Þoka

Kl. 04:20

 

Íbúðin var myrk fyrir utan herbergið sem Njörður notaði sem skrifstofu, þar logaði á lampa og birtan féll mjúklega yfir skrifborðið sem hann sat við og las. Á borðinu stóð tómur kaffibolli og glósurnar hans ásamt Bók hinna dauðu, sem hann hafði fengið lánaða á Háskólabókasafninu. Hann hafði setið við og lesið, reynt að finna fleiri upplýsingar um Anpu, eitthvað sem gæti gagnast lögreglunni. Það voru liðnir sjö tímar síðan Fjalar fór og Njörður hafði varla staðið upp, ekki nema rétt til að hella kaffi í bollann. Hann var orðinn mjög þreyttur en samt gat hann ekki hugsað sér að fara að sofa strax. Hann hallaði sér aftur í stólnum og teygði úr sér. Anpu eða Anubis hafði verið guð hinna dauðu, sá sem kenndi Egyptum að smyrja lík og var verndari múmíanna. Kona Gríms, Védís, hafði talað um að hún hefði séð veru sem var að hálfu úlfur eða hundur og að hálfu maður, með dýrahöfuð og klær. Sú lýsing átti frekar við um guðinn sjálfan en nokkurn venjulegan mann. Anpu var sýndur á mörgum myndum í bókinni og á flestum þeirra með höfuð sjakala, en þetta með klærnar stóðst þó ekki. En hvað var þá hér á ferð? Geðsjúklingur? Varúlfur? Og hvernig tengdist þetta allt saman þessu skipi? Þokan hafði komið um leið og það, morðin hófust eftir að einhverjir höfðu farið um borð. Kannski að þessu hafi verið svipað farið í Frakklandi á sínum tíma? En það hlutu fleiri að hafa farið um borð en þeir sem nú þegar höfðu verið myrtir. Varla voru það bara Ámundi og Leifur sem fóru yfir í skipið úr Þór á laugardaginn var. Þeir voru eflaust líka fleiri úr lögreglunni sem höfðu verið í skipinu. En hvers vegna voru sumir myrtir en aðrir ekki? Voru kannski einhver tengsl á milli þeirra sem hann vissi ekki af? Var kannski eitthvað sem Fjalar var ekki að upplýsa hann um?

Njörður stóð á fætur og gekk að herbergisglugganum. Hann dró frá og starði út í niðdimma þokuna. Hún var ótrúlega þétt og það í janúar og hafði hvorki létt né hreyft í viku. Njörður hafði gengið um stræti Lundúnaborgar að haustlagi og upplifað hvernig þokan kom utan af Norðursjó og lagðist yfir þá fornu borg. En þokan sem huldi borgina við Sundin var í engu lík þeirri ensku. Það var sem borgin hefði verið numin brott af landinu í Norður-Atlantshafinu og skellt einhvers staðar niður til geymslu, svona eins og til málamynda, rétt á meðan beðið er eftir nýjum stað, svona hvorki né. En hvað með hann sjálfan? Hvar var hann þá staddur? Að reyna setja saman ólík brot í undarlegu púsli þar sem honum voru aðeins fengin örfá stykki af heildarmyndinni. Á meðan sinnti hann hvorki starfi né sjálfum sér, svaf lítið og át minna. Í glugganum sá hann andlit sitt speglast, svart hárið ógreitt og augun líflaus og dimm, eins og uppvakningur sem þráir ekkert frekar en frið grafarinnar. Var hann kannski í sömu sporum og slík vera? Var borgin kannski líka í þeim? Hvorki lífs né liðin, milli svefns og vöku og vissi hvorki í þennan heim né annan. Eins og nokkurs konar vökudraumur, hvorki raunverulegur né alvöru draumur, eins konar ódraumur, hvorki heitur né kaldur.

Njörður sneri sér frá glugganum og skaust fram í eldhús til að fylla aftur í bollann. Síðan settist hann aftur við skrifborðið og las áfram í bókinni. En hann átti erfitt með að einbeita sér að lestrinum, klukkan var tekin að síga í fjögur og það var töluvert liðið síðan hann hafði sofnað. Hann hallaði sér aftur í stólnum og lygndi aftur augum. Njörður fann hvernig þungur svefnhöfgi kom yfir sig og hann geispaði. Skyndilega var þó eins og hann yrði einhvers var. Augun glenntust upp og um stund sat hann grafkyrr.

-Hvað sagði Fjalar aftur að skipið héti, spurði hann sjálfan sig. Njörður fletti hratt í gegnum glósurnar sínar uns hann fann nafnið. Der Sturmmädchen, talið hafa sokkið árið 1922 undan ströndum Portúgals. Skip í eigu þýska ríkisins og í siglingu fyrir Ägyptisches Museum þegar það hvarf. Hann tók upp gömlu ljósmyndina sem hafði fundist í skipinu.

-Þú ert dr. Berger, sagði hann sigrihrósandi við myndina. Njörður tók aftur fram stækkunarglerið og skoðaði vel annan mannanna, þann er augljóslega var ekki Egypti. Þrátt fyrir að myndin væri komin til ára sinna fór það ekkert á milli mála. Þetta var dr. Berger. Skyndilega kom á andlit hans undarlegur svipur.

-Það hlýtur þá að vera satt. Sagan hlýtur að vera sönn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 26.8.2008 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband