Þoka

28. janúar

 

Kl. 07:45

 

Borgarspítalinn var eins og miðaldakastali, umvafinn mistri og þögn. Fjalar ók inn að aðalinngangnum. Hann fann hvernig kaldur sviti spratt fram á bakinu og hversu tak hans á stýrinu þéttist. Innan nokkurra augnablika hafði hann lagt lögreglubifreiðinni og drepið á henni. Um leið og hann steig út fann hann hvernig sér sortnaði fyrir augum og Fjalar varð að styðja sig við bílhurðina. Var hann virkilega orðinn svona þreyttur? Hann fann hvernig æðarnar í höfði voru við það að springa, fyrir eyrum hans suðaði og hann óskaði þess að fá að sofna, bara örskamma stund og vakna án þess að þessi skelfilegi höfuðverkur gerði vart við sig.

Svefninn hafði látið á sér standa í nótt, eirðarlaus vafraði Fjalar um íbúð sína og reyndi að koma einhverri stjórn á hugrenningar sínar. En hvernig sem hann reyndi þá gat hann það ekki, hugsanirnar þutu um höfuð hans eins og gulnuð laufblöð í fyrstu haustlægðinni. Auk þess var í honum einhver hrollur, einhver ókyrrð, eins og hjá manni sem bíður sinnar hinstu stundar og veit að hann á von á henni í bráð. Á meðan þutu brotakenndar hugsanir um höfuð hans og héldu fyrir honum vöku. Honum hafði tekist að dotta smá dúr, varla meira en klukkustund. Hann vaknaði hins vegar í sófanum fullklæddur, eins og hann hefði hreinlega búist við símtalinu í svefni og gert sig kláran, svo hann gæti lagt strax af stað. En Fjalar hafði ekki sofið mikið undanfarið, ásýnd líkanna ásótti hann, hvernig sem hann reyndi gat hann með engu móti hrist þær af sér. Hvernig gat hann komið í veg fyrir þessi morð? Hvernig gat hann komið í veg fyrir að hann yrði næstur?

Kenningar Njarðar veittu honum litla sem enga von. Þær voru álíka trúverðugar og hver önnur barnasaga. Voru tengsl á milli verunnar og þessa egypska guðs, Anpu? Voru veran og guðinn eitt og hið sama? Fjalar gat ekki með neinu móti séð hvernig það mátti vera, þrátt fyrir rökstuðning Njarðar þá gat hann ekki skilið hvernig þetta tvennt gat staðist. Ætli Njörður sé ekki líka genginn af göflunum, eins og Guðbjörg? En kannski var sökin hans, hvers vegna hafði hann verið að blanda þessu fólki í rannsóknina? Var ekki blóð Gríms á höndum hans, því það hafði jú verið Fjalar sem boðaði hann í skipið? 

Það kom Fjalari ekki á óvart þegar síminn hringdi. Hann var heldur ekki undrandi á að heyra hvað hafði gerst. Nú var hann kominn á spítalann og þurfti Fjalar enn og aftur að horfast í augu við að einhver sem hann hafði boðað í skipið hafði verið myrtur. Hann gekk að tröppunum, í hvert skipti sem hann steig niður fannst honum sem fætur hans sykkju ofan í jörðina. Óraunveruleikatilfinning helltist yfir hann, honum fannst sem hann væri staddur á milli vídda, á landamærum þess raunverulega og hins skáldaða. Við dyrnar stóð lögreglumaður og opnaði fyrir honum, þeir kinkuðu kolli hvor til annars án þess að segja orð. Hann gekk beint inn að deild A2, aldrei þessu vant stóðu dyrnar inn á geðdeildina opnar og hvítklæddar hjúkrunarkonur voru í óða önn að flytja forviða sjúklinga á brott. Fjalar staldraði við þegar hann var kominn inn fyrir dyrastafinn og horfði inn myrkvaðan ganginn. Innan úr honum barst Fjalari endurómur radda.

-Guð minn góður, Guð minn góður, Guð minn góður ... , endurtók í sífellu móðursýkisleg kvenmannsrödd.

-Svona nú, Sigríður, reyndu að anda djúpt að þér og slaka svolítið á, svaraði önnur kona.

Hann gekk inn ganginn. Í litlu herbergi sat feitlagin kona og reri fram í gráðið. Hún hélt á kaffibolla báðum höndum en hafði ekki drukkið mikið úr honum. Augnaráð hennar var starandi og augun þrútin. Við hlið hennar var ung, ljóshærð kona. Hún var með teppi og reyndi að breiða það yfir axlir hennar. Við dyrnar inn í herbergið stóð lögregluþjónn, hann gaut augum á Fjalar þegar hann nálgaðist en sagði ekkert. Fjalar hélt áfram inn ganginn, alveg að innstu herbergjunum. Hann lokaði augum og dró andann nokkrum sinnum djúpt. Vissi hann ekki hvað beið hans? Hafði hann ekki séð þetta áður? Hvers vegna var þetta svona erfitt nú? Hann opnaði augun og steig inn í herbergið þar sem Páli hafði verið komið fyrir eftir áfallið.

Skömmu síðar gekk hann aftur fram. Ósjálfrátt leit hann niður fyrir sig og tók eftir litlum bletti á svörtum skónum. Fjalar dró upp bláan vasaklút, beygði sig niður og þurrkaði óhreinindin af. Hann starði á skóna sína, eins og hann vildi tryggja að ekki væri fleiri rauðir blettir. Hann var enn að skoða skóna þegar eldri maður í hvítum slopp kom fram úr herberginu. Fjalar leit á hann, maðurinn var gráhærður og augu hans drógust niður undan þungum kinnum. Áður en maðurinn náði að segja nokkuð spurði Fjalar lágt:

-Hjartað, sástu hvort hjartað var enn á sínum stað?

-Nei, ég tók ekki eftir því.

Eftir stutta þögn bætti læknirinn við:

-Hvað … hver gæti hafa … hvað hefur rifið sig í gegnum brjósthol hans? Hver gerir …

Fjalar sneri sér undan og gekk á brott. Hann staldraði augnablik hjá lögreglumanninum sem stóð yfir hjúkrunarkonunum og sagði honum að ganga frá öllu. Síðan flýtti hann sér út og hljóp út að bílnum. Þegar Fjalar kom að honum rak hann í rogastans. Litli guli hundurinn sat við bílstjóradyrnar og horfði á Fjalar. Hann fann hvernig allir vöðvar í líkamanum stirðnuðu og hann þorði sig hvergi að hræra. Hundurinn stóð á fætur og gekk hægt að honum. Fjalar skaut augum að spítalanum. Tveir lögreglumenn stóðu við innganginn en hann gat ekki kallað til þeirra, hann gat ekki komið upp orði. Hundurinn þefaði af skóm Fjalars og sleikti þá. Þá leit hann upp og starði í augu Fjalars. Síðan sneri hundurinn sér við og tók á stökk út í þokuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kvitt

Ómar Ingi, 25.8.2008 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband