Kl. 21:40
Þegar Fjalar var farinn hvarf Njörður aftur inn á skrifstofuna sína. Hann tók fram stækkunargler og leit á myndina sem Fjalar hafði látið hann hafa. Einhverra hluta vegna hafði hann gleymt að sýna Nirði myndina þrátt fyrir að hafa haft hana undir höndum síðast þegar þeir hittust. Myndin, sem hafði fundist um borð í skipinu, var af tveimur mönnum við einhvers konar steinhellu inni í helli. En Fjalar hafði komist að fleiru, honum hafði tekist að finna út hvað skipið hét: Der Sturmmädchen. Samkvæmt upplýsingum þýska sendiráðsins hafði það verið í eigu þýska ríkisins og notað einna helst af Ägyptisches Museum í Berlín. Það hvarf undan ströndum Portúgals árið 1922 á leið sinni frá Kaíró og talið var að það hefði sokkið. Það fannst 30 árum síðar við Frakkland og skömmu síðar hafði hrina morða farið af stað og henni linnti víst ekki fyrr en búið var að binda endi á líf morðingjans og skipinu hafði verið sökkt. En hvernig stóð á því að skipið birtist skyndilega á Faxaflóa hátt í þrjátíu árum eftir að franska strandgæslan sprengdi gat á skrokk þess og horfði á djúpið gleypa það?
Njörður sneri sér aftur að myndinni. Hún var gömul en óvenjulega vel farin. Ef hann vissi ekki betur mætti halda að hún hefði ekki verið tekin fyrir meira en viku, í mesta lagi tíu dögum, þetta þótti honum enn undarlegra í ljósi þess að hún hafði legið um borð í skipi sem vindur og saltur sjór átti nokkuð greiða leið um. Mennirnir á myndinni voru af ólíkum uppruna, annar var dökkur og með svart hár, klæddur í hvítan kufl og með einhvers konar túrban á höfðinu. Hinn var eflaust evrópskur, með ljóst hár og kringlótt hornspangargleraugu, klæddur í stuttbuxur og hvíta skyrtu. Njörður skellti næstum upp úr, ef hann hefði verið beðinn um að ímynda sér fornleifafræðing í Egyptalandi á millistríðsárunum hefði mynd mjög svipuð þessum manni komið upp í huga hans.
Þegar hann beindi athygli sinni að steinhellunni kom nokkuð furðulegt í ljós. Á henni voru áletranir. Og þó ekki beint áletranir, heldur voru á henni alls kyns merki sem áttu lítt skylt við híróglífur. Hann rýndi í gegnum stækkunarglerið og reyndi að finna einhverja merkingu með öllu þessu. Fyrir miðri steinhellunni var eitt merki hinum stærra og það innihélt myndletursrúnir hinnar fornu þjóðar. Hann rissaði það upp.
Hann teygði sig í bók Faulkners og tók að þýða hvað rúnirnar þýddu. Sú efsta var mynd af manni með veldissprota og hann var ekki lengi að komast að því hún stóð fyrir faraó. Hann fór vinstra megin niður hringinn og þýddi hverja rún fyrir sig uns hann hafði fundið út fyrir hvað þær stóðu. Njörður raðaði saman orðunum uns þau mynduðu merkingabæra setningu.
Faraó nauðugur bundinn til eilífs lífs.
Njörður leit upp úr bókinni. Ætli þetta hafi verið gröf einhvers konungs sem hafði fundist? Á þessum tíma voru enn að finnast grafhýsi í Dal konunguna, jafnvel víðar. Ætli steinhellan séu þá dyr ofan í grafhýsi? Varla var þetta veggur á musteri, allavega ekki hluti af broddsúlu, til þess var steinhellan of breið. Hvað skyldi pentagramið merkja? Vissulega var það algengt í til forna að nota pentagröm í galdra, jafnvel var það enn talið hafa mikil varnaráhrif. Mörg leynifélög höfðu stjörnu eða pentagram í merkjum sínum, jafnvel Konstantín I keisari notaði það í innsigli sínu. Í gegnum tíðina hafði það hlotið hin ýmsu nöfn, drýslakross, endalausi hnúturinn, nornafótur og djöflastjarna. Elstu heimildir sem til voru um notkun þess voru frá Mesópótamíu, frá um 3500 f. kr. Þrátt fyrir að á undanförnum áratugum hafi það einkum verið tengt hinu illa þá notuðu kristnir menn þetta merki einnig á sínum tíma og tengdu það fimm sárum Krists. Mjög margir höfðu tengt merkið manninum, enda líkist það mjög manni með fætur í sundur og arminn útbreiddan, í bók Tycho Brahes Calendarium Naturale Magicum Perpetuum var mynd af líkama manns inni í fimm arma stjörnu. Nornir nútímans notuðu merkið og var það þekkt innan hópa Wicca galdramanna. Nirði minnti, að það væri notað til að sýna fram á mismunandi stöðu einstaklinga innan hvers Wicca-hóps fyrir sig. Keltar trúðu því að það væri merki Morrigan, drottingar undirheimanna. Fyrir nokkrum árum var pentagramið óhjákvæmilega tengt Satan, þegar Anton Sandor Lavey gerði það að sínu, sneri því á haus og kom fyrir höfði Baphomet inni því. Einhvers staðar hafði hann heyrt talað um að Lavey hafi í raun fengið merkið frá Eliphas Levi Sahed, sem var dulnefni kaþólsk prests að nafni Alphonse Louis Constant og var uppi löngu fyrir tíð Lavey. En hvernig tengdist þetta tákn Egyptum? Og hver var merking þess á steinhellunni á gömlu myndinni?
Hann fletti í fljótheitum í gegnum bók Faulkners á nýjan leik en sá ekkert í henni um pentagramið. Njörður horfði yfir bókahilluna og tók fram tvær bækur, annars vegar um tákn og merkingu þeirra, hins vegar um galdra. Klukkan var langt gengin í miðnætti þegar hann leit upp aftur. Bókin um galdra hafði komið að litlu gagni, en hin hafði að geyma ýmsar ágætar upplýsingar. En að lokum hafði Njörður ákveðið að fletta á ný í gegnum bókina um híróglífur, hann hafði komist að því að fimm arma stjarna innan í hring var í raun myndtákn hjá Forn-Egyptum. Samkvæmt táknfræðibókinni merkti það stjörnu en samt passaði það engan veginn inn í þá merkingu sem hann hafði þegar fengið út úr merkinu. Hann blaðaði í gegnum bókina og staldraði um stund við táknið, upplýsingarnar voru þær sömu og fræðimaðurinn hafði nú þegar fundið. Njörður andvarpaði og ýtti frá sér opinni bókinni. Hvað nú? Var þetta enn eitt öngstrætið? Þurfti hann að enn og aftur að þræða sig í gegnum aðra gátu í leit að merkingu eða tilgangi þessara morða? Kannski var enginn tilgangur, engin merking heldur geðsjúklingur sem hafði tekist að slá ryki í augu lögreglunnar. Eina vandamálið var þá frásögn Védísar, eiginkonu Gríms.
-Æ, þetta er nú meira helvítið, sagði hann við sjálfan sig og stóð á fætur. Hann dró gluggatjöldin frá og starði út í kolsvart þokumyrkrið. Hvernig stóð á þessu eiginlega? Einhvern veginn var þetta allt saman svo óraunverulegt. Mannlaust skip finnst og um leið kemur undarleg þoka yfir borgina, þoka sem virðist ekkert á förum og ef eitthvað var, þá var hún frekar þykkari í dag en í gær. Líkin hrönnuðust upp og ekki var laust við að Nirði fyndist hann vera staddur í einhverjum undarlegum draumi, einhvers staðar á milli svefns og vöku, - eða milli lífs og dauða.
Hann sneri sér aftur að skrifborðinu og teygði sig í bókina sem hann hafði verið að leita í. Svarið hlyti að vera þar að finna, öll hin táknin voru augljóslega híróglífur. Hann fletti áfram og staldraði við.
-Augnablik, sagði hann og hallaði sér fram. Á miðri blaðsíðunni var fimm arma stjarna og við hlið hennar útskýring. Þar kom fram að táknið stæði fyrir ríki hinna dauðu.
-Ríki hinna dauðu, sagði Njörður hugsi. Það féll mun betur við setninguna sem hann hafði þegar þýtt. En hvers vegna hringurinn í kringum stjörnuna? Ætli það sé einhvers konar varnargarður eða verndarbaugur? Skyndilega var sem það rynni upp fyrir Nirði ljós.
Faraó nauðugur bundinn til eilífs lífs og varnað inngöngu í ríki hinna dauðu.
Ætli þetta sé rétt þýðing, hugsaði Njörður með sér. Skyldi vera einhver faraó sem ekki hafi verið grafinn eftir siðum og venjum, heldur ætlað að lifa að eilífu? Hvers vegna ætli Forn-Egyptar hafi búið svo um hnútana? Þjóð sem trúði ákaflega sterkt á framhaldslífið, hví vildi einhver ekki að þessi faraó héldi áfram inn í sal dómsins, þar sem hjarta hans yrði vegið á móti fjöður sannleikans?
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
kvitt
Ómar Ingi, 24.8.2008 kl. 20:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.