Kl.19:20
Klukkan var langt gengin í átta þegar Fjalar þrýsti á svartan takka inni í grárri blokk í vesturbænum. Hann hafði leitað af Nirði út um allt, hringt heim til hans nokkrum sinnum í dag og reynt að ná í hann í vinnunni. En allt kom fyrir ekki, ekkert svar og enginn virtist vita hvar hann var niðurkominn. Fjalar hafði ákveðið að koma við heima hjá honum á leiðinni heim til sín, en var ekkert allt of bjartsýnn á hann væri þar. Það voru ekki liðnar nema um tuttugu mínútur síðan hann hringdi þangað síðast.
Skyndilega var svarað og Fjalar kynnti sig. Innan tíðar var hann kominn upp í íbúð Njarðar.
-Hvar hefur þú haldið þig í dag, spurði Fjalar.
-Ég hef verið á bókasafninu.
-Og? Hefurðu komist að einhverju nýju?
-Já, það hef ég.
Fjalar starði á Njörð, sem virtist hafa gaman af því að draga þetta á langinn.
-Nú, já? Einhverju gagnlegu kannski, spurði hann.
-Viltu ekki fá þér sæti, svaraði Njörður og benti Fjalari á stofusófann.
-Ég ætla að sækja glósurnar mínar, bætti hann síðan við áður en hann hvarf inn á skrifstofu.
Fjalar settist niður. Íbúð Njarðar var einföld, litmjúk og búin fáum húsgögnum. Það var fínt og hreint inni hjá honum, allt í röð og reglu. Á veggjunum voru ódýrar eftirprentanir af málverkum sem hann kannaðist við en Fjalar hafði aldrei lagt það á sig að læra nöfnin á þeim. Einna helst mundi hann nöfn á bókum og að sjálfsögðu lögum. Það minnti Fjalar enn og aftur á að hann hafði ekki komist á síðustu kóræfingu. Hann horfði í kringum sig, húsgögnin voru vel flest í dekkri kantinum, stofuborðið virtist nokkuð vandað, brúnn viður og í miðju þess voru lagðar gular leirflísar skreyttar með brúnum blómum. Sófasettið var karrílitað og flauelklætt. Í glerskáp stóðu hvítar og gráar styttur af börnum auk þriggja hljómplatna sem stóðu einmanalegar í neðstu hillunni og nokkurra bóka. Hann stóð á fætur og gekk að hillunni, ósjálfrátt leituðu augu hans að bókunum. Hann las nöfn þeirra af kilunum. Hann kannaðist ekki við neina þeirra. Hann tók eina þeirra úr hillunni og fletti í gegnum hana, hún virtist honum fjalla um galdra.
-Þessi bók er hluti af ritsafni Aleister Crowley, sem var leiðtogi Ordi Templi Orientis. Seinna meir gaf hann út The Book of the Law, sem innihélt meðal annars útgáfu hans af Thelema reglunum.
Fjalar leit undrandi á Njörð, sem teygði sig í svarta bók í hillunni.
-Ef þú hefur áhuga á göldrum þá er þessi alveg ágæt, hún kom út í fyrra.
Fjalar tók við bókinni og leit á hana. Framan á henni var fimm hyrnd stjarna og á forsíðunni stóð Magickal formulary spellbook I. Bókin var eftir Herman Slater.
-Ert þú á kafi í þessu? Kukli og svoleiðis? spurði Fjalar Njörð.
-Ja, þetta hefur verið áhugamál mitt í mörg ár, svaraði hann. Fjalar rétti honum bókina, sem Njörður lét síðan aftur upp í hillu ásamt bók Crowleys. Fjalar settist aftur í sófann. Njörður dró hægindastól nær stofuborðinu, settist og breiddi úr glósunum sínum fyrir framan sig.
-Eftir ég var búinn að þýða rúnirnar þurfti ég bara að komast að því hvaða tungumál sá sem skrifaði þær notaði. Ég svaf varla dúr og reyndi að komast til botns í því en sama hve ég reyndi þá virtust öll sund mér lokuð. Nú, svo ég ákvað að skreppa upp í skóla og á leið minni þangað sá ég hund. Hann var svolítið líkur hundum sem eru á svo mörgum forn-egypskum myndum. Þá sá ég að mér hafði sést yfir tungumál þeirra. Ég sneri við og flýtti mér aftur hingað. Og þá lét svarið ekki á sér standa. Tep-tu-F þýðir: Hann sem á hæð sinni stendur. Ég vissi ekkert hvað þetta þýddi en ákvað að drífa mig upp á bókasafn Háskólans, því þar er að finna mun fleiri bækur um Egyptaland en ég á hér heima. Ég er búinn að sitja þar í allan dag og lesa en það var ekki fyrr en fyrir rétt um klukkutíma að ég skildi loks hvað þetta þýðir. Þessi setning vísar til guðsins Anpu, það er einmitt hann stendur á hæð og horfir yfir ríki hinna dauðu. Sem leiðir okkur að húðflúrinu. Merkið var í raun ekki neitt sérstakt merki, heldur tvær híróglífur. Egyptar gátu skrifað niður og upp og frá hægri til vinstri og öfugt. Það fór í raun eftir því hvernig leturtáknin sneru. Nú, þessi tákn stóðu fyrir N og P!
Fjalar horfði á Njörð og var ekki viss um hvort hann ætti að segja eitthvað. Njörður horfði á hann sigrihrósandi, er að því virtist.
-N og P? Hvað segir það mér, spurði Fjalar.
-Anpu!
-Guðinn sem þú varst að tala um?
-Já.
-En hvernig tengist þetta morðunum?
Njörður sagði ekki neitt í fyrstu en yppti síðan öxlum.
-Ég er ekki alveg viss. En mér þætti gaman að fá að sjá höfuðið. Ég hef á tilfinningunni að þar leynist hluti svarsins.
-Það er ekki hægt. Eins og þú veist þá var það sent út til rannsóknar.
Njörður andvarpaði og byrjaði að tína saman glósur sínar. Hann staldraði við eitt blaðanna.
-Manstu hvernig kona Gríms lýsti morðingjanum, spurði hann annars hugar.
-Svona nokkurn veginn. Af hverju spyrðu?
-Hvernig var lýsingin?
-Hálfur maður, hálfur úlfur. Með beittar klær og úlfahöfuð.
-Eða höfuð sjakala!
Njörður leit upp frá glósunum. Það kom undarlegur svipur yfir andlit hans.
-En þetta var ekki eina ástæðan fyrir því ég er búinn að reyna ná í þig í allan dag.
-Nú?
-Ég hef loksins fengið upplýsingar um skipið. Þýskararnir svöruðu okkur í morgun.
-Þýskararnir?
-Já, var ég ekki búinn að segja þér frá því? Þeir á tæknideildinni komust að því að vélin í skipinu var þýsk og við sendum fyrirspurn til vestur-þýska sendiráðsins.
-Og hvað sögðu þeir?
Innan tíðar hafði Fjalar greint Nirði frá sögu skipsins. Þeir ræddu saman um stund uns Fjalar stóð á fætur og bjó sig að halda á brott. Þegar hann stóð í dyragættinni sneri hann sér að Nirði og sagði:
-Hvaða ljóð er það sem byrjar: Vei, vei? Ég var að reyna muna það í dag, en kom því ekki fyrir mig. Manstu hvaða ljóð það er og kannski eftir hvern það er?
-Vei, vei, yfir hinni föllnu borg?
-Já, einmitt það ljóð.
-Það heitir Sorg og er eftir Jóhann Sigurjónsson.
Fjalar kinkaði kolli.
-Þakka þér fyrir, sagði hann síðan og kvaddi Njörð.
Flokkur: Bækur | Fimmtudagur, 21. ágúst 2008 (breytt kl. 08:42) | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.