Kl. 16:40
Njörður lagði bókina frá sér og geispaði. Lítill svefn og næringarskortur sáu til þess að hann hélt varla augunum opnum. Hann var rétt hálfnaður að blaða í gegnum Bók hinna dauðu, hann var svo sem ekki að lesa hvern kafla af mikilli dýpt heldur skimaði yfir hverja síðu í leit að svörum. Þetta var mikið verk og langsótt, enda hátt á annað hundrað kaflar, eða öllu heldur galdrar. Samkvæmt siðum Forn-Egypta átti hinn látni að hafa með sér hjartað yfir í sal dómsins, þar sem það var vegið á móti fjöður sannleikans. Reyndist hjartað léttara fékk sá hinn sami að halda áfram inn í undirheimana, annars var honum kastað eða fórnað í gin djöfla. Njörður stóð á fætur og teygði úr sér, tók kaffibrúsann og gekk út af bókasafninu. Það yrði gott að geta farið heim að sofa þegar þessu yrði lokið. Hann fór fram í anddyri og steig út fyrir bygginguna. Njörður settist í efstu tröppurnar fyrir framan Háskólann og horfði út yfir túnið, þangað sem styttan af Sæmundi fróða og Kölska að slást stóð. Eftir að hafa hellt í lokbolla kaffibrúsans veiddi hann sígarettupakka upp úr jakkavasanum. Hann kveikti sér í einni og saug að sér.
Þokan smaug á milli húsanna og þó Njörður gæti séð styttuna nokkrum metrum fyrir framan sig, sá hann ekki yfir að Norræna húsinu, sem stóð einmanalegt í miðri mýrinni við hlið flugvallarins. Hann hafði oft velt því fyrir sér hvers vegna þessu húsi hafi verið valin þessi sérstaki staður. Hinum megin við íþróttahúsið stóð Árnagarður og þar inni hvíldu djásnin, handritin góðu. Reyndar var enn töluverður fjöldi íslenskra handrita í Danmörku og Svíþjóð, einna verst þótti honum að vita til þess að öll bestu galdrahandritin voru þar en ekki hér. Hann hafði ósjaldan heimsótt mörg mismunandi söfn í leit að rúnagöldrum, oftar en ekki árangurslaust því sumpart voru mörg þessi handrit eftirgerðir eldri handrita og mörg innihéldu því sömu eða svipaða galdra.
Njörður kláraði sígarettuna og skvetti dreggjunum úr bollanum. Þegar hann hafði gengið frá brúsanum stóð hann á fætur og hélt aftur inn á bókasafnið. Hann teygði sig í annan stól og kom sér vel fyrir, lét fæturna hvíla á öðrum stólnum og hallaði sér aftur í sætinu. Njörður átti von á því að þurfa eyða lunganum úr deginum þarna inni, þrátt fyrir syfju og svengd, en hann hungraði frekar eftir svörum en mat.
Eftir um þriggja tíma lestur fann Njörður að augnlokin voru farin að þyngjast. Hann nuddaði augun og renndi aftur yfir blaðsíðuna sem hann hafði verið að lesa.
-Bíddu nú við, sagði hann stundarhátt við sjálfan sig. Á miðri síðunni stóð orðið Anpu. Hann leit á glósurnar sínar, tók upp penna og krotaði í þær.
A E I O U
N
P
A E I O U
-Þetta gengur upp.
Hann las aftur yfir setninguna þar sem hann hafði fundið orðið. Njörður skrifaði hjá sér um leið íslenska þýðingu.
Ég hefi þvegið hendur mínar í sama vatni og guðinn Anpu þvoði sér er hann hafði framkvæmt skyldur sínar, smurt og bundið um hinn látna.
Anpu, sá sem hafði umsjón með smurningu og bindingu hins látna. Hann teygði sig í aðra fræðibók, sem fjallaði um guði og trúarbrögð Forn-Egypta. Hann var ekki lengi að fletta upp nafni guðsins. Njörður las í gegnum kaflann og punktaði hjá sér nokkur atriði. Anpu hafði verið guð hinna dauðu hjá Forn-Egyptum, hann leiddi þá látnu í gegnum sal dómsins. En samkvæmt bókinni stóð hann einnig vörð yfir undirheimunum, enda var ítrekað heitið á hann í bókinni. Tilbeiðsla á honum var ævaforn og höfðu egypskir fræðimenn rakið sögur allt til upphafs ríkidæmis Forn-Egypta af dýrkun á Anpu af einhverju tagi. Hunddýrið sjakali var guðinum nátengt, til að byrja með hefur Anpu eflaust verið einhvers konar sjakalaguð en dauðraríki færst undir stjórn hans, kannski sökum þess hversu sjakalar voru algengir í kringum grafhýsi og grafreiti. En Grikkir til forna áttu annað nafn yfir hann og kölluðu Anubis, Njörður þekkti guðinn undir því nafni.
Hann hallaði sér aftur. Hann hafði oft heyrt um Anubis. Samkvæmt því sem hann hafði lesið þá var Anpu guð sem hafði svipuðu hlutverki að gegna og hin gríska Hekate, gyðja hinna myrku afla undirheimanna. Hann var eftirlitsmaður látins fólks og gætti þeirra í ríki sínu. En hvernig tengdist hann þessum málum? Hvers vegna var verið að ákalla hann í þessum morðum?
Hann lagði frá sér bókina um guðina og hélt áfram að lesa í Bók hinna dauðu. Kannski var svarið við seinni gátunni einnig að finna í henni.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.