Fjalar sett í sína skýrslu. Ætli þeir á tæknideildinni lesi ekki aðrar skýrslur en þeirra eigin, spurði hann sjálfan sig og leit á sköllótta manninn. Hann hét Baldur og þótti um margt undarlegur í háttum. Til að mynda virtist hann gersamlega ónæmur á samdrátt undirmanna sinna. En Baldur mátti eiga það, hann vann sitt verk af alúð og ótrúlegri samvisku. Orðið smáatriði öðlaðist algerlega nýja merkingu eftir að Fjalar kynntist þessum sérstaka manni.

Skyndilega skaut Guðbjörgu upp í huga Fjalars. Hann hafði ekki heyrt af afdrifum hennar, annað en að hún hafi farið með sjúkrabíl upp á Landspítala og verið lögð inn á geðdeild. Kannski hann ætti að senda einhvern upp eftir? Það var aldrei að vita nema að hún væri búin að ná sér og gæti kannski sagt örlítið frá því sem hafði gerst. Hvað skyldi hún hafa séð um borð? Hvað ætli hafi gerst og hvers vegna var hún með þetta hjarta?

Fjalar hrökk upp úr þessum hugleiðingum sínum þegar hurðin inn í fundaherbergið féll að stöfum og hann tók eftir að hann sat einn eftir. Hann stóð á fætur og gekk fram á gang og niður á skrifstofuna sína, sem var á hæðinni fyrir neðan. Hann klæddi sig í úlpu og tók lyklakippuna sína af skrifborðinu.

Eftir um tíu mínútur var hann kominn upp á spítalann þar Guðbjörg var vistuð. Hann gekk inn og fór með lyftu upp á þriðju hæð. Eins og venjan var, þá voru dyrnar inn á deildina sem hún var vistuð á læstar og þurfti hann að bíða drykklanga stund áður en það var opnað. Gangurinn var dimmur, þrátt fyrir að í loftinu héngu neonljós þá var birta þeirra köld og ófullnægjandi. Veggirnir voru steingráir og handriðið í stiganum appelsínugult. Furðulegt litaval, sagði Fjalar við sjálfan sig. Hann hafði svo sem aldrei sett sig inn í arkitektúr eða nokkuð því um líkt, hann vissi bara hvað sér þótti fallegt og hvað ljótt og honum þótti grár litur veggjanna ekki passa við handriðið.

Þá voru dyrnar opnaðar og í þeim stóð kraftalegur karlmaður um fertugt. Hann hafði eflaust einhvern tíma verið sjómaður, því framhandleggir hans voru skreyttir missmekklegum húðflúrum. Maðurinn var töluvert stór og með nokkuð mikið hár, sem í voru gráir taumar. Hann hafði ekki haft fyrir því að greiða sér í morgun.

-Já, hvað vilt þú, spurði hann. Fjalar var næstum búinn að skella upp úr, því rödd mannsins var ekki í neinum samræmi við líkama hans. Hún var þýð og lá nokkuð hátt uppi. Hann gæti vel sungið sópran, hugsaði Fjalar með sér um leið og hann kynnti sig og bar upp erindi sitt á geðdeildina. Maðurinn hleypti honum inn og benti á að fylgja sér.

Guðbjörg sat inni í einu herbergjanna og horfði út um glugga. Það var ekki mikið að sjá, þokan lá enn eins og mara yfir borginni og virtist ætla að kæfa hana. Hún leit ekki upp þegar Fjalar steig inn til hennar og heilsaði. Hann settist á rúmið.

-Hvernig hefurðu það, Guðbjörg?

Hún leit á hann og yppti öxlum. Lokkur úr dökku hári hennar féll fram fyrir augun, hægt rétti hún upp vinstri hönd og lagði lokkinn á ný aftur fyrir eyra. Hún sneri sér aftur að glugganum.

-Mig langar til að ræða við þig um það sem gerðist þegar þú fórst um borð, ef þú treystir þér til þess. Hver veit nema þú hafir tekið eftir einhverju sem gæti varpað nýju ljósi á þetta mál.

-Það er ekkert að ræða um.

-Nú, af hverju segirðu það?

-Ég man ekki hvað gerðist.

-Manstu ekkert?

-Nei, eiginlega ekkert.

-Veistu af hverju þú fórst um borð?

-Já, Grímur kallaði á mig og vildi að ég kæmi til sín.

-Og þú fórst þá bara um borð? Hvernig komstu framhjá lögreglumanninum sem var á vakt?

-Hann var sofandi.

-En þú hlýtur að muna eitthvað, er það ekki? Eitthvað örlítið?

-Ég man ég gekk upp landganginn og þegar ég sneri mér við og leit aftur fyrir mig, þá sá ég lítinn gulan hund. Hann horfði svo undarlega á mig. Svona eins og hann þekkti mig, - eða eins og hann væri að horfa inn í mig.

Eitt augnablik sá Fjalar eftir því að hafa komið. Hann stóð á fætur og ætlaði að ganga út.

-Hann drap aftur í nótt, er það ekki, spurði Guðbjörg. Hún horfði enn út um gluggann.

-Jú. Hvernig veist þú það?

-Ég bara veit það. Mig dreymdi það.

-Dreymdi þig morðið?

-Já, mig dreymdi það.

-Og hvað? Hver er morðinginn?

-Andinn í skipinu lætur myrða fyrir sig.

Fjalar starði forviða á Guðbjörgu. Andinn lætur myrða fyrir sig, hafði hún sagt en hann trúði vart sínum eigin eyrum. Var hún gengin af göflunum?

-Hvernig þá? Hvernig lætur hann myrða fyrir sig?

-Hann fer inn í fólk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Já Sæll

Ómar Ingi, 27.8.2008 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband